Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  September 2015

Vinnur þú að því að ná kristnum þroska?

Vinnur þú að því að ná kristnum þroska?

„Verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.“ – EF. 4:13.

SÖNGVAR: 69, 70

1, 2. Að hvers konar vexti ættu allir kristnir menn að stefna? Lýstu með dæmi.

REYND húsmóðir fer í matvörubúð til að kaupa ávexti. Hún velur ekki endilega stærstu eða ódýrustu ávextina heldur leitar að þroskuðum ávöxtum. Hún vill að þeir séu bragðgóðir, næringarríkir og ilmi vel. Hún velur fullþroskaða ávexti.

2 Fólk heldur áfram að vaxa og þroskast eftir að það vígist Jehóva og lætur skírast. Markmiðið er að verða fullþroska þjónn Guðs. Þroskinn, sem hér um ræðir, er ekki líkamlegur heldur er átt við trúarþroska. Páll postuli benti kristnum mönnum í Efesus á að þeir þyrftu að taka út slíkan þroska. Hann hvatti þá til að ,verða einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verða fullþroska og ná vaxtartakmarki Krists fyllingar‘. – Ef. 4:13.

3. Hvað er líkt með söfnuðinum í Efesus og söfnuðum þjóna Jehóva nú á dögum?

3 Söfnuðurinn í Efesus var nokkurra ára gamall þegar Páll skrifaði bréfið. Margir af lærisveinunum þar höfðu þá þegar náð góðum þroska í trúnni. En sumir áttu enn langt í land  með að ná slíkum þroska. Staðan er svipuð meðal votta Jehóva nú á tímum. Margir bræður og systur hafa þjónað Guði árum saman og tekið út góðan trúarþroska. En það hafa auðvitað ekki allir náð því marki. Til dæmis skírast hundruð þúsunda nýrra lærisveina á hverju ári þannig að margir í söfnuðinum þurfa að vinna að því að þroskast í trúnni. Hvað um þig? – Kól. 2:6, 7.

VÖXTUR OG ÞROSKI KRISTINS MANNS

4, 5. Að hvaða leyti geta þroskaðir kristnir menn verið ólíkir en hvað eiga þeir sameiginlegt? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

4 Þegar þú skoðar þroskaða ávexti úti í búð sérðu strax að þeir eru ekki allir eins. Þeir eiga samt nokkur sameiginleg einkenni sem sýna að þeir eru þroskaðir. Hið sama má segja um þroskaða kristna menn. Þeir geta verið af ólíku þjóðerni og uppruna, á ólíkum aldri, við misjafna heilsu og búið yfir mismikilli reynslu. Þeir hafa jafnvel ólík persónueinkenni eða menningu. En allir sem þroskast í trúnni tileinka sér eiginleika sem sýna og sanna að þeir eru þroskaðir. Hvernig þá?

5 Þroskaður þjónn Jehóva reynir að haga lífi sínu eftir Kristi sem ,lét okkur eftir fyrirmynd til þess að við skyldum feta í fótspor hans‘. (1. Pét. 2:21) Hvað sagði Jesús að væri mikilvægast af öllu? Að elska Jehóva af öllu hjarta, sálu og huga og elska náungann eins og sjálfan sig. (Matt. 22:37-39) Þroskaður þjónn Jehóva reynir að lifa í samræmi við þessar leiðbeiningar. Hann hefur valið sér farveg í lífinu sem sýnir að hann leggur mest upp úr sambandinu við Jehóva og sýnir öðrum fórnfúsan kærleika.

Rosknir bræður geta sýnt sömu auðmýkt og Kristur með því að styðja yngri bræður þegar þeir taka við ábyrgðarstörfum. (Sjá 6. grein.)

6, 7. (a) Hvað einkennir þroskaðan þjón Guðs? (b) Hvað ræðum við í framhaldinu?

6 Við skiljum þó að kærleikur er aðeins einn af ávöxtum andans sem þroskaðir kristnir einstaklingar hafa til að bera. (Gal. 5:22, 23) Aðrir ávextir, svo sem hógværð, sjálfsagi og langlyndi, eru einnig mikilvægir. Þeir geta hjálpað þjóni Guðs að takast á við snúin vandamál án þess að verða pirraður, eða við sár vonbrigði án þess að missa vonina. Í sjálfsnámi sínu leitar hann í sífellu eftir biblíulegum meginreglum sem geta hjálpað honum að greina rétt frá röngu. Ákvarðanir, sem hann tekur í framhaldi af því, vitna um trúarþroska hans. Hann hlustar til dæmis á biblíufrædda samvisku sína. Þroskaður þjónn Guðs sýnir þá auðmýkt að viðurkenna að leiðir Jehóva og mælikvarði hans séu alltaf betri en hans eigin. * Hann boðar fagnaðarerindið af kappi og vinnur að einingu safnaðarins.

7 Óháð því hve lengi við höfum þjónað Jehóva getum við spurt okkur hvort við getum líkt betur eftir Jesú á einhverjum sviðum og haldið áfram að þroska okkar andlega mann.

„FASTA FÆÐAN ER FYRIR FULLORÐNA“

8. Hve góða þekkingu og skilning hafði Jesús á Biblíunni?

8 Jesús Kristur þekkti orð Guðs í þaula. Hann var ekki nema 12 ára gamall þegar hann ræddi biblíuleg mál við kennara í musterinu. „Alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ (Lúk. 2:46, 47) Síðar,  eftir að hann hóf þjónustu sína, þaggaði hann niður í andstæðingum sínum með viðeigandi tilvitnunum í orð Guðs. – Matt. 22:41-46.

9. (a) Hvers konar námsvenjur þarf maður að tileinka sér til að þroskast í trúnni? (b) Hver er tilgangurinn með biblíunámi?

9 Þjónn Jehóva, sem vill þroskast í trúnni, lætur sér ekki nægja að hafa yfirborðslega biblíuþekkingu heldur líkir eftir Jesú. Hann gefur sér tíma að staðaldri til að sökkva sér niður í Biblíuna því að hann veit að „fasta fæðan er fyrir fullorðna“. (Hebr. 5:14) Þroskaður kristinn maður vill auðvitað kynnast syni Guðs náið. (Ef. 4:13) Ertu með frátekinn tíma daglega til að lesa í Biblíunni? Tekurðu þér tíma að staðaldri til að stunda sjálfsnám og gerirðu allt sem þú getur til að eiga vikulega námsstund með fjölskyldunni? Þegar þú kafar ofan í orð Guðs skaltu hafa augun opin fyrir meginreglum sem hjálpa þér að glöggva þig á hvernig Jehóva hugsar og lítur á málin. Reyndu síðan að fara eftir meginreglum Biblíunnar og fylgja þeim þegar þú tekur ákvarðanir. Þannig styrkirðu sambandið við Jehóva.

10. Hvaða áhrif hefur þekking þroskaðs kristins manns á daglegt líf hans?

10 Þroskaður kristinn einstaklingur veit að þekking er ekki nóg ein og sér. Hann þarf líka að elska þekkinguna á Guði og meginreglur hans. Slíkur kærleikur birtist meðal annars í því að áherslur hans í lífinu miðast við vilja Jehóva en ekki langanir og tilhneigingar manna. Þjónn Jehóva hefur eflaust lagt sig fram um að breyta sínum fyrri viðhorfum og hegðun. Hann íklæðist þá hinum nýja manni sem líkist Kristi og er skapaður „eins og  Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt“. (Lestu Efesusbréfið 4:22-24.) Biblían var skrifuð undir handleiðslu heilags anda Guðs. Þegar þjónn Guðs kynnist meginreglum Biblíunnar betur og lærir að elska þær opnar hann hjartað og hugann fyrir áhrifum heilags anda. Þannig þroskast hann í trúnni.

AÐ TENGJAST EININGARBÖNDUM

11. Hvað upplifði Jesús í samskiptum við fjölskyldu sína og lærisveina?

11 Jesús var umkringdur ófullkomnu fólki meðan hann var fullkominn maður á jörð. Hann ólst upp hjá ófullkomnum foreldrum og bjó árum saman með ófullkominni fjölskyldu. Nánustu fylgjendur hans voru meira að segja undir áhrifum af metnaðargirni og undirferli umheimsins. Sem dæmi má nefna að kvöldið áður en Jesús var tekinn af lífi fóru þeir að „metast um hver þeirra væri talinn mestur“ og var þeim heitt í hamsi. (Lúk. 22:24) En Jesús treysti að ófullkomnir fylgjendur sínir gætu þroskast og myndað sameinaðan söfnuð. Þetta sama kvöld bað hann fyrir því að kærleikurinn myndi sameina postula sína. Hann sagði í bæn til föður síns á himnum: „Allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur ... svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“ – Jóh. 17:21, 22.

12, 13. (a) Hvernig leggur Efesusbréfið 4:15, 16 áherslu á að við þurfum að vinna að einingu í söfnuðinum? (b) Hvernig tókst bróður nokkrum að sigrast á ákveðnum veikleika og læra að stuðla að einingu?

12 Þroskaður þjónn Jehóva stuðlar að einingu í söfnuðinum. (Lestu Efesusbréfið 4:1-6, 15, 16.) Það er markmið þjóna Guðs að vera samlyndir og sameinaðir og að allir inni sína þjónustu af hendi í góðri samvinnu. Að sögn Biblíunnar þurfum við að vera auðmjúk til að ná fram þessari einingu. Þroskaður bróðir eða systir er nógu auðmjúk til að vinna að einingu, jafnvel þegar ófullkomleiki annarra virðist gera það erfitt. Hvernig bregstu við þegar ófullkomleiki einhvers í söfnuðinum veldur árekstri milli ykkar? Eða segjum að einhver í söfnuðinum beiti þig órétti? Hefurðu þá tilhneigingu til eða ert jafnvel vanur að reisa múr milli þín og þess sem gerði á hlut þinn? Eða reynirðu að byggja brú yfir gjána sem myndaðist milli ykkar? Þroskaður kristinn maður vill ekki reisa múra heldur leggur sig allan fram við að byggja brýr.

13 Uwe hafði tilhneigingu til að láta ófullkomleika trúsystkina fara í skapið á sér. Dag nokkurn ákvað hann að nota Biblíuna og handbókina Insight on the Scriptures til að kynna sér ævi Davíðs vel og vandlega. Hvers vegna valdi hann Davíð? Uwe svarar: „Davíð horfði upp á það að sum af trúsystkinum hans hegðuðu sér ekki í samræmi við boð Biblíunnar. Sem dæmi má nefna að Sál konungur reyndi að drepa hann, sumir af mönnum hans vildu grýta hann og eiginkona hans hæddist meira að segja að honum. (1. Sam. 19:9-11; 30:1-6; 2. Sam. 6:14-22) En kærleikur Davíðs til Jehóva dofnaði aldrei þó að aðrir kæmu illa fram við hann. Davíð var líka miskunnsamur að eðlisfari og það var hlutur sem ég þurfti að tileinka mér. Það sem ég lærði af þessu námsverkefni varð til þess að ég fór að sjá ófullkomleika trúsystkina í nýju ljósi. Nú er ég hættur að halda bókhald yfir  mistök annarra. Ég reyni öllu heldur að vinna að einingu í söfnuðinum.“ Hefur þú líka það markmið að stuðla að einingu í söfnuðinum?

VINIR SEM GERA VILJA GUÐS

14. Hvers konar fólk valdi Jesús sér að vinum?

14 Jesús Kristur var vingjarnlegur við fólk almennt. Alls konar fólki leið vel í návist hans – körlum og konum, ungum og gömlum og börnunum líka. En Jesús vandaði valið þegar hann valdi sér nána vini. Hann sagði trúum postulum sínum: „Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður.“ (Jóh. 15:14) Jesús valdi sér vini úr hópi fólks sem fylgdi honum dyggilega og þjónaði Jehóva af heilum hug. Velur þú þér líka nána vini úr hópi þeirra sem þjóna Jehóva af heilum hug og hjarta? Hvers vegna er það mikilvægt?

15. Hvaða gagn getur unga fólkið haft af því að vera með þroskuðum trúsystkinum?

15 Margs konar ávextir þroskast best í hlýrri sólinni. Hlýjan meðal bræðra og systra getur líka hjálpað þér að sækja fram til þroska. Ertu ungur eða ung að árum og ertu að reyna að ákveða hvaða braut þú eigir að velja í lífinu? Þá er viturlegt af þér að vera með trúsystkinum sem hafa töluverða reynslu af því að þjóna Jehóva og vinna að einingu innan safnaðarins. Það má vel vera að það hafi gengið á ýmsu í lífi þeirra, og að þau hafi þurft að takast á við ýmsar áskoranir í þjónustunni við Guð. Þau geta hjálpað þér að velja bestu stefnuna í lífinu. Uppbyggilegur félagsskapur við þessi hlýlegu trúsystkini getur hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir og stefna fram til þroska. – Lestu Hebreabréfið 5:14.

16. Hvaða hjálp fékk ung systir frá trúsystkinum sem voru eldri en hún?

16 Helga minnist þess að bekkjarsystkinum hennar var tíðrætt um markmið sín síðasta árið sem hún var í skóla. Mörg þeirra ætluðu að fara í háskóla og vonuðust til að það yrði stökkpallur fyrir þau að góðu starfi þegar þau færu út á vinnumarkaðinn. Helga ræddi málin við vini í söfnuðinum. „Margir þeirra voru eldri en ég og hjálpuðu mér heilmikið,“ segir hún. „Þeir hvöttu mig til að gerast brautryðjandi og ég gat verið það í fimm ár. Núna, mörgum árum síðar, er ég ánægð með að ég skyldi geta notað krafta mína í þjónustu Jehóva meðan ég var ung. Ég sé ekki eftir því.“

17, 18. Hvernig getur trúarþroski hjálpað okkur að nota lífið á sem bestan hátt?

17 Það hjálpar okkur að þroska hinn andlega mann ef við einbeitum okkur að fordæmi Jesú og reynum að feta í fótspor hans. Þá tengjumst við Jehóva nánari böndum og fáum sterkari löngun til að þjóna honum eins vel og við getum. Þjónn Jehóva kemur að mestum notum í þjónustu hans þegar hann hefur náð fullum kristnum þroska. Jesús sagði við fylgjendur sína: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ – Matt. 5:16.

18 Eins og fram hefur komið getur þroskaður þjónn Guðs haft mjög jákvæð áhrif á söfnuðinn. Og trúarþroski okkar birtist í því hvernig við hlýðum rödd samviskunnar sem Guð gaf okkur. Hvernig getur samviskan hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir? Og hvernig getum við virt þær ákvarðanir sem trúsystkini okkar taka í samræmi við samvisku sína? Við ræðum það í greininni á eftir.

^ gr. 6 Sem dæmi má nefna að rosknir og reyndir bræður eru stundum beðnir að láta ákveðin ábyrgðarstörf í hendur yngri bræðra og styðja þá þegar þeir taka við þessum störfum.