ÞAÐ er vorið 1931. Gestir frá 23 löndum streyma að innganginum að hinni frægu Pleyel-tónlistarhöll í París. Prúðbúnir farþegar stíga út úr stórum leigubílum fyrir framan höllina og fyrr en varir fyllist aðalsalurinn. Gestir eru næstum 3.000 en þeir eru ekki komnir til að hlusta á tónleika heldur til að hlýða á Joseph F. Rutherford sem fór þá með forystuna í boðun safnaðarins. Áhrifamiklar ræður hans eru túlkaðar á frönsku, pólsku og þýsku. Kraftmikil rödd bróður Rutherfords ómar um salinn.

Mótið í París markaði tímamót í boðun Guðsríkis í Frakklandi. Bróðir Rutherford ávarpaði fjölþjóðlegan áheyrendaskarann og hvatti unga fólkið sérstaklega til að gerast farandbóksalar í Frakklandi. John Cooke, Englendingur sem þá var á unglingsaldri, gleymdi aldrei þessari áhrifamiklu hvatningu: „Ekkert undir sólinni ætti að aftra ykkur unga fólkinu frá því að gerast farandbóksalar.“ *

John Cooke varð síðar trúboði, en hann var meðal fjölda annarra sem svaraði þessu ,Makedóníukalli‘. (Post. 16:9, 10) Reyndar fjölgaði farandbóksölum í Frakklandi úr 27 árið 1930 í 104 árið 1931 sem er gríðarleg aukning á aðeins einu ári. Fæstir þessara fyrstu brautryðjenda töluðu frönsku og þurftu því flestir að glíma við tungumálið auk fátæktar og einangrunar. Hvernig fóru þeir að því?

GLÍMAN VIÐ TUNGUMÁLIÐ

Erlendir farandbóksalar reiddu sig á boðunarspjöld til að tala fyrir sig um vonina um ríki Guðs. Þýskumælandi bróðir, sem boðaði trúna af hugrekki í París, segir: „Við vissum að okkar Guð væri voldugur að mætti. Ef við vorum með hjartað í buxunum í boðuninni var það ekki af ótta við menn heldur af því að við óttuðumst að gleyma þessum fáeinu orðum: ,Voulez-vous lire cette carte, s’il vous plaît? [Myndirðu vilja lesa þetta spjald?]‘ Við vorum sannfærð um að starf okkar væri mjög mikilvægt.“

Farandbóksalar ferðuðust um á reiðhjólum og mótorhjólum til að koma fagnaðarerindinu á framfæri í Frakklandi.

Þegar farandbóksalarnir boðuðu fagnaðarerindið í fjölbýlishúsum voru þeir oft reknir út af dyravörðum. Dag einn stóðu tvær enskar systur, sem kunnu lítið í frönsku, andspænis bálreiðum húsverði. Hann spurði þær hvern þær ætluðu að hitta. Á meðan þær reyndu að róa hann tók önnur þeirra eftir að á einni hurðinni var lítið skilti sem á stóð: „Tournez le bouton [Hringdu bjöllunni].“ Hún hélt að það væri nafn húsráðanda og sagði glaðlega: „Við erum komnar til að heimsækja frú Tournez le bouton.“ Gott skopskyn kom sér vel fyrir þessa duglegu farandbóksala.

 BÁG KJÖR OG EINANGRUN AFTRAÐI ÞEIM EKKI

Á fjórða áratug síðustu aldar þurftu flestir í Frakklandi að lifa við nauman kost, og þar voru erlendu farandbóksalarnir engin undantekning. Mona Brzoska, enskumælandi systir, sagði um reynslu sína og brautryðjandafélaga síns: „Húsnæði okkar var oftast mjög frumstætt og eitt stærsta vandamálið var kuldinn á veturna. Við neyddumst oft til að sætta okkur við ískalt herbergi. Áður en við gátum þvegið okkur á morgnana þurftum við að byrja á því að brjóta ísinn í vatnskönnunni.“ Misstu brautryðjendurnir á þessum tíma móðinn vegna þessara bágu skilyrða? Síður en svo. „Við áttum ekkert en okkur skorti heldur ekki neitt,“ sagði einn þeirra og það lýsir vel hvernig þeim leið. – Matt. 6:33.

Enskir brautryðjendur sem sóttu mótið í París árið 1931.

Þessir hugrökku farandbóksalar þurftu líka að vinna bug á einsemd. Snemma á fjórða áratugnum voru innan við 700 boðberar Guðsríkis í Frakklandi og flestir þeirra bjuggu á víð og dreif um landið. Hvað hjálpaði farandbóksölunum að halda gleðinni þrátt fyrir einangrun? Mona og brautryðjandafélagi hennar höfðu reynslu af því. Hún segir: „Við þurftum að berjast gegn einsemdinni með því að vera duglegar að lesa saman og ígrunda rit safnaðarins. Þar sem við fórum hvorki í endurheimsóknir né héldum biblíunámskeið í þá daga gafst okkur tími á kvöldin til að skrifa bréf til fjölskyldunnar og líka til annarra brautryðjenda. Við skiptumst á frásögum og hvöttum og uppörvuðum hvert annað.“ – 1. Þess. 5:11.

Þessir fórnfúsu farandbóksalar voru jákvæðir þrátt fyrir ýmsar hindranir. Það má sjá af bréfum sem þeir sendu til deildarskrifstofunnar, sumir áratugum eftir að þeir höfðu verið brautryðjendur í Frakklandi. Annie Cregeen, andasmurð systir, ferðaðist um Frakkland þvert og endilangt ásamt eiginmanni sínum á árunum 1931 til 1935. Hún horfði til baka og skrifaði: „Við áttum mjög ánægjulegt og viðburðaríkt líf. Við brautryðjendurnir vorum samheldinn hópur. Páll postuli sagði: ,Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn.‘ Þetta er mjög spennandi fyrir okkur sem fengum tækifæri til að hjálpa til fyrir þetta mörgum árum.“ – 1. Kor. 3:6.

Brautryðjendurnir á þessum árum settu gott fordæmi með þolgæði sínu og ákafa. Þeir sem vilja færa út kvíarnar í boðuninni geta lært mikið af þeim. Nú starfa um 14.000 brautryðjendur í Frakklandi. Margir þeirra tilheyra söfnuðum eða hópum sem tala erlend tungumál. * Líkt og forverar þeirra láta þeir ekkert undir sólinni aftra sér. – Úr sögusafninu í Frakklandi.

^ gr. 4 Í greininni „Jehóva leiddi ykkur til Frakklands til að kynnast sannleikanum“ í Varðturninum 15. ágúst 2015 er rætt um boðunina meðal pólskra innflytjenda í Frakklandi.

^ gr. 13 Árið 2014 hafði deildarskrifstofan í Frakklandi umsjón með yfir 900 söfnuðum og hópum sem tala önnur mál en frönsku. Þeir aðstoða einlægt fólk af 70 málhópum við að kynnast sannleikanum.