Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Þau vildu að ég kæmist sjálfur að sannleikanum“

„Þau vildu að ég kæmist sjálfur að sannleikanum“
  • FÆÐINGARÁR: 1982

  • FÖÐURLAND: DÓMINÍSKA LÝÐVELDIÐ

  • FORSAGA: ALINN UPP SEM MORMÓNI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist í borginni Santo Domingo í Dóminíska lýðveldinu og var yngstur fjögurra systkina. Foreldrar mínir voru vel menntaðir og vildu að við fengjum gott uppeldi innan um heiðarlegt fólk. Fjórum árum áður en ég kom í heiminn hittu foreldrar mínir mormónatrúboða. Þeim þótti mikið til koma hversu snyrtilegir og kurteisir þessir ungu menn voru. Það leið ekki á löngu þar til þau ákváðu að við yrðum ein af fyrstu fjölskyldunum á eyjunni sem gengju í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu sem einnig er nefnd Mormónakirkjan.

Á uppvaxtarárum mínum naut ég þess að taka þátt í félagslífinu innan kirkjunnar og ég kunni að meta hversu mikla áherslu mormónarnir lögðu á fjölskyldulíf og gott siðferði. Ég var stoltur af því að vera mormóni og hafði það að markmiði að gerast trúboði.

Þegar ég var átján ára fluttumst við til Bandaríkjanna með það fyrir augum að ég stundaði framhaldsnám. Um það bil ári seinna komu móðursystir mín og maðurinn hennar í heimsókn til okkar í Flórída. Þau eru bæði vottar Jehóva og buðu okkur að koma með sér á biblíufræðslumót. Það vakti aðdáun mína að allir viðstaddir flettu upp í sinni eigin biblíu og skrifuðu hjá sér minnispunkta. Ég bað því um blað og penna og fór að gera slíkt hið sama.

Frænka mín og maðurinn hennar vissu að mig langaði til að verða trúboði og spurðu mig því eftir mótið hvort ég hefði áhuga á að læra meira um Biblíuna. Mér leist vel á það vegna þess að ég hafði fengið miklu meiri fræðslu í Mormónsbók en Biblíunni.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Við ræddum um Biblíuna í síma og þau hjónin hvöttu mig ávallt til að bera trúarskoðanir mínar saman við kenningar Biblíunnar. Þau vildu að ég kæmist sjálfur að sannleikanum.

 Ég hafði tileinkað mér margar trúarhugmyndir mormóna en ég var samt ekki viss um hvernig þær samræmdust Biblíunni. Frænka mín sendi mér blaðið Vaknið! frá 8. nóvember 1995 sem gefið er út af Vottum Jehóva. Í því var að finna greinar um mormónatrú. Það kom mér á óvart að ég þekkti ekki margar af kenningum þeirra. Ég ákvað þess vegna að fara inn á opinbert vefsetur Mormóna til að athuga hvort það sem ég las í Vaknið! væri rétt. Það reyndist vera rétt og ég fékk það enn frekar staðfest þegar ég skoðaði söfn Mormóna í Utah.

Ég hafði alltaf trúað því að Mormónsbók og Biblían mynduðu eina heild. En þegar ég fór að kynna mér Biblíuna nánar tók ég eftir að kenningar mormóna stönguðust á við kenningar hennar. Í Biblíunni segir til dæmis í Esekíel 18:4 að sálin deyi. (Biblían 1981) Hins vegar segir í Mormónsbók í Ölmu 42:9: „Sálin var því ódauðleg.“

Þetta ósamræmi við kenningar Biblíunnar var ekki það eina sem fór fyrir brjóstið á mér. Margar kenningar mormóna bera sterkan keim af þjóðernishyggju og það angraði mig líka. Til dæmis er mormónum kennt að aldingarðurinn Eden hafi verið í Jacksonsýslu í Missouri í Bandaríkjunum. Og forystumenn kirkjunnar kenna að „þegar Guðsríki tekur völd muni bandaríski fáninn blakta flekklaus og tígulegur á flaggstöng frelsis og jafnréttis“.

Ég velti því fyrir mér hvað yrði um föðurland mitt, og í raun öll önnur lönd, samkvæmt þessari kenningu. Eitt kvöldið ræddi ég um þetta í síma við ungan mormóna sem var í trúboðsþjálfun. Ég spurði hann hreint út hvort hann myndi berjast gegn trúbræðrum sínum ef landið hans færi í stríð við þeirra. Mér til mikillar undrunar játaði hann því. Ég rannsakaði kenningar trúar minnar enn frekar og ráðgaðist líka við ábyrga leiðtoga Mormónakirkjunnar. Mér var sagt að svörin við spurningum mínum væru leyndardómar sem yrðu opinberaðir þegar sannleiksljósið yrði bjartara.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör þeirra. Ég fór að velta því vandlega fyrir mér hvers vegna mig langaði svona mikið til að verða mormónatrúboði. Það rann upp fyrir mér að ein af ástæðunum væri sú að mig langaði til að hjálpa öðrum. Það höfðaði líka til mín að mikil virðing er borin fyrir trúboðum. En hvað Guð varðaði þá vissi ég ósköp lítið um hann. Jafnvel þótt ég hefði oft lesið í Biblíunni áður þá gerði ég mér enga grein fyrir dýrmætum boðskap hennar. Ég vissi ekki hver fyrirætlun Guðs var með jörðina og mennina.

ÞAÐ HEFUR ORÐIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Þegar ég kynnti mér Biblíuna með hjálp votta Jehóva lærði ég meðal annars hvað Guð heitir, hvað gerist við dauðann og hvaða hlutverki Jesús gegnir í fyrirætlun Guðs. Loksins fór ég að skilja hvað stóð í þessari stórkostlegu bók og ég hafði ánægju af því að segja öðrum frá þeim sannindum sem ég lærði. Ég hafði alltaf vitað að Guð væri til en núna var hann eins og náinn vinur sem ég gat talað við í bæn. Ég lét skírast sem vottur Jehóva 12. júlí 2004 og hálfu ári seinna byrjaði ég sem boðberi í fullu starfi.

Í fimm ár starfaði ég við höfuðstöðvar Votta Jehóva í Brooklyn í New York. Mér fannst yndislegt að geta að lagt hönd á plóginn við að búa til biblíur og biblíutengd rit sem milljónir jarðarbúa njóta góðs af. Ég nýt þess að geta hjálpað öðrum að kynnast Guði.