Þegar Jesús prédikaði hér á jörð talaði hann um margvísleg mál. Til að mynda kenndi hann fylgjendum sínum hvernig þeir áttu að biðja, hvernig þeir gátu glatt Guð og hvernig þeir gátu öðlast sanna hamingju. (Matteus 6:5-13; Markús 12:17; Lúkas 11:28) En það sem Jesús talaði mest um og stóð hjarta hans næst var ríki Guðs. – Lúkas 6:45.

Eins og fram kom í greininni á undan snerist líf Jesú um að ,prédika og flytja fagnaðarerindið um Guðs ríki‘. (Lúkas 8:1) Hann var ötull boðberi og gekk hundruð kílómetra til að fræða fólk í Ísrael um ríki Guðs. Í frásögunum af starfi Jesú, sem skráðar eru í guðspjöllunum fjórum, er minnst á ríki Guðs meira en 100 sinnum. Í flestum þessara tilfella er vitnað beint í orð Jesú, en þessar frásögur geyma þó eflaust aðeins brot af öllu því sem hann sagði um Guðsríki. – Jóhannes 21:25.

Af hverju var ríki Guðs svona mikilvægt í augum Jesú þegar hann var hér á jörð? Fyrir það fyrsta vissi Jesús að Guð hafði valið hann sem stjórnanda þessa ríkis. (Jesaja 9:5; Lúkas 22:28-30) En Jesús var ekki upptekinn af því að fá sjálfur vald og heiður. (Matteus 11:29; Markús 10:17, 18) Þegar hann sagði öðrum frá Guðsríki gerði hann það ekki til að upphefja sjálfan sig. Hann vissi að þetta ríki yrði til góðs fyrir þá sem hann elskar, það er að segja himneskan föður hans og trúfasta fylgjendur hans. Þess vegna var ríki Guðs svona mikilvægt í augum Jesú og er það enn. *

ÞAÐ SEM GUÐSRÍKI GERIR FYRIR HIMNESKAN FÖÐUR JESÚ

Jesús elskar föður sinn á himnum afar mikið. (Orðskviðirnir 8:30; Jóhannes 14:31) Hann dáist að aðlaðandi eiginleikum föður síns eins og kærleika hans, miskunnsemi og réttlæti. (5. Mósebók 32:4; Jesaja 49:15; 1. Jóhannesarbréf 4:8) Jesús hlýtur því að hafa megnustu óbeit á þeim lygum sem sagðar eru um föður hans, lygum á borð við að Guði standi á sama um þjáningar manna og að það sé vilji Guðs að við þjáumst. Það er ein ástæða þess að Jesús gaf sig allan að því að boða „fagnaðarerindið um ríkið“ – hann vissi að með tímanum myndi þetta ríki hreinsa orðstír föður síns. (Matteus 4:23; 6:9, 10) Hvernig þá?

Fyrir tilstuðlan þessa ríkis mun Jehóva koma á gagngerum og stórkostlegum breytingum til góðs fyrir mannkynið. „Hann mun þerra hvert tár“ af augum trúfastra manna. Jehóva mun fjarlægja allt sem veldur þessum tárum og tryggja að „dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl [verður] framar til“. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Fyrir milligöngu Guðsríkis bindur Guð enda á allar þjáningar manna. *

 Það er ekki að undra að Jesús hafi gefið sig allan að því að segja fólki frá ríki Guðs. Hann vissi að þetta ríki myndi sýna fram á hversu máttugur og miskunnsamur faðir hans er. (Jakobsbréfið 5:11) Jesús vissi einnig að Guðsríki yrði til góðs fyrir aðra sem hann elskar – trúfasta fylgjendur hans.

ÞAÐ SEM GUÐSRÍKI GERIR FYRIR TRÚFASTA FYLGJENDUR JESÚ

Löngu áður en Jesús kom til jarðar var hann á himnum hjá föður sínum. Faðirinn skapaði allt annað fyrir milligöngu Jesú, sonar síns, allt frá mikilfenglegum himninum, þar sem er að finna óteljandi stjörnur og vetrarbrautir, til jarðarinnar þar sem er stórbrotin náttúrufegurð og fjölskrúðugt dýralíf. (Kólossubréfið 1:15, 16) En af öllu sköpunarverkinu hafði Jesús þó sérstakt „yndi“ af mönnunum. – Orðskviðirnir 8:31.

Kærleikur Jesú til mannanna einkenndi þjónustu hans. Allt frá byrjun gerði hann öllum ljóst að hann hafði komið til jarðar til að flytja nauðstöddum „gleðilegan boðskap“. (Lúkas 4:18) En Jesús gerði meira en að tala um að hjálpa öðrum. Margoft sýndi hann í verki að hann elskaði mennina. Til dæmis þegar menn fylktust til hans til að hlusta á hann tala „kenndi [hann] í brjósti um þá og læknaði þá er sjúkir voru“. (Matteus 14:14) Kærleikur Jesú kom greinilega í ljós þegar maður nokkur, sem haldinn var sársaukafullum sjúkdómi, sagðist trúa því að Jesús gæti læknað hann ef hann aðeins vildi. Áður en Jesús læknaði manninn sagði hann við hann fullur meðaumkunar: „Ég vil, verð þú hreinn!“ (Lúkas 5:12, 13) Þegar Jesús sá Maríu, vinkonu sína, syrgja Lasarus, bróður sinn, „komst hann við“, „varð djúpt hrærður“ og „grét“. (Jóhannes 11:32-36) Síðan vann Jesús stórkostlegt kraftaverk. Hann vakti Lasarus aftur til lífs jafnvel þótt Lasarus hefði verið dáinn í fjóra daga! – Jóhannes 11:38-44.

Jesús vissi auðvitað að lausnin, sem hann veitti þá, væri aðeins tímabundin. Hann gerði sér ljóst að fyrr eða síðar myndu allir sem hann hafði læknað veikjast á ný og allir sem hann hafði reist upp frá dauðum deyja aftur. En Jesús vissi hins vegar líka að ríki Guðs myndi binda enda á alla slíka erfiðleika fyrir fullt og allt. Þess vegna vann Jesús ekki bara kraftaverk heldur prédikaði einnig af kappi „fagnaðarerindið um ríkið“. (Matteus 9:35) Kraftaverkin, sem hann vann, gefa örlitla innsýn í það sem Guðsríki kemur til leiðar innan skamms um allan heim. Skoðum hvaða fyrirheit Biblíunnar uppfyllast þá.

 •  Enginn verður framar veikur.

  „Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar.“ Auk þess mun „enginn borgarbúi ... segja: ,Ég er veikur.‘“ – Jesaja 33:24; 35:5, 6.

 • Dauðinn verður ekki framar til.

  „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 37:29.

  „Hann [mun] afmá dauðann að eilífu. Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ – Jesaja 25:8.

 • Hinir dánu verða reistir aftur til lífs.

  „Allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust hans og ganga fram.“ – Jóhannes 5:28, 29.

  „Upp ... rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ – Postulasagan 24:15.

 • Enginn verður heimilislaus framar eða án atvinnu.

  „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra. Menn munu ekki reisa hús sem annar býr í, ekki planta og annar neyta ... og mínir útvöldu njóta ávaxta iðju sinnar.“ – Jesaja 65:21, 22.

 •  Engin stríð.

  „Hann stöðvar stríð til endimarka jarðar.“ – Sálmur 46:10.

  „Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ – Jesaja 2:4.

 • Enginn matvælaskortur.

  „Jörðin hefir gefið ávöxt sinn, Guð, vor Guð, blessar oss.“ – Sálmur 67:7, Biblían 1981.

  „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ – Sálmur 72:16, Biblían 1981.

 • Engin fátækt framar.

  „Hinn snauði er ekki gleymdur að eilífu.“ – Sálmur 9:19.

  „Hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar. Hann miskunnar sig yfir bágstadda og snauða og bjargar lífi hinna fátæku.“ – Sálmur 72:12, 13.

Þegar þú skoðar þessi fyrirheit, sem ríki Guðs mun uppfylla, skilurðu þá hvers vegna þetta ríki er svona mikilvægt í augum Jesú? Þegar Jesús var hér á jörð lagði hann sig fram um að segja öllum, sem vildu hlusta, frá ríki Guðs því að hann vissi að þetta ríki myndi binda enda á öll vandamál sem íþyngja mönnunum.

Höfða þessi fyrirheit Biblíunnar um ríki Guðs til þín? Ef svo er, hvernig geturðu þá fengið að vita meira um þetta ríki? Og hvað þarft þú að gera til að njóta góðs af öllu því góða sem Guðsríki kemur til leiðar? Þessum spurningum verður svarað í greininni hér á eftir.

^ gr. 5 Í þessari grein er rætt um tilfinningar Jesú í nútíð vegna þess að hann er nú á himnum, og frá því að hann var reistur upp til himna hefur Guðsríki án efa átt hug hans allan. – Lúkas 24:51.

^ gr. 8 Í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? er fjallað um hvers vegna Guð leyfir enn um sinn að mennirnir þjáist. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er einnig fáanleg á www.jw.org/is.