Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Desember 2015

Jehóva styður þig

Jehóva styður þig

„Drottinn styður hann á sóttarsæng.“ – SÁLM. 41:4.

SÖNGVAR: 23, 138

1, 2. Hverju gætum við stundum velt fyrir okkur og hvaða dæmi í Biblíunni koma upp í hugann?

HEFURÐU einhvern tíma velt fyrir þér hvort þú eigir eftir að ná þér af veikindum, eða hvort náinn ættingi eða vinur eigi eftir að gera það? Það er eðlilegt að hafa slíkar áhyggjur þegar um alvarleg veikindi er að ræða. Tveir konungar á dögum spámannanna Elía og Elísa létu í ljós áhyggjur af heilsunni. Ahasía konungur, sonur Akabs og Jesebelar, féll eitt sinn illa og spurði þá ,hvort hann myndi ná sér eftir meiðslin‘. Einhverju síðar veiktist Benhadad Sýrlandskonungur alvarlega og spurði ,hvort hann myndi ná sér af sjúkdómi sínum‘. – 2. Kon. 1:2; 8:7, 8.

2 Við vonum auðvitað að sjálfum okkur og þeim sem okkur er annt um batni. Margir velta samt fyrir sér hvað Guð geri til að hjálpa. Á þeim tíma, sem konungarnir tveir voru uppi, vann Jehóva stundum kraftaverk til að lækna fólk. Hann lét spámenn sína jafnvel reisa nokkra upp frá dauðum. (1. Kon. 17:17-24; 2. Kon. 4:17-20, 32-35) Er ástæða til að ætla að hann geri eitthvað svipað nú á tímum?

3-5. Hvaða mátt hafa Jehóva og Jesús og hvaða spurningar vekur það?

3 Það er enginn vafi á að Guð getur haft áhrif á heilsu fólks. Biblían staðfestir það. Stundum refsaði hann fólki með  veikindum. Dæmi um það eru faraó á dögum Abrahams, og Mirjam, systir Móse. (1. Mós. 12:17; 4. Mós. 12:9, 10; 2. Sam. 24:15) Guð varaði Ísraelsmenn við því að ef þeir yrðu honum ótrúir myndi hann láta allar „sóttir og plágur“ koma yfir þá. (5. Mós. 28:58-61) Hins vegar getur Jehóva líka læknað sjúkdóma og komið í veg fyrir þá. (2. Mós. 23:25; 5. Mós. 7:15) Job varð svo veikur að hann þráði að deyja en að lokum læknaði Guð hann. – Job. 2:7; 3:11-13; 42:10, 16.

4 Já, við getum verið viss um að Jehóva hefur mátt til að lækna þá sem eru veikir. Og hið sama má segja um son hans. Við lesum um að Jesús læknaði holdsveika, flogaveika, blinda og lamaða fyrir kraftaverk. (Lestu Matteus 4:23, 24; Jóh. 9:1-7) Það er hughreystandi til þess að hugsa að kraftaverkin, sem Jesús vann til að lækna, voru aðeins forsmekkur þess sem hann gerir í miklu meiri mæli í nýja heiminum. Þá mun ,enginn borgarbúi segja: „Ég er veikur.“‘ – Jes. 33:24.

5 En ættum við að biðja Jehóva eða Jesú um að lækna okkur með kraftaverkum núna? Hvernig ættum við að líta á alvarleg veikindi, og hvað ættum við að hafa í huga þegar við skoðum meðferðarúrræði?

STUÐNINGUR Í VEIKINDUM

6. Hvað vitum við um ,lækningagáfurnar‘ sem sumir höfðu á fyrstu öld?

6 Í Biblíunni kemur fram að á fyrstu öld hafi Guð veitt sumum andasmurðum einstaklingum mátt til að vinna kraftaverk. (Post. 3:2-7; 9:36-42) Ein þessara ,náðargjafa‘ frá Guði var ,lækningagáfa‘. (1. Kor. 12:4-11) En þessi gáfa og fleiri, eins og tungutal og spádómsgáfur, áttu bráðlega eftir að líða undir lok. (1. Kor. 13:8) Menn búa ekki yfir þeim núna. Við höfum því enga ástæðu til að búast við að Guð vinni kraftaverk til að lækna okkur eða ástvini okkar.

7. Hvernig getur Sálmur 41:4 hughreyst okkur?

7 Þeir sem eru veikir geta samt leitað til Guðs til að fá hughreystingu, visku og stuðning, rétt eins og sannir tilbiðjendur Guðs fyrr á tímum. Davíð konungur skrifaði: „Sæll er sá sem sinnir bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum. Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs.“ (Sálm. 41:2, 3) Við vitum að samtíðarmenn Davíðs, sem sinntu bágstöddum, lifðu ekki eilíflega. Davíð gat því ekki hafa átt við að Guð hafi gefið þessum umhyggjusömu einstaklingum líf fyrir kraftaverk svo að þeir lifðu að eilífu. Við getum þó skilið þessi innblásnu orð þannig að Guð hjálpi þessu trúfasta og umhyggjusama fólki. En hvernig? Davíð útskýrir það í framhaldinu: „Drottinn styður hann á sóttarsæng, þú læknar hann þegar hann liggur sjúkur.“ (Sálm. 41:4) Einstaklingur, sem sinnti bágstöddum, gat verið þess fullviss að Guð tæki eftir honum og trúfesti hans. Og lækningamáttur líkamans, sem Guð gaf mönnunum, getur hafa hjálpað honum að batna og ná sér eftir veikindin.

8. Hvað bað Davíð Jehóva um í Sálmi 41:5?

8 Davíð talaði af reynslu þegar hann sagði orðin í Sálmi 41:5: „Ég sagði: ,Drottinn, miskunna mér, lækna mig því að ég hef syndgað gegn þér.‘“ Ef til vill hafði hann í huga tímann þegar Absalon reyndi að hrifsa af honum völdin á meðan hann sjálfur var veikur og gat ekki stöðvað hann. Þó að Guð hefði fyrirgefið Davíð gleymdi Davíð ekki syndinni sem hann hafði drýgt með Batsebu og að fjölskylduerfiðleikar hans voru afleiðing hennar. (2. Sam. 12:7-14) Hann var samt fullviss um að Guð myndi styðja hann í veikindunum. En var Davíð að biðja um að Guð  læknaði hann fyrir kraftaverk og veitti honum lengra líf?

9. (a) Hvað gerði Jehóva fyrir Hiskía konung? (b) Hvers konar hjálp mátti Davíð vænta að Jehóva veitti honum?

9 Öldum síðar ákvað Guð að lækna Hiskía konung eftir að hann hafði ,veikst og verið að dauða kominn‘. Þótt óvenjulegt væri greip Guð inn í við þessar aðstæður. Hiskía náði sér og lifði 15 ár til viðbótar. (2. Kon. 20:1-6) Hins vegar bað Davíð ekki um að fá lækningu fyrir kraftaverk. Samhengið gefur til kynna að Davíð hafi beðið Guð um að hjálpa sér eins og hann hjálpaði þeim sem sinntu bágstöddum. Í því fólst meðal annars að Guð ,styddi hann á sóttarsæng‘. Þar sem Guð hafði fyrirgefið synd Davíðs gat hann beðið Guð um hughreystingu og stuðning og um að líkami hans næði að vinna bug á veikindunum. (Sálm. 103:3) Við getum beðið Jehóva um slíkt hið sama.

10. Hvaða ályktun getum við dregið af reynslu Trófímusar og Epafrodítusar?

10 Davíð hlaut ekki bata né langlífi fyrir kraftaverk og hið sama er að segja um Trófímus, einn samstarfsmanna Páls postula. Við vitum að Páll læknaði af og til veikt fólk fyrir kraftaverk. (Lestu Postulasöguna 14:8-10.) Hann læknaði ,föður Públíusar sem lá sjúkur með hitaköstum og blóðsótt‘. Páll „baðst fyrir, lagði hendur yfir hann og læknaði hann“. (Post. 28:8) En hann gerði ekki hið sama fyrir Trófímus sem ferðaðist með honum í einni af trúboðsferðum hans. (Post. 20:3-5, 22; 21:29) Þegar Trófímus veiktist og gat ekki haldið ferðinni áfram með Páli læknaði Páll hann ekki heldur skildi hann eftir í Míletus til að hann gæti náð bata. (2. Tím. 4:20) Þegar Epafrodítus ,varð sjúkur, að dauða kominn‘ er heldur ekkert sem gefur til kynna að Páll hafi notað mátt sinn frá Guði til að lækna þennan góða vin sinn. – Fil. 2:25-27, 30.

RÁÐ HVERRA ÆTTUM VIÐ AÐ HLUSTA Á?

11, 12. Hvers vegna gat Lúkas hjálpað Páli og hvað vitum við um Lúkas?

11 ,Lúkas, læknirinn elskaði‘ sem skrifaði Postulasöguna, ferðaðist einnig með Páli. (Kól. 4:14; Post. 16:10-12; 20:5, 6) Það er rökrétt að álykta að Lúkas hafi gefið Páli ýmis ráð varðandi heilsuna og hjálpað honum og öðrum þegar þeir veiktust á trúboðsferðunum. Hvers vegna var þörf á því? Vegna þess að jafnvel Páll veiktist á þessum ferðalögum. (Gal. 4:13) Jesús hafði áður sagt: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru,“ og Lúkas gat veitt Páli og félögum hans slíka læknisaðstoð. – Lúk. 5:31.

12 Biblían gefur ekki til kynna hvar eða hvenær Lúkas lærði til læknis. Páll nefnir í bréfi sínu til Kólossumanna að Lúkas hafi verið læknir, og sumir telja að það sé vegna þess að þeir þekktu hann. Athygli vekur að hægt var að stunda læknisnám í Laódíkeu, nærliggjandi borg. Hvar svo sem Lúkas lærði var hann enginn skottulæknir fullur af hugmyndum um hvernig fólk ætti að sinna heilsunni. Hann var læknir. Það er greinilegt af orðunum sem hann notar um læknisfræðileg mál í guðspjalli sínu og Postulasögunni. Það sést líka af því hve mikinn áhuga hann hafði á kraftaverkunum sem Jesús vann þegar hann læknaði fólk.

13. Hvernig ættum við að líta á tillögur að bættri heilsu?

13 Nú á tímum er enginn í kristna söfnuðinum sem getur læknað okkur fyrir kraftaverk með „lækningagáfu“. Sumir sem vilja vel eiga það samt til að koma óbeðnir með ráðleggingar um heilsuna. Stundum eru þetta bara almenn og  skynsamleg ráð. Páll gaf slík ráð þegar Tímóteus var slæmur í maganum, ef til vill vegna þess að vatnið á staðnum var mengað. * (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:23.) Það er þó mikill munur á því og að reyna að telja trúsystkini á að nota jurtir, óhefðbundnar lækningar eða mataræði sem hefur kannski ekki tilætluð áhrif eða getur jafnvel verið skaðlegt. Sumir hafa gert það og reynt að sannfæra aðra með rökum eins og þessum: „Frændi minn var með svipaðan sjúkdóm og hann tók inn ... og honum batnaði.“ Hversu einlægt sem fólk er með tillögur sínar ættum við að hafa í huga að áhættur geta fylgt jafnvel algengum meðferðum og lyfjum. – Lestu Orðskviðina 27:12.

ÞAÐ ER SKYNSAMLEGT AÐ HAFA VARANN Á

14, 15. (a) Hvernig notfæra sér sumir veikindi annarra? (b) Hvernig geta Orðskviðirnir 14:15 gagnast okkur í vali á meðferðum?

14 Eðlilega viljum við öll vera heilsuhraust svo að við getum notið lífsins og þjónað Guði af fullum krafti. En við höfum erft ófullkomleikann og getum því ekki komist hjá því að veikjast. Þegar það gerist standa oft ýmsar meðferðir til boða. Hver og einn þarf að ákveða hvaða meðferð hann kýs. Því miður er til fólk í þessum fégráðuga heimi sem notfærir sér veikindi annarra í gróðaskyni. Sumir auglýsa „meðferðir“ eða „lækningar“ og styðja mál sitt með uppspunnum fullyrðingum eða tilbúnum meðmælum. Fyrirtæki og aðrir hvetja oft til notkunar á rándýrum vörum þannig að þau græði sem mest. Veikt fólk, sem þráir meira en nokkuð annað að ná bata eða að geta lengt líf sitt um ögn, getur auðveldlega laðast að slíkum „lækningum“. En við ættum að hafa í huga það sem segir í orði Guðs: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ – Orðskv. 14:15.

15 „Hygginn maður“ er sérstaklega varkár ef sá sem veitir ráðin hefur litla eða enga menntun á sviði lækninga. Ef við erum hyggin gætum við hugsað: Hann heldur því fram að þetta vítamín, þessi jurt, eða þetta mataræði hafi hjálpað sumum en geta einhverjir í rauninni staðfest það? Fólk er mismundandi. Er ástæða til að treysta því að þetta hjálpi mér? Ætti ég að kanna þetta betur eða jafnvel spyrja einhverja sem ég get treyst að þekki til eða hafi menntun á þessu sviði? – 5. Mós. 17:6.

16. Hvaða spurningar gætu hjálpað okkur að vera raunsæ varðandi ráðleggingar um heilsuna?

16 Í orði Guðs erum við minnt á að „lifa hóglátlega“, eða vera raunsæ og skynsöm. (Tít. 2:12) Það er mjög mikilvægt ef greiningaraðferð eða meðferð virðist vera undarleg eða dularfull. Getur sá sem stendur fyrir henni skýrt með fullnægjandi hætti hvernig hún virkar? Samræmist hún þekktum staðreyndum og eru margir læknar sammála um að hún virki? (Orðskv. 22:29) Eða höfðar hún aðallega til tilfinninganna? Ef til vill er því haldið fram að hún hafi uppgötvast eða verið notuð á afskekktum stað langt í burtu, rétt eins og nútímarannsóknir næðu ekki þangað. Sanna slíkar staðhæfingar eitthvað og eru þær yfirleitt raunhæfar? Sumar greiningaraðferðir eða meðferðir eru sagðar byggjast á „leynilegum efnum“ eða „duldum kröftum“. Við þurfum að vera vel á verði þegar við skoðum slíkt því að Guð varar okkur við andamiðlum og því að stunda „galdur“. – 3. Mós. 19:26; 5. Mós. 18:10-12.

 VERIÐ HEILSUHRAUST

17. Hvaða eðlilegu löngun höfum við?

17 Hið stjórnandi ráð á fyrstu öld sendi mikilvægt bréf til safnaðanna. Eftir upptalningu á ýmsu sem kristnir menn urðu að halda sér frá lauk það bréfinu með orðunum: „Ef þér varist þetta gerið þér vel. Verið sælir.“ (Post. 15:29) Á sumum tungumálum hafa orðin í lok versins verið þýdd „verið heilsuhraust“. Þó að þessi orð hafi aðallega verið leið til að kveðja minna þau okkur á að það sé eðlilegt að við viljum vera heilsuhraust svo að við getum þjónað Jehóva.

Við viljum vera heilsuhraust til að geta þjónað Guði. (Sjá 17. grein.)

18, 19. Til hvers getum við hlakkað í nýja heiminum?

18 Á meðan þessi illi heimur stendur og við erum ófullkomin þurfum við að kljást við veikindi. Við getum ekki búist við að læknast fyrir kraftaverk núna. Í Opinberunarbókinni 22:1, 2 er hins vegar bent á þann tíma þegar við fáum fullkomna heilsu. Jóhannes postuli sá í sýn „móðu lífsvatnsins“ og „lífsins tré“ en laufin á trjánum voru „til lækningar þjóðunum“. Hér er ekki átt við neinar jurtalækningar, hvorki í nútímanum né framtíðinni. Sýnin lýsir því sem Jehóva gefur okkur fyrir milligöngu sonar síns og veitir hlýðnu mannkyni eilíft líf. Við megum sannarlega hlakka til þess tíma. – Jes. 35:5, 6.

19 Við eigum stórkostlega framtíð í vændum en á meðan við bíðum hennar getum við verið fullviss um að Jehóva hefur áhuga á okkur hverju og einu, jafnvel þó að við séum veik. Líkt og Davíð getum við treyst að Guð styðji okkur í öllum veikindum okkar. Við getum sagt eins og hann: „Þú studdir mig af því að ég er saklaus og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu.“ – Sálm. 41:13.

^ gr. 13 Í bókinni The Origins and Ancient History of Wine segir: „Tilraunir hafa sýnt að bakteríur sem valda taugaveiki og aðrar hættulegar örverur deyja snögglega þegar þær komast í snertingu við vín.“