Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Nóvember 2014

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvernig eru öldungar og safnaðarþjónar útnefndir í hverjum söfnuði?

Páll postuli sagði öldungunum í söfnuðinum í Efesus á fyrstu öld: „Hafið gát á sjálfum ykkur og allri hjörðinni sem heilagur andi fól ykkur til umsjónar. Verið hirðar kirkju Guðs sem hann hefur aflað sér með sínu eigin blóði.“ (Post. 20:28) Hvaða þátt á heilagur andi í því að útnefna öldunga og safnaðarþjóna á okkar tímum?

Í fyrsta lagi var það undir handleiðslu heilags anda sem biblíuritararnir skráðu hæfniskröfur öldunga og safnaðarþjóna. Í 1. Tímóteusarbréfi 3:1-7 eru taldar upp 16 hæfniskröfur sem öldungar þurfa að uppfylla. Fleiri hæfniskröfur eru nefndar í Títusarbréfinu 1:5-9 og Jakobsbréfinu 3:17, 18. Hæfniskröfur safnaðarþjóna eru tíundaðar í 1. Tímóteusarbréfi 3:8-10, 12, 13. Í öðru lagi, þeir sem mæla með og útnefna öldunga og safnaðarþjóna biðja sérstaklega um að heilagur andi leiðbeini sér þegar þeir kanna hvort ákveðinn bróðir uppfylli hæfniskröfur Biblíunnar að hæfilegu marki. Í þriðja lagi þarf sá sem mælt er með að bera ávöxt heilags anda Guðs. (Gal. 5:22, 23) Andi Guðs á því hlut að máli á öllum stigum ferlisins.

En hverjir útnefna bræðurna? Hingað til hafa öll meðmæli um útnefningu öldunga og safnaðarþjóna verið send til þeirrar deildarskrifstofu sem söfnuðurinn heyrir undir. Bræður, sem höfðu umboð frá hinu stjórnandi ráði, fóru þar yfir meðmælin og útnefndu öldunga og safnaðarþjóna til starfa. Síðan tilkynnti deildarskrifstofan öldungaráðinu um útnefninguna. Öldungarnir létu þá viðkomandi bræður vita að þeir hefðu verið útnefndir og spurðu þá hvort þeir væru fúsir til að taka við verkefninu og uppfylltu hæfniskröfurnar í raun. Að síðustu var söfnuðinum tilkynnt um útnefninguna.

En hvernig var slíkum útnefningum háttað á fyrstu öld? Postularnir útnefndu stundum menn til ákveðinna verkefna, til dæmis þegar þeir völdu sjö menn til að sjá um daglega úthlutun matvæla til ekkna. (Post. 6:1-6) Vel má þó vera að þessir sjö menn hafi þá þegar verið öldungar, það er að segja áður en þeir fengu þetta ákveðna verkefni.

Biblían lýsir ekki í smáatriðum hvernig útnefningum var háttað í öllum tilvikum á þeim tíma en við sjáum þó ákveðnar vísbendingar  um það. Til dæmis er sagt um Pál og Barnabas þegar þeir voru á heimleið úr fyrstu trúboðsferðinni: „Þeir völdu þeim öldunga í hverjum söfnuði, fólu þá síðan með föstum og bænahaldi Drottni sem þeir höfðu fest trú á.“ (Post. 14:23) Mörgum árum síðar skrifaði Páll Títusi sem hafði ferðast með honum: „Ég lét þig eftir á Krít til þess að þú færðir í lag það sem ógert var og skipaðir öldunga í hverri borg svo sem ég lagði fyrir þig.“ (Tít. 1:5) Tímóteus, sem ferðaðist mikið með Páli postula, virðist hafa fengið sams konar umboð. (1. Tím. 5:22) Ljóst er því að það voru farandumsjónarmenn en ekki postularnir og öldungarnir í Jerúsalem sem sáu um þessar útnefningar.

Hið stjórnandi ráð Votta Jehóva hefur ákveðið að breyta útnefningu öldunga og safnaðarþjóna til samræmis við þessa biblíulegu fyrirmynd. Frá og með 1. september 2014 verður útnefningum háttað sem hér segir: Hver farandhirðir fer vandlega yfir þau meðmæli sem gefin eru á farandsvæði hans. Þegar hann heimsækir söfnuðina reynir hann að kynnast þeim sem mælt er með og boða fagnaðarerindið með þeim ef þess er nokkur kostur. Eftir að farandhirðirinn hefur rætt meðmælin við öldungaráð safnaðarins er það í verkahring hans að útnefna öldunga og safnaðarþjóna. Þetta gildir um alla söfnuði á farandsvæði hans. Þar með er ferlið fært nær því sem gert var á fyrstu öld.

Öldungar ræða við farandhirðinn hvort bróðir í söfnuðinum uppfylli hæfniskröfur Biblíunnar. (Malaví)

Hverjir fara með hin ýmsu hlutverk í þessu ferli? Það er fyrst og fremst hinn „trúi og hyggni þjónn“ sem hefur það verkefni að næra hjúin. (Matt. 24:45-47) Það felur í sér að rannsaka Biblíuna með hjálp heilags anda til að gefa leiðbeiningar um það hvernig skuli beita meginreglum Biblíunnar sem lúta að skipulagi safnaðarins um heim allan. Hinn trúi þjónn útnefnir einnig alla farandhirða og bræður sem sitja í deildarnefndum. Deildarskrifstofan aðstoðar síðan söfnuðina við að fylgja leiðbeiningum hins trúa þjóns. Hvert öldungaráð hefur það alvarlega verkefni með höndum að ganga úr skugga um að bræðurnir, sem þeir mæla með að séu útnefndir í söfnuði Guðs, uppfylli hæfniskröfur Biblíunnar. Hver farandhirðir hefur þá alvarlegu skyldu með höndum að skoða vandlega meðmæli öldunganna, leggja málið fyrir Jehóva í bæn og útnefna síðan þá bræður sem uppfylla hæfniskröfurnar.

Þegar við gerum okkur grein fyrir hvernig útnefningum er háttað skiljum við betur hvaða hlutverki heilagur andi gegnir í ferlinu. Þá berum við líka meira traust til þeirra sem eru útnefndir til starfa í kristna söfnuðinum og berum meiri virðingu fyrir þeim. – Hebr. 13:7, 17.

 Hverjir eru vottarnir tveir sem nefndir eru í Opinberunarbókinni kafla 11?

Í Opinberunarbókinni 11:3 er sagt frá tveim vottum sem vitnuðu í 1.260 daga. Í kaflanum segir að dýrið muni „sigra þá og deyða þá“. En eftir ,þrjá og hálfan dag‘ yrðu þeir lífgaðir, öllum sem sæju þá til mikillar undrunar. – Opinb. 11:7.

Hverjir eru vottarnir tveir? Lýsingin í kaflanum gerir okkur kleift að svara því. Í fyrsta lagi er okkur sagt að þeir séu „olíuviðirnir tveir og ljósastikurnar tvær“. (Opinb. 11:4) Þetta minnir okkur á ljósastikuna og ólífutrén tvö sem lýst er í spádómi Sakaría. Trén eru sögð tákna ,hina tvo smurðu‘, það er að segja Serúbabel landstjóra og Jósúa æðstaprest „sem standa hjá Drottni gjörvallrar jarðarinnar“. (Sak. 4:1-3, 14) Í öðru lagi eru vottarnir tveir sagðir gera tákn svipuð þeim sem Móse og Elía gerðu. – Berðu Opinberunarbókina 11:5, 6 saman við 4. Mósebók 16:1-7, 28-35 og 1. Konungabók 17:1; 18:41-45.

Hvað er sameiginlegt með versunum í Sakaría og Opinberunarbókinni? Í báðum tilvikum er talað um smurða þjóna Guðs sem tóku forystuna á erfiðum reynslutímum. Ellefti kafli Opinberunarbókarinnar uppfylltist þegar smurðir bræður, sem fóru með forystuna árið 1914 þegar ríki Guðs var stofnsett á himni, prédikuðu ,klæddir hærusekkjum‘ í þrjú og hálft ár.

Þegar þessir smurðu þjónar höfðu prédikað í hærusekk um tíma voru þeir deyddir í táknrænum skilningi. Það gerðist þegar þeir voru fangelsaðir í tiltölulega stuttan tíma, táknrænan þrjá og hálfan dag. Það leit út fyrir að gengið hefði verið af starfsemi þeirra dauðri, óvinum þeirra til mikillar ánægju. – Opinb. 11:8-10.

Vottarnir tveir voru hins vegar lífgaðir aftur eftir þrjá og hálfan dag, eins og spáð hafði verið. Þessum andasmurðu vottum var ekki aðeins sleppt úr fangelsi heldur hlutu þeir sem reyndust trúir sérstaka útnefningu frá Guði fyrir milligöngu Drottins Jesú Krists. Árið 1919 voru þeir á meðal þeirra sem var falið það hlutverk að vera ,trúr og hygginn þjónn‘ og sjá fyrir andlegum þörfum fólks Guðs á síðustu dögum. – Matt. 24:45-47; Opinb. 11:11, 12.

Það er athyglisvert að Opinberunarbókin 11:1, 2 setur þessa atburði í samhengi við þann tíma þegar andlega musterið yrði mælt eða kannað. Malakí lýsir í 3. kafla svipaðri könnun á andlega musterinu og hreinsun sem kemur í kjölfarið. (Mal. 3:1-4) Hve lengi stóð þessi könnun og hreinsun? Hún stóð frá 1914 til fyrri hluta 1919. Þetta tímabil nær yfir bæði dagana 1.260 (42 mánuði) og hinn táknræna þrjá og hálfa dag sem Opinberunarbókin 11. kafli talar um.

Það er ástæða til að gleðjast yfir því að Jehóva skuli hafa hreinsað sérstakan hóp fólks til góðra verka. (Tít. 2:14) Auk þess kunnum við að meta fordæmi hinna andasmurðu sem tóku forystuna og voru trúir á þessum reynslutímum. Þannig uppfylltu þeir spádóminn um vottana tvo. *

^ gr. 18 Frekari upplýsingar má finna í Varðturninum 15. júlí 2013, bls. 22, grein 12.