Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Skýr og rökrétt svör Biblíunnar snertu mig djúpt

Skýr og rökrétt svör Biblíunnar snertu mig djúpt
  • FÆÐINGARÁR: 1948

  • FÖÐURLAND: UNGVERJALAND

  • FORSAGA: ÞRÁÐI AÐ FÁ SVÖR VIÐ STÓRU SPURNINGUNUM Í LÍFINU

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í borginni Székesfehérvár í Ungverjalandi. Þessi borg á sér merka sögu sem nær meira en 1.000 ár aftur í tímann. Ég minnist þess enn með sorg í hjarta hvernig síðari heimsstyrjöldin olli mikilli eyðileggingu í borginni.

Ég ólst upp hjá móðurafa mínum og -ömmu þar til ég var um tíu ára. Þau voru mér afar kær, sérstaklega amma mín, Elisabeth. Hún glæddi með mér sterka trú á Guð. Ég var þriggja ára þegar hún kenndi mér bænina sem oft er kölluð faðirvorið og upp frá því fórum við saman með þessa bæn á hverju kvöldi. En það var samt ekki fyrr en ég var orðinn tæplega þrítugur að ég skildi hvað þessi bæn merkir í raun og veru.

Ég var hjá afa og ömmu á bernskuárunum vegna þess að foreldrar mínir unnu myrkranna á milli. Þau ætluðu sér að safna fyrir kaupum á viðunandi húsnæði. Við fjölskyldan hittumst þó annan hvern laugardag og borðuðum saman. Ég hlakkaði alltaf til þessara samverustunda.

Árið 1958 varð draumur foreldra minna að veruleika og þau keyptu hús svo að við gætum búið þrjú saman. Loksins fékk ég að búa hjá foreldrum mínum – ég var í sjöunda himni! En hálfu ári síðar breyttist hamingjan skyndilega í sorg þegar faðir minn lést úr krabbameini.

Ég var niðurbrotinn. Ég man eftir að hafa beðið til Guðs og sagt: „Guð, ég sárbændi þig um að bjarga pabba mínum. Ég þarfnast hans. Af hverju svaraðirðu ekki bænum mínum?“ Ég þráði að fá að vita hvar faðir minn væri. Ég velti fyrir mér hvort hann væri á himnum eða hvort hann væri horfinn að eilífu. Ég öfundaði önnur börn sem áttu föður.

Í mörg ár fór ég næstum daglega í kirkjugarðinn. Ég kraup við leiði föður míns og bað: „Guð, ég bið þig að segja mér hvar pabbi minn er.“ Ég bað Guð einnig um að hjálpa mér að skilja hver væri tilgangur lífsins.

Þegar ég var 13 ára ákvað ég að læra þýsku. Ég ímyndaði mér að ég gæti kannski fundið svörin við spurningum mínum ef ég læsi sígildar þýskar bókmenntir. Árið 1967 hóf ég nám í  borginni Jena sem tilheyrði þá Austur-Þýskalandi. Ég drakk í mig hugmyndafræði þýskra heimspekinga, sérstaklega þeirra sem skrifuðu um tilgang lífsins. Enda þótt ég rækist á ýmsar áhugaverðar hugmyndir svöruðu þær ekki spurningum mínum að fullu. Ég hélt því áfram að biðja til Guðs um svör.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Árið 1970 fór ég aftur heim til Ungverjalands og kynntist þá Rose sem varð síðar eiginkona mín. Á þessum tíma voru kommúnistar við völd í Ungverjalandi. Stuttu eftir að við Rose giftum okkur flýðum við til Austurríkis. Ætlun okkar var þó að flytja til Sydney í Ástralíu þar sem móðurbróðir minn bjó.

Ég fékk fljótlega vinnu eftir komuna til Austurríkis. Dag nokkurn sagði einn vinnufélagi mér að ég gæti fundið svör við öllum spurningum mínum í Biblíunni. Hann gaf mér tvær bækur sem fjölluðu um Biblíuna. Ég las þær strax spjaldanna á milli. Mig langaði til að vita meira og skrifaði því Vottum Jehóva, sem gáfu bækurnar út, og bað um meira lesefni.

Sama dag og við Rose áttum fyrsta brúðkaupsafmælið bankaði ungur austurrískur vottur upp á hjá okkur. Hann kom með lesefnið, sem ég hafði beðið um, og bauð mér biblíunámskeið sem ég þáði. Ég var óðfús að læra og því hittumst við tvisvar í viku. Í hvert sinn töluðum við saman í um það bil fjórar klukkustundir!

Ég var himinlifandi yfir þeim biblíusannindum sem ég lærði með hjálp Vottanna. Þegar þeir sýndu mér nafn Guðs, Jehóva, í ungversku biblíunni minni, trúði ég varla mínum eigin augum. Ég hafði sótt kirkju í 27 ár en aldrei nokkurn tíma heyrt minnst á nafn Guðs. Skýr og rökrétt svör Biblíunnar við spurningum mínum snertu mig djúpt. Ég lærði til dæmis að hinir dánu hafa enga meðvitund, rétt eins og þeir svæfu djúpum svefni. (Prédikarinn 9:5, 10; Jóhannes 11:11-15) Ég lærði líka að Biblían lofar nýjum heimi þar sem „dauðinn mun ekki framar til vera“. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Núna hef ég þá von að hitta föður minn aftur því að Biblían segir „að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir“ í þessum nýja heimi. – Postulasagan 24:15.

Rose langaði gjarnan til að kynna sér Biblíuna líka og sat því námskeiðið með mér. Við tókum skjótum framförum og fórum yfir allt námsritið á aðeins tveim mánuðum! Við sóttum allar samkomur Votta Jehóva í ríkissalnum. Það hafði mikil áhrif á okkur að sjá kærleikann, hjálpsemina og eininguna sem ríkti meðal þeirra. – Jóhannes 13:34, 35.

Árið 1976 var okkur Rose veitt leyfi til að koma til Ástralíu. Við höfðum strax uppi á Vottum Jehóva þar í landi. Vottarnir í Ástralíu tóku okkur opnum örmum og árið 1978 létum við skírast sem vottar Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Ég hef loksins fengið svör við spurningunum sem brunnu á mér um langa hríð. Ég hef líka byggt upp náið samband við Jehóva Guð og þannig eignast besta föður sem hægt er að hugsa sér. (Jakobsbréfið 4:8) Mér er líka ákaflega annt um þá stórkostlegu von að fá að hitta föður minn aftur þegar hann fær upprisu í nýja heiminum sem er fram undan. – Jóhannes 5:28, 29.

Við Rose ákváðum að snúa aftur til Ungverjalands árið 1989. Okkur langaði að segja vinum okkar og fjölskyldu, og líka öðrum sem við ættum eftir að hitta, frá því sem við höfðum lært af biblíunámi okkar. Við höfum orðið þess heiðurs aðnjótandi að fá að kenna hundruðum manna sannleika Biblíunnar og meira en 70 þeirra hafa sameinast okkur í tilbeiðslunni á Jehóva, þar á meðal elskuleg móðir mín.

Í 17 ár bað ég til Guðs um hjálp til að finna svörin við spurningum mínum. Síðan hafa liðið 39 ár og ég bið enn til Guðs, en núna get ég sagt: „Kæri himneski faðir, þakka þér innilega fyrir að hafa svarað bænunum sem ég bað þegar ég var lítill strákur.“