Er það einhvers virði í augum Jehóva að tilbiðjendur hans reyni að þóknast honum? Sumir kynnu að neita því og segja að Guð hafi ekki áhuga á okkur. En það gefur alranga mynd af honum. Orð hans, Biblían, leiðréttir þessa ranghugmynd og fullvissar okkur um að Jehóva kunni að meta viðleitni trúaðra þjóna sinna. Lítum á það sem Páll postuli sagði í Hebreabréfinu 11:6.

Hvað þarf að gera til að þóknast Jehóva? Páll skrifar: „Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar.“ Taktu eftir að Páll segir ekki að það sé erfitt að þóknast Guði án trúar. Hann segir að það sé ógerlegt. Það er með öðrum orðum nauðsynlegt að trúa á Guð til að þóknast honum.

Hvers konar trú er Jehóva þóknanleg? Trú okkar á Guð þarf að fela tvennt í sér. Í fyrsta lagi verðum við „að trúa því að hann sé til“ eða „trúa því að hann sé raunverulegur“ eins og segir í annarri biblíuþýðingu. Við getum varla þóknast Guði ef við efumst um að hann sé til. Ósvikin trú felur þó meira í sér því að jafnvel illu andarnir trúa því að Jehóva sé til. (Jakobsbréfið 2:19) Ef við trúum að Guð sé raunverulegur ætti það að hvetja okkur til dáða. Við látum trú okkar í ljós með því að lifa á þann hátt sem er Guði þóknanlegt. – Jakobsbréfið 2:20, 26.

Í öðru lagi verðum við „að trúa því að ... hann umbuni“ okkur. Sá sem hefur ósvikna trú er alveg sannfærður um að Guð blessi viðleitni hans til að lifa á þann hátt sem Guði þóknast. (1. Korintubréf 15:58) Við getum ekki þóknast Jehóva ef við efumst um að hann geti eða langi til að umbuna okkur. (Jakobsbréfið 1:17; 1. Pétursbréf 5:7) Sá sem heldur að Guð hljóti að vera harðbrjósta, vanþakklátur og nískur þekkir ekki Guð Biblíunnar.

Hverjum umbunar Jehóva? Páll segir að hann umbuni „þeim er leita hans“. Heimildarrit fyrir biblíuþýðendur segir að gríska orðið, sem þýtt er „leita“, merki ekki „að leita að“ heldur að nálgast Guð „til að tilbiðja hann“. Í öðru heimildarriti er sagt að mynd þessa gríska sagnorðs gefi til kynna ákafan og einbeittan vilja. Já, Jehóva umbunar þeim sem vegna trúar tilbiðja hann af hjarta og sál. – Matteus 22:37.

Við getum ekki þóknast Jehóva ef við efumst um að hann geti eða langi til að umbuna okkur.

Hvernig umbunar Jehóva trúföstum þjónum sínum? Hann hefur heitið ómetanlegri umbun í framtíðinni, eilífu lífi í paradís á jörð. Sýnir það ekki skýrt hversu örlátur og kærleiksríkur hann er? (Opinberunarbókin 21:3, 4) Þeir sem leita Jehóva af heilum hug njóta líka nú þegar mikillar blessunar. Þeir eru farsælir og hamingjusamir vegna hjálpar heilags anda Guðs og viskunnar í orði hans. – Sálmur 144:15; Lúkas 11:28.

Jehóva er augljóslega þakklátur Guð sem þykir vænt um að dyggir tilbiðjendur hans þjóni honum trúfastlega. Vekur það ekki með þér löngun til að styrkja tengslin við hann? Þá hvetjum við þig til að kynna þér hvernig þú getir byggt upp þess konar trú sem Jehóva umbunar ríkulega.