„Drottinn, kenndu okkur að biðja.“ (Lúkas 11:1) Þessi beiðni kom frá einum af lærisveinum Jesú. Jesús varð við þessari bón með því, meðal annars, að segja tvær dæmisögur. Þannig kenndi hann hvernig við eigum að biðja til Guðs og hvers konar bænir hann hlustar á. Ef þú hefur einhvern tíma velt því fyrir þér hvort Guð hlusti á bænir þínar langar þig eflaust til að vita hvað Jesús sagði. – Lestu Lúkas 11:5-13.

Í fyrri dæmisögunni beinir hann athyglinni að þeim sem biður til Guðs. (Lúkas 11:5-8) Þar er sagt frá manni sem fær gest um miðja nótt en á engan mat til að bjóða honum. Í augum gestgjafans er ákaflega mikilvægt að gefa gestinum að borða. Þrátt fyrir að komið sé fram á nótt bankar hann upp á hjá vini sínum til að fá lánað brauð. Í fyrstu er vinurinn tregur til að fara á fætur vegna þess að fjölskylda hans er í fastasvefni. En gestgjafinn er ófeiminn og áleitinn og gefur sig ekki fyrr en vinur hans lætur hann hafa vistir. *

Hvað kennir þessi dæmisaga okkur um bænir? Jesús segir að við þurfum að vera þrautseig – að við þurfum að halda áfram að biðja, leita og knýja á. (Lúkas 11:9, 10) Hvers vegna? Er hann að gefa í skyn að Guð sé tregur til að hlusta á bænir okkar? Nei, alls ekki. Jesús bendir á að ólíkt vininum, sem var tregur til að verða við beiðninni, vilji Guð gjarnan uppfylla réttmætar óskir allra sem biðja til hans í trú. Og við sýnum trúfesti með því að vera þrautseig í bænum okkar. Með því að biðja aftur og aftur sýnum við Guði að við þörfnumst raunverulega þess sem við biðjum um og trúum því fyllilega að hann geti orðið við bæninni, ef hún er í samræmi við vilja hans. – Markús 11:24; 1. Jóhannesarbréf 5:14.

Í síðari dæmisögunni beinir Jesús athyglinni að þeim „sem heyrir bænir“, Jehóva Guði. (Sálmur 65:3) Jesús spyr: „Er nokkur sá faðir yðar á meðal sem gæfi barni sínu höggorm ef það biður um fisk eða sporðdreka ef það biður um egg?“ Svarið er augljóst. Enginn umhyggjusamur faðir gefur börnum sínum eitthvað sem skaðar þau. Síðan útskýrir Jesús dæmisöguna. Ef ófullkomnir menn gefa börnum sínum „góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa [jarðneskum börnum sínum] heilagan anda“, bestu gjöf sem til er. * – Lúkas 11:11-13; Matteus 7:11.

Guð vill gjarnan uppfylla réttmætar óskir allra sem biðja til hans í trú

Hvað kennir dæmisagan okkur um Jehóva Guð „sem heyrir bænir“? Jesús hvetur okkur til líta á Jehóva sem umhyggjusaman föður sem er ákaflega annt um að uppfylla þarfir barna sinna. Þess vegna tjá tilbiðjendur Jehóva honum óhikað allt sem þeim liggur á hjarta. Og þar sem þeir vita að hann vill þeim ávallt hið besta eru þeir reiðubúnir til að sætta sig fyllilega við svörin sem hann gefur þeim jafnvel þótt þau séu ekki í samræmi við þeirra eigin væntingar. *

Tillaga að biblíulestri í maí og júní

Lúkas 22-24 Jóhannes 1-21

^ gr. 2 Dæmisaga Jesú endurspeglar venjur og siði sem voru í gildi á þeim tíma. Gyðingar litu á gestrisni sem mikilvæga skyldu. Fjölskyldur bökuðu brauð fyrir einn dag í einu svo að það var algengt að fólk fengi lánað brauð ef birgðirnar entust ekki út daginn. Ef fjölskyldan var fátæk svaf hún líka saman á gólfinu í einu herbergi.

^ gr. 4 Jesús notaði oft orðin „hve miklu fremur“ til að útskýra muninn á einhverju sem er gott og þess sem er enn þá betra. Einn fræðimaður setti dæmið upp á eftirfarandi hátt: „Ef A er satt, hversu miklu sannara er þá B.“

^ gr. 5 Nánari upplýsingar um hvers konar bænir Guð hlustar á er að finna í 17. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.