Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnum þakklæti fyrir örlæti Jehóva

Sýnum þakklæti fyrir örlæti Jehóva

JEHÓVA er örlátur Guð. (Jak. 1:17) Sköpunarverkið lofar örlæti hans allt frá stjörnumprýddum næturhimni til gróðursins sem þekur jörðina. – Sálm. 65:13, 14; 147:7, 8; 148:3, 4.

Sálmaritarinn var svo þakklátur skapara sínum að hann fann sig knúinn til að semja ljóð sem dásamaði verk hans. Lestu Sálm 104 og veltu fyrir þér hvort þú berir svipaðar tilfinningar í brjósti og sálmaritarinn. Hann sagði: „Ég vil ljóða um Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.“ (Sálm. 104:33) Hefur þú löngun til þess líka?

BESTA DÆMIÐ UM ÖRLÆTI

Jehóva vill að við líkjum eftir sér og séum örlát. Hann bendir líka á góðar ástæður fyrir að við ættum að vera það. Taktu eftir því sem hann innblés Páli postula að skrifa: „Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.“ – 1. Tím. 6:17-19.

Þegar Páll skrifaði síðara innblásna bréf sitt til safnaðarins í Korintu ræddi hann sérstaklega um það hugarfar sem við ættum að hafa þegar við gefum. Hann segir: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ (2. Kor. 9:7) Síðan nefnir Páll hverjir njóta góðs af gjafmildinni: Þeir sem hljóta gjöfina og fá þörfum sínum fullnægt og þeir sem hljóta andlega blessun af því að þeir gefa. – 2. Kor. 9:11-14.

Páll lýkur þessari umræðu með því að tala um sterkustu sönnunina um örlæti Guðs. Hann skrifar: „Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!“ (2. Kor. 9:15) Þessi gjöf Jehóva felur greinilega í sér allt það góða sem Guð gefur þjónum sínum fyrir milligöngu Jesú Krists. Þetta er svo mikil gjöf að hún er dýrmætari en orð fá lýst.

Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir allt sem Jehóva og sonur hans hafa gert og eiga enn eftir að gera fyrir okkur? Ein leið er að vera örlát á tíma okkar, krafta og fjármuni í þágu tilbeiðslunnar á Jehóva, hvort heldur gjöf okkar er smá eða stór. – 1. Kron. 22:14; 29:3-5; Lúk. 21:1-4.