„Ég minnist stöðugt ... hve mikið þið starfið í trúnni, stríðið í kærleikanum.“ – 1. ÞESS. 1:3.

1. Hvernig leit Páll á þá sem lögðu hart að sér við boðunina?

PÁLL postuli kunni vel að meta þá sem lögðu hart að sér í þágu fagnaðarerindisins. Hann skrifaði: „Ég minnist stöðugt fyrir augliti Guðs vors og föður hve mikið þið starfið í trúnni, stríðið í kærleikanum og eruð staðföst í voninni á Drottin vorn Jesú Krist.“ (1. Þess. 1:3) Jehóva gleymir ekki erfiði og kærleika allra sem þjóna honum dyggilega, óháð því hve mikið þeir geta lagt af mörkum. – Hebr. 6:10.

2. Um hvað er rætt í þessari grein?

2 Margir samþjónar okkar, bæði fyrr og nú, hafa fært miklar fórnir til að geta þjónað Jehóva í fullu starfi. Við skulum skoða hvað sumir gerðu í þjónustu hans á fyrstu öld. Við kynnum okkur líka hvernig hægt er að þjóna Jehóva í fullu starfi á okkar dögum og könnum hvernig við getum stutt þá sem hafa boðið sig fram til slíkra starfa.

KRISTNIR MENN Á FYRSTU ÖLD

3, 4. (a) Á hvaða hátt þjónuðu bræður og systur Guði á fyrstu öld? (b) Hvernig var líkamlegum þörfum þeirra fullnægt?

3 Skömmu eftir að Jesús lét skírast hleypti hann af stokkunum starfi sem átti eftir að teygja sig um allan heim. (Lúk. 3:21-23; 4:14, 15, 43) Eftir að hann dó tóku postularnir  forystuna í boðuninni. (Post. 5:42; 6:7) Sumir fylgjendur Krists, þeirra á meðal Filippus, störfuðu sem trúboðar í Palestínu. (Post. 8:5, 40; 21:8) Páll og fleiri ferðuðust víðar. (Post. 13:2-4; 14:26; 2. Kor. 1:19) Sumir, til dæmis Silvanus (Sílas), Markús og Lúkas, störfuðu einnig sem ritarar eða skrifuðu biblíubækur. (1. Pét. 5:12) Systur í söfnuðinum störfuðu með þessum trúu bræðrum. (Post. 18:26; Rómv. 16:1, 2) Það er spennandi að lesa Grísku ritningarnar sem segja þessum þjónum Jehóva, og frásagan sýnir að hann minnist þeirra með hlýhug.

4 Hvernig var séð fyrir þörfum þeirra sem þjónuðu í fullu starfi á þeim tíma? Stundum nutu þeir gestrisni og annarrar aðstoðar trúsystkina, en þeir kröfðust þess aldrei að fá aðstoð. (1. Kor. 9:11-15) Bæði einstaklingar og söfnuðir studdu fúslega við bakið á þessum þjónum Guðs. (Lestu Postulasöguna 16:14, 15; Filippíbréfið 4:15-18.) Páll og ferðafélagar hans unnu einnig hlutastörf til að sjá sér farborða.

ÞEIR SEM ÞJÓNA Í FULLU STARFI NÚNA

5. Hvernig lýstu hjón nokkur lífi sínu í þjónustu Jehóva?

5 Margir þjóna Jehóva í fullu starfi nú á dögum og leggja sig líka alla fram á ýmsum sviðum. (Sjá yfirlitið „ Þjónusta í fullu starfi“.) Hvað finnst þeim um starfið sem þeir völdu sér? Þú ættir að spyrja þau um það og svörin verða áreiðanlega mjög hvetjandi fyrir þig. Tökum dæmi: Bróðir nokkur hefur verið brautryðjandi, sérbrautryðjandi og trúboði auk þess að starfa á Betel erlendis. Hann segir: „Mér finnst það ein besta ákvörðunin, sem ég hef tekið, að þjóna Guði í fullu starfi. Þegar ég var 18 ára þurfti ég að velja milli þess að fara í háskóla, fá mér fulla vinnu eða gerast brautryðjandi. Ég hef lært af reynslunni að Jehóva gleymir ekki þeim fórnum sem maður færir til að þjóna honum í fullu starfi. Ég hef getað notað þá færni og þær gáfur, sem Jehóva gaf mér, betur en ég hefði nokkurn tíma getað ef ég hefði valið mér starf á veraldlegum vettvangi.“ Konan hans segir: „Ég hef þroskast með hverju verkefni. Við höfum fundið fyrir vernd Jehóva og handleiðslu æ ofan í æ, og við höfum fundið betur fyrir henni en við hefðum gert ef við hefðum haldið okkur innan þægindamarkanna. Ég þakka Jehóva daglega fyrir að hafa mátt þjóna honum í fullu starfi.“ Langar þig til að geta sagt eitthvað svipað þegar þú lítur yfir farinn veg?

6. Hvernig lítur Jehóva á þjónustu okkar allra?

6 Það eru auðvitað ekki allir í aðstöðu til að þjóna Jehóva í fullu starfi núna. Við getum treyst að hann kann líka að meta þjónustuna sem þeir veita af heilum hug. Hugsaðu til þeirra sem Páll nafngreinir í Fílemonsbréfinu 1-3, og til allra sem voru í söfnuðinum í Kólossu. (Lestu.) Páll kunni vel að meta þjónustu þeirra og hið sama er að segja um Jehóva. Hann er líka þakklátur fyrir það sem þú leggur af mörkum. En hvernig getum við stutt þá sem þjóna í fullu starfi núna?

HVERNIG ER HÆGT AÐ AÐSTOÐA BRAUTRYÐJENDUR?

7, 8. Hvað leggja brautryðjendur á sig og hvernig geta bræður og systur stutt þá?

7 Duglegir brautryðjendur eru mikil lyftistöng fyrir söfnuðina, rétt eins og trúboðarnir á fyrstu öld. Margir þeirra nota um 70 klukkustundir í mánuði til að boða fagnaðarerindið. Hvernig geturðu aðstoðað þá?

8 Shari, sem er brautryðjandi, segir: „Brautryðjendur virðast sterkir því að þeir eru úti í starfinu alla daga. En þeir þurfa samt á uppörvun og hvatningu að halda.“ (Rómv. 1:11, 12) Önnur systir,  sem var brautryðjandi um árabil, segir um brautryðjendurna í söfnuðinum sínum: „Þeir eru ötulir og eru alltaf að. Þeir eru þakklátir þegar aðrir bjóðast til að nota bílinn sinn við boðunina, bjóða þeim í mat eða stinga að þeim peningum fyrir bensíni eða öðru. Það segir þeim að öðrum sé annt um þá.“

9, 10. Hvað hafa sumir gert til að aðstoða brautryðjendur í söfnuðinum sínum?

9 Langar þig til að aðstoða brautryðjendur við boðunina? „Við þurfum meiri stuðning á virkum dögum,“ segir Bobbi sem er brautryðjandi. Önnur systir í sama söfnuði segir: „Það er mjög erfitt að fá starfsfélaga seinnipart dags.“ Systir, sem starfar núna á Betel í Brooklyn, hugsar með hlýju til brautryðjandaáranna og segir: „Systir, sem átti bíl, sagði: ,Þú hringir bara í mig ef þig vantar starfsfélaga. Ég fer þá í starfið með þér.‘ Hún bjargaði mér algerlega.“ Og Shari bendir á að einhleypir brautryðjendur séu oft einir eftir að starfinu lýkur. „Það mætti bjóða einhleypum bræðrum og systrum að vera með í biblíunámi fjölskyldunnar af og til. Og það hjálpar þeim líka að vera sterkir ef þeim er boðið að vera með í ýmsu öðru.“

10 Systir nokkur hefur þjónað Jehóva í fullu starfi í næstum 50 ár. Hún horfir um öxl til þess tíma þegar hún var brautryðjandi ásamt fleiri einhleypum systrum og segir: „Öldungarnir kíktu við hjá okkur með nokkurra mánaða millibili. Þeir spurðu um heilsufar okkar og vinnu og hvort við hefðum áhyggjur af einhverju. Þeim var full alvara. Þeir heimsóttu okkur til að kanna hvort okkur vantaði aðstoð.“ Þetta minnir okkur ef til vill á orð Páls um fjölskylduföður í Efesus sem aðstoðaði hann. – 2. Tím. 1:18.

11. Lýstu starfi sérbrautryðjenda.

11 Í sumum söfnuðum starfa sérbrautryðjendur. Margir þeirra nota um 130 klukkustundir í mánuði til að boða fagnaðarerindið. Þar sem þeir verja þetta miklum tíma til boðunarinnar og annarra starfa í söfnuðinum hafa þeir lítinn eða engan tíma aflögu til að vinna veraldleg störf. Deildarskrifstofan gefur þeim svolítinn styrk mánaðarlega til að þeir geti einbeitt sér að þjónustunni.

12. Hvernig geta öldungar og aðrir stutt sérbrautryðjendur?

 12 Hvernig getum við aðstoðað sérbrautryðjendur? Öldungur, sem starfar við eina af deildarskrifstofunum og er í sambandi við marga þeirra, segir: „Öldungarnir þurfa að spjalla við þá, kynna sér aðstæður þeirra og kanna hvernig hægt sé að aðstoða þá. Sumir í söfnuðinum halda að það sé séð fyrir öllum þörfum sérbrautryðjenda vegna þess að þeir fá styrk, en bræður og systur á staðnum geta aðstoðað þá á marga vegu.“ Sérbrautryðjendur eru þakklátir þegar bræður og systur starfa með þeim við boðunina. Getur þú stutt þá að þessu leyti?

STYÐJUM FARANDUMSJÓNARMENN

13, 14. (a) Hvað ættum við að hafa hugfast varðandi farandhirða? (b) Hvernig heldurðu að þú getir stutt þá sem eru í farandstarfi?

13 Farandhirðar og eiginkonur þeirra eru oft álitin vera þrautseig og sterk í trúnni. Þau eru það vissulega en þau þurfa líka á hvatningu að halda. Það er mikils virði fyrir þau að bræður og systur fari með þeim í boðunarstarfið og þau kunna vel að meta ef þeim er boðið að slaka á með trúsystkinum. Segjum að þau veikist, þurfi að leggjast inn á spítala og gangast undir aðgerð eða fara í sjúkraþjálfun. Þá er mjög hvetjandi fyrir þau ef bræður og systur í nágrenninu heimsækja þau og aðstoða. Það er ekki erfitt að ímynda sér að Lúkas, „læknirinn elskaði“ sem skrifaði Postulasöguna, hafi annast Pál og aðra sem ferðuðust milli safnaða. – Kól. 4:14; Post. 20:5 – 21:18.

14 Það er mikils virði fyrir farandumsjónarmenn og eiginkonur þeirra að eiga nána vini. Farandhirðir skrifar: „Vinir mínir virðast vita hvenær ég þarf á hvatningu og uppörvun að halda. Þeir spyrja spurninga sem hjálpa mér að tala um það sem liggur mér á hjarta. Það er heilmikil hjálp fyrir mig að þeir skuli hlusta.“ Farandhirðar og eiginkonur þeirra eru þakklát fyrir ósvikna umhyggju bræðra og systra.

AÐ STYÐJA ÞÁ SEM STARFA Á BETEL

15, 16. Hvaða þjónustu veita þeir sem starfa á Betel og við mótshallir og hvernig getum við stutt þá?

15 Þeir sem starfa á Betel og við mótshallir víða um lönd gegna mikilvægum störfum sem styðja við boðun fagnaðarerindisins á umsjónarsvæði deildarskrifstofunnar. Hvernig geturðu sýnt að þér sé annt um Betelítana ef einhverja er að finna í söfnuðinum þínum eða á farandsvæðinu?

16 Sumir eru með svolitla heimþrá fyrst eftir að þeir koma á Betel því að þeir hafa þurft að kveðja vini og ættingja heima fyrir. Það er mikils virði fyrir þá að aðrir Betelítar og trúsystkini í nýja söfnuðinum vingist við þá. (Mark. 10:29, 30) Hefðbundinn vinnutími á Betel gerir þeim kleift að sækja safnaðarsamkomur og taka þátt í boðuninni í hverri viku. Það getur þó gerst stöku sinnum að Betelítar þurfi að vinna aukalega. Það er öllum til góðs ef söfnuðirnir hafa skilning á því og sýna að þeir kunni vel að meta Betelítana og störf þeirra. – Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:9.

AÐ AÐSTOÐA ÞÁ SEM ÞJÓNA Í FULLU STARFI ERLENDIS

17, 18. Hver eru helstu verkefni þeirra sem er falið að starfa erlendis?

17 Sumir hafa tekið að sér verkefni í öðrum löndum. Þeir geta þurft að aðlagast gerólíku mataræði, tungumáli, siðvenjum og aðstæðum. Hvers vegna eru þeir fúsir til að taka slíkum áskorunum?

 18 Sumir eru trúboðar og nota krafta sína fyrst og fremst úti á akrinum. Þeir eru færir boðberar og kennarar og margir njóta góðs af kunnáttu þeirra. Deildarskrifstofan sér trúboðum fyrir látlausu húsnæði og fjárstyrk til að þeir geti aflað helstu nauðsynja. Aðrir starfa á Betelheimilum erlendis eða aðstoða við að byggja deildarskrifstofur, þýðingastofur, mótshallir eða ríkissali. Þeim er séð fyrir fæði, látlausu húsnæði og öðrum nauðsynjum. Þeir sækja samkomurnar og taka þátt í boðuninni á staðnum, rétt eins og Betelítarnir, þannig að aðrir njóta góðs af þjónustu þeirra.

19. Hvað ættum við að hafa í huga varðandi þá sem koma erlendis frá til að starfa í landinu?

19 Hvernig geturðu stutt við bakið á þeim sem hafa flutt erlendis frá til að þjóna Guði í fullu starfi? Mundu að þau eru kannski ekki vön þeim mat sem er algengur í landinu – að minnsta kosti ekki í fyrstu. Þú getur haft það í huga þegar þú býður þeim í mat. Þú gætir spurt þau fyrir fram hvað þau gætu hugsað sér að borða eða prófa. Vertu þolinmóður meðan þau eru að læra tungumálið og laga sig að siðvenjum í landinu. Það getur tekið sinn tíma fyrir þau að læra að skilja allt sem þú segir en þú getur hjálpað þeim vinsamlega að bæta framburðinn. Þau vilja læra.

20. Hvernig getum við aðstoðað þá sem þjóna í fullu starfi og foreldra þeirra?

20 Þegar fram líða stundir geta þeir sem þjóna í fullu starfi fjarri heimaslóðum þurft að ákveða hvernig hægt sé að annast aldraða foreldra þeirra. Séu foreldrarnir vottar vilja þeir sennilega umfram allt að börnin geti haldið starfi sínu áfram. (3. Jóh. 4) Þeir sem þjóna í fullu starfi gera auðvitað allt sem þeir geta til að annast foreldrana og heimsækja þá eins oft og þeir hafa tök á. En þeir sem búa í grennd við foreldrana geta hugsanlega hjálpað hinum sem þjóna Guði í fullu starfi með því að veita foreldrunum þá aðstoð sem þeir þurfa. Það er gott að hafa í huga að þeir sem þjóna í fullu starfi gegna þýðingarmiklu hlutverki í mikilvægasta verkefni sögunnar. (Matt. 28:19, 20) Getur þú eða söfnuðurinn þinn hjálpað til ef foreldrar þeirra þarfnast aðstoðar?

21. Hvað finnst þeim sem þjóna í fullu starfi um hjálp og hvatningu frá trúsystkinum?

21 Þeir sem þjóna Guði í fullu starfi gera það ekki í gróðaskyni heldur vegna þess að þá langar til að gefa af sér – bæði í þágu Jehóva og annarra. Þeir eru ákaflega þakklátir fyrir allan stuðning sem þú getur veitt þeim. Systir, sem starfar erlendis, endurómar tilfinningar marga þegar hún segir: „Jafnvel stutt bréf eða skeyti segir okkur að aðrir hugsi til okkar og séu ánægðir með það sem við erum að gera.“

22. Hvernig lítur þú á þjónustu í fullu starfi?

22 Það er fátt sem jafnast á við að þjóna Jehóva í fullu starfi. Það er bæði krefjandi, fræðandi og gefandi. Og það er góður undirbúningur undir þau ævarandi og gleðilegu störf sem bíða allra þjóna Jehóva í ríki hans. Við skulum ,minnast stöðugt hve mikið þeir sem þjóna í fullu starfi leggja af mörkum í trúnni og kærleikanum‘. – 1. Þess. 1:3.