Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Febrúar 2015

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað er hægt að gera til að aðstoða trúsystkini sem eru með slæmt ofnæmi fyrir ilmefnum?

Þeir sem eru með ofnæmi fyrir ilmefnum eru í erfiðri aðstöðu. Sennilega ráða þeir ósköp litlu um það hvort ókunnugir, sem þeir hitta í dagsins önn, nota ilmefni. Sumir hafa þó spurt hvort hægt sé að fara fram á að bræður og systur noti ekki ilmvötn eða rakspíra þegar þau sækja samkomur og mót.

Að sjálfsögðu vill enginn þjónn Jehóva gera öðrum erfitt fyrir að sækja samkomur. Við þurfum öll á þeirri uppörvun að halda sem samkomurnar veita okkur. (Hebr. 10:24, 25) Ef einhver er með svo alvarlegt ofnæmi fyrir ilmefnum að það gerir honum erfitt fyrir að sækja samkomur getur hann rætt málið við öldungana. Þó að það sé hvorki viðeigandi né biblíulega rétt að setja reglur um notkun ilmefna geta öldungarnir látið í té upplýsingar til að auðvelda safnaðarmönnum að skilja þann vanda sem sumir eiga við að glíma. Öldungarnir gætu eftir atvikum ákveðið að fara yfir áður útgefið efni á þjónustusamkomu undir dagskrárliðnum staðbundnar þarfir eða samið smekklega tilkynningu um málið. * En öldungarnir geta ekki sífellt verið að lesa upp tilkynningar af þessu tagi. Það má alltaf búast við að gestir eða fólk, sem hefur nýlega fengið áhuga á sannleikanum, komi á samkomu en viti ekki af þessum vanda. Við viljum að þetta fólk finni að það sé velkomið. Engum, sem notar ilmefni í hófi, ætti að þykja óþægilegt að sækja samkomur.

Ef aðstæður leyfa er hugsanlegt að öldungarnir geti boðið þeim sem hafa ofnæmi fyrir ilmefnum að sitja annars staðar en í aðalsalnum. Til dæmis gætu þeir fengið að sitja í fundarherbergi og hlusta á samkomurnar þar ef það er tengt magnarakerfi hússins. Ef ekki er hægt að leysa málið með slíkum hætti og ofnæmið er alvarlegt má vera að söfnuðurinn geti hljóðritað samkomurnar handa þeim eða þeir geti hlustað á þær símleiðis eins og ýmsir sem eiga ekki heimangengt.

Á síðustu árum hafa bræður og systur verið hvött til þess í Ríkisþjónustu okkar að hafa þetta sérstaklega í huga þegar þau sækja umdæmismót. Flest mótin eru haldin í húsnæði með loftræstikerfi og mótsgestir hafa því verið hvattir til að nota sem minnst af sterkum ilmefnum þegar þeir sækja þau. Bræður og systur hafa verið hvött sérstaklega til þess að sýna tillitssemi á umdæmismótunum því að þau eru yfirleitt haldin í húsnæði þar sem ekki er hægt að bjóða upp á ilmefnalaus svæði. Þessar leiðbeiningar voru þó aldrei hugsaðar sem almenn regla fyrir safnaðarsamkomur og það var ekki ætlunin að þær væru túlkaðar þannig.

Meðan þessi heimur stendur sitjum við öll uppi með afleiðingar ófullkomleikans sem við höfum tekið í arf. Við erum ákaflega þakklát fyrir tillitssemi þeirra sem gera sitt besta til að auðvelda okkur baráttuna. Það getur kostað einhverjar fórnir fyrir suma að nota ekki ilmefni, svo sem ilmvatn eða rakspíra, til að auðvelda bróður eða systur að sækja samkomur. Við erum engu að síður tilbúin til þess vegna þess að við elskum trúsystkini okkar.

 Styðja veraldlegar heimildir að Pontíus Pílatus hafi verið til?

Nafnið Pílatus er ritað á latínu á þessa steinhellu.

Þeir sem lesa Biblíuna þekkja til Pontíusar Pílatusar vegna þess hlutverks sem hann fór með þegar réttað var yfir Jesú og hann tekinn af lífi. (Matt. 27:1, 2, 24-26) En nafnið er einnig að finna nokkrum sinnum í öðrum sögulegum samtímaheimildum. Að sögn The Anchor Bible Dictionary eru til „meiri og ítarlegri sögulegar heimildir um hann en nokkurn annan rómverskan landstjóra Júdeu“.

Nafnið Pílatus kemur oftast fyrir í ritum Jósefusar, sagnaritara Gyðinga, en hann segir frá þrem atvikum þar sem Pílatus átti í erfiðleikum meðan hann var landstjóri í Júdeu. Sagnaritarinn Fílon, sem einnig var Gyðingur, nefnir fjórða atvikið. Rómverski rithöfundurinn Tacítus, sem skráði sögu keisaranna í Róm, staðfestir að Pontíus Pílatus hafi fyrirskipað aftöku Jesú í stjórnartíð Tíberíusar.

Árið 1961 voru fornleifafræðingar að störfum í ævafornu rómversku leikhúsi í Sesareu í Ísrael, og fundu þá steinhellu með nafni Pílatusar á latínu. Brotnað hefur upp úr hellunni (sem er sýnd hér) en talið er að upprunalega hafi áletrunin hljóðað svo: „Hæstvirtum guðum Tíberíusi hefur Pontíus Pílatus, landstjóri Júdeu, vígt.“ Byggingin, sem Pílatus vígði, var að öllum líkindum hof reist til heiðurs Tíberíusi, keisara Rómaveldis.

Þarf systir að bera höfuðfat ef hún stýrir biblíunámskeiði í viðurvist karlkyns boðbera?

Í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum 1. ágúst 2002 kom fram að systir eigi að bera höfuðfat ef hún stýrir biblíunámskeiði í viðurvist karlkyns boðbera, hvort sem hann er skírður eða ekki. Nánari athugun bendir til þess að það þurfi að endurskoða þessar leiðbeiningar.

Segjum sem svo að systir stýri biblíunámskeiði sem er þegar komið á laggirnar og taki með sér skírðan bróður. Þá ætti hún vissulega að bera höfuðfat. Þannig sýnir hún að hún virðir fyrirkomulag Jehóva um forystu í kristna söfnuðinum, þar sem hún fer með hlutverk sem bróðir ætti alla jafna að sinna. (1. Kor. 11:5, 6, 10) Hún á þess líka kost að biðja bróðurinn að stýra biblíunámskeiðinu, sé hann til þess hæfur.

En segjum nú sem svo að systir stýri biblíunámskeiði og taki með sér karlkyns boðbera sem er óskírður og ekki giftur henni. Þá ber henni ekki biblíuleg skylda til að bera höfuðfat. Samt sem áður gætu sumar systur kosið að bera höfuðfat við slíkar aðstæður samvisku sinnar vegna.

^ gr. 4 Nánari umræðu um málið er að finna í greininni „Helping Those With MCS“ í Vaknið! 8. ágúst 2000, bls. 8-10.