Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn  |  Október 2009

Góð trú stuðlar að virðingu fyrir orði Guðs

Góð trú stuðlar að virðingu fyrir orði Guðs

JESÚS stuðlaði að virðingu fyrir orði Guðs, Biblíunni. Það kom skýrt í ljós þegar djöfullinn freistaði hans. (Matteus 4:4-11) Hvernig brást Jesús til dæmis við þegar Satan reyndi að mana hann til að breyta nokkrum steinum í brauð? Jesús stóðst freistinguna með því að vitna í innblásin orð Móse sem þú getur lesið í 5. Mósebók 8:3. Og hvað gerði Jesús þegar Satan bauð honum vald yfir öllum ríkjum heims í skiptum fyrir eina tilbeiðsluathöfn? Hann hafnaði boðinu með því að vitna í biblíulega meginreglu sem er að finna í 5. Mósebók 6:13.

Hugsaðu þér. Þótt hann væri sonur Guðs reiddi hann sig á Biblíuna þegar hann kenndi. Og hann tók aldrei hefðir manna fram yfir orð Guðs. (Jóhannes 7:16-18) Margir trúarleiðtogar á dögum Jesú báru hins vegar ekki sömu virðingu fyrir orði Guðs og hann. Af hverju? Þeir höfðu leyft erfikenningum að skyggja á heilagar ritningar. Jesús sagði umbúðalaust við þessa trúarleiðtoga: „Þið ógildið orð Guðs með erfikenningu ykkar. Hræsnarar, sannspár var Jesaja um ykkur er hann segir: Þessir menn heiðra mig með vörunum en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig því að þeir kenna það eitt sem menn hafa samið.“ − Matteus 15:6-9.

Mörg trúarbrögð heims, bæði kristin og ekki kristin, segjast bera virðingu fyrir  Biblíunni. En hvað þekkir þú mörg trúarbrögð sem hafna hefðum og erfikenningum manna þegar þær stangast á við skýrar kenningar í orði Guðs? Tökum tvö dæmi.

MÁLEFNI: Trúarlegir titlar.

BIBLÍAN KENNIR:

Jesús fordæmdi trúarleiðtoga síns tíma fyrir að sækjast eftir upphefð og virðingartitlum. Hann sagði um þessa menn: „Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.“ Svo sagði Jesús við lærisveina sína: „Þér skuluð ekki láta kalla yður meistara því einn er yðar meistari og þér öll bræður og systur. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.“ − Matteus 23:1-10.

SPURNING:

Sækjast leiðtogar þessa trúarhóps eftir því að bera virðulega titla og ná frama í samfélaginu, eða hlýða þeir fyrirmælum Jesú um að forðast slíkt?

MÁLEFNI: Notkun líkneskja í tilbeiðslu.

BIBLÍAN KENNIR:

„Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau.“ − 2. Mósebók 20:4, 5.

Jóhannes postuli skrifaði kristnum mönnum: „Gætið yðar fyrir skurðgoðunum.“ − 1. Jóhannesarbréf 5:21, Biblían 1981.

SPURNING:

Hlýðir þessi trú skýrum fyrirmælum Biblíunnar um að nota ekki líkneski eða skurðgoð í tilbeiðslunni á Guði?

Þú getur fundið réttu leiðina

Þrátt fyrir að valkostirnir í trúmálum séu nánast óendanlegir geturðu fundið leiðina sem liggur til lífsins. Það er margt sem einkennir þá trú sem er „hrein og flekklaus . . . fyrir Guði“. (Jakobsbréfið 1:27) Ritningarstaðirnir, sem rætt er um í þessum greinum, geta verið eins og vegvísar sem hjálpa þér að finna þá trú.

Hvernig væri að spyrja votta Jehóva spurninganna sem hafa komið fram í þessum greinum og heyra hvað þeir segja? Þegar þú hugleiðir svörin skaltu fylgja fordæmi þeirra sem bjuggu í Beroju á fyrstu öld. Eftir að hafa heyrt Pál postula prédika og kenna „rannsökuðu [þeir] daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið“. (Postulasagan 17:11) Ef þú berð virðingu fyrir orði Guðs, líkt og Berojumenn, og ert iðinn við að lesa það og rannsaka muntu finna veginn til lífsins. En hvort þú gengur síðan eftir þessum vegi er ákvörðun sem þú verður að taka.

Hvaða trú hvetur fólk til að lesa og rannsaka Biblíuna og athuga hvort það sem það lærir sé satt?