Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 KAFLI 23

Draumar Faraós

Draumar Faraós

TVÖ ár líða og Jósef er enn þá í fangelsi. Byrlarinn hefur ekki munað eftir honum. Þá nótt eina dreymir Faraó tvo mjög sérkennilega drauma og hann vill gjarnan vita hvað þeir þýða. Sérðu hann þarna sofandi? Næsta morgun kallar Faraó til sín vitringa sína og segir þeim hvað sig hafi dreymt. En þeir geta ekki sagt honum hvað draumar hans merkja.

Núna man byrlarinn loksins eftir Jósef. Hann segir við Faraó: ‚Þegar ég var í fangelsi var þar maður sem gat ráðið drauma.‘ Faraó lætur strax sækja Jósef í fangelsið.

Faraó segir Jósef drauma sína: ‚Ég sá sjö feitar og fallegar kýr. Síðan sá ég sjö mjög horaðar og beinaberar kýr. Og mögru kýrnar átu upp feitu kýrnar.

Í hinum draumnum sá ég sjö væn og þroskuð kornöx sem uxu á einni kornstöng. Síðan sá ég sjö grönn og skrælnuð kornöx. Og grönnu kornöxin gleyptu góðu kornöxin sjö.‘

Jósef segir við Faraó: ‚Draumarnir tveir þýða hið sama. Feitu kýrnar sjö og vænu kornöxin sjö merkja sjö ár og mögru kýrnar sjö og grönnu kornöxin sjö merkja önnur sjö ár. Það munu koma sjö ár þegar mjög mikil matvælauppskera verður í Egyptalandi. Að þeim liðnum munu koma sjö ár þegar uppskeran verður mjög lítil.‘

Jósef heldur áfram og segir við Faraó: ‚Veldu þér vitran mann og láttu hann hafa umsjón með matvælasöfnun góðu árin sjö. Þá mun fólk ekki svelta vondu árin sjö sem á eftir koma þegar uppskeran bregst.‘

Faraó líst vel á þessa hugmynd og velur Jósef til að safna saman matvælum og koma þeim í geymslu. Jósef verður voldugasti maðurinn í Egyptalandi næst á eftir Faraó.

Átta árum síðar, meðan hungursneyðin stendur, sér Jósef nokkra menn koma. Veistu hverjir þeir eru? Já, það eru eldri bræður hans tíu! Jakob, faðir þeirra, hefur sent þá til Egyptalands af því að þeir eru að verða matarlausir heima í Kanaanlandi. Jósef þekkir bræður sína aftur en þeir þekkja hann ekki. Veistu hvers vegna? Það er vegna þess að Jósef er orðinn eldri og klæðist öðruvísi fötum en áður.

Jósef man að þegar hann var drengur dreymdi hann að bræður hans kæmu og beygðu sig fyrir honum. Manstu eftir að hafa lesið um það? Jósef gerir sér nú ljóst að það er Guð sem hefur sent hann til Egyptalands, og það af góðri ástæðu. Hvað heldur þú að Jósef geri? Við skulum sjá það.

1. Mósebók 41:1-57; 42:1-8; 50:20.