Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI

Það sem Guð hefur gert fyrir þig

Það sem Guð hefur gert fyrir þig

„Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ – Jóhannes 3:16.

Þetta eru ein þekktustu orðin í allri Biblíunni. Sagt er að ekkert annað vers segi „jafn mikið, í eins fáum orðum, um samband Guðs við mannkynið og leiðina til hjálpræðis“. Þetta vers er einnig kallað „litla biblían“. Í sumum löndum má oft sjá orðin í þessu versi eða aðeins tilvísunina „Jóhannes 3:16“ birtast á skiltum við alls konar viðburði, á bílalímmiðum, veggjakroti eða annars staðar.

Þeir sem halda upp á þetta vers eru að öllum líkindum sannfærðir um að þeir hljóti hjálpræði vegna kærleika Guðs. Hvað um þig? Hvaða þýðingu hefur kærleikur Guðs í þínum augum? Og hvað finnst þér Guð hafa gert sem sýnir að hann elski þig?

„SVO ELSKAÐI GUÐ HEIMINN“

Margir viðurkenna að Guð hafi skapað efnisheiminn, náttúruna og jafnvel mennina. Lifandi verur eru svo margbrotnar og vel úr garði gerðar að það hlýtur að búa mikið hugvit að baki sköpun þeirra. Margir þakka Guði daglega fyrir lífið. Þeir gera sér einnig grein fyrir að það er Guð sem gefur þeim súrefni, vatn, fæðu og hringrásir náttúrunnar og því séu þeir algjörlega háðir honum til að geta viðhaldið lífinu og notið þess.

Það er því viðeigandi að þakka Guði fyrir allt þetta vegna þess að hann er sá sem skapaði okkur og gerir lífið mögulegt. (Sálmur 104:10-28; 145:15, 16; Postulasagan 4:24) Við skiljum betur kærleika Guðs til okkar þegar við hugsum um allt sem hann gerir svo að lífið á jörðinni sé mögulegt. „[Guð] gefur öllum líf og anda og alla hluti,“ sagði Páll postuli og bætti síðan við: „Í honum lifum, hrærumst og erum við.“ – Postulasagan 17:25, 28.

 En Guð annast ekki aðeins líkamlegar þarfir okkar heldur sýnir okkur kærleika sinn á fleiri vegu. Hann gerði okkur til dæmis æðri dýrunum. Við höfum því meðfædda andlega þörf sem hann hjálpar okkur að fullnægja. (Matteus 4:4) Það gefur hlýðnum mönnum tækifæri til að verða hluti af fjölskyldu Guðs sem „börn“ hans. – Rómverjabréfið 8:19-21.

Í Jóhannesi 3:16 segir einnig að Guð hafi sýnt kærleika sinn til okkar með því að senda Jesú, son sinn, til jarðar. Hlutverk Jesú var að fræða okkur um himneskan föður sinn og deyja fyrir okkur. Margir segja þó að þeir skilji í rauninni ekki hvers vegna Jesús þurfti að deyja fyrir mennina og hvernig dauði Jesú beri vitni um kærleika Guðs til okkar. En Biblían útskýrir hvers vegna Jesús þurfti að deyja og hvaða þýðingu dauði hans hefur fyrir okkur. Við skulum líta nánar á það.

„HANN GAF EINKASON SINN“

Allir menn eru dauðlegir og undirorpnir sjúkdómum, elli og dauða. Það var samt ekki upphaflegur tilgangur Jehóva Guðs. Hann skapaði fyrstu hjónin með það fyrir augum að þau lifðu að eilífu í paradís á jörð. Hann setti þeim þó eitt skilyrði. Þau urðu að hlýða honum. Guð sagði að þau myndu deyja ef þau kysu að óhlýðnast honum. (1. Mósebók 2:17) Þrátt fyrir það gerði fyrsti maðurinn uppreisn gegn drottinvaldi Jehóva og kallaði dauða yfir sjálfan sig og afkomendur sína. Páll postuli útskýrir það nánar og segir: „Syndin kom inn í heiminn með einum manni og dauðinn með syndinni. Þannig er dauðinn runninn til allra manna því að allir syndguðu þeir.“ – Rómverjabréfið 5:12.

Guð hefur hins vegar „mætur á réttlæti“. (Sálmur 37:28) Hann horfði ekki fram hjá því að fyrsti maðurinn syndgaði vísvitandi. Samt sem áður dæmdi hann ekki mannkynið í heild til að þjást að eilífu og deyja vegna óhlýðni þessa eina manns. Hann jafnaði vogarskálar réttlætisins með því að byggja á meginreglunni „líf fyrir líf“ og gerði aftur mögulegt fyrir hlýðið mannkyn að öðlast eilíft líf. (2. Mósebók 21:23) Þá vaknar spurningin: Hvernig var hægt að endurheimta þetta fullkomna mannslíf sem Adam glataði? Svarið er: Það varð að fórna lífi sem samsvaraði lífi Adams, það er að segja fullkomnu mannslífi.

Jesús var fús til að koma til jarðar og fórna lífi sínu til að frelsa mannkynið undan synd og dauða.

Það er augljóst að enginn ófullkominn afkomandi Adams gat fært slíka fórn. Það gat Jesús aftur á móti. (Sálmur 49:7-10) Jesús var fullkominn, fæddur án syndar líkt og Adam. Með því að fórna lífi sínu leysti Jesús mannkynið undan þrælkun syndarinnar. Þar með gaf hann afkomendum fyrstu hjónanna tækifæri til að njóta lífsins sem fullkomnir einstaklingar, eins og Adam og Eva höfðu fengið. (Rómverjabréfið 3:23, 24; 6:23) En þurfum við að gera eitthvað til að njóta góðs af þessu stórkostlega kærleiksverki?

 „HVER SEM Á HANN TRÚIR“

Í Jóhannesi 3:16 segir einnig að „hver sem á [Jesú] trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. Það merkir að við þurfum að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að fá að lifa að eilífu. Ef við viljum hljóta „eilíft líf“ verðum við að trúa á Jesú og hlýða orðum hans.

Þú hugsar kannski með þér: ,Hvað hefur þetta með hlýðni að gera? Sagði Jesús ekki að „hver sem á hann trúir“ fái eilíft líf?‘ Jú, trú er auðvitað lykilatriði. Það er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að í Biblíunni felur trú í sér miklu meira en að trúa einfaldlega að Jesús sé til. Samkvæmt biblíuorðabók merkir orðið sem Jóhannes notar á frummálinu „ekki aðeins að trúa á, heldur einnig að reiða sig á“. (Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words) Til þess að hljóta velþóknun Guðs er því ekki nóg að játa bara í huganum að Jesús sé frelsarinn. Sá sem trúir verður einnig í fyllstu einlægni að reyna að fara eftir því sem Jesús kenndi. Það er til einskis að segjast trúa á Jesú ef maður sýnir það ekki í verki. „Trúin [er] dauð án verka,“ segir Biblían. (Jakobsbréfið 2:26) Með öðrum orðum þarf sá sem trúir að lifa í samræmi við trú sína.

Páll útskýrir málið á eftirfarandi hátt: „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: ... [Jesús] er dáinn fyrir alla ... Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Korintubréf 5:14, 15, Biblían 1981) Ef við erum innilega þakklát fyrir lausnarfórn Jesú ætti það að vera okkur hvatning til að gera breytingar á lífi okkar. Í stað þess að láta það eingöngu snúast um okkur sjálf ættum við að fylgja lífsstefnu Jesú sem var fús til að deyja fyrir okkur. Það ætti sem sagt að hafa forgang í lífi okkar að fara eftir því sem Jesús kenndi. Slíkar breytingar hafa óhjákvæmilega áhrif á gildismat okkar, ákvarðanir og allt annað sem við gerum. Hvaða umbun hljóta þeir sem sýna trú á Jesú?

„GLATIST EKKI HELDUR HAFI EILÍFT LÍF“

Lokaorðin í Jóhannesi 3:16 varpa ljósi á það sem Guð hefur lofað þeim sem trúa á lausnarfórnina og lifa eftir meginreglum Biblíunnar. Það er vilji Guðs að þeir „glatist ekki heldur hafi eilíft líf“. Ólík hlutskipti bíða þó þeirra sem njóta góðs af kærleika Guðs.

Jesús lofaði sumum fylgjendum sínum eilífu lífi á himnum. Hann sagði trúföstum lærisveinum sínum að hann ætlaði að búa þeim stað svo að þeir gætu ríkt með honum í dýrð. (Jóhannes 14:2, 3; Filippíbréfið 3:20, 21) Þeir sem fá himneska upprisu munu „vera prestar Guðs og Krists og ríkja með honum [Kristi] um þúsund ár“. – Opinberunarbókin 20:6.

Aðeins takmarkaður fjöldi fylgjenda Krists hlyti þennan heiður. Jesús sagði: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ (Lúkas 12:32) Hversu margir myndu tilheyra þessari ,litlu hjörð‘? Í Opinberunarbókinni 14:1, 4 segir: „Enn sá ég sýn: Lambið [hinn upprisni Jesús Kristur] stóð á Síonarfjalli [á himnum] og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir sem höfðu nafn þess og nafn föður þess skrifað á enni sér ... Þeir voru leystir úr hópi manna sem frumgróði handa Guði og lambinu.“ Í samanburði við þá milljarða manna sem lifað hafa eru 144.000 manns aðeins ,lítil hjörð‘. Hlutverk þeirra er að ríkja með Kristi. En yfir hverjum eiga þeir að ríkja?

Jesús talaði um að aðrir fylgjendur sínir myndu njóta góðs af því sem þessi himneska stjórn kæmi til leiðar. Hann sagði í Jóhannesi 10:16: „Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.“ Þessir ,sauðir‘ eiga í vændum að lifa að eilífu hér á jörð. Þeir hafa sömu von og Adam og Eva höfðu í upphafi. En hvernig vitum við að þeir munu lifa á jörðinni?

 Í Biblíunni er oft talað um að jörðinni verði breytt í paradís. Ef þig langar til að lesa um það í biblíunni þinni geturðu flett upp á eftirfarandi versum: Sálmur 37:9-11; 46:9, 10; 72:7, 8, 16; Jesaja 35:5, 6; 65:21-23; Matteus 5:5; Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 21:4. Í þessum versum er sagt fyrir að stríð, hungur, sjúkdómar og dauði heyri brátt sögunni til. Þar segir einnig að hlýðið fólk fái að njóta gleðinnar sem fylgir því að reisa sér hús, rækta sitt eigið land og ala börnin sín upp við friðsamlegar aðstæður. * Finnst þér þetta ekki aðlaðandi framtíðarsýn? Við getum með sanni treyst að þessi fyrirheit verða bráðum að veruleika.

GUÐ HEFUR GERT MARGT FYRIR ÞIG

Ef þú gefur þér tíma til að hugleiða hvað Guð hefur gert fyrir þig og fyrir allt mannkynið, kemstu að því að hann hefur þegar gert heilmikið. Líf okkar, vitsmunir, heilbrigði og allt sem við þurfum til að viðhalda lífinu er frá honum komið. Þar að auki greiddi hann lausnargjaldið fyrir okkur með lífi Jesú og það getur haft í för með sér mikla blessun, eins og við lærum af Jóhannesi 3:16.

Eilíft líf í yndislegum og friðsælum heimi þar sem enginn þarf að óttast veikindi, stríð, hungur eða dauða hefur vissulega óþrjótandi hamingju og blessun í för með sér. Það er undir þér komið hvort þessi framtíð bíði þín. Spurningin sem eftir situr er því þessi: Hvað ert þú að gera fyrir Guð?

^ gr. 24 Nánari upplýsingar um þessa spádóma er að finna í 3. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.