Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónum Jehóva án truflunar

Þjónum Jehóva án truflunar

„María ... hlýddi á orð [Jesú]. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu.“ – LÚK. 10:39, 40.

SÖNGVAR: 94, 134

1, 2. Hvers vegna elskaði Jesús Mörtu en hvað sýnir að hún var ekki fullkomin?

HVAÐ kemur upp í hugann þegar þú hugsar um Mörtu, systur Lasarusar? Í Biblíunni kemur fram að hún hafi verið góð vinkona Jesú og að hann hafi elskað hana. Jesús bar auðvitað líka ósvikinn kærleika til margra annarra trúfastra kvenna. Meðal þeirra voru María, ástkær móðir hans, og María, systir Mörtu. (Jóh. 11:5; 19:25-27) En hvers vegna þótti Jesú svona vænt um Mörtu?

2 Jesús elskaði Mörtu ekki aðeins af því að hún var gestrisin og vinnusöm heldur fyrst og fremst vegna þess hve trúrækin hún var. Hún trúði öllu sem Jesús kenndi og efaðist ekki um að hann væri hinn fyrirheitni Messías. (Jóh. 11:21-27) En hún var ekki fullkomin frekar en við hin. Eitt sinn þegar Jesús var gestur á heimili hennar varð henni það á að segja honum hvað hann ætti að gera til að taka á máli sem henni fannst vera óréttlátt. „Drottinn,“ sagði hún, „hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg  þú henni að hjálpa mér.“ (Lestu Lúkas 10:38-42.) Hvað getum við lært af þessari frásögu?

MARTA LÉT TRUFLA SIG

3, 4. Hvernig valdi María „góða hlutskiptið“ og hvað lærði Marta? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Jesús vill launa Mörtu og Maríu gestrisnina með því að gefa þeim andlega gjöf. María grípur tækifærið til að læra af kennaranum mikla, sest ,við fætur hans og hlýðir á orð hans‘. Marta hefði getað gert hið sama. Jesús hefði örugglega hrósað Mörtu fyrir að veita honum óskipta athygli.

4 En Marta er upptekin af að útbúa glæsilega máltíð og sinna öðrum heimilisstörfum til að gera dvöl Jesú sem ánægjulegasta. Öll þessi vinna veldur henni óþarfa áhyggjum og hún verður pirruð út í Maríu. Jesús tekur eftir að Marta reynir að gera of mikið í einu og segir vingjarnlega við hana: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu.“ Síðan bendir hann á að einn réttur hefði nægt. Jesús beinir nú athygli sinni að Maríu og tekur fram að hún hafi ekki gert neitt rangt. „María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið,“ segir hann. Það getur verið að María hafi fljótt gleymt hvað hún fékk að borða við þetta sérstaka tækifæri en hún gleymdi örugglega aldrei hrósinu og þeirri góðu andlegu fæðu sem hún fékk þegar hún gaf Jesú óskipta athygli sína. Rúmum 60 árum síðar skrifaði Jóhannes postuli: „Jesús elskaði ... Mörtu og systur hennar.“ (Jóh. 11:5) Þessi innblásnu orð gefa til kynna að Marta hafi tekið til sín kærleiksríka leiðsögn Jesú og lagt sig fram um að þjóna Jehóva af trúfesti allt sitt líf.

5. Hvers vegna er sérstaklega erfitt í heimi nútímans að einbeita sér að því sem máli skiptir og hvaða spurning vaknar?

5 Við gerum okkur grein fyrir að í heimi nútímans er fleira sem getur truflað okkur í tilbeiðslunni á Jehóva en var á biblíutímanum. „Mannkynið hefur aldrei fyrr getað státað sig af betri samskiptaleiðum, háhraða prentvélum, glanstímaritum, útvarpi, kvikmyndum og sjónvarpi ... Á hverjum degi dynur yfir okkur margt nýtt sem fangar athygli okkar ... Fyrir ekki svo löngu stóð fólk í þeirri trú að við lifðum á ,öld upplýsinganna‘. Hún hefur hins vegar hratt verið að breytast í ,öld truflunar‘.“ Þetta fengu nemendur í Bandaríkjunum að heyra fyrir rúmlega 60 árum. Í enskri útgáfu Varðturnsins 15. september 1958 stóð: „Líklega verður æ meira sem truflar eftir því sem endir þessa heims nálgast.“ Þetta eru orð að sönnu! Og þau vekja upp mikilvæga spurningu: Hvað getum við gert til að forðast óþarfa truflanir og líkja betur eftir Maríu með því að einbeita okkur að andlegum málum?

NÝTUM OKKUR HEIMINN EN EKKI TIL FULLS

6. Hvernig hafa þjónar Jehóva nýtt sér tækni heimsins?

6 Jarðneskur hluti safnaðar Guðs hefur alla tíð nýtt sér vel nýjustu tækni heimsins til að efla sanna tilbeiðslu. Tökum sem dæmi „Sköpunarsöguna í myndum“, myndskyggnu- og kvikmyndasýningu sem var í litum og með hljóðupptökum. Þessi sýning, sem lauk með lýsingu á þúsund ára friðarstjórn Jesú Krists, hughreysti milljónir manna víða um heim áður en fyrri heimsstyrjöldin brast á og meðan á henni stóð. Fagnaðarerindið um ríkið var síðar boðað í útvarpi þannig að milljónir manna til  viðbótar fengu að heyra það. Tölvutækni og Internetið er notað með áhrifaríkum hætti til að boða fagnaðarerindið sem nær nú til fólks á afskekktum eyjum og allt til ystu endimarka jarðar.

Ekki leyfa óþarfa hlutum að trufla þjónustu þína við Jehóva. (Sjá 7. grein.)

7. (a) Hvers vegna er hættulegt að nýta sér heiminn í of miklum mæli? (b) Hvað ættum við sérstaklega að varast? (Sjá neðanmálsgrein.)

7 Eins og Biblían varar við er hættulegt að nýta sér heimsins gæði í of miklum mæli. (Lestu 1. Korintubréf 7:29-31.) Þjónn Guðs getur auðveldlega eytt of miklum tíma í eitthvað sem er í sjálfu sér ekki rangt, eins og tómstundagaman, skemmtilestur, sjónvarpsgláp, ferðalög, búðaráp og að kynna sér nýjustu tækin og flottustu munaðarvörurnar. Samfélagsmiðlar og textaskilaboð geta einnig rænt tíma frá manni og hið sama er að segja um að lesa og áframsenda tölvupósta og fylgjast stöðugt með nýjustu fréttum og íþróttaviðburðum. Það getur jafnvel orðið að áráttu. * (Préd. 3:1, 6) Ef við takmörkum ekki þann tíma, sem við verjum í ónauðsynlega hluti, gætum við farið að vanrækja það allra mikilvægasta – tilbeiðsluna á Jehóva. – Lestu Efesusbréfið 5:15-17.

8. Hvers vegna er mikilvægt að elska ekki það sem í heiminum er?

8 Satan hefur mótað heim sinn þannig að hann sé aðlaðandi og trufli okkur. Þannig var það á fyrstu öld og það á jafnvel enn betur við nú á dögum. (2. Tím. 4:10) Við þurfum því að fylgja þessum leiðbeiningum: ,Elskið ekki það sem í heiminum er.‘ Með því að leitast stöðugt við að lifa í samræmi við leiðbeiningar sem þessar forðumst við að láta trufla okkur og getum styrkt kærleikann til föður okkar á himnum. Það auðveldar okkur að gera vilja Guðs og hljóta velþóknun hans um alla eilífð. – 1. Jóh. 2:15-17.

HALTU AUGANU HEILU

9. Hvað sagði Jesús um táknrænt auga okkar og hvernig setti hann okkur gott fordæmi?

9 Þær vingjarnlegu leiðbeiningar, sem Jesús gaf Mörtu, voru í fullkomnu samræmi við kennslu hans og fordæmi. Hann hvatti lærisveina sína til að halda táknrænu auga sínu heilu til að geta leitað ríkis Guðs án truflunar. (Lestu Matteus 6:22, 33.) Efnislegar eigur íþyngdu ekki Jesú. Hann átti hvorki hús né landareign. – Lúk. 9:58; 19:33-35.

10. Hvaða fordæmi gaf Jesús okkur snemma á þjónustutíð sinni?

 10 Margt gerðist á meðan Jesús starfaði hér á jörð sem hefði getað truflað hann, en hann lét aldrei undan. Snemma á þjónustutíð sinni var Jesús í Kapernaúm. Eftir að hafa kennt mannfjöldanum og gert kraftaverk sárbændi fólkið hann að vera um kyrrt í borginni. Hvernig brást Jesús við þegar fólkið lýsti ánægju sinni yfir að hafa hann hjá sér? Hann sagði: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:42-44) Jesús fylgdi þessu eftir og gekk um Palestínu þvera og endilanga til að boða trúna og kenna. Þrátt fyrir að vera fullkominn hafði hann mannlegar þarfir eins og aðrir. Suma daga, eftir að hafa lagt sig allan fram í þjónustu Guðs, var hann alveg úrvinda. – Lúk. 8:23; Jóh. 4:6.

11. Hvað sagði Jesús við mann sem átti í fjölskyldudeilu og hvaða viðvörun gaf hann?

11 Síðar, þegar Jesús var að kenna fylgjendum sínum hvernig þeir ættu að bregðast við andstöðu, tók maður nokkur til máls og sagði: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum.“ En Jesús lét ekki trufla sig og dragast inn í þessar deilur. Hann svaraði: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Síðan hélt Jesús áfram að kenna og varaði áheyrendur sína við hættunni á að láta efnislegar langanir trufla sig í þjónustunni við Guð. – Lúk. 12:13-15.

12, 13. (a) Hvað vakti athygli nokkurra Grikkja stuttu fyrir dauða Jesú? (b) Hvernig brást Jesús við þegar Filippus bað hann að hitta þessa Grikki?

12 Álagið á Jesú var mikið síðustu vikuna sem hann var maður á jörð. (Matt. 26:38; Jóh. 12:27) Hann hafði mörg verk að vinna og stóð frammi fyrir niðurlægjandi réttarhöldum og grimmilegum dauða. Tökum sem dæmi það sem gerðist sunnudaginn 9. nísan árið 33. Eins og spáð hafði verið kom Jesús inn í Jerúsalem ríðandi á ösnufola og mannfjöldinn hyllti hann sem ,konunginn sem kemur í nafni Drottins‘. (Lúk. 19:38) Daginn eftir fór Jesús í musterið og rak hugrakkur út gráðuga kaupmennina sem notuðu hús Guðs til að féfletta aðra Gyðinga. – Lúk. 19:45, 46.

13 Meðal mannfjöldans í Jerúsalem voru nokkrir Grikkir sem höfðu snúist til gyðingatrúar. Þeir voru svo hrifnir af því sem Jesús gerði að þeir báðu Filippus postula um að fá að hitta hann. En Jesús neitaði að láta trufla sig og einbeitti sér að þeim mikilvægu atburðum sem biðu hans. Hann leitaðist alls ekki við að afla sér vinsælda til að komast hjá því að deyja fyrir hendi andstæðinga Guðs og fórna lífi sínu. Hann minnti Andrés og Filippus á að hann myndi brátt deyja og sagði þeim svo: „Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs.“ Í stað þess að hitta Grikkina hvatti hann til fórnfýsi eins og hann sjálfur sýndi og gaf síðan þetta loforð: „Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra.“ Filippus hefur eflaust komið þessum boðskap áfram til Grikkjanna sem vildu hitta Jesú. – Jóh. 12:20-26.

14. Hvað sýnir að Jesús var öfgalaus þó að boðunin hafi skipað fyrsta sæti í lífi hans?

14 Þó að Jesús léti ekkert trufla sig í að boða fagnaðarerindið, sem var aðalverkefni hans, hugsaði hann ekki um starfið öllum stundum. Hann þáði að minnsta kosti eitt boð í brúðkaupsveislu og átti jafnvel þátt í að gera hana ánægjulegri með því að breyta vatni í vín fyrir kraftaverk. (Jóh. 2:2, 6-10) Hann þáði  líka matarboð með nánum vinum sínum og öðrum sem sýndu áhuga á fagnaðarerindinu. (Lúk. 5:29; Jóh. 12:2) Síðast en ekki síst gaf Jesús sér alltaf tíma til að biðja og hugleiða og til nauðsynlegrar hvíldar. – Matt. 14:23; Mark. 1:35; 6:31, 32.

,LÉTTUM AF OKKUR ALLRI BYRÐI‘

15. Hvað ráðlagði Páll postuli og hvernig var hann öðrum til fyrirmyndar?

15 „Léttum þá af okkur allri byrði,“ skrifaði Páll postuli sem líkti lífsstefnu kristins manns við langhlaup. (Lestu Hebreabréfið 12:1.) Páll fór sjálfur eftir því sem hann kenndi. Hann sneri baki við frægð og frama sem hann hefði getað fengið sem trúarleiðtogi meðal Gyðinga. Í staðinn einbeitti hann sér að því ,sem máli skipti‘ og lagði sig allan fram í þjónustunni við Guð. Hann ferðaðist fram og til baka um Sýrland, Litlu-Asíu, Makedóníu og Júdeu. „Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna,“ skrifaði Páll varðandi von sína um eilíft líf á himni. (Fil. 1:10; 3:8, 13, 14) Hann nýtti sér það til fulls að vera einhleypur og lét ekkert trufla sig heldur ,þjónaði Drottni af alúð og einlægni‘. – 1. Kor. 7:32-35.

16, 17. Hvernig getum við líkt eftir fordæmi Páls hvort sem við erum einhleyp eða gift? Hvernig líktu Mark og Claire eftir Páli?

16 Sumir þjónar Guðs kjósa að vera einhleypir líkt og Páll til að vera ekki með mikla fjölskylduábyrgð og geta helgað sig þjónustunni við ríki Guðs. (Matt. 19:11, 12) Fjölskylduábyrgðin er yfirleitt meiri hjá giftum þjónum Guðs en einhleypum. En hvort sem við erum einhleyp eða gift getum við öll ,létt af okkur allri byrði‘ og látið eins fátt og hægt er trufla þjónustu okkar við Guð. Til þess þurfum við kannski að draga úr einu og öðru sem sóar tíma okkar og setja okkur markmið sem gefa okkur meiri tíma í þjónustunni við Guð.

17 Tökum sem dæmi velsku hjónin Mark og Claire. Þau gerðust bæði brautryðjendur eftir að þau luku skólagöngu og héldu brautryðjandastarfinu áfram þegar þau giftust. „Við gátum einfaldað lífið enn frekar með því að losa okkur við fjögurra herbergja húsið okkar og segja upp hlutastarfinu,“ segir Mark. „Það gerði okkur kleift að taka þátt í alþjóðlega byggingarstarfinu.“ Síðustu 20 árin hafa þau farið víða um Afríku og aðstoðað við byggingu ríkissala. Eitt sinn áttu þau ekki nema 15 dollara en Jehóva sá alltaf fyrir þeim. Claire segir: „Það veitir okkur mikla ánægju að nota hvern dag til að þjóna Jehóva. Við höfum eignast svo marga vini í gegnum árin og okkur skortir ekki neitt. Þær litlu fórnir, sem við höfum fært, eru ekkert í samanburði við hamingjuna sem fylgir því að þjóna Jehóva í fullu starfi.“ Margir sem hafa gert það hafa svipaða sögu að segja. *

18. Hvaða spurninga gætu sumir þurft að spyrja sig?

18 Hvað um þig? Hvað geturðu gert ef þú áttar þig á að þú þjónar Jehóva af minni ákafa en áður? Læturðu eitthvað trufla þig í því sem skiptir mestu máli? Þú gætir þurft að bæta biblíulestrar- og námsstundir þínar með því að gera þær innihaldsríkari. Hvernig geturðu farið að? Um það er rætt í næstu grein.

^ gr. 17 Sjá einnig ævisögu Hadyns og Melody Sanderson í greininni „Knowing What Is Right and Doing It“ (Varðturninn á ensku 1. mars 2006). Þau áttu arðbært fyrirtæki í Ástralíu en seldu það til að geta þjónað Jehóva í fullu starfi. Lestu um það sem gerðist þegar þau voru trúboðar á Indlandi og urðu peningalaus.