„HEILSAN er meira og meira til vandræða,“ stynur Ernst sem er á áttræðisaldri. * Hljómar þetta kunnuglega? Ef þú ert farinn að eldast, heilsan að bila og kraftarnir að dvína er ekki ólíklegt að þér finnist lýsingin í Prédikaranum 12. kafla eiga við þig. Í 1. versinu er ellin kölluð „vondu dagarnir“. En það er ekki þar með sagt að elliárin þurfi að vera ömurleg. Þú getur lifað innihaldsríku lífi og þjónað Jehóva með gleði.

AÐ VARÐVEITA STERKA TRÚ

Þið kæru bræður og systur eruð ekki ein um að þekkja fylgifiska ellinnar. Aldraðir þjónar Jehóva á biblíutímanum kynntust þeim líka af eigin raun. Ísak, Jakob og Ahía misstu sjónina. (1. Mós. 27:1; 48:10; 1. Kon. 14:4) Söru fannst hún vera „útslitin“. (1. Mós. 18:11, 12) Davíð konungur „hélt ekki lengur á sér hita“. (1. Kon. 1:1) Hinn auðugi Barsillaí missti bragðskynið og heyrnin bilaði svo að hann gat ekki lengur notið tónlistar. (2. Sam. 19:33-36) Abraham og Naomí misstu bæði maka sinn. – 1. Mós. 23:1, 2; Rut. 1:3, 12.

Hvað hjálpaði þeim að vera Jehóva trú og halda gleði sinni? Abraham „styrktist í trúnni“ á elliárunum því að hann treysti loforðum Guðs. (Rómv. 4:19, 20) Við þurfum líka að hafa sterka trú. Hún er ekki háð aldri okkar, getu eða aðstæðum. Ættfaðirinn Jakob sýndi sterka trú á loforð Guðs, jafnvel þó að hann væri orðinn veikburða, blindur og rúmfastur. (1. Mós. 48:1-4, 10; Hebr. 11:21) Ines er 93 ára og er með vöðvaslensfár. Hún segir engu að síður: „Mér finnst Jehóva launa mér ríkulega hvern einasta dag. Ég hugsa um paradís á hverjum degi. Það veitir mér von.“ Það er hrósvert að vera svona jákvæður.

Við styrkjum trúna með því að biðja, lesa orð Guðs, hugleiða það og sækja safnaðarsamkomur. Daníel spámaður baðst fyrir þrisvar á dag sem aldraður maður og var iðinn að lesa orð Guðs. (Dan. 6:11; 9:2) Hin aldraða ekkja Anna „vék eigi úr helgidóminum“. (Lúk. 2:36, 37) Þú endurnærir bæði sjálfan þig og alla viðstadda ef þú sækir samkomur eftir því sem þú hefur tök á og tekur eins mikinn þátt í þeim og þú getur. Og Jehóva hefur alltaf ánægju af bænum þínum, jafnvel þó að þú getir ekki gert eins mikið og þú vildir. – Orðskv. 15:8.

Uppörvaðu aðra.

Mörg ykkar eigið þá ósk heitasta að sjá nógu vel til að geta lesið og að hafa krafta til að sækja samkomur en eigið orðið erfitt með það eða getið það alls ekki. Hvað er þá til ráða? Notið sem best það sem þið getið nýtt ykkur. Margir sem geta ekki sótt samkomur hlusta á þær í síma. Inge er 79 ára og er orðin sjóndöpur. Bróðir í söfnuðinum prentar fyrir hana efni með stóru letri sem hún notar til að búa sig undir samkomurnar.

Vel má vera að þú eigir nokkuð sem aðrir vildu gjarnan eiga – tíma. Væri ekki þjóðráð að nota hann til að hlusta á upplestur Biblíunnar eða biblíutengdra rita, eða þá upptökur af ræðum og leikritum? Og þú gætir líka notað stund og stund til að hringja í trúsystkini og miðla af gjöfum andans svo að þið getið „uppörvast saman“. – Rómv. 1:11, 12.

AÐ VERA VIRKUR Í ÞJÓNUSTU GUÐS

Boðaðu fagnaðarerindið.

„Það er hræðilegt að vera ekki eins virkur og maður var áður,“ segir Christa í mæðutón en hún er hálfníræð. Hvernig geta aldraðir þjónar Guðs viðhaldið gleðinni? „Með því að hugsa jákvætt,“ segir Peter sem er 75 ára. „Vertu ekki að hugsa um það sem þú getur ekki heldur njóttu þess að gera það sem þú getur.“

 Hvaða leiðir standa þér enn opnar til að boða fagnaðarerindið? Heidi getur ekki gengið í hús eins og áður. Hún var komin vel yfir áttrætt þegar hún lærði að nota tölvu til að skrifa bréf. Sumir aldraðir boðberar brydda upp á biblíulegum umræðum þar sem þeir sitja á bekk í almenningsgarði eða á strætisvagnabiðstöð. Ef þú ert kominn á elli- eða hjúkrunarheimili gætirðu kannski verið með þitt eigið „starfssvæði“ meðal heilbrigðisstarfsfólksins sem annast þig eða meðal annarra vistmanna.

Sýndu gestrisni.

Davíð konungur studdi sanna tilbeiðslu með ráðum og dáð á efri æviárum. Hann gaf fjármuni til að byggja musterið og hvatti aðra til að styðja framkvæmdina. (1. Kron. 28:11 – 29:5) Þú getur líka haft vakandi áhuga á því sem er að gerast á vegum Guðsríkis um víða veröld. Hvernig væri að styðja við bakið á brautryðjendum og öðrum duglegum boðberum í söfnuðinum þínum með hvetjandi orðum, smá gjöf eða einfaldri máltíð? Í bænum þínum geturðu minnst á börn, unglinga og fjölskyldur, svo og þá sem eru veikir, þjóna í fullu starfi og gegna ábyrgðarstörfum.

Þú og þjónusta þín eruð mikils virði. Faðirinn á himnum hafnar ykkur aldrei, kæru öldruðu boðberar. (Sálm. 71:9) Hann elskar ykkur og lætur sér annt um ykkur. Áður en langt um líður getum við öll elst án þess að upplifa ,vonda daga‘ og þjáningar. Við munum öllu heldur halda áfram að þjóna ástríkum Guði okkar, Jehóva, við fullkomna heilsu og með óþrjótandi orku um alla eilífð.

^ gr. 2 Sumum nöfnum er breytt.