Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 Kenndu börnunum

Jósía valdi að gera það sem var rétt

Jósía valdi að gera það sem var rétt

FINNST þér erfitt að gera það sem er rétt? * — Ef þú svarar játandi, myndu flestir vera sammála þér. Jafnvel fullorðnu fólki finnst erfitt að gera það sem það veit að er rétt. Skoðum hvers vegna það var sérstaklega erfitt fyrir Jósía að taka réttar ákvarðanir. Veistu hver hann var? —

Jósía var sonur Amóns Júdakonungs, sem var einungis 16 ára þegar Jósía fæddist. Amón var mjög vondur maður eins og faðir hans, Manasse konungur, hafði verið. Manasse hafði verið grimmur stjórnandi í mörg ár. En svo var hann hertekinn af Assýringum og fluttur sem fangi til fjarlægs lands sem heitir Babýlon. Á meðan hann sat í fangelsi sárbændi hann Jehóva um að fyrirgefa sér og Jehóva gerði það.

Þegar Manasse var laus úr fangavistinni, sneri hann til baka til Jerúsalem og byrjaði aftur að ríkja sem konungur. Hann leiðrétti þá slæmu hluti sem hann hafði gert og hjálpaði fólkinu að þjóna Jehóva. Hann hlýtur að hafa orðið sorgmæddur þegar Amón sonur hans fylgdi ekki góðu fordæmi hans. Um þetta leyti fæddist Jósía. Biblían segir ekkert um það hversu mikið samband Manasse hafði við barnabarnið sitt. En heldurðu að hann hafi kannski hjálpað Jósía að þjóna Jehóva? —

Þegar Jósía var aðeins sex ára gamall, dó afi hans, og faðir hans, Amón, varð konungur. Amón ríkti einungis í tvö ár áður en þjónar hans drápu hann. Jósía tók þá við sem konungur Júda aðeins átta ára gamall. (2. Kroníkubók, kafli 33) Hvernig heldurðu að það hafi gengið? Heldurðu að Jósía hafi valið að fylgja slæmu fordæmi föður síns, Amón, eða góðu fordæmi Manasse, afa síns, sem iðraðist? —

Jafnvel þó að Jósía væri ungur var hann staðráðinn í að þjóna Jehóva. Hann valdi að hlusta á ráðleggingar þeirra sem elskuðu Jehóva í stað þess að hlusta á vini föður síns. Jósía var aðeins átta ára en hann vissi að það var rétt að hlusta á fólk sem elskaði Guð. (2. Kroníkubók 34:1, 2) Myndirðu  vilja vita eitthvað um fólkið sem ráðlagði Jósía og sem var honum til fyrirmyndar? —

Einn af þeim sem var Jósía góð fyrirmynd var spámaðurinn Sefanía. Hann var ættingi Jósía, hugsanlega afkomandi hins góða konungs Hiskía, sem var faðir Manasse. Á fyrstu stjórnarárum Jósía konungs skrifaði Sefanía biblíubók sem ber nafn hans. Sefanía varaði við því slæma sem myndi koma fyrir þá sem voru óhlýðnir og Jósía hlustaði greinilega á þessar aðvaranir.

Jeremía var líka uppi á þessum tíma, þú hefur örugglega heyrt um hann áður. Jeremía og Jósía ólust upp á svipuðum slóðum og þjónuðu báðir Jehóva frá unga aldri. Jehóva innblés Jeremía að skrifa biblíubókina sem ber nafn hans. Þegar Jósía dó í bardaga orti Jeremía sérstakt sorgarkvæði þar sem hann tjáir mikla sorg sína. (2. Kroníkubók 35:25) Við getum gert okkur í hugarlund hversu mikið þeir hljóta að hafa hvatt hvorn annan til að vera Jehóva trúfastir.

Hvernig ætli Sefanía og Jeremía hafi hjálpað Jósía að gera það sem var rétt?

Hvað heldurðu að þú getir lært af Jósía? — Ef þú, líkt og hann, átt pabba sem þjónar ekki Jehóva, þekkirðu þá einhvern annan sem gæti hjálpað þér að læra um Jehóva Guð? Kannski gæti það verið mamma þín, afi þinn eða amma, eða annar ættingi. Það gæti líka verið einhver annar þjónn Jehóva sem mamma þín myndi samþykkja að fengi að fræða þig um Biblíuna.

Þrátt fyrir að Jósía væri ungur að aldri var hann nógu gamall til þess að vita að hann ætti að velja sér vini sem þjónuðu Jehóva. Vonandi gerir þú það sama og velur að gera það sem er rétt!

^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir barn, geturðu stoppað við þankastrikið og hvatt barnið til þess að tjá sig.