Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað átti Jeremía við þegar hann talaði um að Rakel gréti börn sín?

Í Jeremía 31:15 stendur: „Svo segir Drottinn: Rödd heyrist í Rama, harmakvein, beiskur grátur. Rakel grætur börn sín, hún vill ekki huggast láta vegna barna sinna því að þau eru ekki framar lífs.“

Rakel átti tvo syni en þeir dóu ekki á undan henni. Það sem Jeremía skrifaði 1.000 árum eftir að hún dó gæti þar af leiðandi virst rangt.

Eldri sonur Rakelar hét Jósef. (1. Mós. 30:22-24) Síðar eignaðist hún annan son sem var nefndur Benjamín en hún dó rétt eftir að hún fæddi hann. Því vaknar sú spurning hvers vegna Jeremía 31:15 segi að hún gráti því að börn hennar séu „ekki framar lífs“.

Eldri sonurinn, Jósef, eignaðist tvo syni, þá Manasse og Efraím. (1. Mós. 41:50-52; 48:13-20) Fremsta og áhrifamesta ættkvísl norðurríkisins Ísraels kom af Efraím og varð hún með tímanum táknmynd allra ættkvíslanna tíu sem mynduðu ríkið. Ættkvíslin, sem kom af Benjamín, yngri syni Rakelar, myndaði suðurríkið ásamt Júda. Í vissum skilningi mátti því tala um Rakel sem formóður alls Ísraels, bæði norðurríkisins og þess syðra.

Þegar Jeremíabók var skrifuð var tíuættkvíslaríkið í norðri fallið í hendur Assýringa og margir af íbúunum höfðu verið teknir til fanga og fluttir burt. En sumir af afkomendum Efraíms hafa hugsanlega flúið suður á yfirráðasvæði Júda. Árið 607 f.Kr. unnu Babýloníumenn tveggjaættkvíslaríkið Júda. Meðan á því stóð mun sumum af föngunum hafa verið safnað saman í Rama, um átta kílómetra norður af Jerúsalem. (Jer. 40:1) Vera má að sumir hafi verið drepnir þar, á landsvæði Benjamíns þar sem Rakel var grafin. (1. Sam. 10:2) Þegar sagt er að Rakel gráti börn sín getur það merkt að hún hafi í táknrænum skilningi syrgt Benjamínítana í heild eða þá sem drepnir voru í Rama. Einnig er hugsanlegt að þetta merki að allar mæður í Ísrael hafi grátið dauða eða útlegð Ísraels.

Hvað sem því líður hafði það spádómlega merkingu að Rakel skyldi gráta börn sín eins og Jeremía segir. Það rættist öldum síðar þegar Jesús var í lífshættu sem ungur drengur. Heródes konungur fyrirskipaði þá að allir drengir í Betlehem, tveggja ára og yngri, skyldu teknir af lífi en Betlehem lá suður af Jerúsalem. Þessi börn voru ekki framar lífs. Við getum rétt ímyndað okkur harmagrát mæðranna sem höfðu misst syni sína. Það var eins og gráturinn heyrðist alla leið til Rama, norður af Jerúsalem. – Matt. 2:16-18.

Orðin „Rakel grætur börn sín“ eru því notuð til að lýsa hvernig ísraelskar mæður syrgðu látin börn sín, bæði á tímum Jeremía og á dögum Jesú. En þeir sem dóu og fóru þannig yfir í ,land fjandmannanna‘ geta auðvitað snúið aftur úr greipum dauðans þegar þeir verða reistir upp. – Jer. 31:16; 1. Kor. 15:26.