Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 LÍKJUM EFTIR TRÚ ÞEIRRA

Hann talar enn þótt dáinn sé

Hann talar enn þótt dáinn sé

ABEL fylgdist með sauðfé sínu sem var á beit í gróðursælli hlíðinni. Álengdar sá hann glitta í daufa skímu. Hann vissi að skíman barst af logandi sverði sem snerist í sífellu og lokaði leiðinni inn í Edengarðinn. Foreldrar hans höfðu eitt sinn búið þar en hvorki þeir né börn þeirra gátu farið þangað núna. Sjáðu fyrir þér síðdegisgoluna leika um hár Abels þegar hann lítur upp til himins og hugsar um skapara sinn. Myndu mennirnir einhvern tímann komast í sátt við Guð á nýjan leik? Abel þráði ekkert heitar en það.

Nú á dögum talar Abel til þín. Hlustarðu á hann? Þú hugsar kannski með þér að það sé ekki hægt. Það eru næstum 60 aldir síðan þessi næstelsti sonur Adams dó og bein hans eru fyrir löngu orðin að mold. Biblían kennir enn fremur að „hinir dauðu vita ekki neitt“. (Prédikarinn 9:5, 10) Í Biblíunni er auk þess hvergi vitnað í neitt sem Abel sagði. Hvernig getur hann þá talað til okkar?

Páli postula var innblásið að segja um Abel: „Með trú sinni talar hann enn þótt dáinn sé.“ (Hebreabréfið 11:4) En hvernig talar Abel „með trú sinni“? Hann var fyrsti maðurinn sem ræktaði með sér þennan afbragðsgóða eiginleika. Trú hans var sterk og ósvikin og við ættum að taka hann okkur til fyrirmyndar. Ef við kynnum okkur trú Abels og leitumst við að líkja eftir henni erum við í raun að hlusta á hann tala til okkar.

En hvernig getum við kynnst Abel og fræðst um trú hans þar sem lítið er sagt frá honum í Biblíunni? Skoðum það betur.

AÐ ALAST UPP VIÐ UPPHAF MANNKYNS

Abel fæddist fljótlega eftir að fyrstu hjónin voru sköpuð. Jesús talaði seinna um að Abel hefði verið uppi við „grundvöllun heims“. (Lúkas 11:50, 51) Jesús átti þar augljóslega við mannheiminn sem hefur von um að verða leystur undan synd. Þótt Abel væri fjórða mannveran á jörðinni virðist hann hafa verið sú fyrsta sem Guð sá að hægt væri að endurleysa. * Það er því augljóst að Abel óx úr grasi innan um einstaklinga sem voru Guði ekki trúir.

Dimmur skuggi lá yfir mannfólkinu enda þótt það hefði ekki búið lengi á jörðinni. Adam og Eva, foreldrar Abels, voru án efa falleg og full af lífsorku. Þau höfðu hins vegar gert sig sek um alvarlegt brot og vissu vel af því. Í byrjun voru þau fullkomin og áttu eilíft líf fyrir höndum. En þá gerðu þau uppreisn gegn Jehóva Guði og voru rekin burt úr Edengarðinum sem hafði verið heimili þeirra. Þau settu sínar eigin langanir ofar öllu öðru, jafnvel ofar þörfum barna sinna, og glötuðu þar af leiðandi fullkomleikanum og eilífu lífi. – 1. Mósebók 2:15 – 3:24.

Adam og Eva komust fljótt að því að lífið fyrir utan aldingarðinn var erfitt. Þegar þeim fæddist fyrsti sonurinn nefndu þau hann þó Kain, sem getur þýtt ,að geta af sér‘, og Eva sagði: „Ég hef eignast sveinbarn með hjálp Drottins.“ Orð hennar  gefa til kynna að hún hafi verið að hugsa um fyrirheitið sem Jehóva gaf í aldingarðinum. Hann sagði fyrir að kona nokkur myndi geta af sér „niðja“ og að þessi niðji myndi í fyllingu tímans tortíma hinum vonda sem hafði afvegaleitt Adam og Evu. (1. Mósebók 3:15; 4:1) Taldi Eva sér trú um að hún væri konan í spádóminum og að Kain væri fyrirheitni niðjinn?

Hafi hún gert það skjátlaðist henni hrapallega. Og hafi þau hjónin haldið slíkum hugmyndum að Kain meðan hann var að alast upp hefur það eflaust ýtt undir stolt og stærilæti hjá honum. Seinna meir eignaðist Eva annan son en um hann er ekki að finna neinar hástemmdar yfirlýsingar eins og um fyrsta soninn. Þau gáfu honum nafnið Abel sem kann að þýða „andvari“ eða „hégómi“. (1. Mósebók 4:2) Merkir það að þau höfðu ekki sömu væntingar um Abel, að þau bundu minni vonir við hann en Kain? Við vitum það ekki með vissu.

Hvað sem því líður geta foreldrar nú á dögum dregið lærdóm af fordæmi fyrstu foreldranna. Elur þú á stolti, metnaði og eigingirni hjá börnum þínum með því sem þú segir og gerir? Eða kennir þú þeim að elska Jehóva Guð og byggja upp vináttu við hann? Fyrstu foreldrarnir stóðu sig því miður ekki í stykkinu. En þrátt fyrir það var ekki öll von úti fyrir afkomendur þeirra.

HVAÐ HJÁLPAÐI ABEL AÐ RÆKTA MEÐ SÉR STERKA TRÚ Á GUÐ?

Meðan drengirnir voru ungir kenndi Adam þeim eflaust að vinna þau störf sem þurfti til að fjölskyldan hefði í sig og á. Kain gerðist akuryrkjumaður en Abel fjárhirðir.

Abel gerði samt nokkuð sem var langtum mikilvægara. Með árunum ræktaði hann með sér sterka trú, þennan fallega eiginleika sem Páll skrifaði seinna um. Hugsaðu þér. Á jörðinni hafði ekki einn einasti maður gefið Abel gott fordæmi með trúfesti sinni. Hvernig gat hann þá ræktað með sér sterka trú á Jehóva Guð? Lítum á þrennt sem hefur eflaust hjálpað honum að byggja upp slíka trú.

Sköpunarverk Jehóva.

Jehóva hafði að vísu lagt bölvun á akurlendið og þar uxu nú þyrnar og þistlar sem gerðu það að verkum að erfitt var að yrkja jörðina. Samt gaf landið af sér ríkulega fæðu sem hélt lífinu í fjölskyldunni. Og Jehóva hafði ekki lagt bölvun á dýrin, þar á meðal fuglana og fiskana. Engin bölvun hvíldi heldur á fjöllum, vötnum, ám og höfum, né á himninum, skýjunum, sól, tungli eða stjörnum. Allt í kringum sig sá Abel merki um djúpstæðan kærleika, visku og gæsku Jehóva Guðs, skapara allra hluta. (Rómverjabréfið 1:20) Þegar Abel ígrundaði handaverk og eiginleika Guðs styrktist trú hans.

Abel tók sér eflaust tíma til að hugsa um samband sitt við Guð. Sjáðu hann fyrir þér annast hjörðina. Fjárhirðir þurfti að ganga tímunum saman með sauðféð. Hann leiddi þessar ljúfu skepnur um fjöll og dali, yfir ár og læki. Hann lagði á sig mikið erfiði til að finna grösugasta beitilandið, besta vatnsbólið og öruggasta áningarstaðinn. Af öllum sköpunarverum Guðs virtist sauðféð þurfa hvað mest á vernd og leiðsögn mannsins að halda,  rétt eins og það væri skapað í þeim tilgangi. Sá Abel að hann hafði líka þörf á að einhver langtum vitrari og máttugri en mannfólkið leiðbeindi honum, verndaði hann og annaðist? Eflaust tjáði hann slíkar hugsanir oft í bæn og fyrir vikið styrktist trú hans.

Þegar Abel virti fyrir sér sköpunarverkið styrktist trú hans á kærleiksríkan skapara.

Loforð Jehóva.

Adam og Eva hljóta að hafa sagt sonum sínum frá því hvers vegna þau voru rekin burt úr Edengarðinum. Abel hafði því margt að hugleiða.

Jehóva sagði að akurlendið yrði bölvað og Abel gat séð þyrnana og þistlana sem voru til vitnis um það. Jehóva sagði einnig fyrir að Eva myndi þjást þegar hún væri barnshafandi og fæddi börn sín. Þegar systkini Abels fæddust eitt af öðru gerði hann sér eflaust ljóst að þessi orð höfðu líka ræst. Jehóva sá fyrir að Eva myndi hafa óhóflega þörf fyrir ást og athygli frá eiginmanni sínum og að Adam myndi hins vegar drottna yfir henni. Abel sá þennan sorglega veruleika með eigin augum. Hann sá að allt sem Jehóva hafði sagt fyrir rættist í smáatriðum. Abel hafði því góðar ástæður fyrir því að treysta fyrirheiti Guðs um „niðja“ sem seinna meir myndi bæta skaðann sem hlaust af uppreisninni í Eden. – 1. Mósebók 3:15-19.

Þjónar Jehóva.

Enginn úr hópi mannanna hafði sýnt Abel gott fordæmi. En mennirnir voru þó ekki einu skynsemigæddu sköpunarverurnar á jörðinni á þeim tíma. Þegar Adam og Eva voru rekin burt úr Eden gætti Jehóva þess að hvorki þau né afkomendur þeirra kæmust inn í þennan paradísargarð. Jehóva sá til þess með því að setja kerúba, afar háttsetta engla, og logandi sverð, sem snerist í sífellu, við inngang garðsins. – 1. Mósebók 3:24.

Ímyndaðu þér hvaða áhrif það hefur haft á Abel að fylgjast með kerúbunum á uppvaxtarárum sínum. Þeir birtust í mannsmynd og því gat Abel séð hve gífurlega máttugir þeir voru. Hann fylltist líka lotningu við að horfa á sverðið sem logaði og snerist í sífellu. Varð Abel einhvern tímann vitni að því að kerúbarnir fengju nóg og yfirgæfu stöður sínar? Nei, þessar skynsemigæddu og máttugu sköpunarverur færðu sig ekki úr stað svo árum og áratugum skipti. Abel varð þannig ljóst að Jehóva Guð ætti sér réttláta og trúfasta þjóna. Kerúbarnir sýndu Jehóva þess konar hollustu og hlýðni sem Abel hafði ekki séð hjá fjölskyldu sinni. Fordæmi þessara engla hlýtur að hafa styrkt trú hans.

Alla sína ævi sá Abel að kerúbarnir voru Jehóva trúfastir og hlýðnir.

Þegar Abel ígrundaði allt það sem hann hafði lært um Jehóva af sköpunarverkinu, fyrirheitum hans og fordæmi þjóna hans varð trú hans æ sterkari. Það má svo sannarlega segja að Abel tali til okkar með fordæmi sínu. Það er ungu fólki eflaust hughreysting að vita að það geti ræktað með sér ósvikna trú á Jehóva Guð, óháð því hvað aðrir í fjölskyldunni gera. Nú á dögum sjáum við undur sköpunarverksins allt í kringum okkur, við höfum aðgang að Biblíunni í heild og við getum líkt eftir góðu fordæmi fjölmargra trúfastra karla og kvenna. Það er því af nógu að taka til að byggja upp sterka trú.

AF HVERJU VAR FÓRN ABELS TIL FYRIRMYNDAR?

Eftir því sem trú Abels á Jehóva styrktist langaði hann til að sýna hana í verki. En hvað gæti maður af holdi og blóði gert fyrir skapara alheims? Guð þurfti vissulega ekki á því að halda að mennirnir færðu honum gjafir eða réttu honum hjálparhönd. Með tímanum öðlaðist Abel skilning á mikilvægum sannindum: Ef hann gæfi Jehóva einfaldlega það besta sem hann átti – og gerði það af réttum hvötum – myndi það gleðja ástríkan föður hans á himnum.

Abel bjó sig því undir að fórna nokkrum sauðum úr hjörð sinni. Hann valdi þá bestu úr hjörðinni, það er að segja frumburðina, og fórnaði líka því sem hann áleit dýrmætasta hluta skepnunnar. Kain reyndi einnig að öðlast blessun Guðs og velþóknun með því að velja hluta af uppskeru sinni til fórnar. En hvatir hans voru ekki þær sömu og Abels. Það kom berlega í ljós þegar bræðurnir báru fórnirnar fram fyrir Jehóva.

Abel færði fórn sína í trú en Kain gerði það ekki.

Synir Adams kunna báðir að hafa reist ölturu og notað eld til að færa fórnirnar. Þeir völdu sér hugsanlega stað í augsýn kerúbanna sem voru einu fulltrúar Jehóva á jörðinni á þeim tíma. Hver voru viðbrögð Jehóva? Frásagan segir: „Drottinn leit með  velþóknun til Abels og fórnar hans.“ (1. Mósebók 4:5, Biblían 1981) Þess er ekki getið hvernig Guð lét velþóknun sína í ljós. En af hverju leit hann með velþóknun á Abel?

Hafði það eitthvað með fórn hans að gera? Abel bar fram lifandi skepnu að fórn, hann úthellti dýrmætu blóði hennar sem táknar lífið. Hann kann að hafa gert sér ljóst hversu mikils virði slík fórn væri. Öldum eftir daga Abels fyrirskipaði Guð að lýtalaust lamb yrði fært að fórn. Það átti að fyrirmynda fórn fullkomins sonar hans því að saklausu blóði hans yrði úthellt. Í Biblíunni er hann kallaður „Guðs lamb“. (Jóhannes 1:29; 2. Mósebók 12:5-7) Abel gat þó vissulega ekki vitað allt þetta eða skilið það til fulls.

En eitt vitum við fyrir víst: Abel fórnfærði því allra besta sem hann átti. Jehóva leit ekki aðeins með velþóknun á fórnina heldur einnig á þann sem færði hana. Ósvikin trú og kærleikur til Jehóva knúði Abel til verka.

Öðru máli gegndi um Kain. Í Biblíunni segir: „Til Kains og fórnar hans leit [Jehóva] ekki með velþóknun.“ (1. Mósebók 4:5, Biblían 1981) Það var í sjálfu sér ekkert að fórninni sem Kain færði. Í lögmáli Guðs var seinna gefin heimild fyrir því að færa fórnir af jarðargróðanum. (3. Mósebók 6:14, 15) Í Biblíunni er hins vegar sagt um Kain: „Verk hans voru vond.“ (1. Jóhannesarbréf 3:12) Líkt og margir nú á dögum hélt Kain augljóslega að það væri nóg að þykjast þjóna Guði út á við. Það sást fljótt af breytni hans að hann skorti ósvikna trú og kærleika til Jehóva.

Leitaðist Kain við að fylgja fordæmi Abels þegar honum varð ljóst að hann hafði ekki öðlast velþóknun Jehóva? Nei, heiftin gagnvart bróður hans ólgaði innra með honum. Jehóva sá hvað var að gerast í hjarta Kains og reyndi þolinmóður að ná til hans. Jehóva varaði hann við því að hann væri kominn á hættulega braut sem gæti leitt hann til þess að drýgja alvarlega synd. Hann sagði enn fremur að Kain gæti verið „upplitsdjarfur“, það er að segja fengið velþóknun sína, ef hann aðeins breytti um stefnu. – 1. Mósebók 4:6, 7.

Kain lét viðvörun Guðs sem vind um eyru þjóta og bað yngri bróður sinn að ganga með sér út á akurinn. Þar réðst Kain á Abel, sem átti sér einskis ills von, og myrti hann. (1. Mósebók 4:8) Það má því segja að Abel hafi verið fyrsta fórnarlamb trúarofstækis, fyrsti píslarvotturinn. En þótt hann væri dáinn lauk sögu hans ekki þar.

Í táknrænni merkingu hrópaði blóð Abels til Jehóva Guðs og kallaði á hefnd eða réttlæti. Og Guð sá til þess að réttlætinu yrði fullnægt með því að refsa Kain fyrir glæp hans. (1. Mósebók 4:9-12) Mikilvægara er þó að trúarstaðfesta Abels talar til okkar nú á dögum. Ævi hans, sem hugsanlega spannaði hundrað ár, var stutt miðað við hve lengi fólk lifði á þeim tíma. Abel notaði hins vegar líf sitt vel. Hann dó vitandi að Jehóva, faðir hans á himnum, elskaði hann og hafði velþóknun á honum. (Hebreabréfið 11:4) Við getum því verið alveg viss um að Jehóva geymi hann í takmarkalausu minni sínu og reisi hann upp til lífs í paradís á jörð. (Jóhannes 5:28, 29) Verður þú þar til að taka á móti honum? Það má vel vera svo framarlega sem þú ert staðráðinn í að hlusta á Abel tala og líkja eftir óbifanlegri trú hans.

^ gr. 8 Orðalagið „grundvöllun heims“ ber með sér hugmyndina um að sá sæði og gefur til kynna barneignir. Orðalagið vísar því til fyrsta barnsins sem fæddist á jörðinni. En nú var Kain fyrsti maðurinn sem fæddist á jörðinni. Af hverju nefndi Jesús þá Abel í sambandi við „grundvöllun heims“? Ákvarðanir Kains og breytni jafngiltu því að gera vísvitandi uppreisn gegn Jehóva Guði. Kain virðist ekki eiga möguleika á upprisu og endurlausn, frekar en foreldrar hans.