Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – í New York

Þau buðu sig fúslega fram – í New York

FYRIR nokkrum árum bjuggu hjónin Cesar og Rocio í Kaliforníu þar sem þau lifðu þægilegu lífi. Cesar vann fulla vinnu við hita-, kæli- og loftræstikerfi og Rocio vann hlutastarf á læknastofu. Þau áttu húsið sitt og voru barnlaus. Þá gerðist eitthvað sem breytti lífi þeirra. Hvað var það?

Í október 2009 sendi deildarskrifstofan í Bandaríkjunum bréf til allra safnaða þar í landi og bauð faglærðum eða reyndum sjálfboðaliðum að sækja um tímabundið starf á Betel. Þeir áttu að vinna við að stækka húsnæði deildarskrifstofunnar í Wallkill í New York. Jafnvel þeim sem komnir voru yfir hefðbundin aldursmörk til Betelþjónustu var boðið að sækja um. „Þar sem við vorum komin yfir aldursmörkin vissum við að þarna bauðst okkur einstakt tækifæri til að starfa á Betel,“ segja Cesar og Rocio. „Við ætluðum ekki að láta þetta tækifæri ganga okkur úr greipum!“ Hjónin sóttu um þegar í stað.

Nokkrir sjálfboðaliðar sem starfa í Warwick.

Rúmu ári síðar hafði Cesar og Rocio enn ekki verið boðið að starfa á Betel. Þau gerðu samt ráðstafanir til að ná markmiði sínu með því að einfalda líf sitt. „Við breyttum bílskúrnum í stúdíóíbúð þannig að við gætum leigt öðrum húsið. Síðan fluttum við úr 200 fermetra draumahúsi, sem við byggðum nokkrum árum áður, í 25 fermetra íbúð í bílskúrnum. Með þessum breytingum vorum við í betri aðstöðu til að þiggja boð um Betelstarf ef af því yrði,“ segir Cesar. Hvað gerðist svo? „Mánuði eftir að við fluttum í litlu íbúðina var okkur boðið tímabundið starf í Wallkill,“ segir Rocio. „Það var deginum ljósara að með því að einfalda lífið höfðum við gefið Jehóva eitthvað sem hann gat blessað.“

Jason, Cesar og William

JEHÓVA BLESSAR FÓRNFÝSI

Hundruð bræðra og systra hafa, líkt og Cesar og Rocio, fært fórnir til að geta tekið þátt  í byggingarframkvæmdunum sem fram fara í New York-ríki. Margir vinna við stækkunina í Wallkill en margir aðrir vinna við að reisa nýju aðalstöðvarnar í Warwick. * Fjölmörg hjón hafa sagt skilið við notalegt heimili, góða vinnu og jafnvel gæludýrin sín til að geta þjónað Jehóva betur. Hefur Jehóva blessað fórnfýsi þeirra? Svo sannarlega.

Way

Lítum á dæmi. Way, sem er rafvirki, og Debra eru að nálgast sextugt. Þau seldu húsið sitt í Kansas og flestar eigur sínar og fluttu til Wallkill. Þau starfa þar sem Betelítar en búa í eigin húsnæði. * Þau þurftu að gera ýmsar breytingar en finnst fórnirnar, sem þau færðu, vera vel þess virði. Debra segir um verkefni sín á Betel: „Mér finnst stundum eins og ég hafi stigið inn í eina af paradísarmyndunum í ritunum okkar þar sem verið er að byggja hús.“

Melvin og Sharon seldu húsið sitt og eigur í Suður-Karólínu til að geta lagt hönd á plóginn í Warwick. Þó að þeim hafi ekki þótt auðvelt að færa þessar fórnir finnst þeim það mikill heiður að mega taka þátt í þessu sögulega verkefni. Þau segja: „Það er mikið gleðiefni að vita að maður á þátt í verkefni sem á eftir að verða söfnuðinum um allan heim til gagns.“

Kenneth

Kenneth og Maureen eru rúmlega fimmtug en hann er fyrrverandi húsasmiður. Þau fluttust frá Kaliforníu til að vinna við framkvæmdirnar í Warwick. Til að geta flutt fengu þau systur í söfnuðinum til að sjá um húsið sitt og báðu fjölskylduna um aðstoð við að annast aldraðan föður Kenneths. Sjá þau eftir að hafa fært fórnir til að starfa á Betel? Nei. „Við höfum mikið gagn af þessu sjálf,“ segir Kenneth. „Er þetta fyrirhafnarlaust? Auðvitað ekki en líf okkar er mjög innihaldsríkt og við getum heilshugar mælt með þjónustu af þessu tagi.“

ÝMSAR HINDRANIR

Flestir sem hafa boðið sig fram til starfa hafa þurft að yfirstíga ákveðnar hindranir. William og Sandra eru rúmlega sextug og höfðu komið sér vel fyrir í Pennsylvaníu þar sem þau bjuggu. Þau áttu vélsmiðju í góðum rekstri og voru með 17 manns í vinnu. Þau höfðu tilheyrt sama söfnuði frá því að þau voru lítil, og flestir ættingjar þeirra bjuggu í grenndinni. Þegar þeim bauðst að starfa í Wallkill vissu þau að þau yrðu að kveðja nánast allt og alla sem þau þekktu.  „Mesta hindrunin hjá okkur var vafalaust sú að fara út fyrir þægindahringinn,“ segir William. En eftir margar bænir ákváðu hjónin að láta slag standa og flytja – og þau sjá ekki eftir því. „Það er óviðjafnanleg gleði sem fylgir því að taka beinan þátt í verkinu og starfa með Betelfjölskyldunni,“ segir William. „Við Sandra erum hamingjusamari en nokkru sinni fyrr.“

Nokkur af hjónunum sem vinna í Wallkill.

Ricky starfaði sem byggingarstjóri á Hawaii. Honum var boðið að aðstoða við framkvæmdirnar í Warwick. Kendra, eiginkona hans, hvatti hann til að þiggja boðið. Eitt olli þeim þó heilabrotum og nokkrum áhyggjum. Þau áttu 11 ára son, Jacob, og þau veltu fyrir sér hvort það væri skynsamlegt að fjölskyldan flytti til New York-ríkis og hvort drengurinn gæti lagað sig að gerólíku umhverfi.

„Eitt af því sem við settum á oddinn var að finna söfnuð með ungu fólki sem væri sterkt í sannleikanum,“ segir Ricky. „Við vildum að Jacob væri í góðum félagsskap.“ Það fór þó svo að þau tilheyrðu söfnuði þar sem voru mjög fá börn en allmargir Betelítar. „Eftir fyrstu samkomuna spurði ég Jacob hvernig honum litist á nýja söfnuðinn, sérstaklega vegna þess að það voru engin börn þar á hans aldri,“ segir Ricky. „Hann svaraði: ,Hafðu ekki áhyggjur, pabbi. Ungu bræðurnir á Betel verða vinir mínir.‘“

Jacob og foreldrar hans njóta þess að umgangast Betelítana í söfnuðinum sínum.

Ungu Betelítarnir hafa líka vingast við Jacob. Hvaða áhrif hefur það haft á hann? „Eitt kvöldið gekk ég fram hjá herbergi sonar míns og sá að ljósin voru kveikt,“ segir Ricky. „Ég bjóst við að hann væri að spila tölvuleik en hann var þá að lesa í Biblíunni. Ég spurði hann hvað hann væri að gera og hann svaraði: ,Ég er ungur Betelíti og ég ætla að lesa Biblíuna á einu ári.‘“ Ricky og Kendra eru auðvitað himinlifandi, ekki aðeins af því að Ricky getur tekið þátt í byggingarframkvæmdunum í Warwick heldur einnig vegna þess að flutningurinn hefur stuðlað að framförum hjá syni þeirra. – Orðskv. 22:6.

ÞAU HAFA EKKI ÁHYGGJUR AF FRAMTÍÐINNI

Luis og Dale

Byggingarframkvæmdunum í Wallkill og Warwick lýkur um síðir og þeir sem hefur verið boðið að leggja hönd á plóginn vita að þeir starfa aðeins tímabundið á Betel. Hafa þessir bræður og systur áhyggjur af því hvað taki þá við og hvert þau fari? Alls ekki. Margir eru sama sinnis og tvenn miðaldra hjón frá Flórída. John er  byggingarstjóri og starfar tímabundið í Warwick ásamt Carmen, eiginkonu sinni. Þau segja: „Við höfum séð hvernig Jehóva hefur séð fyrir þörfum okkar hingað til. Við hugsum sem svo að Jehóva hafi ekki kallað okkur hingað núna til að yfirgefa okkur síðar.“ (Sálm. 119:116) Luis hannar eldvarnarkerfi og starfar í Wallkill ásamt Queniu, eiginkonu sinni. Þau segja: „Jehóva hefur séð fyrir efnislegum þörfum okkar af miklu örlæti. Við vitum ekki hvernig, hvenær eða hvar en við treystum að hann haldi áfram að annast okkur.“ – Sálm. 34:11; 37:25.

 „ÓÞRJÓTANDI BLESSUN“

John og Melvin

Flestir sem hafa unnið við framkvæmdirnar í New York hefðu getað tiltekið ýmsar ástæður til að bjóða ekki fram krafta sína. En þeir hafa gert eins og við erum öll hvött til í Biblíunni: „Reynið mig ... segir Drottinn hersveitanna, og sjáið hvort ég lýk ekki upp flóðgáttum himins og helli yfir ykkur óþrjótandi blessun.“ – Mal. 3:10.

Ætlar þú líka að reyna Jehóva og uppskera ríkulega blessun hans? Hugleiddu í bænarhug hvernig þú getir tekið þátt í því spennandi verkefni sem liggur fyrir, hvort heldur í New York eða annars staðar þar sem framkvæmdir standa yfir á vegum safnaðar Jehóva. Sjáðu með eigin augum hvernig Jehóva umbunar þér. – Mark. 10:29, 30.

Gary

Dale, sem er verkfræðingur, og Cathy eru frá Alabama. Þau mæla eindregið með þjónustu af þessu tagi. Þau starfa í Wallkill og segja: „Ef maður hefur hugrekki til að fara út fyrir þægindahringinn fær maður að sjá hvernig andi Jehóva starfar.“ Og hvað þarf að gera til að geta boðið sig fram? Dale segir: „Einfaldaðu, einfaldaðu og einfaldaðu svolítið meira. Þú sérð aldrei eftir því.“ Gary er frá Norður-Karólínu. Hann hefur 30 ára reynslu sem byggingarstjóri. Hann og Maureen, eiginkona hans, segja að ein af blessununum, sem þau búi við í Warwick, sé að „kynnast og vinna með öllum þessum frábæru bræðrum og systrum sem hafa þjónað Jehóva á Betel alla ævi“. Gary bætir við: „Til að starfa á Betel þarf maður að lifa einföldu lífi en það er besta leiðin til að lifa í þessu heimskerfi.“ Jason og Jennifer eru frá Illinois en hann vann áður hjá rafverktaka. Þau segja að það sé „varla hægt að komast nær því að finna hvernig það verður að lifa í nýja heiminum“ en að vinna við framkvæmdir við Betel í Wallkill. Jennifer bætir við: „Það er mögnuð tilfinning að Jehóva kunni að meta allt sem maður gerir og að það sé undirbúningur undir framtíðina sem hann ætlar okkur. Jehóva sér um að auðga okkur framar öllum vonum.“

^ gr. 6 Sjá árbók votta Jehóva 2014, bls. 12-13.

^ gr. 7 Þeir sem vinna í hlutastarfi á Betel, einn eða fleiri daga í viku, en búa í eigin húsnæði standa sjálfir undir kostnaði við fæði og húsnæði.