Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI | UM HVAÐ FJALLAR BIBLÍAN?

Fyrirætlun Guðs um endurlausn mannkyns

Fyrirætlun Guðs um endurlausn mannkyns

Guð gaf Abraham, trúföstum þjóni sínum, loforð um að fyrirheitni ,niðjinn‘ yrði afkomandi hans. „Allar þjóðir heims“ myndu hljóta blessun vegna þessa niðja. (1. Mósebók 22:18) Jakob, sonarsonur Abrahams, fluttist til Egyptalands þar sem fjölskylda hans varð seinna meir að hinni fornu Ísraelsþjóð.

Ísraelsmenn voru með tímanum hnepptir í ánauð í Egyptalandi af harðúðugum faraó. Þá vakti Guð upp spámanninn Móse. Hann leiddi þjóðina út úr landinu í gegnum Rauðahafið sem Guð hafði klofið með kraftaverki. Skömmu síðar fékk Ísraelsþjóðin lög frá Guði, þar á meðal boðorðin tíu, sem áttu að leiðbeina þeim og vernda þá. Þessi lög tilgreindu hvaða fórnir þurfti að færa til að fá fyrirgefningu synda. Undir innblæstri frá Guði sagði Móse Ísraelsmönnum að Guð mundi vekja upp annan spámann. Þessi spámaður yrði hinn fyrirheitni ,niðji‘.

Rúmlega 400 árum síðar gaf Guð Davíð konungi loforð um að sá sem koma skyldi – ,niðjinn‘ sem sagt var fyrir um í Eden – yrði konungur ríkis sem vara myndi að eilífu. Hann var Messías, frelsarinn sem Guð útvaldi til að frelsa mannkynið og gera jörðina aftur að paradís.

Guð opinberaði smám saman fleira varðandi Messías fyrir munn Davíðs og annarra spámanna. Þeir sögðu fyrir að hann yrði auðmjúkur og gæskuríkur og að undir stjórn hans myndi hungur, óréttlæti og stríð heyra sögunni til. Allir menn myndu lifa í friði og það yrði jafnvel friður milli manna og dýra. Veikindi, þjáningar og dauði, sem aldrei voru hluti af upprunalegum tilgangi Guðs, myndu hverfa og þeir sem höfðu dáið myndu verða vaktir upp til lífs á jörðinni á ný.

Guð sagði fyrir munn spámannsins Míka að Messías myndi fæðast í Betlehem og hann opinberaði spámanninum Daníel að Messías yrði síðar tekinn af lífi. Guð myndi síðan reisa hann upp frá dauðum og skipa hann konung ríkis síns á himnum. Daníel sagði einnig fyrir að ríki Messíasar myndi koma í stað allra annarra stjórnvalda og vara að eilífu. Kom Messías eins og spáð var fyrir?

– Byggt á 1. Mósebók köflunum 22-50, einnig 2. Mósebók, 5. Mósebók, 2. Samúelsbók, Sálmunum, Jesaja, Daníel, Míka, Sakaría 9:9.