Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Júní 2015

Lifum í samræmi við bænina sem Jesús kenndi – síðari hluti

Lifum í samræmi við bænina sem Jesús kenndi – síðari hluti

„Faðir yðar veit hvers þér þurfið.“ – MATT. 6:8.

1-3. Hvers vegna er systir nokkur sannfærð um að Jehóva þekki þarfir okkar?

LANA gleymir aldrei atviki sem átti sér stað í Þýskalandi sumarið 2012. Hún er sannfærð um að Jehóva hafi svarað tveim bænum sem hún bað. Fyrri bænina bar hún fram á langri lestarferð til flugvallarins. Hún bað Jehóva að gefa sér tækifæri til að vitna fyrir einhverjum. Síðari bænina bað hún eftir að hún kom á flugvöllinn og uppgötvaði að fluginu hennar hafði verið frestað fram á næsta dag. Hún nefndi í bæninni að hún væri orðin peningalítil og hefði engan samastað yfir nóttina.

2 Lana var varla búin að fara með síðari bænina þegar hún heyrði nafnið sitt: „Hæ, Lana. Hvað ert þú að gera hér?“ Ungi maðurinn, sem ávarpaði hana, var fyrrverandi skólafélagi. Hann var á leið til Suður-Afríku, og móðir hans og amma höfðu fylgt honum á flugvöllinn. Þegar Elke, móðir hans, komst að raun um hvernig Lana var á vegi stödd bauð hún henni að gista hjá sér. Elke og móðir hennar sýndu Lönu mikla gestrisni og spurðu hana ótal spurninga um trú hennar og starf sem brautryðjanda.

 3 Mæðgurnar báru fram staðgóðan morgunverð daginn eftir og Lana svaraði fleiri biblíuspurningum. Hún skrifaði hjá sér nöfn þeirra og heimilisfang til að hægt væri að fylgja áhuganum eftir. Lana hélt síðan heim á leið og heldur áfram starfi sínu sem brautryðjandi. Hún er sannfærð um að Jehóva hafi bænheyrt hana og átt sinn þátt í að allt fór á besta veg. – Sálm. 65:3.

4. Um hvaða þarfir ætlum við nú að ræða?

4 Þegar við lendum í óvæntum erfiðleikum eigum við yfirleitt auðvelt með að biðja til Jehóva, og hann hlustar fúslega á áköll dyggra þjóna sinna. (Sálm. 34:16; Orðskv. 15:8) Við lærum hins vegar af faðirvorinu að við höfum aðrar mikilvægari þarfir sem okkur gæti yfirsést. Við skulum nú skoða hvernig andlegar þarfir okkar koma fram í síðustu þrem beiðnunum í faðirvorinu. Og getum við lagt okkur betur fram um að lifa í samræmi við fjórðu beiðnina, það er að segja um daglegt brauð? – Lestu Matteus 6:11-13.

„GEF OSS Í DAG VORT DAGLEGT BRAUГ

5, 6. Hvers vegna ættum við að biðja um „vort daglegt brauð“ jafnvel þó að við höfum nóg handa sjálfum okkur?

5 Maður á ekki aðeins að biðja um daglegt brauð handa sjálfum sér heldur kenndi Jesús okkur að biðja um „vort daglegt brauð“. Victor er farandhirðir í Afríku. Hann segir: „Ég þakka Jehóva oft og innilega fyrir að við hjónin þurfum ekki að hafa alvarlegar áhyggjur af næstu máltíð og ekki heldur af húsaleigunni. Bræður og systur annast okkur alla daga. En ég bið þess oft að þeir sem styðja okkur ráði við fjárhagserfiðleika sína.“

6 Þó að við höfum alltaf nóg að borða ættum við að hugsa til bræðra og systra sem búa við fátækt eða hafa orðið fyrir náttúruhamförum. Við ættum ekki aðeins að biðja fyrir þeim heldur ættum við líka að gera það sem við getum til að hjálpa þeim. Við getum til dæmis deilt með þeim því sem við höfum. Við getum líka lagt eitthvað að staðaldri til alþjóðastarfsins, vitandi að þeim fjármunum er vel varið. – 1. Jóh. 3:17.

7. Hvaða dæmi tók Jesús til að sýna fram á að við ættum ekki að hafa „áhyggjur af morgundeginum“?

7 Þegar Jesús talaði um daglegt brauð átti hann sennilega við þarfir líðandi stundar. Í framhaldinu bendir hann á að Guð klæði blóm vallarins og bætir svo við: „Skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil! Segið því ekki áhyggjufull: ... Hverju eigum vér að klæðast?“ Hann endurtók að lokum þetta mikilvæga heilræði: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum.“ (Matt. 6:30-34) Af orðum Jesú má sjá að við ættum að forðast efnishyggju og gera okkur ánægð með að hafa daglegar nauðsynjar. Þessar nauðsynjar geta meðal annars verið þak yfir höfuðið, vinna til að sjá fyrir sér og sínum og viska til að hugsa vel um heilsuna. En það bæri ekki vott um gott jafnvægi ef við bæðum aðeins um slíkar nauðsynjar. Við höfum andlegar þarfir sem eru miklu mikilvægari en hinar líkamlegu.

8. Á hvaða mikilvægu þörf ættu orð Jesú um daglegt brauð að minna okkur? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

8 Orð Jesú um daglegt brauð ættu að minna okkur á að við þurfum líka að fá andlega fæðu. „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni,“ sagði hann. (Matt. 4:4) Við ættum því að biðja þess að Jehóva haldi áfram að sjá okkur fyrir andlegri fæðu á réttum tíma.

 „FYRIRGEF OSS VORAR SKULDIR“

9. Í hvaða skilningi eru syndir okkar „skuldir“?

9 Hvers vegna skyldi Jesús tala um „skuldir“ en við annað tækifæri um „syndir“? (Matt. 6:12; Lúk. 11:4) Fyrir meira en 60 árum birtist eftirfarandi skýring í þessu tímariti: „Við lendum í skuld við Guð þegar við syndgum með því að brjóta lög hans ... Guð gæti látið okkur gjalda fyrir syndina með lífi okkar ... Hann gæti tekið frið sinn frá okkur og slitið öllum friðsamlegum samskiptum við okkur ... Við skuldum honum kærleika sem birtist í því að hlýða honum, og þegar við syndgum greiðum við ekki kærleiksskuldina því að við sýnum Guði ekki kærleika þegar við syndgum.“ – 1. Jóh. 5:3.

10. Á hvaða grundvelli getur Jehóva fyrirgefið syndir okkar og hvað ætti okkur að finnast um það?

10 Við þurfum daglega á fyrirgefningu að halda og það minnir á lausnarfórn Jesú – eina lagalega grundvöllinn sem Guð hefur til að „fella niður“ syndir okkar. Þó að lausnargjaldið hafi verið greitt fyrir næstum 2.000 árum ættum við að vera innilega þakklát fyrir þessa gjöf, rétt eins og við hefðum fengið hana í dag. „Lausnargjaldið“ fyrir líf okkar er svo hátt að það er ekki minnsti möguleiki á að nokkur ófullkominn maður geti greitt það. (Lestu Sálm 49:8-10; 1. Pétursbréf 1:18, 19.) Hættum aldrei að þakka Jehóva fyrir þessa dýrmætu gjöf. Og orðin „vorar syndir“ en ekki „mínar syndir“ ættu að minna okkur á að öll trúsystkini okkar þurfa á lausnargjaldinu að halda. Jehóva vill greinilega að við látum okkur ekki aðeins annt um andlega velferð sjálfra okkar heldur einnig annarra, þar á meðal þeirra sem hafa hugsanlega syndgað gegn okkur. Þessar syndir eru yfirleitt smávægilegar og gefa okkur tækifæri til að sýna að við elskum bræður okkar og systur í alvöru og erum fús til að fyrirgefa, alveg eins og Guð hefur sýnt þá miskunn að fyrirgefa okkur. – Kól. 3:13.

Vertu fús til að fyrirgefa ef þú vilt að Guð fyrirgefi þér. (Sjá 11. grein.)

11. Hvers vegna er mikilvægt að vera fús til að fyrirgefa?

11 Við erum því miður ófullkomin og getum átt það til að bera kala til annarra. (3. Mós. 19:18) Ef við viðruðum það  við aðra er hugsanlegt að þeir tækju afstöðu með okkur og það gæti skaðað einingu safnaðarins. Ef við viljum ekki fyrirgefa öðrum bæri það vott um að við kynnum ekki að meta miskunn Guðs og lausnargjaldið. Faðirinn á himnum hættir að láta lausnarfórn sonar síns breiða yfir syndir okkar ef við viljum ekki fyrirgefa. (Matt. 18:35) Jesús ræddi þetta nánar strax eftir að hann gaf þessa bæn sem fyrirmynd. (Lestu Matteus 6:14, 15.) Ef við viljum njóta fyrirgefningar Guðs megum við ekki leggja í vana okkar að syndga alvarlega. Næsta beiðni er nátengd löngunni til að syndga ekki. – 1. Jóh. 3:4, 6.

„EIGI LEIÐ ÞÚ OSS Í FREISTNI“

12, 13. (a) Hvað gerðist hjá Jesú stuttu eftir að hann skírðist? (b) Hvers vegna þurfum við sjálf að axla ábyrgðina ef við föllum í freistni? (c) Hverju áorkaði Jesús með því að vera trúr allt til dauða?

12 Rifjum upp það sem gerðist hjá Jesú stuttu eftir að hann lét skírast. Þá skiljum við betur hvers vegna við þurfum að biðja: „Eigi leið þú oss í freistni.“ Andi Guðs leiddi Jesú út í eyðimörkina „til þess að djöfullinn gæti freistað hans“. (Matt. 4:1; 6:13) Ætti það að vekja undrun okkar? Ekki ef við skiljum hvers vegna Guð sendi son sinn til jarðar. Hann gerði það fyrst og fremst til að útkljá deiluna sem kom upp þegar Adam og Eva höfnuðu drottinvaldi hans. Það tók sinn tíma að svara ásökunum Satans. Var maðurinn ekki rétt skapaður? Gat fullkominn maður stutt drottinvald Guðs þrátt fyrir þrýsting frá „hinum vonda“? Og væri mannkynið betur sett ef það væri óháð stjórn Guðs eins og Satan gaf í skyn? (1. Mós. 3:4, 5) Það tók sinn tíma að fá svör við þessum spurningum en allar skynsemigæddar sköpunarverur Jehóva myndu þá sjá að hann beitir drottinvaldi sínu til góðs.

13 Jehóva er heilagur og freistar því aldrei nokkurs manns til að gera eitthvað illt. Það er Satan sem er „freistarinn“. (Matt. 4:3, Biblían 1981) Satan getur skapað aðstæður sem hafa freistingu í för með sér. En það er undir hverjum og einum komið að standast freistingarnar. (Lestu Jakobsbréfið 1:13-15.) Jesús hafnaði öllum freistingum Satans umsvifalaust og vitnaði í viðeigandi vers í orði Guðs. Þannig studdi hann réttmætt drottinvald Guðs. Satan gafst þó ekki upp. Hann vék frá Jesú en aðeins „að sinni“. (Lúk. 4:13) En hvað sem Satan reyndi stóðst Jesús og var ráðvandur Guði. Hann studdi Jehóva sem réttmætan Drottin alheims og sannaði að fullkominn maður getur verið honum trúr, jafnvel í erfiðustu prófraunum. En Satan reynir að freista fylgjenda Jesú, þar á meðal þín.

14. Hvað þurfum við að gera til að falla ekki í freistni?

14 Enn er deilt um drottinvald Guðs. Þess vegna leyfir hann Satan að nota heiminn til að reyna að freista okkar. Jehóva leiðir okkur ekki í freistni. Hann treystir okkur og vill hjálpa okkur. Hann virðir hins vegar frjálsan vilja okkar og leyfir okkur að ákveða sjálf hvort við erum honum trú með því að standast freistingar. Við þurfum að gera tvennt: halda andlegri vöku okkar og biðja oft og reglulega um styrk hans og stuðning. Hvernig svarar Jehóva bænum okkar?

Varðveittu þinn andlega mann og hafðu brennandi áhuga á boðuninni. (Sjá 15. grein.)

15, 16. (a) Nefndu dæmi um freistingar sem við þurfum að standast. (b) Hverjum er um að kenna ef við föllum í freistni?

15 Jehóva gefur okkur öflugan heilagan anda sinn sem getur styrkt okkur og hjálpað til að standast freistingar. Hann varar okkur líka við hættum með hjálp Biblíunnar og safnaðarins. Við erum til  dæmis vöruð við að eyða óhóflegum tíma, peningum og kröftum í óþarfa efnislega hluti. Espen og Janne búa í auðugu landi í Evrópu. Þau voru brautryðjendur árum saman í landshluta þar sem vantaði fleiri boðbera. Þau urðu að hætta brautryðjandastarfi þegar þau eignuðust barn, og nú hefur annað barnið bæst við. Espen segir: „Þar sem við getum ekki notað eins mikinn tíma og áður í þjónustunni við Jehóva biðjum við hann oft að hjálpa okkur að falla ekki í freistni. Við biðjum hann um hjálp til að varðveita okkar andlega mann og hafa brennandi áhuga á boðuninni.“

16 Að horfa á klám er önnur freisting sem er orðin áberandi upp á síðkastið. Við getum ekki kennt Satan um ef við freistumst til að horfa á klám. Hvers vegna? Vegna þess að Satan og heimurinn geta ekki þvingað okkur til að gera neitt gegn vilja okkar. Sumir hafa fallið fyrir þessari freistingu með því að leyfa sér að gæla við rangar hugsanir. En við getum staðist freistinguna ekki síður en þúsundir trúsystkina okkar. – 1. Kor. 10:12, 13.

„FRELSA OSS FRÁ HINUM VONDA“

17. (a) Hvernig getum við lifað í samræmi við bænina um að frelsa okkur frá hinum vonda? (b) Hvað hlýtur að vera í nánd?

17 Við megum ekki tilheyra heimi Satans á nokkurn hátt ef við viljum lifa í samræmi við beiðnina: „Frelsa oss frá hinum vonda.“ Við megum ekki elska „heiminn né það sem í heiminum er“. (Jóh. 15:19; 1. Jóh. 2:15-17) Þetta er stanslaus barátta. Það verður ólýsanlegur léttir þegar Jehóva svarar þessari bæn með því að taka Satan úr umferð og eyða illum heimi hans. En við skulum hafa hugfast að Satan vissi að hann hafði nauman tíma þegar honum var úthýst af himnum. Hann er ævareiður og gerir allt sem hann getur til að fá okkur til að syndga. Við þurfum því að halda áfram að biðja Jehóva að frelsa okkur frá honum. – Opinb. 12:12, 17.

18. Hvað þurfum við að gera til að lifa áfram þegar heimur Satans líður undir lok?

18 Þráirðu að sjá þann dag þegar Satan og illur heimur hans verða liðin tíð? Þá skaltu halda áfram að biðja þess að ríki Guðs komi, helgi nafn hans og láti vilja hans verða á jörð. Treystu að Jehóva fullnægi andlegum og líkamlegum þörfum þínum. Já, vertu staðráðinn í að lifa í samræmi við bænina sem Jesús kenndi.