Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er kærleiksríkur Guð

Jehóva er kærleiksríkur Guð

„Guð er kærleikur.“ – 1. JÓH. 4:8, 16.

SÖNGVAR: 18, 91

1. Hvaða eiginleiki er ríkjandi í fari Jehóva og hvaða tilfinningar vekur það með þér?

BIBLÍAN, innblásið orð Jehóva, segir að hann sé kærleikur. Þar segir ekki bara að kærleikurinn sé einn af mörgum eiginleikum hans heldur: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóh. 4:8) Kærleikurinn er ríkjandi eiginleiki hans og sá mikilvægasti. Jehóva hefur ekki aðeins kærleika til að bera heldur er hann persónugervingur kærleikans. Það er stórfenglegt að hugsa til þess að skapari alheims og alls sem lifir skuli vera kærleiksríkur Guð. Allt sem hann gerir stjórnast af þessum eiginleika.

2. Hvaða trygging er fólgin í kærleika Guðs? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

2 Hlýja og ást Jehóva í garð sköpunarvera sinna veitir okkur tryggingu fyrir því að allt sem hann ætlar sér með mennina nái fram að ganga. Og Jehóva gerir það á allra besta hátt og til blessunar öllum sem lúta stjórn hans. Sem dæmi má nefna að Jehóva hefur „sett dag er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi“. (Post. 17:31) Maðurinn er Jesús Kristur. Við getum  treyst að þetta rætist. Þeir sem eru réttsinnaðir og hlýðnir fá hagstæðan dóm, og eiga í vændum gæfuríka framtíð og eilíft líf.

ÞAÐ SEM LÆRA MÁ AF SÖGUNNI

3. Hvernig heldurðu að lífið væri ef Guð elskaði ekki mennina?

3 Reyndu að ímynda þér hvernig lífið væri ef Guð elskaði ekki mannkynið. Við þurfum ekki annað en að líta á skelfilega sögu þessa heims. Hvernig hefur honum farnast undir stjórn manna og undir ægivaldi Satans djöfulsins sem er kærleikslaus og illskeyttur drottnari hans? (2. Kor. 4:4; 1. Jóh. 5:19; lestu Opinberunarbókina 12:9, 12.) Framtíðin yrði hreinn hryllingur ef kærleikur Guðs réði ekki ríkjum í alheiminum.

4. Hvers vegna leyfði Jehóva Satan og fyrstu hjónunum að gera uppreisn gegn réttlátum yfirráðum sínum?

4 Satan gerði uppreisn gegn yfirráðum Jehóva og fékk fyrstu hjónin til að gera slíkt hið sama. Hann véfengdi að Guð væri réttmætur og réttlátur Drottinn alheims. Hann fullyrti í rauninni að sjálfur væri hann betri stjórnandi en skaparinn. (1. Mós. 3:1-5) Jehóva gaf Satan tækifæri til að reyna að sanna mál sitt en setti honum tímamörk. Í visku sinni hefur Jehóva þó gefið nægan tíma til að sýna fram á með óyggjandi hætti að allt annað stjórnarfar en hans eigið sé ófullnægjandi. Hörmungasaga mannsins vitnar um að hvorki menn né Satan geta séð okkur fyrir þeirri góðu stjórn sem við þörfnumst.

5. Hvað hefur mannkynssagan sýnt fram á?

5 Á síðastliðnum 100 árum hafa meira en 100 milljónir fallið í styrjöldum þjóða í milli. Og ástandið í heiminum versnar jafnt og þétt. Því var spáð í Biblíunni að á „síðustu dögum“ núverandi heims myndu „vondir menn og svikarar ... magnast í vonskunni“. (2. Tím. 3:1, 13) Sagan hefur óneitanlega sýnt fram á að Biblían fer með rétt mál þegar hún segir að „örlög mannsins [séu] ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. (Jer. 10:23, Biblían 1981) Jehóva skapaði mennina ekki þannig að þeir gætu verið óháðir honum og ráðið málum sínum sjálfir og þeir hafa heldur engan rétt til þess.

6. Hvaða tilgangi þjónar það að Guð skuli leyfa illskuna um tíma?

6 Með því að leyfa illskuna um tíma hefur Jehóva sýnt fram á hve misheppnuð stjórn mannanna er. En það hefur einnig þjónað öðru langtímamarkmiði. Saga mannkyns vitnar um að eina farsæla leiðin sé sú að Guð stjórni. Segjum að einhvern tíma í framtíðinni, eftir að Jehóva hefur útrýmt illskunni og þeim sem valda henni, véfengi einhver að stjórn hans sé kærleiksrík. Þá þarf Jehóva ekki að gefa uppreisnarseggjunum tíma og tækifæri til að sanna mál sitt. Það sem gerst hefur í sögu mannkyns réttlætir að hann taki uppreisnarseggina án tafar úr umferð og leyfi þeim ekki að útbreiða illskuna á nýjan leik.

JEHÓVA HEFUR SÝNT KÆRLEIKA SINN Á MARGA VEGU

7, 8. Hvernig hefur Jehóva meðal annars sýnt kærleika sinn?

7 Jehóva hefur sýnt á marga vegu hve kærleiksríkur hann er. Lítum á mikilfenglegan alheiminn sem dæmi. Þar eru vetrarbrautir í milljarðatali og í  hverri þeirra eru milljarðar stjarna og reikistjarna. Sólin er ein þessara stjarna í vetrarbrautinni okkar. Ef sólarinnar nyti ekki við væri hið fjölbreytta lífríki jarðar ekki til. Öll þessi sköpunarverk vitna um guðdómstign Jehóva og eiginleika hans, svo sem mátt, visku og kærleika. „Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ – Rómv. 1:20.

8 Jehóva bjó í haginn fyrir þær lífverur sem hann skapaði til að lifa hér á jörð. Hann gerði fagran paradísargarð handa mönnunum og gaf þeim fullkominn huga og líkama sem var til þess gerður að lifa að eilífu. (Lestu Opinberunarbókina 4:11.) Auk þess nærir hann allt sem lifir því að „miskunn hans varir að eilífu“. – Sálm. 136:25.

9. Hvað lætur Jehóva í ljós þó að hann sé kærleiksríkur, og hvers vegna?

9 Jehóva opinberar ekki aðeins að hann sé kærleiksríkur Guð heldur lætur líka í ljós að hann hati hið illa. Til dæmis er hann ávarpaður svo í Sálmi 5:5-7: „Þú ert ekki guð sem gleðst yfir ranglæti ... illvirkja hatar þú.“ Síðan segir: „Drottinn hefur andstyggð á blóðþyrstum og svikurum.“

ILLSKAN TEKUR BRÁÐLEGA ENDA

10, 11. (a) Hvað gerir Jehóva við óguðlega? (b) Hvernig umbunar Jehóva réttlátum?

10 Þar sem Jehóva er kærleiksríkur og hatar hið illa ætlar hann að útrýma allri illsku á jörðinni og í alheiminum þegar deilan um stjórn hans er útkljáð endanlega að hans mati. Í Biblíunni er að finna eftirfarandi loforð: „Illvirkjum verður tortímt en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar. Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn ... Óvinir Drottins eru sem blóm á engi, þeir hverfa, eins og reykur hverfa þeir.“ – Sálm. 37:9, 10, 20.

11 Í Biblíunni er einnig lofað: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ (Sálm. 37:29) Þetta réttláta fólk á eftir að „gleðjast yfir miklu gengi“. (Sálm. 37:11) Það gerist vegna þess að Guð kærleikans gerir alltaf það sem er best fyrir trúa þjóna sína. Í Biblíunni segir: „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinb. 21:4) Allir sem virða yfirráð Jehóva og kunna að meta kærleika hans eiga unaðslega framtíð í vændum.

12. Hverjir eru ráðvandir í augum Jehóva?

12 Í orði Jehóva segir: „Gef gætur að hinum ráðvanda og horfðu til hins grandvara því að friðsamir menn eiga framtíðina fyrir sér en allir syndarar farast, óguðlegir eiga sér enga framtíð.“ (Sálm. 37:37, 38) ,Hinn ráðvandi‘ kynnist Jehóva og syni hans. Hann er hlýðinn og gerir vilja Guðs. (Lestu Jóhannes 17:3.) Hann tekur alvarlega það sem stendur í 1. Jóhannesarbréfi 2:17: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ Endalok þessa heims nálgast, svo að það er áríðandi að ,vona á Drottin og gefa gætur að vegi hans‘. – Sálm. 37:34.

MESTA KÆRLEIKSVERK GUÐS

13. Hvaða kærleiksverk hefur Jehóva unnið í þágu syndugra manna?

13 Þó að við séum ófullkomin getum við gefið gætur að vegi Jehóva og fylgt honum. Við getum líka átt náið samband  við hann af því að hann vann það mikla kærleiksverk að færa Jesú Krist sem lausnarfórn. Þannig opnaði hann hlýðnu fólki leiðina til að losna úr fjötrum syndar og dauða sem allir hafa fengið í arf frá Adam. (Lestu Rómverjabréfið 5:12; 6:23.) Jehóva treysti einkasyni sínum fullkomlega en sonurinn hafði verið með honum á himnum frá örófi alda og verið honum trúr. Það hefur áreiðanlega tekið Jehóva sárt að horfa upp á þá ranglátu meðferð sem sonur hans mátti þola á jörð. En Jesús studdi drottinvald Jehóva og sýndi fram á að fullkominn maður getur verið honum ráðvandur við erfiðustu aðstæður.

Í kærleika sínum sendi Guð son sinn til jarðar. (Sjá 13. grein.)

14, 15. Hverju var komið til leiðar með dauða Jesú?

14 Jesús studdi drottinvald Jehóva og var ráðvandur í erfiðustu prófraun sem hugsast getur. Hann var trúr þjónn föður síns allt til dauða. Við ættum að vera innilega þakklát fyrir að Jesús skyldi með dauða sínum einnig greiða lausnargjaldið sem þurfti til að endurleysa mannkynið og gera mönnum kleift að hljóta eilíft líf í nýjum heimi Guðs. Páll postuli sýndi fram á hvílíkt kærleiksverk Jehóva og Jesús unnu. Hann sagði: „Meðan við enn vorum vanmegna dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega. Varla gengur nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann. Fyrir góðan  mann kynni einhver ef til vill að vilja deyja. En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:6-8) Jóhannes postuli skrifaði: „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ – 1. Jóh. 4:9, 10.

15 Jesús sagði eftirfarandi um kærleika Guðs til mannanna: „Svo elskaði Guð heiminn [þá menn sem hægt var að endurleysa] að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Jehóva elskaði mennina svo heitt að hann var tilbúinn til að fórna miklu fyrir þá. Kærleikur hans er eilífur. Við getum alltaf reitt okkur á hann. Páll postuli skrifaði: „Ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ – Rómv. 8:38, 39.

RÍKI GUÐS ER TEKIÐ TIL STARFA

16. Hvað er ríki Messíasar og hverjum hefur Jehóva falið að halda um stjórnartaumana?

16 Kærleikur Guðs til mannanna birtist einnig í ríki Messíasar sem hann hefur komið á fót. Jehóva hefur nú þegar falið syni sínum að halda um stjórnartaumana. Jesús elskar mennina og er hæfastur allra til að fara með völdin. (Orðskv. 8:31) Himneskir meðstjórnendur Jesú, sem eru 144.000 talsins, hafa lifað sem menn á jörð og búa að þeirri reynslu þegar þeir rísa upp. (Opinb. 14:1) Þetta ríki var kjarninn í kennslu Jesú og hann kenndi lærisveinum sínum að biðja: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matt. 6:9, 10) Það verður ólýsanleg blessun fyrir hlýðna menn að upplifa þann tíma þegar þessari bæn verður svarað.

17. Hver er munurinn á stjórn Jesú og syndugra manna?

17 Það er reginmunur á kærleiksríkri stjórn Jesú á himnum og stjórn manna sem hefur leitt milljónir út í opinn dauðann í hernaði. Jesú er innilega annt um þegna sína og endurspeglar göfuga eiginleika Guðs, ekki síst kærleikann. (Opinb. 7:10, 16, 17) „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld,“ sagði Jesús. „Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matt. 11:28-30) Er þetta ekki kærleiksríkt loforð?

18. (a) Hvað hefur ríki Guðs gert síðan það var stofnsett? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

18 Af spádómum Biblíunnar má sjá að ríki Guðs var stofnsett á himnum árið 1914 þegar nærvera Krists hófst. Þaðan í frá hefur verið unnið að því að kalla þá sem upp á vantaði til að ríkja með Jesú á himnum. Sömuleiðis hefur verið safnað ,miklum múgi‘ fólks sem lifir af endalok þessa heims og fær að ganga inn í nýja heiminn. (Opinb. 7:9, 13, 14) Hve fjölmennur er múgurinn mikli núna? Hvaða skilyrði þurfa þeir að uppfylla sem eru í þessum hópi? Þessum spurningum er svarað í næstu grein.