• FÆÐINGARÁR: 1982

  • FÖÐURLAND: PÓLLAND

  • FORSAGA: VAR OFBELDISFULLUR, NOTAÐI EITURLYF OG VAR Í EFTIRSÓKNARVERÐU STARFI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í litlum bæ í Póllandi, skammt frá landamærum Þýskalands. Þar ólst ég upp í friðsælu umhverfi með sveitabæi og skóga allt í kring. Ég átti indæla foreldra sem hvöttu mig til að vera góð manneskja, standa mig vel í skóla og sækjast eftir virtu starfi.

Erfiðleikarnir byrjuðu þegar ég fór að heiman til að læra lögfræði í háskóla í borginni Wrocław. Ég var fjarri foreldrum mínum og sóttist í slæman félagsskap. Ég hafði alltaf haft gaman af fótbolta en vegna áhrifa þessara nýju vina varð ég öfgafullur stuðningsmaður. Uppáhaldsliðið mitt var frá Varsjá og um helgar fór ég á alla leikina þeirra, hvar sem þeir spiluðu. Í þessum ferðum drukkum við óhóflega og notuðum eiturlyf. Stundum kom til hatrammra átaka við stuðningsmenn hins liðsins. Með þessu móti fannst mér ég losna undan álagi daglegs lífs, jafnvel þótt ég vissi að það gæti lagt lögmannsferil minn í rúst ef ég yrði handtekinn af lögreglunni.

Við vinirnir stunduðum klúbbana og diskótekin og í þeim ferðum lentum við oft í götuslagsmálum. Lögreglan handtók mig nokkrum sinnum en mér tókst alltaf að sleppa við ákærur – stundum með því að múta lögreglunni. Samt fannst mér eins og lífið gæti ekki verið betra. Þrátt fyrir það vissi ég innst inni að það sem ég gerði var rangt. Ég fór í kirkju á hverjum sunnudegi til að friða samviskuna.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Árið 2004 bönkuðu tveir vottar Jehóva á dyrnar hjá mér og ég samþykkti að ræða við þá um Biblíuna. Eftir því sem ég lærði meira um hvað það þýðir að vera sannkristinn fór samviskan að naga mig meira. Ég vissi að ég þyrfti bæði að hætta að drekka í óhófi og neyta eiturlyfja og einnig að takmarka samneyti við fólk sem fer ekki eftir meginreglum Biblíunnar. Ég var líka ofbeldisfullur og árásargjarn og vissi að ég yrði að breyta því. En þó að ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að breyta mér hélt ég áfram á sömu braut.

Nótt eina urðu þáttaskil í lífi mínu. Ég byrjaði að slást við átta menn og áður en ég vissi af lá ég í götunni. Þeir létu höggin dynja á mér og spörkuðu í höfuðið á mér. Ég hélt að ég myndi deyja og bað til Guðs: „Jehóva, viltu fyrirgefa mér að ég tók orð þitt ekki  alvarlega. Ef ég lifi þetta af lofa ég að kynna mér Biblíuna með vottunum og koma reglu á líf mitt.“ Mér til mikillar furðu lifði ég barsmíðarnar af. Ég stóð við loforð mitt um að kynna mér Biblíuna .

Árið 2006 flutti ég til Englands. Ég ætlaði að vinna mér inn næga peninga til að geta farið aftur til Póllands og bætt við lögfræðinámið. Ég hélt þó áfram námi mínu í Biblíunni og eitt biblíuvers hafði sérlega mikil áhrif á mig. Það voru orð Páls postula: „[Ég met] allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist.“ (Filippíbréfið 3:8) Páll postuli var bæði lögfræðimenntaður maður og hafði verið ofbeldisfullur eins og ég. (Postulasagan 8:3) En hann komst þó að því að til væri betri lífsstefna – að þjóna Guði og reyna eftir bestu getu að líkja eftir Jesú. Þegar ég hugleiddi fordæmi Páls komst ég að því að virt starf eða ofbeldisfull hegðun er ekki lykillinn að hamingjuríku lífi. Ég varð sannfærður um að fyrst Páll gat breyst gæti ég það líka. Ég ákvað því að vera áfram á Englandi og hætta við áframhaldandi lögfræðimenntun.

Því meir sem ég lærði um Jehóva Guð þeim mun meir laðaðist ég að honum. Loforð hans um að hann fyrirgefi þeim sem vilja í einlægni breyta sér snerti mig djúpt. (Postulasagan 2:38) Og þegar ég hugleiddi orðin í 1. Jóhannesarbréfi 4:16 þar sem segir að ,Guð sé kærleikur‘ fór ég að skilja hvers vegna Guð hatar ofbeldi.

Mig langaði að tilheyra glöðum og hlýlegum söfnuði Votta Jehóva.

Framkoma vottanna hafði líka mikil áhrif á mig. Það er augljóst að þeir reyna sitt besta til að fylgja háleitum siðferðiskröfum Biblíunnar. Mig langaði að tilheyra þessum glaða og hlýlega söfnuði. Eftir þó nokkra baráttu og breytingar á lífi mínu lét ég skírast sem vottur Jehóva árið 2008.

Við Esther höfum mikla ánægju af að kenna pólskumælandi fólki sannindi Biblíunnar.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Biblían hefur breytt mér úr öfgafullum fótboltaáhugamanni, sem drakk of mikið og neytti eiturlyfja, í þjón Guðs sem hefur ánægju af að fræða aðra um Biblíuna. Þó að ég hafi enn gaman af að horfa á fótbolta er ég staðráðinn í að halda þeirri afþreyingu innan skynsamlegra marka.

Ég er hamingjusamlega giftur yndislegri konu sem heitir Esther og við þjónum Jehóva saman. Við höfum mikla ánægju af að kenna pólskumælandi fólki sannindi Biblíunnar hér á norðvesturhluta Englands. Í fyrsta sinn á ævinni er ég raunverulega hamingjusamur. Ég hef hreina samvisku og nýt lífsins til fulls.