BYGGINGARVINNA var ekkert nýtt fyrir Besalel og Oholíab. Þegar þeir voru þrælar í Egyptalandi höfðu þeir líklega búið til fleiri tígulsteina en þeir kærðu sig um að muna. En sá tími var liðinn. Núna yrðu þeir meðal færustu handverksmanna þar sem þeim var falin umsjón með smíði alls sem tengdist tjaldbúðinni. (2. Mós. 31:1-11) Fáir myndu þó nokkurn tíma sjá suma þeirra stórkostlegu hluta sem þeir byggju til. Myndi það ergja þá að þeir fengju ekki viðurkenningu fyrir verk sitt? Skipti það máli hver tæki eftir verki þeirra? Skiptir máli hver tekur eftir því sem þú gerir?

MEISTARAVERK SEM AÐEINS FÁEINIR SÁU

Handverksmunirnir í tjaldbúðinni voru sumir hverjir alger meistaraverk. Hugsaðu til dæmis um gullnu kerúbana sem voru á loki sáttmálsarkarinnar. Páll postuli sagði að þeir væru dýrðlegir. (Hebr. 9:5, Biblían 1859) Ímyndaðu þér hve undurfögur þessi smíði úr slegnu gulli hefur verið. – 2. Mós. 37:7-9.

Ef munirnir, sem Besalel og Oholíab smíðuðu, fyndust núna ættu þeir heima á merkustu söfnum þar sem fjöldi fólks gæti litið þá augum. En hversu margir virtu fyrir sér fegurð þeirra þegar þeir voru búnir til? Kerúbarnir voru staðsettir í hinu allra helgasta. Æðstipresturinn var því sá eini sem sá þá þegar hann fór þangað inn á friðþægingardeginum, einu sinni á ári. (Hebr. 9:6, 7) Það voru sem sagt örfáir menn sem nokkurn tíma sáu þá.

VERUM ÁNÆGÐ ÞÓTT FÁIR TAKI EFTIR VERKUM OKKAR

Reyndu að setja þig í spor Besalels og Oholíabs sem höfðu lagt mikið á sig til að smíða þessa merku gripi. Hvað hefði þér fundist um að bara fáeinir fengju að sjá þá? Fólki nú á dögum finnst það oft hafa áorkað einhverju þegar það hlýtur hrós og aðdáun félaga sinna. Það er mælikvarði á hve mikils virði verk þess er. En þjónar Jehóva hugsa ekki þannig. Við erum ánægð þegar við gerum vilja Jehóva og hljótum velþóknun hans, rétt eins og Besalel og Oholíab.

Á dögum Jesú var algengt að trúarleiðtogar færu með bænir til ganga í augun á öðrum. Jesús  mælti þó með allt öðru – að biðja einlægra bæna án þess að sækjast eftir hylli þeirra sem sæju til. Hvað hefði það í för með sér? „Faðir þinn, sem sér í leynum, mun umbuna þér.“ (Matt. 6:5, 6) Það skiptir greinilega ekki máli hvað öðrum finnst um bænir okkar heldur hvað Jehóva finnst um þær. Það er álit hans sem gerir bænir okkar verðmætar. Hið sama má segja um allt sem við áorkum í heilagri þjónustu. Við metum það ekki út frá áliti manna því að Jehóva, „sem sér í leynum“, hefur velþóknun á því.

Þegar tjaldbúðin var tilbúin ,huldi ský samfundatjaldið og dýrð Drottins fyllti tjaldbúðina‘. (2. Mós. 40:34) Þetta var greinilegt merki um velþóknun Jehóva. Hvernig heldurðu að Besalel og Oholíab hafi liðið á þessari stundu? Þótt verk þeirra hafi hvergi verið merkt þeim hljóta þeir að hafa verið ánægðir vitandi að Jehóva hafði blessað alla vinnu þeirra. (Orðskv. 10:22) Það hefur eflaust hlýjað þeim um hjartarætur næstu árin að sjá verk sitt koma að gagni í þjónustunni við Jehóva. Þegar Besalel og Oholíab rísa upp í nýja heiminum verða þeir án vafa hæstánægðir að fá að vita að tjaldbúðin hafi verið notuð við sanna tilbeiðslu í hér um bil fimm aldir.

Menn taka kannski ekki eftir verkum sem þú vinnur fúslega og í auðmýkt en Jehóva gerir það.

Nú á dögum starfa bræður og systur fyrir söfnuð Jehóva sem teiknarar, myndlistarmenn, tónlistarmenn, ljósmyndarar, greina- og bókahöfundar og þýðendur en enginn þeirra kemur fram undir nafni. Í þeim skilningi er enginn sem „sér“ það sem þeir gera. Hið sama má segja um mörg verk sem unnin eru í rúmlega 110.000 söfnuðum Votta Jehóva um allan heim. Hver tekur eftir þegar bróðirinn, sem sér um bókhaldið, fyllir út öll nauðsynleg eyðublöð í lok mánaðarins? Hver sér ritarann taka saman skýrslu um starf safnaðarins? Hver fylgist með bróður eða systur sinna nauðsynlegri viðgerð í ríkissalnum?

Besalel og Oholíab hlutu aldrei verðlaunagripi eða viðurkenningarskjöl fyrir snilldarhönnun og gæðasmíði. En um ævina hlutu þeir nokkuð sem var margfalt verðmætara – velþóknun Jehóva. Við getum verið viss um að Jehóva tók eftir vinnu þeirra. Við skulum líkja eftir þeim og þjóna Jehóva fúslega og í auðmýkt.