SKIPTIR máli hvort nafn Guðs stendur í Biblíunni? Guð var greinilega þeirrar skoðunar því að nafn hans stendur næstum 7.000 sinnum í hebreskum frumtexta Gamla testamentisins sem svo er kallað. *

Biblíufræðingar viðurkenna að eiginnafn Guðs standi í Gamla testamentinu. Margir telja hins vegar að það sé ekki að finna hinum grísku frumhandritum Nýja testamentisins.

Hvað gerist þá þegar ritarar Nýja testamentisins vitna í vers í Gamla testamentinu þar sem fjórstafanafnið kemur fyrir? Í slíkum tilfellum nota flestir þýðendur orðið „Drottinn“ í staðinn fyrir eiginnafn Guðs. Þetta er ekki gert í Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar. Þar stendur nafnið Jehóva 237 sinnum í Nýja testamentinu.

Hvaða vandi blasir við biblíuþýðendum þegar þeir þurfa að ákveða hvort þeir eigi að nota nafn Guðs í Nýja testamentinu? Hvaða forsenda er fyrir því að nota nafnið í þessum hluta Biblíunnar? Og hvaða áhrif hefur það á þig hvort nafn Guðs er notað í Biblíunni?

 Vandi þýðenda

Þau handrit Nýja testamentisins, sem við höfum aðgang að núna, eru ekki frumhandrit. Frumritin, sem Matteus, Jóhannes, Páll og fleiri skrifuðu, voru mikið notuð og slitnuðu eflaust fljótt. Því voru gerð afrit, og þegar þau slitnuðu voru gerð ný afrit. Flest þeirra þúsunda handrita af Nýja testamentinu, sem eru til núna, voru gerð að minnsta kosti tveim öldum eftir að frumritin voru skrifuð. Þegar þessi afrit voru gerð hafa menn annaðhvort ritað Kyrios (eða Kurios), grískt orð sem merkir „Drottinn“, í stað fjórstafanafnsins eða afritað eftir handritum þar sem þetta hafði verið gert. *

Þýðandi þarf þess vegna að kanna hvort séu haldgóð rök fyrir því að fjórstafanafnið hafi staðið í frumgrísku handritunum. Eru einhverjar sannanir fyrir því? Lítum á eftirfarandi:

  • Jesús notaði nafn Guðs þegar hann vitnaði í Gamla testamentið eða las upp úr því. (5. Mósebók 6:13, 16; 8:3; Sálmur 110:1; Jesaja 61:1, 2; Matteus 4:4, 7, 10; 22:44; Lúkas 4:16-21) Fjórstafanafnið stóð í hebreskum handritum Gamla testamentisins á dögum Jesú og lærisveina hans og stendur raunar enn. Fræðimenn töldu hins vegar öldum saman að það hefði ekki staðið í handritum grísku Sjötíumannaþýðingarinnar, sem var þýðing á Gamla testamentinu, né í handritum Nýja testamentisins. Um miðbik 20. aldar fundust hins vegar ævaforn brot af grísku Sjötíumannaþýðingunni frá tímum Jesú og þá gerðu fræðimenn athyglisverða uppgötvun. Eiginnafn Guðs stendur með hebresku letri í þessum grísku handritabrotum.

  • Jesús notaði nafn Guðs og kunngerði það öðrum. (Jóhannes 17:6, 11, 12, 26) Hann sagði berum orðum: „Ég er kominn í nafni föður míns.“ Enn fremur lagði hann  áherslu á að hann ynni verk sín „í nafni föður [síns]“. Nafnið Jesús merkir reyndar „Jehóva er hjálpræði mitt“. — Jóhannes 5:43; 10:25.

  • Nafnið stendur í styttri mynd í Grísku ritningunum. Í Opinberunarbókinni 19:1, 3, 4 og 6 er nafn Guðs innifalið í orðinu „hallelúja“. Orðið merkir bókstaflega „lofið Jah“ en Jah er stytting nafnsins Jehóva.

  • Í fornum ritum Gyðinga eru vísbendingar um að kristnir Gyðingar hafi notað nafn Guðs í ritum sínum. Tosefta er safn laga sem varðveitt voru í munnlegri geymd en var lokið við að skrásetja um árið 300. Þar segir um rit kristinna manna sem brennd voru á hvíldardegi: „Bókum guðspjallamannanna og bókum minim [talið að átt sé við kristna Gyðinga] bjarga þeir ekki frá eldi. Þeim er leyft að brenna þar sem þær eru . . . þeim og vísunum í nafn Guðs sem í þeim eru.“ Í sömu heimild er minnst á José rabbína frá Galíleu en hann var uppi í byrjun annarrar aldar. Haft er eftir honum að á virkum dögum séu „skornar út vísanir í nafn Guðs sem í þeim eru [ritum kristinna manna] og þær geymdar en hitt látið brenna“. Það eru því sterk rök fyrir því að Gyðingar á annarri öld hafi álitið að kristnir menn notuðu nafnið Jehóva í ritum sínum.

Hvernig hafa þýðendur tekið á málinu?

Er Nýheimsþýðingin eina biblíuþýðingin þar sem nafn Guðs er notað í Nýja testamentinu? Nei, margir biblíuþýðendur hafa tekið mið af þeim rökum, sem hér hafa verið nefnd, og komist að þeirri niðurstöðu að það eigi að nota nafnið í þýðingum Nýja testamentisins.

Nafn Guðs er til dæmis notað ríkulega í mörgum þýðingum Nýja testamentisins á málum Afríku, Ameríku, Asíu og Kyrrahafseyja. (Sjá töflu á bls. 21.) Sumar þessara þýðinga eru nýlegar, til dæmis sú rotumeyska (1999) en þar er nafnið Jihova notað 51 sinni í 48 versum í Nýja testamentinu. Í nýlegri þýðingu á batak-toba í Indónesíu (1989) er nafnið Jahowa að finna 110 sinnum í Nýja testamentinu. Nafn Guðs hefur einnig verið notað í frönskum, þýskum og spænskum þýðingum. Til dæmis þýddi Pablo Besson Nýja testamentið á spænsku  snemma á síðustu öld. Nafnið Jehová stendur í Júdasarbréfinu 14, og fram kemur í næstum 100 neðanmálsgreinum að nafnið eigi líklega að standa í textanum.

Hér fer á eftir listi yfir nokkrar enskar þýðingar þar sem nafn Guðs er notað í Nýja testamentinu:

  • A Literal Translation of the New Testament . . . From the Text of the Vatican Manuscript. Herman Heinfetter (1863).

  • The Emphatic Diaglott. Benjamin Wilson (1864).

  • The Epistles of Paul in Modern English. George Barker Stevens (1898)

  • St. Paul’s Epistle to the Romans. W. G. Rutherford (1900).

  • The Christian’s Bible — New Testament. George N. LeFevre (1928).

  • The New Testament Letters. J.W.C. Wand, biskup í Lundúnum (1946).

Árið 2004 kom út ný útgáfa hinnar vinsælu New Living Translation á ensku. Í henni segir í formála undir yfirskriftinni „Þýðing á nöfnum Guðs“: „Fjórstafanafnið (JHVH) er að jafnaði þýtt ‚DROTTINN‘ og ritað með litlum upphafsstöfum eins og algengt er í enskum þýðingum. Þannig má greina það frá nafninu adonai sem við þýðum ‚Drottinn.‘“ Í umfjöllun um Nýja testamentið segir: „Gríska orðið kurios er alls staðar þýtt ‚Drottinn‘. Þegar Nýja testamentið vitnar beint í Gamla testamentið er það hins  vegar þýtt ‚DROTTINN‘ ef nafnið stendur þar með litlum upphafsstöfum.“ (Skáletur okkar.) Þýðendur þessarar biblíu viðurkenna þar með að fjórstafanafnið (JHVH) eigi heima í þessum tilvitnunum Nýja testamentisins.

Athygli vekur að The Anchor Bible Dictionary segir eftirfarandi undir flettunni „Fjórstafanafnið í Nýja testamentinu“: „Ýmislegt bendir til þess að fjórstafanafnið Jahve, nafn Guðs, hafi staðið í sumum eða öllum tilvitnunum Nt [Nýja testamentisins] í Gt [Gamla testamentið] þegar rit Nt voru skrifuð upphaflega.“ Og biblíufræðingurinn George Howard segir: „Þar eð fjórstafanafnið stóð enn í eintökum grísku biblíunnar [Sjötíumannaþýðingunni], sem var Biblía frumkirkjunnar, er rökrétt að ætla að ritarar Nt [Nýja testamentisins] hafi varðveitt nafnið í biblíutextanum þegar þeir vitnuðu í ritninguna.“

Tvær gildar ástæður

Það er því ljóst að Nýheimsþýðingin er ekki fyrsta biblíuþýðingin þar sem nafn Guðs er notað í Nýja testamentinu. Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar mat vandlega alla málavexti, ekki ósvipað og dómari sem beðinn er að fella dóm í máli þar sem engin lifandi vitni eru tiltæk. Í framhaldi af því ákvað nefndin að nafnið Jehóva skyldi standa í þýðingu hennar á Grísku ritningunum. Lítum á tvær gildar ástæður fyrir því. 

(1) Þýðendurnir töldu að þar sem grísku ritningarnar væru innblásið framhald af þeim hebresku væri ósamræmi í því að nafnið Jehóva hyrfi skyndilega úr hinum helga texta.

Af hverju verður það að teljast rökrétt niðurstaða? Um miðbik fyrstu aldar sagði lærisveinninn Jakob við öldungana í Jerúsalem: „Símon hefur skýrt frá hvernig Guð sá til þess í fyrstu að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans.“ (Postulasagan 15:14) Er rökrétt að Jakob hefði sagt þetta ef enginn á fyrstu öld hefði þekkt eða notað nafn Guðs?

(2) Þegar afrit fundust af Sjötíumannaþýðingunni þar sem notað var nafn Guðs en ekki Kyrios (Drottinn) varð þýðendunum ljóst að á dögum Jesú stóð nafnið í hinum eldri ritningum á grísku — og auðvitað þeim hebresku líka.

Sú hefð að fella niður nafn Guðs í grískum handritum virðist ekki hafa komið til fyrr en síðar. Hvað finnst þér? Heldurðu að Jesús og postular hans hafi ýtt undir hefð sem kastaði rýrð á Guð? — Matteus 15:6-9.

Ákallaðu „nafn Drottins“ Jehóva

Biblían sjálf sannar í rauninni svo ekki verður um villst að frumkristnir menn notuðu nafnið Jehóva í ritum sínum, ekki síst þegar þeir vitnuðu í ritningargreinar í Gamla testamentinu þar sem nafnið stendur. Það er því engum blöðum um það að fletta að það eru gildar ástæður fyrir því að láta nafn Guðs, Jehóva, standa í Grísku ritningunum í Nýheimsþýðingunni.

Hvernig snertir þetta þig? Páll postuli vitnaði í Hebresku ritningarnar og sagði kristnum mönnum í Róm: „Hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn.“ Síðan spurði hann: „En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um?“ (Rómverjabréfið 10:13, 14; Jóel 3:5) Biblíuþýðingar, sem nota nafn Guðs þar sem við á, hjálpa lesendum að styrkja tengslin við Guð. (Jakobsbréfið 4:8) Það er mikill heiður að fá að þekkja og ákalla eiginnafn Guðs, Jehóva.

^ gr. 2 Það er stundum nefnt „fjórstafanafnið“ og vísar það til þess að það er táknað á hebresku með fjórum bókstöfum sem má umrita JHVH. Í íslensku er það að jafnaði umritað Jehóva eða Jahve.

^ gr. 7 Nánari upplýsingar um þessa þróun má finna í bæklingnum Nafn Guðs sem vara mun að eilífu, bls. 23-27, gefinn út af Vottum Jehóva.