Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Maí 2015

 ÚR SÖGUSAFNINU

Kærleikur var drifkrafturinn í mötuneytinu

Kærleikur var drifkrafturinn í mötuneytinu

ÞJÓNUM Jehóva hefur alltaf þótt ánægjulegt að safnast saman við andlegt veisluborð hans. Við slík tækifæri eykur það oft gleðina að njóta líkamlegrar fæðu samhliða þeirri andlegu.

Í september árið 1919 héldu Biblíunemendurnir átta daga mót í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Mótsgestir áttu að fá mat og gistingu á hótelum en reyndust þúsundum fleiri en búist var við. Slíkur var mannfjöldinn að þjónum féllust hendur og gengu á dyr. Yfirmaður eins mötuneytis spurði í örvæntingu hvort einhverjir ungir mótsgestir gætu aðstoðað og margir buðu sig fúslega fram. Sadie Green var ein þeirra. „Ég hafði enga reynslu sem þjónn,“ segir hún, „en við höfðum gaman af þessu.“

Síerra Leóne 1982.

Ótal sjálfboðaliðar fengu tækifæri til að þjóna bræðrum sínum og systrum á árunum á eftir þegar mötuneyti voru sett upp á mótsstöðunum. Að vinna með trúsystkinum hvatti líka mörg ungmenni til að setja sér markmið í þjónustu Jehóva. Gladys Bolton vann í mötuneytinu á móti árið 1937. „Ég kynntist fólki annars staðar frá,“ segir hún, „og heyrði hvernig það tókst á við vandamál sín. Þá fékk ég í fyrsta sinn löngun til að gerast brautryðjandi.“

Beulah Covey segir um sjálfboðavinnuna: „Sjálfboðaliðarnir lögðu sig alla fram og allt gekk því eins og vel smurð vél.“ Vinnan var þó ekki alltaf þrautalaus. Angelo Manera mætti á Dodger Stadium í Los Angeles í Kaliforníu árið 1969 til að undirbúa mót. Honum brá heldur betur þegar honum var sagt að hann ætti að hafa umsjón með mötuneytinu. Hann segir: „Ég hef sjaldan á ævinni orðið fyrir jafnmiklu áfalli.“ Meðal annars þurfti að grafa 400 metra skurð til að hægt væri að leggja gasleiðslu að eldhúsinu.

Frankfurt í Þýskalandi 1951.

Árið 1982 þurftu duglegir sjálfboðaliðar í Síerra Leóne að byrja á því að ryðja hæfilega stórt svæði og byggja síðan mötuneyti úr því efni sem til var. Útsjónarsamir bræður í Frankfurt í Þýskalandi leigðu eimreið fyrir mót árið 1951 og notuðu gufuna úr henni til að hita 40 suðukatla. Þjónar báru  fram 30.000 máltíðir á klukkustund. Mótsgestir komu með hnífapör að heiman til að létta undir með þeim 576 sem unnu við uppvaskið. Í Jangon í Búrma sýndu kokkarnir þá tillitssemi að nota minna en venjulega af sterkum eldpipar þegar þeir elduðu fyrir erlenda mótsgesti.

„FÓLK BORÐAR STANDANDI“

Annie Poggensee sótti mót í Bandaríkjunum árið 1950. Hún upplifði nokkuð sem hafði mikil áhrif á hana þegar hún beið í röðinni að mötuneytinu í brennandi sólinni. Hún segir: „Innilegar samræður tveggja systra, sem höfðu ferðast með skipi frá Evrópu, fönguðu alla athygli mína.“ Þær lýstu því hvor fyrir annarri hvernig Jehóva hafði hjálpað þeim að komast á mótið. „Enginn var ánægðari en þessar systur,“ segir Annie. „Hvorki biðin eftir matnum né hitinn hafði nokkur áhrif á þær.“

Seúl í Suður-Kóreu 1963.

Á mörgum stórmótum voru gríðarstór tjöld með röðum af háum borðum sem fólk gat staðið við. Fólk flýtti sér að borða til að fleiri kæmust að. Hvernig ættu annars þúsundir manna að geta borðað í hádegishléinu? Maður, sem var ekki vottur, sagði: „Þetta er skrýtinn trúflokkur. Fólk borðar standandi.“

Hernaðar- og borgaraleg yfirvöld dáðust að skilvirkni og skipulagi vottanna. Eftir að fulltrúar Bandaríkjahers könnuðu aðstæður í mötuneytinu okkar á Yankee Stadium í New York hvöttu þeir Faulkner majór í hermálaráðuneyti Bretlands til að gera svipaða könnun. Hann kom því ásamt konu sinni á mót í Twickenham á Englandi árið 1955. Hann sagðist sjá að kærleikur væri drifkrafturinn í mötuneytinu.

Í áratugi reiddu fúsir sjálfboðaliðar fram ódýran en næringarríkan mat fyrir mótsgesti. Þetta viðamikla verkefni útheimti oft að margir sjálfboðaliðar ynnu mikið og misstu jafnvel af hluta mótsins, stundum því öllu. Á síðari hluta áttunda áratugarins var ákveðið að einfalda matseldina og það sem henni fylgdi. Og frá 1995 hafa mótsgestir verið beðnir að taka með sér nesti. Þeir sem áður höfðu eldað og borið fram matinn gátu nú hlýtt á dagskrána og notið samverunnar með trúsystkinum. *

Það leikur enginn vafi á því að Jehóva þykir vænt um þá sem lögðu svona mikið á sig til að þjóna trúsystkinum sínum. Sumir hugsa kannski með svolitlum söknuði til gamla tímans þegar þeir unnu með glöðum hópi í mötuneytinu. En eitt er víst: Kærleikur er enn sterkasti þátturinn í mótum okkar. – Jóh. 13:34, 35.

^ gr. 12 Að sjálfsögðu gefast enn mörg tækifæri fyrir sjálfboðaliða til að aðstoða við ýmsar aðrar mótsdeildir.