Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | UM HVAÐ FJALLAR BIBLÍAN?

Hvernig urðum við til?

Hvernig urðum við til?

Í fyrstu bók Biblíunnar er sagt með nokkrum einföldum orðum hvernig alheimurinn varð til. „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ (1. Mósebók 1:1) Eftir að Guð hafði skapað plöntur og dýr skapaði hann fyrstu mannverurnar, Adam og Evu. Þau voru frábrugðin dýrunum því mennirnir geta að vissu marki endurspeglað eiginleika Guðs og hafa frjálsan vilja. Þau voru því ábyrg gerða sinna. Ef þau hlýddu leiðbeiningum Guðs fengju þau að taka þátt í fyrirætlun hans og verða foreldrar fullkomins mannkyns sem fengi að lifa á jörðinni að eilífu við farsæld og frið.

En engill nokkur sá sér leik á borði að notfæra sér mennina í eigingjörnum tilgangi. Þessi andavera gerði sig þannig að Satan sem þýðir „andstæðingur“. Með því að tala í gegnum höggorm blekkti Satan Evu. Hann sagði Evu að henni myndi vegna betur án leiðsagnar Guðs. Adam og Eva gengu til liðs við Satan og slitu þannig sambandi sínu við skaparann. Foreldrar mannkynsins tóku ranga ákvörðun og glötuðu þar með eilífu lífi sínu og gáfu okkur synd, ófullkomleika og óumflýjanlegan dauða í arf.

Guð lýsti því yfir þegar í stað hvernig hann myndi lagfæra þetta sorglega ástand og gefa afkomendum Adams færi á að lifa að eilífu. Guð sagði fyrir að ,niðji‘ – útvalinn einstaklingur – myndi í fyllingu tímans tortíma Satan og gera að engu allar þær þjáningar sem Satan, Adam og Eva ollu. (1. Mósebók 3:15) Hver yrði þessi niðji? Það kæmi í ljós með tímanum.

Á meðan reyndi Satan í sífellu að koma í veg fyrir fyrirætlun Guðs, og synd og illska mannanna magnaðist á jörðinni. Guð ákvað því að eyða hinum illu í flóði. Hann gaf hinum réttláta Nóa fyrirmæli um að smíða örk, stærðarinnar kistu sem flaut á vatni, honum og fjölskyldu hans til björgunar og öllum dýrunum sem Guð sagði honum að taka með sér í örkina.

Ári eftir að flóðið skall á stigu Nói og fjölskylda hans út úr örkinni á hreinsaða jörð. En ,niðjinn‘ hafði ekki enn komið fram.

– Byggt á 1. Mósebók kafla 1-11; Júdasarbréfinu 6, 14, 15; Opinberunarbókinni 12:9.