Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 LESENDUR SPYRJA . . .

Af hverju leyfir Guð hinum valdamiklu að kúga þá sem minna mega sín?

Af hverju leyfir Guð hinum valdamiklu að kúga þá sem minna mega sín?

Í Biblíunni er að finna nokkrar átakanlegar frásögur af því þegar valdamikið fólk níðist á þeim sem minna mega sín. Frásagan af Nabót er dæmi um það. Akab, sem var konungur í Ísrael á tíundu öld f.Kr., ásældist víngarð Nabóts. Akab reyndi ekki að hindra Jesebel, eiginkonu sína, þegar hún lét taka Nabót og syni hans af lífi svo að hann gæti eignað sér víngarðinn. (1. Konungabók 21:1-16; 2. Konungabók 9:26) Hvers vegna leyfði Guð svona grimmilegri valdníðslu að eiga sér stað?

„Guð ... sem aldrei lýgur.“ – Títusarbréfið 1:2.

Skoðum eina mikilvæga ástæðu: Guð lýgur aldrei. (Títusarbréfið 1:2) En hvernig tengist það ofbeldisverkum og valdníðslu? Strax í upphafi mannkynssögunnar varaði Guð mennina við því að snúast gegn sér því að það hefði dauða í för með sér. Og orð Guðs rættust því að dauðinn hefur fylgt mönnunum allt síðan uppreisnin átti sér stað í Edengarðinum. Fyrsta dauðsfallið á jörðinni var afleiðing grimmilegs ofbeldisverknaðar þegar Kain réðst á bróður sinn, Abel, og myrti hann. – 1. Mósebók 2:16, 17; 4:8.

Upp frá því er mannkynssögunni lýst með þessum orðum í Biblíunni: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Hafa þessi orð reynst sönn? Jehóva Guð varaði þjóð sína, Ísrael, við því að konungar hennar myndu þjaka hana með þeim afleiðingum að hún myndi í örvæntingu hrópa til hans um hjálp. (1. Samúelsbók 8:11-18) Jafnvel vitri konungurinn Salómon lagði þungar skattbyrðar á fólkið. (1. Konungabók 11:42, 43; 12:3, 4) Illir konungar líkt og Akab kúguðu fólkið af enn meiri hörku. Hugleiddu þetta: Hefðu orð Guðs reynst sönn ef hann hefði komið í veg fyrir alla slíka valdníðslu?

„Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ – Prédikarinn 8:9.

Hafðu líka í huga að Satan fullyrðir að fólk þjóni Guði aðeins af eigingirni. (Jobsbók 1:9, 10; 2:4) Ef Guð verndaði alltaf þjóna sína gegn hvers konar kúgun myndi það ekki sanna fullyrðingar Satans? Og ef Guð sæi til þess að enginn þyrfti að þola neina kúgun væri hann þá ekki ábyrgur fyrir enn meiri ósannindum? Ef fólk nyti slíkrar verndar gætu sumir haldið að mennirnir væru færir um að stjórna sér sjálfir án hjálpar Guðs. En Biblían heldur öðru fram – að mennirnir séu algjörlega ófærir um að stjórna sér sjálfir. (Jeremía 10:23) Við verðum hvorki laus við kúgun né óréttlæti fyrr en ríki Guðs tekur við völdum yfir jörðinni.

En þýðir þetta að Guð sé ekkert að gera í málinu? Nei. Lítum á tvennt sem hann gerir: Í fyrsta lagi afhjúpar hann harðstjórn og kúgun. Í orði sínu flettir hann til dæmis ofan af launráði Jesebelar gegn Nabót. Biblían segir enn fremur að slík vonskuverk séu runnin undan rifjum valdahafa sem vill fara huldu höfði. (Jóhannes 14:30; 2. Korintubréf 11:14) En Biblían afhjúpar hann og kallar hann Satan djöfulinn. Með því að varpa réttu ljósi á kúgun og segja okkur hver standi að baki illskunni hjálpar Guð okkur að forðast allt slíkt. Þannig verndar hann okkur svo að við getum átt von um eilíft líf.

Í öðru lagi lofar Guð að kúgun taki enda. Hann fletti ofan af Akab og Jesebel, dæmdi þau og refsaði þeim. Þetta hefur hann einnig gert við aðra af sama sauðahúsi og það styrkir traust okkar á loforð hans um að refsa öllum illvirkjum í framtíðinni. (Sálmur 52:3-7) Guð lofar einnig þeim sem elska hann að innan skamms bæti hann allt það tjón sem illskan hefur haft í för með sér. * Hinn trúfasti Nabót og synir hans fá því að lifa að eilífu í paradís á jörð þar sem óréttlæti mun heyra sögunni til. – Sálmur 37:34.

^ gr. 8 Sjá 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.