Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á hvaða hátt sýnir Jehóva að hann elskar okkur?

Á hvaða hátt sýnir Jehóva að hann elskar okkur?

„Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur.“ – 1. JÓH. 3:1.

SÖNGVAR: 91, 13

1. Hvað hvatti Jóhannes postuli kristna menn til að hugleiða og hvers vegna?

ÞAÐ er okkur mikils virði að hugleiða vandlega orð Jóhannesar postula í 1. Jóhannesarbréfi 3:1. Þegar hann segir: „sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur,“ hvetur hann kristna menn til að hugsa um hvernig Jehóva sýnir þeim kærleika og í hvaða mæli. Ef við skiljum hvernig Jehóva elskar okkur vex kærleikur okkar til hans og sambandið við hann styrkist.

2. Hvers vegna finnst sumum erfitt að trúa því að Guð elski þá?

2 Sumum finnst þó framandi að hugsa að Guð elski mennina. Í þeirra huga á maður bara að óttast Guð og hlýða honum. Vegna rótgróinna falskenninga finnst þeim kannski Guð vera kærleikslaus og jafnvel að ekki sé hægt að elska hann. Svo eru aðrir sem trúa því að Guð elski alla skilyrðislaust, sama hvað þeir geri og hvað þeir geri ekki. Í biblíunámi þínu hefurðu lært að kærleikur sé aðaleiginleiki Jehóva og að það hafi verið vegna kærleika sem hann gaf son sinn sem lausnargjald í okkar þágu. (Jóh. 3:16; 1. Jóh. 4:8) Það getur samt verið að uppeldi þitt og bakgrunnur hafi áhrif á það hvernig þú upplifir kærleika Guðs.

3. Hvaða grundvallarsannindi hjálpa okkur að skilja hvernig Guð elskar okkur?

 3 Á hvaða hátt sýnir Jehóva að hann elskar okkur? Til að svara því þurfum við fyrst að skilja hvers konar samband við eigum við Jehóva. Jehóva er auðvitað skapari mannkynsins. (Lestu Sálm 100:3-5.) Þess vegna kallar Biblían Adam ,son Guðs‘ og Jesús kenndi fylgjendum sínum að ávarpa Guð sem ,föður þeirra á himnum‘. (Lúk. 3:38; Matt. 6:9) Þar sem Jehóva gaf okkur lífið er hann faðir okkar og samband okkar við hann er eins og milli föður og barns. Með öðrum orðum elskar Jehóva okkur eins og ástríkur faðir elskar börnin sín.

4. (a) Hvernig er Jehóva ólíkur mennskum feðrum? (b) Um hvað er rætt í þessari grein og þeirri næstu?

4 Mennskir feður eru auðvitað ófullkomnir. Þó að þeir reyni geta þeir aldrei endurspeglað föðurlegan kærleika Jehóva til fulls. Sumir hafa jafnvel vondar minningar frá uppeldi sínu sem hafa skilið eftir sig djúp tilfinningaleg sár og vanlíðan. Það er ömurlegt að fólk þurfi að upplifa slíkt. Við getum verið viss um að Jehóva er ekki þess konar faðir. (Sálm. 27:10) Án efa dregur það okkur nær honum að skilja hvernig hann elskar okkur og annast. (Jak. 4:8) Í þessari grein skoðum við fernt sem sýnir að Jehóva elskar okkur. Í næstu grein verður rætt um fernt sem við getum gert til að sýna að við elskum hann.

JEHÓVA SÉR FYRIR OKKUR ÞVÍ AÐ HANN ELSKAR OKKUR

5. Hvað sagði Páll postuli Aþeningum um Guð?

5 Þegar Páll postuli var í Aþenu í Grikklandi tók hann eftir að borgin var full af líkneskjum af guðum og goðum sem fólk trúði að gæfi þeim lífið og héldi þeim uppi. Þetta varð til þess að Páll sagði: „Guð, sem skóp heiminn og allt sem í honum er ... gefur öllum líf og anda og alla hluti ... Í honum lifum, hrærumst og erum við.“ (Post. 17:24, 25, 28) Já, Jehóva gefur okkur „alla hluti“ sem eru nauðsynlegir til að viðhalda lífinu og hann gerir það af kærleika. Hugsaðu um hvað það felur í sér.

6. Hvernig er jörðin merki um kærleika Guðs til okkar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

6 Hugsaðu um jörðina sem Jehóva, skapari okkar, ,gaf mannanna börnum‘. (Sálm. 115:15, 16) Vísindamenn hafa notað fúlgur fjár í rannsóknir á himingeimnum til að finna reikistjörnur sem líkjast jörðinni. Þó að þeir hafi skoðað hundruð reikistjarna hafa þeir, sér til mikilla vonbrigða, ekki fundið neina með sambærilegum aðstæðum og á jörðinni sem eru skilyrði fyrir því að menn gætu lifað þar. Jörðin virðist vera einstæð meðal allra sköpunarverka Guðs. Jehóva skapaði hana meðal óteljandi reikistjarna innan og utan vetrarbrautarinnar. Hugsaðu þér! Hún er ekki bara lífvænleg heldur þægilegt, fallegt og öruggt heimili fyrir mennina. (Jes. 45:18) Það sýnir hve heitt Jehóva elskar okkur. – Lestu Jobsbók 38:4, 7; Sálm 8:4-6.

7. Hvernig skapaði Guð okkur og hvernig sýnir það að hann elskar okkur heitt?

7 Þó að Jehóva hafi búið okkur undursamlegt heimili veit hann að við þurfum meira en að uppfylla efnislegar þarfir til að vera hamingjusöm og ánægð. Barni finnst það vera fullkomlega öruggt þegar það finnur fyrir ást og athygli foreldra sinna. Jehóva skapaði mennina í sinni mynd og því geta þeir fundið fyrir kærleika hans og umhyggju og elskað hann á móti. (1. Mós. 1:27) Jesús benti líka á að við höfum andlegar þarfir og sagði:  „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matt. 4:4) Jehóva er ástríkur faðir og því „lætur [hann] okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst,“ bæði efnislega og andlega. – 1. Tím. 6:17; Sálm. 145:16.

JEHÓVA KENNIR OKKUR SANNLEIKANN

8. Hvers vegna viljum við láta Jehóva leiðbeina okkur?

8 Feður elska börnin sín og reyna að passa að þau láti ekki blekkjast eða afvegaleiðast. En margir foreldrar geta ekki leiðbeint börnunum sem skyldi því að þeir hafa sjálfir hafnað meginreglunum í orði Guðs. Þar af leiðandi lenda þeir oft á villigötum og verða fyrir vonbrigðum. (Orðskv. 14:12) Jehóva er hins vegar Guð sannleikans. (Jes. 45:23) Hann elskar börnin sín og hefur ánægju af því að láta ljós sannleikans skína til að leiðbeina þeim á öllum sviðum lífsins, sérstaklega þeim sem tengjast tilbeiðslunni. (Lestu Sálm 43:3.) Hvaða sannleika hefur Jehóva opinberað og hvernig sýnir það að hann elskar okkur?

Kristnir feður líkja eftir Jehóva, himneskum föður okkar, með því að kenna börnum sínum sannleikann og hjálpa þeim að eignast gott samband við hann. (Sjá 8.-10. grein.)

9, 10. Hvernig sýnir Jehóva að hann elskar okkur með því að opinbera sannleikann (a) um sjálfan sig? (b) um okkur?

9 Í fyrsta lagi hefur Jehóva opinberað sannleikann um sjálfan sig. Hann segir okkur nafn sitt en það kemur oftar fyrir í Biblíunni en nokkurt annað nafn. Þannig nálgast hann okkur og leyfir okkur að kynnast sér. (Jak. 4:8) Hann segir okkur líka frá eiginleikum sínum sem sýna hvers konar Guð hann er. Hinn sýnilegi alheimur vitnar um mátt Guðs og visku en í Biblíunni sýnir hann okkur líka að hann sé réttlátur og að fremsti eiginleiki hans sé takamarkalaus kærleikur. (Rómv. 1:20) Hann er eins og faðir sem er bæði sterkur og vitur en líka ástríkur og sanngjarn og það auðveldar börnum hans að eignast náið samband við hann.

10 Okkur til góðs hefur Jehóva líka opinberað sannleikann um okkur, um hlutverk okkar í fyrirkomulagi hans. Það stuðlar að friði og reglu í alheimsfjölskyldu hans. Við lærum af Biblíunni að mennirnir séu ekki skapaðir með réttinn til að stjórna sér sjálfir og vera óháðir Guði, og ef við hunsum þessi grundvallarsannindi hefur það dapurlegar afleiðingar. (Jer. 10:23) Að vita þetta er forsenda þess að okkur farnist vel. Við getum aðeins verið sátt og átt innri frið ef við viðurkennum yfirráð Guðs. Er það ekki kærleiksríkt að Jehóva skuli kjósa að segja okkur frá þessum mikilvæga sannleika?

11. Hvaða loforð Jehóva sýnir hve annt og umhugað honum er um okkur?

11 Ástríkum föður er mjög umhugað um framtíð barna sinna og hann vill að þau lifi innihaldsríku lífi sem hefur tilgang. Því miður fálma flestir í myrkri hvað framtíðina varðar eða stefna að markmiðum sem veita enga varanlega hamingju. (Sálm. 90:10) Við finnum sterklega fyrir því hvernig Jehóva elskar okkur eins og börn sín þar sem hann hefur lofað okkur yndislegri framtíð. Og það veitir okkur sannan tilgang í lífinu.

JEHÓVA LEIÐBEINIR BÖRNUM SÍNUM OG AGAR ÞAU

12. Hvernig sýndi Jehóva Kain og Barúk kærleika og umhyggju með því að gefa þeim ráð og leiðbeiningar?

12 „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt? ... Þú getur sigrast á [syndinni].“ (1. Mós. 4:6, 7) Þetta  voru tímabær ráð og góðar leiðbeiningar. Þegar ljóst var að Kain væri kominn út á hættulega braut varaði Jehóva hann við. Því miður hlustaði Kain ekki á viðvörunina og hann þurfti að gjalda fyrir. (1. Mós. 4:11-13) Þegar Barúk, ritari Jeremía, var eitt sinn orðinn þreyttur og kjarklaus gaf Jehóva honum ráð til að hjálpa honum að sjá hvert vandamálið var í raun. Barúk tók við leiðbeiningum Jehóva ólíkt Kain og það varð honum til lífs. – Jer. 45:2-5.

13. Hvers vegna leyfði Jehóva að trúir þjónar sínir þyldu ýmsar raunir?

13 „Drottinn agar þann sem hann elskar og hirtir harðlega hvert það barn er hann tekur að sér,“ skrifaði Páll. (Hebr. 12:6) Agi felur þó meira í sér en refsingu. Hann getur birst í ýmsum myndum. Í Biblíunni eru mörg dæmi um trúfasta þjóna Guðs sem þoldu miklar raunir en þær fólu ef til vill í sér aga og styrktu þá. Hugsaðu um Jósef, Móse og Davíð. Fáar frásögur af persónum Biblíunnar eru eins skýrar og ítarlegar og frásögurnar af þeim. Jehóva var með þeim í gegnum erfiðleika og notaði þá síðan til að vinna stór og mikil verk í sína þágu. Þegar við lesum þessar frásögur sjáum við æ betur hve annt Jehóva er um þjóna sína og hve heitt hann elskar þá. – Lestu Orðskviðina 3:11, 12.

14. Hvernig getum við fundið fyrir kærleika Jehóva þegar hann agar okkur?

14 Agi af hendi Jehóva hjálpar okkur að sjá annan flöt á kærleika hans. Þegar þeir sem hafa gert eitthvað af sér hljóta aga frá Jehóva, taka við honum og iðrast ,fyrirgefur hann þeim ríkulega‘. (Jes. 55:7) Hvað þýðir það? Davíð lýsti  fyrirgefningu Jehóva með þessum hjartnæmu orðum: „Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. Svo langt sem austrið er frá vestrinu, svo langt hefur hann fjarlægt afbrot vor frá oss.“ (Sálm. 103:3, 4, 12) Reynum alltaf að hlusta og bregðast fljótt við þegar Jehóva leiðbeinir okkur og beitir okkur aga, og munum að hann gerir þetta vegna síns takmarkalausa kærleika til okkar. – Sálm. 30:6.

JEHÓVA VER OKKUR OG VERNDAR

15. Hvað sýnir okkur að við sem þjónum Jehóva erum honum mikils virði?

15 Eitt það mikilvægasta í huga ástríks föður er að vernda fjölskyldu sína gegn öllu sem gæti skaðað hana eða stofnað henni í alvarlega hættu. Jehóva, himneskur faðir okkar, gerir það ekki síður. Sálmaskáldið segir um hann: „Hann verndar dýrkendur sína, frelsar þá úr hendi óguðlegra.“ (Sálm. 97:10) Lítum á dæmi. Þér er eflaust mjög annt um augun þín. Jehóva ber svipaðar tilfinningar til þjóna sinna. (Lestu Sakaría 2:12.) Þjónar Jehóva eru honum greinilega mjög verðmætir.

16, 17. Lýstu því hvernig Jehóva hefur varið og verndað þjóna sína bæði á biblíutímanum og núna.

16 Ein leið Jehóva til að vernda þjóna sína er fyrir milligöngu engla. (Sálm. 91:11) Einn engill bjargaði Jerúsalem undan árás Assýringa með því að eyða 185.000 manna hersveit þeirra á einni nóttu. (2. Kon. 19:35) Englar björguðu líka postulunum Pétri og Páli ásamt fleirum úr fangelsi. (Post. 5:18-20; 12:6-11) Jehóva verndar einnig þjóna sína nú á dögum. Fulltrúi aðalstöðvanna, sem heimsótti deildarskrifstofu í Afríku, sagði frá því að pólitísk og trúarleg átök hefðu lagt landið í rúst. Stríðsátök, þjófnaður, nauðganir og morð ollu glundroða og stjórnleysi í landinu. Af bræðrum okkar og systrum var enginn sem týndi lífi í þessum átökum þó að margir hafi misst bæði vinnuna og allt sem þeir áttu. Þegar þau voru spurð hvernig þau hefðu það svöruðu þau öll með breiðu brosi: „Allt gengur vel, þökk sé Jehóva!“ Þau fundu fyrir kærleika hans.

17 Jehóva hefur stundum leyft að andstæðingar lífláti dygga þjóna hans eins og Stefán er dæmi um. En hann verndar þjóna sína í heild með því að veita tímabærar viðvaranir við vélabrögðum Satans. (Ef. 6:10-12) Í Biblíunni og ritum safnaðar hans fáum við hjálp til að átta okkur á blekkingum efnishyggjunnar, slæmum áhrifum siðlausrar og ofbeldisfullrar afþreyingar, hættum á Netinu og svo framvegis. Jehóva er eins og ástríkur faðir sem hugsar um velferð og öryggi barna sinna.

MIKIL VERÐMÆTI

18. Hvað finnst þér um að Jehóva skuli elska þig?

18 Við höfum nú skoðað fáeinar hliðar á kærleika Jehóva til okkar og okkur líður örugglega eins og Móse. Hann hugsaði um langa ævi sína í þjónustunni við Jehóva og sagði: „Metta oss að morgni með miskunn þinni, að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.“ (Sálm. 90:14) Það er fátt eins verðmætt í lífi okkar og að geta skilið og fundið að Jehóva elski okkur. Við erum eflaust snortin eins og Jóhannes postuli sem sagði: „Sjáið hvílíkan kærleika faðirinn hefur auðsýnt okkur.“ – 1. Jóh. 3:1.