Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Ég fann nokkuð sem er betra en frægð og frami

Ég fann nokkuð sem er betra en frægð og frami

Kvöld eitt árið 1984 breyttist ég úr venjulegum unglingi í fræga stjörnu en þá var ég krýnd Ungfrú Hong Kong. Það birtust myndir af mér á forsíðum tímarita og dagblaða. Ég söng, dansaði, hélt ræður, stýrði sjónvarpsþáttum, klæddist fallegum fötum og kom fram með valdamiklu fólki, eins og ríkisstjóra Hong Kong.

Ári seinna var ég farin að leika í kvikmyndum, oft í aðalhlutverki. Blaðamenn vildu fá viðtöl við mig, ljósmyndarar tóku myndir af mér og ég var eftirsótt á frumsýningar og til að klippa á borða við hátíðleg tækifæri. Auk þess var ég oft beðin um að vera við hádegis- eða kvöldverðarboð. Ég var alltaf í sviðsljósinu.

Í hlutverki í spennumynd.

Með tímanum rann þó upp fyrir mér að þetta stjörnulíf var ekki eins eftirsóknarvert og ég hafði ímyndað mér. Ég lék aðallega í spennumyndum og það var ekki hættulaust. Leikarar í Hong Kong notuðu áhættuleikara ekki eins oft og leikarar í Hollywood gerðu svo að ég lék sjálf í áhættuatriðum eins og til dæmis að aka mótorhjóli yfir bíl. Margar myndanna, sem ég lék aðalhlutverkið í, voru siðlausar og ofbeldisfullar. Sumar fjölluðu jafnvel um djöflatrú.

Árið 1995 giftist ég kvikmyndaframleiðanda. Þó að ég virtist hafa allt til að geta verið hamingjusöm – frægð, frama, ríkidæmi og ástríkan eiginmann – var ég niðurdregin og döpur. Ég ákvað að hætta að leika í kvikmyndum.

ÉG MINNIST TRÚARINNAR SEM ÉG HAFÐI Í ÆSKU

Ég fór að hugsa með hlýhug til trúarinnar sem ég hafði þegar ég var lítil stelpa. Á hverjum laugardegi heimsóttum við systir mín fjölskyldu sem var vottar Jehóva. Faðirinn, Joe McGrath, kenndi okkur og þremur dætrum sínum út frá Biblíunni. Það ríkti hlýja og kærleikur í fjölskyldunni og Joe frændi, eins og við kölluðum hann, kom fram við eiginkonu sína og dætur af virðingu. Mér fannst líka gaman að fara með þeim á samkomur. Stundum fórum við á stór mót. Þetta voru ánægjulegir tímar og ég fann til öryggis þegar ég var með vottunum.

Ég upplifði aftur á móti mjög slæma hluti heima fyrir. Lífsmáti föður míns olli móður minni mikilli sorg og hún varð mjög þunglynd. Þegar ég var um  tíu ára hætti mamma að sækja samkomur hjá Vottum Jehóva. Ég hélt þó áfram með hálfum huga og lét skírast þegar ég var 17 ára. En fljótlega eftir það fór ég að stunda ókristilegt líferni og hætti að vera vottur Jehóva.

ÉG ÁKVEÐ AÐ SNÚA TIL BAKA

Stuttu eftir að ég gifti mig komu tveir öldungar úr söfnuði Votta Jehóva, þar sem ég bjó, að heimsækja mig. Þeir útskýrðu fyrir mér hvernig ég gæti snúið aftur til Jehóva Guðs og fengu trúboðssystur, sem heitir Cindy, til að aðstoða mig. Þegar hér var komið sögu hafði ég misst trúna að miklu leyti svo að ég bað hana að sýna mér sannanir fyrir því að Biblían væri orð Guðs. Hún sýndi mér dæmi um biblíuspádóma sem höfðu ræst. Smám saman urðum við góðar vinkonur og hún spurði hvort ég vildi að við skoðuðum grundvallarkenningar Biblíunnar saman. Ég þáði það. Í fyrsta sinn á ævinni skildi ég að Jehóva er kærleiksríkur Guð sem vill að ég sé hamingjusöm.

Þegar ég fór að sækja safnaðarsamkomur aftur komst ég að því að ég kunni miklu meira að meta félagsskap vottanna en fólks í kvikmyndabransanum. En vegna reynslu minnar frá æskuárunum átti ég erfitt með að treysta fólki og ég var ekki ánægð með sjálfa mig. Það hjálpaði mér mikið þegar systir í söfnuðinum sýndi mér út frá Biblíunni hvernig ég gæti tekist á við þessar erfiðu tilfinningar og ég lærði líka hvernig ég gæti eignast sanna vini.

NOKKUÐ SEM ER BETRA EN FRÆGÐ OG FRAMI

Árið 1997 fluttum við hjónin til Hollywood í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þar fór ég að taka meiri þátt í að hjálpa fólki að tileinka sér viskuna í orði Guðs. Að fræða fólk út frá Biblíunni hefur gefið mér meiri lífsfyllingu en frægð og frami í kvikmyndaheiminum. Árið 2002 hitti ég til dæmis Cheri, en henni hafði ég kynnst mörgum árum áður í Hong Kong. Að mörgu leyti var reynsla okkar svipuð. Hún hafði verið Ungfrú Hong Kong ári á undan mér. Reyndar krýndi hún mig þegar ég vann titilinn. Hún lék einnig í kvikmyndum og varð síðar kvikmyndaframleiðandi og vann með frægum leikstjórum. Hún hafði líka flust til Hollywood.

Þegar ég frétti að unnusti hennar hefði skyndilega dáið af völdum hjartaáfalls kenndi ég mjög í brjósti um hana. Hún var búddisti en fann enga huggun í trúnni. Líkt og ég, lifði hún stjörnulífi sem aðrir öfunduðu hana af en hún var samt sem áður döpur og átti erfitt með að treysta öðrum. Ég sagði henni frá því sem ég hafði lært út frá Biblíunni en þar sem hún var búddatrúar var boðskapurinn henni framandi.

Cheri, vinkona mín, á kvikmyndatökustað.

Dag einn árið 2003 hringdi Cheri í mig en þá var hún stödd í Vancouver í Kanada þar sem hún var að vinna að kvikmynd. Henni var mikið niðri fyrir þegar hún sagði mér að hún hefði verið að keyra og dást að fallegu sveitaumhverfi og allt í einu farið að biðja upphátt til Guðs: „Segðu mér hver er hinn sanni Guð,“ bað hún. „Hvert er nafn þitt?“ Á sama augnabliki keyrði hún framhjá ríkissal og kom auga á nafnið Jehóva. Henni fannst Guð hafa svarað bæn sinni og sagðist vilja hitta votta Jehóva eins fljótt og auðið væri. Ég gekk strax í málið og innan nokkurra daga var hún mætt á samkomu hjá kínverskum söfnuði í Vancouver.

 „Mér finnst vottarnir sýna mér einlægan áhuga,“ sagði Cheri mér síðar. „Ég get sagt þeim hvernig mér líður.“ Það gladdi mig að heyra það vegna þess að hún hafði aldrei eignast vini í kvikmyndabransanum. Cheri hélt áfram að sækja samkomur. En árið 2005 skrifaði hún undir samning um að framleiða tvær stórmyndir í Kína og þurfti þar af leiðandi að fara aftur til Hong Kong. Það var þó ánægjulegt að árið 2006 vígði Cheri líf sitt Jehóva og var skírð á móti í Hong Kong. Hún vildi nota meiri tíma í að þjóna Jehóva en vinnan gerði henni erfitt fyrir og hún var allt annað en hamingjusöm.

GLEÐIN AF AÐ HJÁLPA ÖÐRUM

Árið 2009 breyttist líf Cheri til muna. Hún hætti í kvikmyndabransanum til að geta þjónað Jehóva enn betur. Cheri eignaðist marga góða vini í söfnuðinum. Hún fór að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs í fullu starfi og naut þess að hjálpa fólki að breyta lífi sínu til hins betra. – Matteus 24:14.

Síðan fór Cheri að læra nepölsku til að hjálpa til í ört stækkandi hópi votta Jehóva í Hong Kong sem tala nepölsku. En flestir Nepalar, sem búa í Hong Kong, eru hunsaðir eða jafnvel fyrirlitnir vegna þess að þeir tala litla sem enga ensku eða kínversku og siðir þeirra eru framandi. Cheri sagði mér að hún hefði mikla ánægju af að hjálpa þeim að skilja boðskap Biblíunnar. Eitt sinn, þegar hún var í boðunarstarfinu hús úr húsi, hitti hún til dæmis konu frá Nepal sem vissi eitthvað um Jesú en hafði aldrei heyrt um Jehóva, hinn sanna Guð. Cheri sýndi henni út frá Biblíunni að Jesús bað til föður síns á himnum. Þegar konan skildi að hún gæti beðið til hins sanna Guðs, sem heitir Jehóva, opnaði hún hjarta sitt fyrir fagnaðarboðskapnum. Fljótlega fóru einnig eiginmaður hennar og dóttir að kynna sér Biblíuna. – 2. Mósebók 6:3, neðanmáls; Lúkas 22:41, 42.

Cheri í dag.

Þegar ég sá hve mikla ánægju Cheri hafði af því að boða trúna í fullu starfi spurði ég sjálfa mig: „Hvað hindrar mig í að gera það líka?“ Á þessum tíma var ég einnig flutt aftur til Hong Kong. Ég ákvað að stokka upp líf mitt til að geta tekið meiri þátt í að kenna fólki sannleika Biblíunnar. Ég finn að það gefur mér raunverulega hamingju að sýna fólki einlægan áhuga og hjálpa því að skilja orð Guðs.

Ég finn að það gefur mér raunverulega hamingju að hjálpa fólki að skilja orð Guðs.

Ég hef til dæmis fengið að aðstoða víetnamska konu við að kynna sér Biblíuna en hún var alltaf sorgmædd og oft með tárin í augunum. Núna lítur hún björtum augum á tilveruna og finnst ánægjulegt að taka þátt í safnaðarlífinu.

Við Cheri fundum báðar nokkuð sem er mun betra en frægð og frami. Þó að kvikmyndaiðnaðurinn hafi verið spennandi og við höfum orðið frægar jafnast ekkert á við það að hjálpa fólki að kynnast Jehóva Guði vegna þess að það er honum til heiðurs. Við getum svo sannarlega tekið undir orð Jesú: „Sælla er að gefa en þiggja.“ – Postulasagan 20:35.