Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA

Trúa Vottar Jehóva á Jesú?

Trúa Vottar Jehóva á Jesú?

Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Anton, hafi bankað upp á hjá manni sem heitir Tómas.

ÞAÐ ER NAUÐSYNLEGT AÐ TRÚA Á JESÚ

Anton: Komdu sæll, Tómas. Gaman að hitta þig aftur.

Tómas: Sömuleiðis.

Anton: Mig langaði til að færa þér nýjustu tölublöðin af Varðturninum og Vaknið! Ég held að þú eigir eftir að hafa gaman af að lesa þau.

Tómas: Þakka þér fyrir. Það er reyndar gott að þú skyldir koma í dag því að mig langaði til að spyrja þig um svolítið.

Anton: Já, um hvað langar þig til að spyrja?

Tómas: Um daginn var ég að ræða við vinnufélaga minn. Ég sagði honum frá áhugaverðu efni sem ég hafði lesið í bæklingunum sem þú gafst mér. En þá sagði hann að ég ætti ekki að vera að lesa rit Votta Jehóva því að þeir trúa ekki á Jesú. Er það satt? Ég sagði honum að ég myndi spyrja þig næst þegar þú kæmir.

Anton: Ég er ánægður að þú skyldir spyrja mig í staðinn fyrir að spyrja einhvern sem er ekki vottur. Það er gott að þú viljir fá réttar upplýsingar.

Tómas: Já, það var einmitt það sem ég hugsaði.

Anton: Sannleikurinn er sá að vottar Jehóva trúa á Jesú. Við erum sannfærð um að það sé nauðsynlegt að trúa á hann til að hljóta hjálpræði.

Tómas: Mig grunaði það reyndar en þegar vinnufélagi minn sagði að þið tryðuð ekki á Jesú varð ég svolítið forvitinn. Ég hef í rauninni aldrei rætt þetta við þig áður.

Anton: Hvernig litist þér á að ég sýndi þér nokkur vers úr Biblíunni sem benda á hversu mikilvægt það sé að trúa á Jesú? Þetta eru vers sem við sýnum fólki oft þegar við tölum við það um Biblíuna.

Tómas: Já, allt í lagi.

Anton: Mig langar til að byrja á því að sýna þér nokkuð sem Jesús sagði þegar hann talaði við einn af postulum sínum. Það er hérna í Jóhannesi 14:6. Hér stendur: „Jesús segir við hann: ,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.‘“ Hver er sá eini sem opnar leiðina að Guði samkvæmt þessu versi?

Tómas: Það er greinilega Jesús.

Anton: Það er rétt. Og við, sem erum vottar Jehóva, erum sannfærð um að það sé aðeins hægt að nálgast Guð fyrir milligöngu Jesú. Þannig að þegar við biðjum til Guðs þá gerum við það alltaf í Jesú nafni.

Tómas: Það er gott að vita.

Anton: Annað vers, sem mig langar til að sýna þér, er Jóhannes 3:16. Þetta eina vers segir svo margt að það hefur verið kallað litla biblían. Ef allt sem skrifað hefur verið um líf Jesú hér á jörð væri dregið saman í eina setningu yrði þetta vers niðurstaðan. Mætti ég biðja þig um að lesa það?

 Tómas: Já, já. Hér stendur: „Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Anton: Takk fyrir. Kannastu við þetta vers?

Tómas: Já, ég hef oft heyrt prestinn lesa það í kirkjunni.

Anton: Þetta er mjög þekkt biblíuvers. En lítum aðeins nánar á það sem Jesús er í raun og veru að segja. Hann fullyrti að vegna kærleika Guðs eiga mennirnir kost á að öðlast eilíft líf. En tekurðu eftir hvaða skilyrði Guð setur?

Tómas: Já, við þurfum að trúa.

Anton: Já, nánar tiltekið þurfum við að trúa á Jesú Krist, einkason Guðs. Og hér í blaðinu, sem ég kom með, er undirstrikað að trúin á Jesú opni leiðina að eilífu lífi. Á bls. 2 segir að tilgangur Varðturnsins sé meðal annars sá að hvetja lesendur til að „trúa á Jesú Krist sem dó til þess að við gætum hlotið eilíft líf en hann ríkir núna sem konungur Guðsríkis“.

Tómas: Já, það er nefnilega það. Það stendur meira að segja í blöðunum ykkar að þið trúið á Jesú.

Anton: Einmitt.

Tómas: En af hverju segir fólk þá að þið trúið ekki á Jesú?

Anton: Það eru sennilega nokkrar ástæður fyrir því. Sumir segja það einfaldlega vegna þess að þeir hafa heyrt það hjá öðrum. Og stundum hafa líka prestar komið þessari ranghugmynd á framfæri.

Tómas: Getur ekki líka verið að sumir haldi að þið trúið ekki á Jesú vegna þess að þið kallið ykkur Votta Jehóva en ekki Votta Jesú?

Anton: Það gæti verið eitthvað til í því.

Tómas: En af hverju leggið þið svona mikla áherslu á Jehóva?

„ÉG HEF KUNNGJÖRT ÞEIM NAFN ÞITT“

Anton: Fyrir það fyrsta þá trúum við að það sé mikilvægt að nota nafn Guðs, Jehóva, alveg eins og sonur hans, Jesús Kristur, gerði. Sjáðu hvað Jesús sagði í bæn til föður síns í Jóhannesi 17:26. Vilt þú lesa þetta vers?

Tómas: Já. Það segir hérna: „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“

Anton: Takk fyrir. Tókstu eftir að Jesús sagðist hafa kunngert nafn Guðs? Hvers vegna heldurðu að hann hafi gert það?

Tómas: Hmm. Ég er ekki viss.

Það er nauðsynlegt að trúa á Jesú til að hljóta hjálpræði.

Anton: Við gætum þá kannski skoðað annað vers sem varpar ljósi á það. Við finnum það í Postulasögunni 2:21 en hér segir: „Hver sá sem ákallar nafn Drottins [Jehóva Guðs] mun frelsast.“ Ef staðreyndin er sú að við verðum að ákalla nafn Jehóva Guðs til þess að hljóta frelsun, heldurðu þá ekki að Jesús hafi vitað af því?

Tómas: Jú, það hlýtur að vera.

Anton: Þetta er ein ástæða þess að Jesú fannst mikilvægt að fylgjendur sínir þekktu nafn Guðs og notuðu það. Og þess vegna leggjum við líka svona mikla áherslu á Jehóva. Við teljum afar mikilvægt að kunngera nafn hans og hvetja aðra til að kynnast honum.

Tómas: En jafnvel þótt fólk viti ekki að Guð heitir eitthvað eða noti ekki nafn hans þá veit það samt alveg um hvern það er að tala þótt það kalli hann bara Guð.

Anton: Alveg örugglega, en með því að opinbera okkur nafn sitt gerir Guð okkur mögulegt að kynnast sér betur.

Tómas: Hvað áttu við?

Anton: Tökum dæmi: Við hefðum ekki þurft að fá að vita hvað Móse hét. Það hefði verið  nóg fyrir okkur að vita að hann var maðurinn sem klauf Rauðahafið eða maðurinn sem fékk boðorðin tíu. Það sama á við um Nóa, af hverju fengum við að vita nafn hans? Það hefði verið nóg að segja okkur bara að hann smíðaði örkina og bjargaði fjölskyldunni sinni og öllum dýrunum. Og hefði ekki verið nóg að kalla Jesú Krist bara manninn sem kom frá himni og dó fyrir syndir okkar?

Tómas: Jú, eflaust.

Anton: En Guð vildi að við vissum hvað þessir menn hétu. Þannig eigum við auðveldara með að lifa okkur inn í þessar frásögur. Þar sem við vitum hvað Móse, Nói og Jesús hétu verða þeir raunverulegri í huga okkar þótt við höfum aldrei hitt þá.

Tómas: Ég hef aldrei velt þessu fyrir mér áður en þetta eru góð rök.

Anton: Það er líka þess vegna sem við leggjum svona mikla áherslu á nafn Guðs. Okkur langar að hjálpa fólki að kynnast Jehóva Guði og byggja upp náið samband við hann. En við leggjum líka mikið upp úr hlutverki Jesú sem frelsara okkar. Við getum kannski lesið annað vers sem undirstrikar það.

Tómas: Ókei.

Anton: Áðan lásum við Jóhannes 14:6 þar sem Jesús sagði að hann væri „vegurinn, sannleikurinn og lífið“. Við skulum núna skoða fyrsta versið í þessum sama kafla. Mætti ég biðja þig um að lesa það sem Jesús sagði í lok versins?

Tómas: Alveg sjálfsagt. Hérna stendur: „Trúið á Guð og trúið á mig.“

Anton: Takk fyrir. Myndir þú segja að þetta merki að við eigum annaðhvort að trúa á Jesú eða trúa á Jehóva?

Tómas: Nei, Jesús sagði að við þyrftum að trúa á þá báða.

Anton: Það er rétt. Þú ert örugglega sammála því að það sé ekki nóg að segjast bara trúa á Guð og Jesú. Við þurfum að sýna með verkum okkar að við trúum á þá.

Tómas: Já, ég er sammála því.

Anton: En hvernig sýnum við með verkum okkar að við trúum á Guð og á Jesú? Við gætum kannski rætt um það næst þegar ég kem. *

Tómas: Já, það væri gaman.

Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.

^ gr. 58 Nánari upplýsingar er að finna í 12. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.