Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Innihaldsríkt líf – líkjum eftir Jesú

Innihaldsríkt líf – líkjum eftir Jesú

Ykkur „ber sjálfum að breyta eins og Jesús Kristur breytti“. – 1. Jóhannesarbréf 2:6.

EINS og fram kom í greininni á undan lifði Jesús innihaldsríku lífi. Ef við viljum öðlast lífsfyllingu ættum við að líkja eftir honum og fylgja meginreglum hans.

Jehóva hvetur okkur til að gera það eins og fram kemur í versinu hér fyrir ofan. Að breyta eins og Jesús breytti þýðir að við fylgjum fyrirmynd hans nákvæmlega og förum eftir því sem hann kenndi. Ef við gerum það öðlumst við velþóknun Guðs og sanna lífsfyllingu.

Jesús gaf okkur meginreglur sem geta hjálpað okkur að breyta eins og hann breytti. Margar af þessum meginreglum er að finna í guðspjöllunum. Skoðum nokkrar þeirra og könnum hvernig við getum farið eftir þeim.

MEGINREGLA: „Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“ – Lúkas 11:28.

ÞAÐ AUÐGAR LÍFIÐ AÐ FARA EFTIR ÞESSARI MEGINREGLU:

Mönnunum var ásköpuð þörf fyrir að kynnast Guði. Við þráum að fá svör við spurningum eins og þessum: Hvers vegna erum við til? Af hverju er svona mikið um þjáningar í heiminum? Er Guði í raun og veru annt um okkur? Er líf eftir dauðann? Við þurfum að fá svör við slíkum spurningum til þess að geta notið lífsins til fulls. Jesús vissi að það væri aðeins í orði Guðs sem við gætum fundið áreiðanleg svör við þessum spurningum. Hann sagði í bæn til föður síns: „Þitt orð er sannleikur.“ (Jóhannes 17:17) Getur það sem stendur í Biblíunni hjálpað okkur að kynnast Guði og gert okkur hamingjusöm?

FRÁSAGA:

Esa var söngvari í vinsælli hljómsveit og var á góðri leið með að verða rokkstjarna. Þrátt fyrir það fannst honum eitthvað vanta í líf sitt. Hann segir: „Jafnvel þótt ég nyti þess að spila með hljómsveitinni þráði ég meiri lífsfyllingu.“ Seinna meir hitti Esa einn af vottum Jehóva. „Ég lét spurningarnar dynja á honum“, segir hann. „Það vakti áhuga minn hversu rökrétt svör hans voru svo að ég samþykkti að kynna mér Biblíuna með hjálp hans.“ Það sem Esa lærði af Biblíunni hreyfði við hjarta hans og fékk hann til að vígja líf sitt Jehóva. Hann segir: „Áður fyrr var líf mitt fullt af vandamálum og erfiðleikum en núna finnst mér lífið hafa öðlast sannan tilgang.“ *

MEGINREGLA: „Sælir eru miskunnsamir.“ – Matteus 5:7.

ÞAÐ AUÐGAR LÍFIÐ AÐ FARA EFTIR ÞESSARI MEGINREGLU:

Miskunn er fólgin í því að sýna öðrum samúð, umhyggju og tillitsemi. Jesús var miskunnsamur við þá sem voru hjálparþurfi. Hann fann innilega til með öðrum og átti þess vegna frumkvæði að því að lina þjáningar þeirra. (Matteus 14:14; 20:30-34) Þegar við líkjum eftir Jesú og sýnum miskunnsemi gefur það lífi okkar gildi og fyrir vikið verðum við hamingjusöm. (Postulasagan 20:35) Við getum sýnt öðrum miskunn með vingjarnlegum orðum og góðum verkum. Það léttir undir með þeim sem þarfnast hjálpar okkar. Stuðlar miskunnsemi virkilega að velferð okkar?

María og Carlos.

FRÁSAGA:

María og Carlos, eiginmaður hennar, hafa lagt sig fram um að vera miskunnsöm. Faðir Maríu er ekkill og síðustu ár hefur hann verið rúmfastur. Þau hjónin tóku hann inn á heimili sitt og hafa hjálpað honum á alla lund. Það hefur kostað þau margar svefnlausar nætur og oft hafa þau þurft að fara með hann í flýti á sjúkrahús þegar hann fær sykursýkisköst. Þau viðurkenna að stundum séu þau alveg uppgefin. En þau eru glöð,  alveg eins og Jesús fullyrti, vegna þess að vitneskjan um að þau veiti föður Maríu þá umönnun sem hann þarfnast er þeim mikið ánægjuefni.

MEGINREGLA: „Sælir eru friðflytjendur.“ – Matteus 5:9.

ÞAÐ AUÐGAR LÍFIÐ AÐ FARA EFTIR ÞESSARI MEGINREGLU:

Þeir sem eru „friðflytjendur“ stuðla að friði. Hvernig auðgar það lífið að stuðla að friði? Til að mynda ganga samskipti okkar við aðra betur. Það er okkur til góðs að fylgja þessum ráðum Biblíunnar: „Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi.“ (Rómverjabréfið 12:18) Þegar talað er um „alla menn“ er meðal annars átt við fjölskyldu okkar og þá sem eru ekki sömu trúar og við. Auðgar það í raun líf okkar að vera friðsöm við alla menn?

Nair

FRÁSAGA:

Lítum á það sem kona að nafni Nair kynntist af eigin raun. Í gegnum árin hefur Nair upplifað margt sem hefur reynt á viðleitni hennar til að halda friðinn, sérstaklega innan fjölskyldunnar. Allt frá því að maðurinn hennar fór frá henni fyrir um það bil 15 árum hefur hún þurft að sjá ein um uppeldi barnanna. Einn af sonum hennar átti við fíkniefnavanda að stríða. Hann missti oft stjórn á sér og ógnaði bæði henni og dóttur hennar. Nair er sannfærð um að það sem hún hefur lært af Biblíunni hafi veitt henni styrk til að vera friðsöm, jafnvel við þessar erfiðu aðstæður. Hún reynir að forðast ósætti og rifrildi. Hún leggur sig alla fram um að sýna öðrum góðvild, samkennd og skilning. (Efesusbréfið 4:31, 32) Nair lærði að vera friðsöm og er sannfærð um að það hafi hjálpað henni að eiga eins gott samband og mögulegt er við fjölskyldu sína og aðra.

HORFUM TIL FRAMTÍÐAR

Ef við fylgjum viturlegum leiðbeiningum Jesú veitir það okkur gleði og hamingju. Við getum þó aðeins öðlast innihaldsríkt líf ef við vitum hvað framtíðin ber í skauti sér. Hversu innihaldsríkt getur líf okkar verið vitandi það að með tímanum eldumst við, veikjumst og deyjum? En það eru þó staðreyndir lífsins í þessum heimi.

Við höfum hins vegar ástæðu til að vera bjartsýn. Í framtíðinni blessar Jehóva ríkulega alla þá sem leggja sig fram um að „breyta eins og Jesús Kristur breytti“. Hann lofar að bráðlega muni hann koma á fót réttlátum nýjum heimi þar sem hlýðnir menn fá að lifa að eilífu við fullkomna heilsu, eins og tilgangur Guðs var í upphafi. Í orði hans segir: „Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.

Hin 84 ára gamla María, sem minnst var á í fyrstu greininni í þessari greinaröð, hlakkar til þess tíma þegar hún sér þessi orð rætast. Hvað um þig? Myndir þú vilja vita meira um „hið sanna líf“ sem verður að veruleika undir stjórn Guðsríkis? (1. Tímóteusarbréf 6:19) Ef svo er geturðu haft samband við votta Jehóva þar sem þú býrð eða skrifað til útgefenda þessa tímarits. *

^ gr. 8 Hægt er að lesa frásögu Esa í heild í greininni „Biblían breytir lífi fólks – Ég var stjórnlaus“

^ gr. 18 Margir hafa komist að raun um hvað Biblían segir um hin ýmsu málefni með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.