Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við getum verið hreinlíf

Við getum verið hreinlíf

„Hreinsið hendur ykkar ... og gerið hjörtun flekklaus.“ – JAK. 4:8.

1. Hvernig lítur heimurinn á hreinlífi?

ÞAÐ er ekki talin nein dyggð í heiminum að vera hreinlífur, sérstaklega á okkar dögum. Víða um lönd eru samkynhneigð og kynlíf utan hjónabands talin eðlilegur hlutur. Þessu líferni er hampað í auglýsingum og vinsælu skemmtiefni. (Sálm. 12:9) Kynferðislegt siðleysi er orðið svo útbreitt að mörgum er spurn hvort það sé yfirleitt hægt að lifa hreinu lífi. Já, það er vissulega hægt. Með hjálp Jehóva geta þjónar hans verið hreinlífir. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 4:3-5.

2, 3. (a) Hvers vegna verðum við að berjast gegn óhreinum löngunum? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?

2 Við þurfum samt að gera okkur grein fyrir að við verðum að hafna siðlausum löngunum til að vera hreinlíf. Rétt eins og fiskur laðast að beitu getur kristinn einstaklingur látið lokkast af siðlausum hugsunum og ósæmilegum löngunum ef hann ýtir þeim ekki frá sér þegar í stað. Þær geta höfðað til langana holdsins og leitt okkur út á hættulega braut. Tál syndarinnar getur orðið svo sterkt að hin óhreina löngun nær að þroskast. Ef það gerist getur jafnvel þjónn Jehóva verið tilbúinn til að láta undan lönguninni þegar tækifæri gefst.  Það er eins og lýst er í Biblíunni: „Þegar girndin ... er orðin þunguð elur hún synd.“ – Lestu Jakobsbréfið 1:14, 15.

3 Það er umhugsunarvert að augnablikslöngun skuli geta orðið kveikjan að alvarlegri synd. En það er uppörvandi til þess að vita að við getum forðast siðlaust hátterni og umflúið sársaukafullar afleiðingar þess ef við leyfum ekki óhreinum löngunum að festa rætur. (Gal. 5:16) Við skulum líta á þrennt sem hjálpar okkur að berjast gegn óhreinum löngunum: samband okkar við Jehóva, leiðbeiningar Biblíunnar og hjálp þroskaðra trúsystkina.

„NÁLÆGIÐ YKKUR GUÐI“

4. Hvers vegna er mikilvægt að nálægja sig Jehóva?

4 Biblían ráðleggur þeim sem vilja eiga náið samband við Guð: „Hreinsið hendur ykkar ... og gerið hjörtun flekklaus.“ (Jak. 4:8) Ef við látum okkur annt um vináttusambandið við Jehóva reynum við að þóknast honum á öllum sviðum lífsins, þar á meðal með hugsunum okkar. Við þráum að varðveita „hreint hjarta“ með því að beina huga okkar að því sem er hreint, dyggð og lofsvert. (Sálm. 24:3, 4; 51:8; Fil. 4:8) Jehóva tekur auðvitað tillit til þess að við erum ófullkomin. Hann veit að óviðeigandi langanir geta hæglega kviknað í brjósti okkar. En við vitum að við hryggjum hann ef við gælum við rangar hugsanir í stað þess að gera okkar ýtrasta til að ýta þeim frá okkur. (1. Mós. 6:5, 6) Ef við höfum þetta hugfast erum við staðráðin í að halda huganum hreinum.

5, 6. Hvernig geta bænir hjálpað okkur að berjast gegn siðlausum löngunum?

5 Ein leið til að sýna að við reiðum okkur algerlega á Jehóva er að biðja hann að hjálpa okkur að berjast gegn óhreinum hugsunum. Jehóva nálgast okkur þegar við leitum til hans í bæn. Hann gefur okkur fúslega heilagan anda sinn þannig að við verðum enn ákveðnari en áður í að halda okkur hreinum og forðast siðlausar hugsanir. Segjum Jehóva í bænum okkar að við þráum að þóknast honum með hugsunum hjartna okkar. (Sálm. 19:15) Biðjum við hann í auðmýkt að prófa okkur til að kanna hvort það finnist hjá okkur rangar langanir eða tilhneigingar sem gætu leitt okkur út í synd? (Sálm. 139:23, 24) Biðjum við hann oft að hjálpa okkur að vera ráðvönd þegar freistingar verða á vegi okkar? – Matt. 6:13.

6 Áður en við kynntumst Jehóva má vera að við höfum haft ánægju af ýmsu sem hann hefur vanþóknun á, og við eigum kannski enn í baráttu við þessar röngu langanir. En Jehóva getur hjálpað okkur að gera nauðsynlegar breytingar þannig að við getum haldið áfram að þóknast honum. Davíð konungur vissi það. Eftir að hafa drýgt hór með Batsebu bað hann Jehóva: „Skapa í mér hreint hjarta ... og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálm. 51:12, 14) Syndugt hátterni getur höfðað sterkt til holdsins en Jehóva getur vakið með okkur löngun til að þóknast sér. Jafnvel þó að rangar langanir séu djúpstæðar og eigi það til að yfirgnæfa hreinar hugsanir getur Jehóva stýrt skrefum okkar þannig að við getum haldið boðorð hans og farið eftir þeim. Hann getur séð til þess að ranglætið drottni ekki yfir okkur. – Sálm. 119:133.

Ef röng löngun skýtur rótum í hjarta okkar þurfum við að uppræta hana þegar í stað. (Sjá 6. grein.)

„VERÐIÐ GERENDUR ORÐSINS“

7. Hvernig getur Biblían verndað okkur gegn óhreinum hugsunum?

7 Jehóva getur notað Biblíuna til að svara bænum okkar. Viska hennar er  „í fyrsta lagi hrein“. (Jak. 3:17) Að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða efnið er góð vörn gegn siðlausum hugsunum. (Sálm. 19:8, 12; 119:9, 11) Auk þess eru frásögur og markvissar leiðbeiningar í Biblíunni sem geta hjálpað okkur að láta ekki óhreinar langanir ná tökum á okkur.

8, 9. (a) Hvað varð þess valdandi að ungur maður lenti í slagtogi við siðlausa konu? (b) Á hvaða aðstæður getum við heimfært viðvörunina í 7. kafla Orðskviðanna?

8 Í Orðskviðunum 5:8 stendur: „Leggðu leið þína langt frá [siðlausri konu] og komdu hvergi nærri dyrum hennar.“ Í 7. kafla Orðskviðanna er lýst hve hættulegt það sé að hunsa þessar leiðbeiningar. Þar lesum við um ungan mann sem röltir nálægt húsi siðlausrar konu. Það er komið kvöld. Konan er ögrandi klædd. Hún gengur til móts við hann á götuhorni, þrífur í hann og kyssir hann. Með tælandi orðum vekur hún með honum löngun sem virðist ómótstæðileg. Þau gera sig sek um kynferðislegt siðleysi. Ungi maðurinn virðist ekki hafa ætlað sér það í upphafi. Hann er óreyndur og óskynsamur. En hann þarf að taka skelfilegum afleiðingum gerða sinna. Hann hefði betur haldið sig fjarri konunni. – Orðskv. 7:6-27.

 9 Getur verið að við sýnum stundum slæma dómgreind eins og ungi maðurinn og villumst inn á „hættusvæði“ sem gæti vakið með okkur rangar langanir? Sumar sjónvarpsstöðvar sýna efni af djarfara tagi þegar líður á kvöld. Hvað getur gerst ef við flökkum stundum á milli stöðva? Eða segjum sem svo að við smellum stefnulaust á hinar og þessar krækjur á Netinu eða förum inn á spjallrásir og vefsíður með siðlausum auglýsingum eða krækjum á klámsíður. Það sem við sjáum við þessar aðstæður gæti hugsanlega vakið óviðeigandi langanir og veikt okkur í þeirri baráttu að halda okkur hreinum.

10. Hvers vegna er hættulegt að daðra? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Biblían leiðbeinir okkur líka um samskipti við hitt kynið. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:2.) Þjónar Guðs mega ekki vera ástleitnir við annan en maka sinn eða tilvonandi maka. Þeir daðra ekki. Sumir halda að ástleitið augnaráð, látbragð og líkamstjáning sé skaðlaus því að ekki sé um líkamlega snertingu að ræða. En þegar fólk daðrar hvort við annað getur það vakið óhreinar hugsanir sem hætta er á að endi með kynferðislegu siðleysi. Það hefur gerst áður og getur gerst aftur.

11. Hvað má læra af Jósef?

11 Jósef hegðaði sér skynsamlega. Eiginkona Pótífars, húsbónda hans, reyndi að draga hann á tálar en hann stóðst ágengni hennar. Hún gafst þó ekki upp heldur reyndi dag eftir dag að fá hann til að vera með sér. (1. Mós. 39:7, 8, 10) Biblíufræðingur segir að kona Pótífars hafi efnislega sagt: „,Verum bara tvö saman smástund,‘ í von um að Jósef myndi stíga fyrsta skrefið.“ En Jósef var ákveðinn í að ýta ekki undir daður hennar eða daðra á móti. Þannig kom hann í veg fyrir að það kviknuðu rangar langanir í hjarta hans. Þegar hún reyndi að neyða Jósef til að eiga mök við sig greip hann til sinna ráða. „Hann skildi skikkjuna eftir í hendi hennar og lagði á flótta út.“ – 1. Mós. 39:12.

12. Hvernig vitum við að það sem við horfum á getur haft áhrif á hjartað?

12 Í Biblíunni er líka varað við að augun geti leitt hjartað á ranga braut. Það sem við horfum á getur vakið eða ýtt undir rangar kynferðislegar langanir. „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu,“ sagði Jesús. (Matt. 5:28) Það gerðist hjá Davíð konungi. „Ofan af þakinu sá hann konu vera að baða sig.“ (2. Sam. 11:2) Hann hefði átt að líta undan og beina hugsunum sínum á aðrar brautir. En hann gerði það ekki. Það varð til þess að hann fór að girnast konu annars manns og drýgði síðan hór með henni.

13. Hvers vegna þurfum við að ,gera sáttmála við augu okkar‘ og hvað er fólgið í því?

13 Til að berjast gegn siðlausum draumórum þurfum við að ,gera sáttmála við augu okkar‘ eins og Job gerði. (Job. 31:1, 7, 9) Við þurfum að vera ákveðin í að hafa stjórn á augunum og leyfa okkur ekki að horfa girndaraugum á aðra manneskju. Og ef við sjáum kynæsandi mynd á tölvuskjá, auglýsingaskilti, forsíðu tímarits eða annars staðar lítum við undan þegar í stað.

14. Hvað þurfum við að gera til að lifa hreinu lífi?

14 Þarftu að standa þig betur í baráttunni gegn siðlausum löngunum, í ljósi þess sem hér hefur verið rætt? Gerðu þá eitthvað í málinu þegar í stað. Farðu fúslega eftir leiðbeiningum Biblíunnar.  Þá geturðu forðast kynferðislegt siðleysi og lifað hreinu lífi. – Lestu Jakobsbréfið 1:21-25.

„ÞÁ KALLI HANN TIL SÍN ÖLDUNGA SAFNAÐARINS“

15. Hvers vegna er mikilvægt að leita hjálpar ef við eigum í baráttu við óhreinar langanir?

15 Við getum líka leitað aðstoðar trúsystkina ef við eigum í baráttu við rangar kynferðislegar langanir. Það er ekki auðvelt að ræða við aðra um persónuleg vandamál af þessu tagi. En ef við sýnum þann kjark að biðja þroskað trúsystkini um aðstoð getur það komið í veg fyrir að við förum að réttlæta rangar langanir fyrir sjálfum okkur. (Orðskv. 18:1; Hebr. 3:12, 13) Með því að segja þroskuðu trúsystkini frá veikleikum þínum áttarðu þig ef til vill á einhverju sem þú þarft að breyta í fari þínu. Það getur auðveldað þér að gera nauðsynlegar breytingar til að tryggja að kærleikur Jehóva haldi áfram að varðveita þig.

16, 17. (a) Hvernig geta öldungarnir hjálpað þeim sem eiga í baráttu við óhreinar langanir? Lýstu með dæmi. (b) Hvers vegna er gott fyrir þá sem horfa á klám að leita hjálpar strax?

16 Öldungar safnaðarins eru vel í stakk búnir til að hjálpa okkur. (Lestu Jakobsbréfið 5:13-15.) Ungur maður í Brasilíu átti í baráttu við rangar langanir um árabil. Hann segir: „Ég vissi að Jehóva hafði ekki velþóknun á hugsunum mínum en ég hafði ekki kjark til að segja öðrum frá hvernig mér leið.“ Öldungur í söfnuðinum áttaði sig á að ungi maðurinn var hjálparþurfi og hvatti hann til að leita aðstoðar öldunganna. Ungi maðurinn segir: „Það kom mér á óvart hve hlýlegir öldungarnir voru, miklu hlýlegri og skilningsríkari en mér fannst ég verðskulda. Þeir hlustuðu vel þegar ég lýsti erfiðleikum mínum. Þeir notuðu Biblíuna til að ítreka fyrir mér að Jehóva elskaði mig, og þeir báðu með mér. Það auðveldaði mér að þiggja ráð Biblíunnar sem þeir bentu mér á.“ Ungi maðurinn styrkti samband sitt við Jehóva og sagði nokkrum árum síðar: „Ég átta mig á því núna hve mikilvægt það er að leita hjálpar í stað þess að reyna að bera byrðina einn.“

17 Það er ákaflega mikilvægt að leita hjálpar ef þú hefur vanið þig á að horfa á klám. Því lengur sem þú dregur að leita aðstoðar því meiri hætta er á að rangar langanir verði til þess að þú gerir þig sekan um kynferðislegt siðleysi. Þá myndirðu særa aðra og kasta rýrð á nafn Jehóva. Löngunin til að þóknast Jehóva og fá að tilheyra kristna söfnuðinum áfram hefur verið mörgum þjónum hans hvatning til að þiggja kærleiksríka aðstoð öldunganna. – Jak. 1:15; Sálm. 141:5; Hebr. 12:5, 6.

VERTU STAÐRÁÐINN Í AÐ VERA HREINLÍFUR

18. Hvað ætlar þú að gera?

18 Siðferði fólks í heimi Satans hrakar jafnt og þétt. Jehóva hlýtur að vera stoltur af því að sjá dygga þjóna sína leggja sig alla fram um að halda huga sínum hreinum og fylgja háleitum siðferðisreglum hans. Við skulum öll vera ákveðin í að varðveita náið samband við Jehóva og þiggja leiðsögnina sem hann lætur í té í Biblíunni og fyrir milligöngu kristna safnaðarins. Það veitir okkur hamingju og hugarfrið að vera hreinlíf. (Sálm. 119:5, 6) Í framtíðinni, eftir að Satan hefur verið rutt úr vegi, fáum við að lifa að eilífu í hreinum heimi þar sem spillandi áhrif hans verða liðin tíð.