Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Febrúar 2015

Varðveittu eldmóðinn fyrir boðunarstarfinu

Varðveittu eldmóðinn fyrir boðunarstarfinu

AÐ BOÐA fagnaðarerindið er mikilvægasta starf sem unnið er á jörðinni núna. Sem þjónn Jehóva líturðu eflaust á það sem mikinn heiður að mega taka þátt í að gera fólk að lærisveinum. En þú ert örugglega sammála því að brautryðjendum og boðberum finnst stundum erfitt að varðveita eldmóðinn fyrir boðunarstarfinu.

Hvað geturðu gert til að varðveita eldmóðinn fyrir boðuninni?

Sumum boðberum finnst þeir sjaldan hitta fólk sem vill ræða við þá þegar þeir ganga í hús. Það er jafnvel erfitt að hitta fólk heima. Þegar einhver er síðan heima hefur hann annaðhvort lítinn áhuga á fagnaðarerindinu eða bregst illa við. Aðrir boðberar eru með stórt starfssvæði þar sem margir sýna áhuga og þeir hafa áhyggjur af því að geta ekki náð til allra. Og enn aðrir hafa boðað fagnaðarerindið árum saman – lengur en þeir áttu von á – og það hefur dregið úr þeim kjarkinn.

Ætti það að koma okkur á óvart að það er stundum erfitt að halda eldmóðinum fyrir boðunarstarfinu lifandi? Nei, við búumst við að mæta andstöðu af því að við búum í heimi sem er „á valdi hins vonda“, Satans djöfulsins. – 1. Jóh. 5:19.

Þú getur verið viss um að Jehóva hjálpar þér að yfirstíga hverjar þær hindranir sem mæta þér í boðunarstarfinu. En hvað geturðu gert núna til að hafa enn meiri eldmóð fyrir boðuninni? Lítum á nokkrar tillögur.

AÐSTOÐAÐU ÓREYNDA BOÐBERA

Þúsundir láta skírast sem vottar Jehóva á hverju ári. Ef þú ert nýlega skírður vottur geturðu eflaust lært mikið af þeim sem hafa boðað trúna lengi. Og gæti ekki verið ánægjulegt og gefandi fyrir þig sem hefur verið boðberi í mörg ár að þjálfa nýja í boðuninni?

Jesús vissi að hann þyrfti að kenna lærisveinum sínum til að þeir gætu orðið duglegir boðberar, og hann sýndi þeim hvernig þeir  ættu að fara að. (Lúk. 8:1) Það sama á við núna. Nýir þurfa að fá þjálfun til að geta orðið góðir boðberar.

Við ættum ekki að hugsa sem svo að nýir boðberar verði sjálfkrafa góðir biblíukennarar bara með því að taka þátt í boðuninni. Þeir þurfa að fá aðstoð frá hlýjum og kærleiksríkum kennara. Þessi þjálfun felur í sér að (1) undirbúa og æfa kynningarorð, (2) eiga samræður við fólk, (3) bjóða rit, (4) fara í endurheimsóknir og (5) hefja biblíunámskeið. Ef hinn nýi fylgist vel með reyndari boðberanum og líkir eftir kennsluaðferðum hans er mjög líklegt að hann eigi eftir að verða góður kennari sjálfur. (Lúk. 6:40) Nýi boðberinn kann eflaust vel að meta að hafa starfsfélaga sem hlustar á samræðurnar og hjálpar til þegar á þarf að halda. Það getur líka verið gott ef reyndari boðberinn hrósar hinum nýja og kemur með gagnlegar tillögur. – Préd. 4:9, 10.

TALAÐU VIÐ STARFSFÉLAGA ÞINN

Bestu samræðurnar, sem þú átt suma daga í boðuninni, eru við starfsfélaga þinn, þótt þú hafir reynt þitt ýtrasta til að ræða við húsráðendur. Mundu að Jesús sendi lærisveina sína „tvo og tvo“ saman til að prédika. (Lúk. 10:1) Þannig gátu þeir hvatt og uppörvað hvor annan. Þegar við erum með trúsystkinum okkar í boðunarstarfinu fáum við tækifæri til að „uppörvast saman“. – Rómv. 1:12.

Hvað gætuð þið talað um? Hafið þið nýlega upplifað eitthvað skemmtilegt í boðunarstarfinu? Hefurðu lært eitthvað athyglisvert í sjálfsnáminu eða fjölskyldunáminu? Heyrðirðu eitthvað á samkomu sem uppörvaði þig? Stundum ertu í boðunarstarfinu með einhverjum sem þú þekkir ekki vel. Veistu hvernig hann kynntist sannleikanum? Hvað sannfærði hann um að hann hefði fundið söfnuð Jehóva? Hvaða verkefni hefur hann fengið og hvað hefur hann upplifað? Þú gætir líka sagt honum frá einhverju sem þú hefur fengið að reyna. Þótt þið hittið ekki marga sem hafa áhuga fáið þið tækifæri til að ,hvetja og uppbyggja‘ hvor annan. – 1. Þess. 5:11.

HAFÐU GÓÐAR NÁMSVENJUR

Til að varðveita eldmóðinn fyrir boðuninni er grundvallaratriði að koma sér upp góðum námsvenjum og halda fast við þær. ,Trúi og hyggni þjónninn‘ hefur gefið út efni um alls  konar mál okkur til fræðslu. (Matt. 24:45) Við höfum því úr miklu að moða til að næra okkur andlega. Skoðum spurningu sem við gætum tekið fyrir í sjálfsnámi okkar: Hvers vegna er svona mikilvægt að boða fagnaðarerindið? Í rammanum á blaðsíðunni á undan eru tilteknar nokkrar ástæður.

Ef þú hugleiðir þessar ástæður getur það hvatt þig til að halda áfram að prédika af eldmóði. Þú gætir haft það sem verkefni í sjálfsnámi þínu að reyna að finna fleiri ástæður. Hugleiddu þær og versin sem þú fannst þeim til stuðnings. Með þessu móti eykurðu eldmóðinn fyrir boðunarstarfinu.

VERTU OPINN FYRIR TILLÖGUM

Við fáum reglulega nýjar tillögur frá söfnuði Jehóva um það hvernig við getum bætt okkur í boðuninni. Auk þess að ganga í hús gætum við skrifað bréf, notað símann, farið í götustarfið og vitnað óformlega og í fyrirtækjum. Við höfum kannski tök á að haga málum þannig að við getum tekið þátt í boðuninni á svæðum sem sjaldan er farið yfir.

Ertu opinn fyrir slíkum tillögum? Hefurðu prófað einhverjar þeirra? Margir sem hafa gert það hafa uppskorið mikla gleði. Skoðum þrjú dæmi.

Systir að nafni April ákvað að prófa tillögu sem kom fram í grein í Ríkisþjónustunni um hvernig hefja má biblíunámskeið. Hún bauð þremur samstarfskonum sínum biblíunámskeið. Henni til mikillar undrunar og gleði þáðu allar þrjár boðið og byrjuðu líka að sækja samkomur.

 Við höfum líka fengið hvatningu til að finna út hverjir gætu haft áhuga á ákveðnum greinum í blöðunum. Farandhirðir í Bandaríkjunum ákvað að gefa verslunarstjórum allra dekkjaverkstæða á ákveðnu svæði eintak af Vaknið! en þar var birt grein um dekk. Þau hjónin fóru líka á 100 læknastofur á farandsvæðinu og buðu blað sem fjallaði um að setja sig í spor lækna. Hann segir: „Þessar heimsóknir hafa gefið fólki færi á að kynnast okkur og ritunum okkar. Þegar fólk er orðið kunnugt okkur höfum við getað heimsótt það oftar en áður.“

Systir að nafni Judy skrifaði til aðalstöðvanna til að þakka fyrir þá hvatningu, sem við höfum fengið, til að nota símann við boðunina. Hún sagði frá því að móðir hennar, sem er 86 ára og með mörg heilsuvandamál, noti símann reglulega til að boða fólki trúna. Það hefði borið árangur og móðir hennar hefði mikla ánægju af því að fá að fræða 92 ára gamla konu um Biblíuna í gegnum símann.

Tillögurnar, sem við fáum í ritunum okkar, virka. Ekki hika við að nota þær. Þær geta hjálpað þér að varðveita eldmóðinn og gleðina í boðunarstarfinu.

SETTU ÞÉR RAUNHÆF MARKMIÐ

Árangur í boðunarstarfinu mælist ekki í því hve mörg blöð við útbreiðum, hve marga biblíunemendur við erum með eða hve marga við aðstoðum við að verða þjónar Jehóva. Hugsaðu um Nóa. Hversu mörgum hjálpaði hann að verða tilbiðjendur Jehóva fyrir utan nánustu fjölskyldu sína? Samt var Nói dugmikill boðberi. Það sem máli skiptir er að við reynumst Jehóva trú. – 1. Kor. 4:2.

Mörgum boðberum finnst nauðsynlegt að setja sér raunhæf markmið til þess að glæða áhugann fyrir boðuninni og viðhalda honum. Hvaða markmið gætu það verið? Í rammanum á þessari blaðsíðu eru nokkrar góðar hugmyndir.

Biddu Jehóva um að hjálpa þér að finna leiðir til að gera boðunarstarf þitt ánægjulegt og áhrifaríkt. Þegar þú nærð markmiðum þínum finnst þér þú hafa áorkað einhverju og þú gleðst yfir því að hafa lagt þig allan fram við að boða fagnaðarerindið.

Það getur vissulega verið áskorun að boða fagnaðarerindið. En það er margt sem maður getur gert til að hafa eldmóð í boðuninni. Eigðu uppörvandi samræður við starfsfélaga þinn. Komdu þér upp góðum námsvenjum og haltu þig við þær. Prófaðu að fylgja tillögum trúa og hyggna þjónsins og settu þér raunhæf markmið. Umfram allt skaltu muna að Jehóva hefur veitt þér þann mikla heiður að vera einn af vottum sínum og boða fagnaðarerindið. (Jes. 43:10) Já, með því að varðveita eldmóðinn fyrir boðuninni áttu eftir að njóta mikillar gleði.