Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn  |  2008-08-01

 Kenndu börnunum

Samúel hélt áfram að breyta rétt

Samúel hélt áfram að breyta rétt

HEFURÐU einhvern tíma séð aðra hegða sér illa? — * Fyrir rúmlega 3000 árum varð Samúel vitni að slíku. Hann bjó á stað þar sem maður myndi ekki búast við að fólk hegðaði sér illa. Það var í tjaldbúð Guðs, sem var tilbeiðslustaður, í borginni Síló. Við skulum skoða hvernig stóð á því að Samúel bjó í tjaldbúðinni.

Áður en Samúel fæddist langaði Hönnu, móður hans, mjög mikið til að eignast barn. Hún bað til Guðs um málið eitt sinn þegar hún heimsótti tjaldbúðina. Hún bað svo ákaft að varirnar titruðu. Elí æðstiprestur hélt að hún væri drukkin. En þegar hann komst að því að svo var ekki heldur að hún var miður sín blessaði hann hana og sagði: „Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ — 1. Samúelsbók 1:17.

Síðar fæddist Samúel og Hanna var svo glöð að hún sagði við mann sinn Elkana: ‚Þegar Samúel hefur verið vaninn af brjósti fer ég með hann til tjaldbúðarinnar svo að hann þjóni Guði þar.‘ Og hún stóð við það. Samúel var þá kannski orðinn fjögurra eða fimm ára.

Elí var orðinn gamall og synir hans, þeir Hofní og Pínehas, tilbáðu ekki Jehóva á réttan hátt. Þeir stunduðu meira að segja kynlíf með konum sem heimsóttu tjaldbúðina. Hvað finnst þér að faðir þeirra hefði átt að gera? — Já, hann hefði átt að aga þá og ekki leyfa þeim að hegða sér svona illa.

Samúel óx úr grasi í tjaldbúðinni og hann hefur líklega vitað hvernig synir Elí hegðuðu sér. En fylgdi hann fordæmi þeirra? — Nei, hann hélt áfram að breyta rétt alveg eins og foreldrar hans höfðu kennt honum. En það kemur ekki á óvart að Jehóva skyldi vera reiður við Elí. Hann sendi meira að segja  spámann til hans til að láta hann vita hvernig hann myndi refsa fjölskyldu hans og þá sérstaklega þessum vondu sonum hans. — 1. Samúelsbók 2:22-36.

Samúel hélt áfram að þjóna við tjaldbúðina með Elí. Það gerðist svo nótt eina, þegar Samúel var sofandi, að hann heyrði rödd kalla á sig. Hann hljóp til Elí en hann sagðist ekki hafa kallað. Þetta gerðist aftur. Og þegar það hafði gerst í þriðja sinn sagði Elí að Samúel skyldi svara: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Þegar Samúel gerði það talaði Jehóva við hann. Veistu hvað hann sagði við hann? —

Guð sagði Samúel hvernig hann ætlaði að refsa Elí og fjölskyldu hans. Morguninn eftir var Samúel hræddur við að segja Elí frá því sem Jehóva hafði sagt honum. En Elí bað Samúel: „Leyndu mig því ekki.“ Samúel sagði honum því að lokum allt sem Jehóva hafði sagt honum að hann ætlaði að gera — alveg eins og spámaður Jehóva hafði áður sagt Elí. Elí svaraði: „[Jehóva] gerir það sem honum þóknast.“ Seinna dóu Hofní og Pínehas og Elí dó einnig. — 1. Samúelsbók 3:1-18.

En „Samúel óx og Drottinn var með honum“. Þegar þessir atburðir gerðust var hann líklega orðinn unglingur, en það er mikilvægur tími í lífi ungs fólks. Heldurðu að það hafi verið auðvelt fyrir Samúel að halda áfram að breyta rétt þegar aðrir gerðu það ekki? — Þó að það hafi ekki alltaf verið auðvelt þjónaði Samúel Jehóva trúfastur alla ævi. — 1. Samúelsbók 3:19-21.

Hvað með þig? Ætlarðu að vera eins og Samúel þegar þú verður stór? Ætlarðu að halda áfram að gera það sem er rétt? Munt þú hlýða því sem Biblían kennir og því sem foreldrar þínir hafa kennt þér? Ef þú gerir það gleður þú bæði Jehóva og foreldra þína.

^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir börn er þankastrikinu ætlað að minna þig á að stoppa og beina spurningunni til þeirra.