Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn  |  September 2013

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Mér finnst ekki lengur eins og ég þurfi að breyta heiminum”

„Mér finnst ekki lengur eins og ég þurfi að breyta heiminum”
  • FÆÐINGARÁR: 1966

  • FÖÐURLAND: FINNLAND

  • FORSAGA: UMHVERFISVERNDARSINNI

FORTÍÐ MÍN:

Allt frá því að ég var barn hef ég verið mikill náttúruunnanndi. Við fjölskyldan nutum þess að fara í gönguferðir um hina töfrandi skóga og fallegu vötn sem umluktu heimabæ minn Jyväskylä í Finnlandi. Ég er líka mikill dýravinur og sem barn vildi ég taka mér í faðm hvern einasta hund og kött sem ég sá. Þegar ég varð eldri fannst mér hræðilegt hvað margir fóru illa með dýr og seinna meir gerðist ég meðlimur dýraverndunarsamtaka þar sem ég hitti fólk með sömu skoðanir og ég.

Við börðumst af krafti fyrir réttindum dýra og skipulögðum kröfugöngur og mótmælafundi gegn verslunum sem seldu loðfeldi og rannsóknarstofum sem gerðu tilraunir á dýrum. Við stofnuðum meira að segja ný dýraverndunarsamtök. En vegna þess að við gripum til róttækra aðgerða til að koma málefnum okkar á framfæri lentum við oft upp á kant við yfirvöld. Ég var margoft handtekinn og dreginn fyrir dómstóla.

Það var ekki bara ill meðferð á dýrum sem olli mér áhyggjum því að mér fannst erfitt að horfa upp á önnur vandamál víða í heiminum. Ég gekk því til liðs við fleiri samtök eins og mannréttindasamtökin Amnesty International og Grænfriðunga og nýtti alla mína orku í að styðja starfsemi þeirra. Ég varð málsvari fátækra, hungraðra og annarra sem minna máttu sín.

Smám saman gerði ég mér þó grein fyrir að ég gæti ekki breytt heiminum. Þrátt fyrir að þessum samtökum tækist að leysa minniháttar vandamál þá jukust bara stóru vandamálin. Það var eins og einhver ill öfl hefðu gripið um sig í heiminum og öllum stæði á sama. Mér fannst ég algerlega vanmáttugur.

BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Ég fór að hugsa um Guð og Biblíuna vegna þess að mér leið illa yfir því að geta ekkert  gert. Ég hafði áður verið í biblíunámi hjá Vottum Jehóva. Þótt ég kynni vel að meta hversu góðhjartaðir vottarnir væru og sýndu að þeir bæru umhyggju fyrir mér, var ég ekki tilbúinn að breyta lífi mínu. En núna var staðan önnur.

Ég tók fram biblíuna mína og fór að lesa í henni. Lestur hennar var mér mikil huggun. Á mörgum stöðum í Biblíunni kemur fram að við eigum að sjá vel um dýrin. Til dæmis segir í Orðskviðunum 12:10: „Gott fólk hugsar vel um dýrin sín.“ (Good News Translation) Ég gerði mér líka grein fyrir því að vandamálin í heiminum eru ekki Guði að kenna. Öllu heldur hafa vandamálin aukist af því að meirihluti mannkyns fer ekki eftir leiðbeiningum Guðs. Það snerti mig djúpt þegar ég kynntist kærleika og langlyndi Jehóva. – Sálmur 103:8-14.

Á þessum tíma fann ég pöntunarseðil fyrir bókina Hvað kennir Biblían? og sendi hann inn. Fljótlega komu til mín hjón sem eru vottar Jehóva. Þau buðu mér biblíunámskeið og ég þáði það með þökkum. Ég fór líka að sækja samkomur hjá vottunum. Mér líkaði það sem ég lærði og sannleikur Biblíunnar festi rætur í hjarta mínu.

Þökk sé Biblíunni gat ég breytt mörgu í lífi mínu. Ég hætti til dæmis að reykja og misnota áfengi. Ég hressti líka upp á útlitið og hætti að blóta. Afstaða mín gagnvart yfirvöldum breyttist einnig. (Rómverjabréfið 13:1) Ég sneri líka baki við siðlausu líferni því að áður hafði ég ekki sett mér miklar hömlur.

Það sem mér fannst einna erfiðast var að hafa rétt viðhorf til þeirra samtaka sem berjast fyrir réttindum manna og dýra. Það tók mig alllangan tíma. Í fyrstu fannst mér eins og ég væri að svíkja þessi samtök ef ég segði mig úr þeim. Á hinn bóginn lærði ég að Guðsríki er eina raunverulega vonin fyrir þennan heim. Ég ákvað því að nýta alla mína orku í að styðja þetta ríki og hjálpa öðrum að fá að kynnast því. – Matteus 6:33.

LÍFIÐ HEFUR BREYST TIL HINS BETRA:

Sem aðgerðarsinni var ég vanur að draga menn í dilka og hugsa sem svo að annaðhvort væru þeir góðir eða slæmir. Ég var tilbúinn að grípa til aðgerða gegn þeim sem ég taldi slæma. En þökk sé Biblíunni finn ég ekki lengur til haturs gagnvart öðrum mönnum. Ég reyni miklu fremur að sýna öllum ósvikinn kærleika. (Matteus 5:44) Meðal annars sýni ég þennan kærleika þegar ég segi fólki frá fagnaðarerindinu um Guðsríki. Mér finnst mjög ánægjulegt að sjá hvernig þetta göfuga starf stuðlar að farsæld og friði meðal fólks og gefur því sanna von.

Með því að leggja málin í hendur Jehóva hef ég öðlast hugarró. Ég er þess fullviss að skapari okkar leyfi hvorki að dýr né menn sæti illri meðferð að eilífu. Hann mun heldur aldrei leyfa að jörðin okkar verði eyðilögð. Þvert á móti mun hann fyrir tilstuðlan Guðsríkis bæta allt það tjón sem orðið hefur. (Jesaja 11:1-9) Það gleður mig innilega að þekkja þessi sannindi og geta hjálpað öðrum að treysta þeim. Mér finnst ekki lengur eins og ég þurfi að breyta heiminum.