Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 KAFLI 61

Davíð verður konungur

Davíð verður konungur

SÁL reynir enn á ný að handtaka Davíð. Hann fer með 3000 af bestu hermönnum sínum að leita hans. Þegar Davíð fréttir það sendir hann út njósnara til að komast að hvar Sál og menn hans hafa tjaldað fyrir nóttina. Síðan spyr Davíð tvo af mönnum sínum: ‚Hvor ykkar vill fara með mér í herbúðir Sáls?‘

‚Ég vil fara,‘ svarar Abísaí, en hann er sonur Serúju, systur Davíðs. Á meðan Sál og menn hans sofa laumast Davíð og Abísaí inn í herbúðirnar. Þeir taka spjót Sáls og vatnsskálina sem liggur rétt við höfuð hans. Enginn heyrir til þeirra né sér þá af því að allir eru í fastasvefni.

Sjáðu Davíð og Abísaí núna. Þeir hafa komist burt og eru óhultir uppi á hæð. Davíð hrópar niður til hershöfðingja Ísraels: ‚Abner, hvers vegna gætir þú ekki herra þíns, konungsins? Sjáðu! Hvar eru spjót hans og vatnsskál?‘

Sál vaknar. Hann þekkir rödd Davíðs og spyr: ‚Ert þetta þú, Davíð?‘ Geturðu séð Sál og Abner þarna niðri?

‚Já, herra konungur,‘ svarar Davíð Sál. Og Davíð spyr: ‚Hvers vegna reynir þú að handsama mig? Hvað hef ég gert af mér? Hér er spjótið þitt, konungur. Láttu einn manna þinna koma hingað og sækja það.‘

‚Ég hef gert rangt,‘ viðurkennir Sál. ‚Ég hef breytt heimskulega.‘ Davíð fer nú leiðar sinnar og Sál snýr aftur heim. En Davíð hugsar með sér: ‚Einhvern daginn mun Sál samt drepa mig. Ég ætti að forða mér til Filistalands.‘ Og það gerir hann. Davíð tekst að blekkja Filista og láta þá halda að hann sé genginn í lið með þeim.

Nokkru seinna leggja Filistar af stað í bardaga við Ísrael. Í bardaganum falla bæði Sál og Jónatan. Dauði þeirra hryggir Davíð mjög mikið og hann yrkir fallegt ljóð þar sem hann syngur: ‚Ég sakna þín, Jónatan, bróðir minn. Þú varst mér svo kær!‘

Því næst snýr Davíð aftur til Ísraels, til borgarinnar Hebron. Stríð hefur brotist út milli þeirra manna sem velja Ísbóset, son Sáls, fyrir konung og hinna sem vilja að Davíð verði konungur. En að lokum sigra menn Davíðs. Davíð er þrítugur þegar hann verður konungur. Í sjö og hálft ár ríkir hann í Hebron. Þar eignast hann nokkra syni, þeirra á meðal þá Amnon, Absalon og Adónía.

Sá dagur kemur að Davíð og menn hans fara til að hertaka fallega borg sem heitir Jerúsalem. Jóab, sem líka var sonur Serúju systur Davíðs, tekur forystuna í bar- daganum. Davíð launar Jóab með því að gera hann að höfuðsmanni í hernum. Nú byrjar Davíð að ríkja í borginni Jerúsalem.

1. Samúelsbók 26:1-25; 27:1-7; 31:1-6; 2. Samúelsbók 1:26; 3:1-21; 5:1-10; 1. Kroníkubók 11:1-9.