Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Svo var þér þóknanlegt“

„Svo var þér þóknanlegt“

„Þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.“ – LÚK. 10:21.

1. Hvers vegna fylltist Jesús „fagnandi gleði heilags anda“? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ÍMYNDAÐU þér að þú sjáir Jesú Krist fyllast af „fagnandi gleði heilags anda“. Þú sérð kannski bros færast yfir andlit hans og augun geisla af gleði. Hvers vegna var hann svona ánægður? Hann var nýbúinn að senda 70 af lærisveinum sínum út til að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Hann var mjög spenntur að sjá hvernig þeir myndu leysa verkefnið af hendi. Andstæðingar fagnaðarerindisins voru margir og voldugir, til dæmis gáfaðir og hámenntaðir fræðimenn og farísear. Þeir fengu marga til að líta niður á Jesú og lærisveina hans. Hann var nú bara smiður og lærisveinarnir voru „ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn“. (Post. 4:13; Mark. 6:3) Engu að síður voru lærisveinarnir himinlifandi þegar þeir sneru aftur. Þeir höfðu boðað boðskapinn þrátt fyrir andstöðu, jafnvel frá illum öndum. Hvernig gátu þeir verið svona glaðir og hugrakkir? – Lestu Lúkas 10:1, 17-21.

2. (a) Hvernig voru lærisveinar Jesú eins og börn? (b) Hvernig gátu fylgjendur Krists skilið mikilvæg andleg sannindi?

2 Hugsum um það sem Jesús sagði við Jehóva: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur  hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.“ (Matt. 11:25, 26) Jesús átti auðvitað ekki við að lærisveinarnir væru bókstaflega smælingjar eða ungbörn eins og segir í frumtextanum. Hann vissi hins vegar að þeir virtust vera eins og börn í samanburði við gáfaða og hámenntaða samlanda sína sem voru vitrir að eigin mati. Jesús kenndi fylgjendum sínum hve mikilvægt væri að vera eins og auðmjúk og námfús börn. (Matt. 18:1-4) Hvers vegna var það þeim til góðs að vera auðmjúkir? Vegna þess að Jehóva hjálpaði þeim með heilögum anda sínum að skilja mikilvæg andleg sannindi. Vitrir og gáfaðir menn, sem fyrirlitu þá, voru hins vegar blindaðir af eigin stolti og sökum áhrifa Satans.

3. Hvað er rætt í þessari grein?

3 Það var engin furða að Jesús skyldi vera ánægður. Það gladdi hann að sjá hvernig Jehóva opinberaði auðmjúku fólki djúpstæð sannindi óháð gáfum þess og menntun. Hann fagnaði því að það væri föður hans þóknanlegt að kenna með þeim hætti. Hefur Jehóva breyst? Hvernig sýnir hann að skýr og einföld kennsla er honum enn þá að skapi? Þegar við skoðum svarið við því getum við líka glaðst og fagnað eins og Jesús.

DJÚPSTÆÐ SANNINDI VERÐA ÖLLUM AÐGENGILEG

4. Hvernig hefur einföld útgáfa Varðturnsins reynst vera mikil blessun?

4 Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á að fræðslan, sem söfnuður Jehóva stendur fyrir, sé skýr og einföld. Lítum á þrjú dæmi. Eitt þeirra er einföld útgáfa Varðturnsins. * Þessi útgáfa hefur reynst vera mikil blessun fyrir þá sem eiga erfitt með málið eða með lestur. Fjölskyldufeður segja að börnin taki meiri þátt í Varðturnsnáminu núna, en það er helsta leiðin sem trúi og hyggni þjónninn notar til að miðla andlegri fæðu. Margir hafa skrifað hjartnæm bréf og þakkað innilega fyrir. Systir skrifaði að áður hafi hún ekki svarað í Varðturnsnáminu á samkomum. „Ég var óvirkur þátttakandi,“ segir hún. En ekki lengur! Eftir að hún fór að nota einföldu útgáfuna sagði hún: „Núna svara ég oftar en einu sinni og óttinn er horfinn. Ég þakka Jehóva og ykkur.“

5. Hvað hefur endurskoðuð útgáfa Nýheimþýðingarinnar til síns ágætis?

5 Í öðru lagi kom út endurskoðuð útgáfa af Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar á ensku á ársfundinum 5. október 2013. * Í mörgum versum eru núna færri orð en áður, en merkingin skilar sér fyllilega og er jafnvel skýrari. Svo dæmi sé tekið fækkaði orðum í Jobsbók 10:1 úr 27 í 19 og í Orðskviðunum 8:6 úr 20 í 13. Bæði versin eru skýrari í nýju útgáfunni. Andasmurður bróðir, sem hefur þjónað Jehóva dyggilega um áratugaskeið, segir: „Ég er nýlega búinn að lesa Jobsbók í nýju útgáfunni og í fyrsta sinn finnst mér ég skilja hana.“ Margir hafa sagt eitthvað svipað.

6. Hvað finnst þér um nýju skýringarnar sem við höfum fengið á Matteusi 24:45-47?

6 Í þriðja lagi höfum við fengið nýjan skilning á ýmsum atriðum undanfarið.  Við vorum eflaust mjög ánægð þegar við fengum nýjar skýringar á því hver hinn „trúi og hyggni þjónn“ væri, en þær komu fram í Varðturninum 15. júlí 2013. (Matt. 24:45-47) Bent var á að trúi þjónninn sé hið stjórnandi ráð og að ,hjúin‘ séu allir sem nærast á andlegu fæðunni, hvort heldur þeir eru andasmurðir eða ,aðrir sauðir‘. (Jóh. 10:16) Það er einstök ánægja að læra slík sannindi og að kenna öðrum þau. Á hvaða fleiri vegu hefur Jehóva sýnt að það sé honum þóknanlegt að kennslan sé skýr og einföld?

EINFALDARI OG GLEGGRI SKÝRINGAR Á FRÁSÖGUM BIBLÍUNNAR

7, 8. Nefndu dæmi um spádómlegar fyrirmyndir í Biblíunni.

7 Þeir sem hafa þjónað Jehóva um áratugaskeið hafa ef til vill tekið eftir að skýringarnar í ritum okkar á mörgum frásögum Biblíunnar hafa breyst smátt og smátt. Hvernig þá? Áður var algengara að líta svo á að frásögur Biblíunnar fyrirmynduðu ókomna atburði eða aðstæður. Talið var að atriði í frásögunni ættu sér samsvörun í þessum atburðum eða aðstæðum. Er grundvöllur fyrir því í Biblíunni að frásögur hennar séu spádómlegar fyrirmyndir? Já. Jesús talaði til dæmis um „tákn Jónasar spámanns“. (Lestu Matteus 12:39, 40.) Hann útskýrði að tíminn meðan Jónas var í kviði fisksins – sem hefði orðið gröf hans ef Jehóva hefði ekki bjargað lífi hans – hafi fyrirmyndað tímann sem Jesús var sjálfur í gröfinni.

8 Í Biblíunni eru fleiri spádómlegar fyrirmyndir. Páll postuli ræðir um sumar þeirra. Svo dæmi sé tekið var samband Abrahams við Hagar og Söru fyrirmynd um samband Jehóva við Ísraelsþjóðina og við himneskan hluta alheimssafnaðar síns. (Gal. 4:22-26) Tjaldbúðin og musterið, friðþægingardagurinn, æðstipresturinn og önnur atriði í Móselögunum geymdu sömuleiðis ,skugga hins góða sem var í vændum‘. (Hebr. 9:23-25; 10:1) Það er hrífandi og styrkir trúna að skoða þessar spádómlegu fyrirmyndir. En ættum við að álykta að hver einasta persóna, atburður og hlutur, sem lýst er í Biblíunni, fyrirmyndi einhvern eða eitthvað?

9. Hvernig var frásagan af Nabót útskýrð á árum áður?

9 Áður var oft litið þannig á málin. Frásagan af Nabót er dæmi um það. Jesebel drottning lét dæma hann og taka af lífi þótt saklaus væri til að Akab, eiginmaður hennar, gæti slegið eign sinni á víngarð hans. (1. Kon. 21:1-16) Útskýrt var árið 1932 að þessi frásaga hefði spádómlegt gildi. Sagt var að Akab fyrirmyndaði Satan og Jesebel þá sem fylgja honum. Nabót táknaði Jesú og dauði hans var því talinn spádómur um aftöku Jesú. Í bókinni „Let Your Name Be Sanctified“, sem kom út árið 1961, var sagt að Nabót táknaði hina andasmurðu og Jesebel kristna heiminn. Að Jesebel skyldi ofsækja Nabót táknaði því ofsóknir á hendur hinum andasmurðu á síðustu dögum. Áratugum saman fannst þjónum Guðs trústyrkjandi að sjá frásögur Biblíunnar í þessu ljósi. Hvers vegna hugsum við þá öðruvísi núna?

10. (a) Hvernig hefur trúi og hyggni þjónninn orðið varfærnari í skýringum á ákveðnum frásögum Biblíunnar? (b) Að hverju er athyglinni beint í ritunum okkar núna?

10 Eins og við mátti búast hefur Jehóva hjálpað ,hinum trúa og hyggna  þjóni‘ smám saman að sýna enn meiri hyggindi. Það hefur orðið til þess að trúi þjónninn fer varlegar í að fullyrða að ákveðin frásaga sé spádómleg fyrirmynd nema Biblían bendi greinilega á að svo sé. Það hefur líka sýnt sig að sumar eldri skýringar um spádómlegar fyrirmyndir eru óþarflega torskildar fyrir marga. Erfitt getur verið að muna hver táknar hvern og hvers vegna, skilja túlkunina og átta sig á heimfærslunni. Það er þó öllu verra að siðferðilegur boðskapur frásögunnar og það sem læra má af henni getur týnst í allri greiningunni á hugsanlegri uppfyllingu. Þess vegna er athyglinni frekar beint núna að einföldum og skýrum lærdómi frásögunnar um trú, þolgæði, guðrækni og aðra eiginleika sem Biblían leggur áherslu á. *

Frásagan af Nabót hefur að geyma áhrifamikinn lærdóm. (Sjá 11. grein.)

11. (a) Hvernig er frásagan af Nabót útskýrð núna, og hvers vegna höfðar hún til okkar allra? (b) Hvers vegna er sjaldan rætt um spádómlegar fyrirmyndir í ritum okkar nú orðið? (Sjá „Spurningar frá lesendum“ í þessu blaði.)

11 Hvernig er frásagan af Nabót þá útskýrð núna? Á miklu einfaldari og skýrari hátt. Þessi réttláti maður dó ekki af því að hann væri spádómleg táknmynd um Jesú eða hina andasmurðu heldur einfaldlega vegna þess að hann var ráðvandur. Hann fylgdi lögum Jehóva og mátti þola skelfilega valdníðslu fyrir vikið. (4. Mós. 36:7; 1. Kon. 21:3) Hann er okkur góð fyrirmynd þar sem við gætum öll orðið fyrir ofsóknum af svipuðum ástæðum. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:12.) Við getum auðveldlega skilið, munað og dregið lærdóm af þessari trústyrkjandi frásögu hver sem uppruni okkar er.

12. (a) Hvað ættum við ekki að álykta varðandi frásögur Biblíunnar? (b) Hvers vegna getum við fengið glöggar skýringar á djúptækum sannindum? (Sjá neðanmálsgrein.)

12 Ættum við þá að álykta að frásögur Biblíunnar séu einungis lærdómsríkar  og ekkert annað? Nei. Í ritunum okkar er oftar bent á það núna að eitt minni á annað eða lýsi einhverju öðru. Það eru minni líkur á að fjallað sé um spádómlegar fyrirmyndir samkvæmt einhverjum stífum ramma. Við getum til dæmis sagt með réttu að ráðvendni Nabóts andspænis ofsóknum og dauða minni á ráðvendni Jesú og andasmurðra fylgjenda hans. En hún minnir okkur líka á að margir af ,öðrum sauðum‘ Drottins hafi verið trúir. Þessi skýri og einfaldi samanburður er einkennandi fyrir kennslu Guðs. *

EINFALDARI SKÝRINGAR Á DÆMISÖGUM JESÚ

13. Nefndu dæmi sem sýna að við útskýrum sumar dæmisögur Jesú með einfaldari hætti en áður.

13 Jesús Kristur er mesti kennari sem verið hefur á jörð. Hann kenndi mjög gjarnan með því að segja dæmisögur. (Matt. 13:34) Dæmisögur kalla fram líflegar myndir sem örva hugann og ná til hjartans. Eru dæmisögur Jesú skýrðar með einfaldari og gleggri hætti í ritunum okkar núna en áður? Já, svo sannarlega. Vorum við ekki ánægð þegar ný og gleggri skýring var gefin á dæmisögunum um súrdeigið, mustarðskornið og netið í Varðturninum 15. júlí 2008? Við sjáum nú greinilega að þessar dæmisögur eiga við ríki Guðs og þann feikilega árangur sem það hefur náð við að safna fylgjendum Krists í þessum illa heimi.

14. (a) Hvernig var dæmisagan um miskunnsama Samverjann skýrð einu sinni? (b) Hvernig skiljum við dæmisöguna núna?

14 Hvað um lengri og ítarlegri dæmisögur sem Jesús sagði? Sumar eru auðvitað táknrænar og spádómlegar en aðrar flytja siðferðilegan boðskap. Hvernig er hægt að greina þar á milli? Það hefur skýrst með árunum. Skoðum dæmisöguna um miskunnsama Samverjann og skýringuna sem var gefin á henni. (Lúk. 10:30-37) Árið 1924 sagði í Varðturninum að Samverjinn táknaði Jesú, vegurinn frá Jerúsalem til Jeríkó, sem lá niður í móti, táknaði hnignun mannkyns allt frá uppreisninni í Eden, ræningjarnir táknuðu stórfyrirtæki og okrara og presturinn og Levítinn kirkjuvaldið. Núna er bent á dæmisöguna í ritunum okkar til að minna kristna menn á að þeir megi ekki gera mannamun þegar þeir hjálpa þeim sem eru hjálparþurfi, sérstaklega til að eignast samband við Jehóva. Erum við ekki þakklát að Jehóva skuli veita okkur gleggri skilning á svona málum?

15. Um hvað er fjallað í næstu grein?

15 Í næstu grein ætlum við að skoða aðra dæmisögu Jesú – dæmisöguna um meyjarnar tíu. (Matt. 25:1-13) Hvernig ætlaðist Jesús til að fylgjendur sínir á síðustu dögum skildu þessa merkilegu sögu? Sem spádómlega táknsögu þar sem hver persóna, hlutur og atburður er þrunginn táknrænni merkingu? Eða vildi hann að fylgjendur sínir drægju af henni hagnýtan lærdóm sér til leiðsagnar á síðustu dögum? Könnum málið.

^ gr. 4 Einfalda útgáfan kom fyrst út á ensku í júlí 2011. Núna er hún fáanleg á nokkrum tungumálum til viðbótar.

^ gr. 5 Verið er að vinna að endurskoðun hennar á fleiri tungumálum.

^ gr. 10 Í bókinni Imitate Their Faith er til dæmis fjallað ítarlega um ævi 14 biblíupersóna. Athyglinni er beint að lærdómum sem við getum dregið af þeim en ekki að táknrænu eða spádómlegu gildi. Sjá einnig greinarnar „Líkjum eftir trú þeirra“ sem birst hafa í Varðturninum.

^ gr. 12 Það er auðvitað ýmislegt í Biblíunni sem getur virst „þungskilið“, meðal annars sumt sem Páll skrifaði. Allir biblíuritararnir fengu þó innblástur heilags anda. Þessi sami andi hjálpar sannkristnum mönnum núna að skilja andleg sannindi, og jafnvel gera „djúp Guðs“ aðgengilegri og skýrari þrátt fyrir takmarkanir okkar. – 2. Pét. 3:16, 17; 1. Kor. 2:10, Biblían 1981.