„Sá sem elskar Guð er þekktur af honum.“ – 1. KOR. 8:3.

1. Endursegðu frásögu í Biblíunni sem sýnir fram á hvernig rangur hugsunarháttur hefur orðið sumum þjónum Guðs að falli. (Sjá mynd í upphafi greinar.)

ARON æðstiprestur stendur við innganginn að tjaldbúðinni. Þetta er að morgni dags og hann heldur á eldpönnu með reykelsi. Skammt frá stendur Kóra og með honum 250 menn, hver með sína eldpönnu til að færa Jehóva reykelsisfórn. (4. Mós. 16:16-18) Við fyrstu sýn virðast þeir allir vera dyggir þjónar Jehóva. En ólíkt Aroni eru Kóra og hinir hrokafullir uppreisnarmenn og ætla að sölsa undir sig prestsdóminn. (4. Mós. 16:1-11) Þeir hafa talið sér trú um að Guð leggi blessun sína yfir tilbeiðslu þeirra. En í rauninni var það móðgun við Jehóva að ætlast til þess því að hann gat séð hræsnina sem bjó í hjörtum þeirra. – Jer. 17:10.

2. Hverju hafði Móse spáð og rættist það?

2 Daginn áður hafði Móse sagt: „Í fyrramálið mun Drottinn kunngjöra hver hans er.“ (4. Mós. 16:5) Það fór líka svo að Jehóva gerði greinarmun á sönnum dýrkendum sínum og fölskum því að ,eldur gekk út frá honum og gleypti Kóra og þá tvö hundruð og fimmtíu menn sem færðu fram reykelsi‘. (4. Mós. 16:35; 26:10) En Aroni var þyrmt. Jehóva sýndi þar  með að Aron væri sannur tilbiðjandi hans og hinn útvaldi prestur. – Lestu 1. Korintubréf 8:3.

3. (a) Hvaða staða kom upp á dögum Páls postula? (b) Hvað má læra af viðbrögðum Jehóva við uppreisn á dögum Móse?

3 Áþekk staða kom upp á dögum Páls postula, um 1.500 árum síðar. Í söfnuðinum á fyrstu öld voru menn sem kölluðu sig kristna en tóku að aðhyllast falskar kenningar. Fljótt á litið voru þeir líklega ekkert frábrugðnir öðrum í söfnuðinum. Trúum þjónum Guðs stafaði þó hætta af fráhvarfi þeirra. Þeir voru eins og úlfar í sauðargæru því að þeir tóku að „umhverfa trú sumra“. (2. Tím. 2:16-18) En Jehóva vissi mætavel hvað var á seyði. Páll gerði sér grein fyrir því vegna þess að hann vissi hvernig Jehóva tók á Kóra og hinum uppreisnarmönnunum öldum áður. Við skulum nú líta á athyglisvert biblíuvers og kanna hvaða lærdóm er hægt að draga af því.

„ÉG, DROTTINN, ER EKKI BREYTTUR“

4. Hvað var Páll sannfærður um og hvernig lýsti hann því í bréfi til Tímóteusar?

4 Páll var sannfærður um að Jehóva vissi hverjir hlýddu honum af heilum hug og hann sæi líka hverjir væru að hræsna. Þessi sannfæring Páls birtist í athyglisverðu orðalagi sem er að finna í innblásnu bréfi hans til Tímóteusar. Fyrst nefnir Páll að fráhvarfsmennirnir hefðu þegar spillt trú sumra í söfnuðinum. Síðan segir hann: „En Guðs styrki grundvöllur stendur, merktur þessum innsiglisorðum: ,Drottinn þekkir sína,‘ og: ,Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti.‘“ – 2. Tím. 2:18, 19.

5, 6. Hvað er athyglisvert við orðalagið „Guðs styrki grundvöllur“ og hvaða áhrif hefur það líklega haft á Tímóteus?

5 Hvað er athyglisvert við orðalag Páls í þessu versi? Þetta er eini staðurinn í Biblíunni þar sem talað er um ,Guðs styrka grundvöll‘. Í Biblíunni eru orð eins og „grundvöllur“ eða hliðstæð orð notuð sem myndhvörf um ýmislegt, meðal annars um Jerúsalem sem var höfuðborg Ísraels til forna. (Sálm. 87:1, 2) Hlutverki Jesú í fyrirætlun Jehóva er einnig líkt við grundvöll eða hornstein. (1. Kor. 3:11; 1. Pét. 2:6) Hvað hafði Páll í huga þegar hann talaði um ,Guðs styrka grundvöll‘?

6 Páll minnist á ,Guðs styrka grundvöll‘ í sama versi og hann vitnar í 4. Mósebók 16:5 þar sem Móse talar um Kóra og stuðningsmenn hans. Páll vísar til þessara atburða á dögum Móse til að hvetja Tímóteus og minna hann á að Jehóva sjái það sem fram fer í söfnuðinum og geti hindrað að fráhvarfsmönnum takist það sem þeir ætla sér. Kóra tókst ekki að koma í veg fyrir að vilji Guðs næði fram að ganga á sínum tíma og fráhvarfsmenn í söfnuðinum gátu það ekki heldur. Páll skýrir ekki nákvæmlega hvað orðin „Guðs styrki grundvöllur“ merkja. Hvað sem því líður hefur þetta orðalag verið Tímóteusi hvatning til að treysta Jehóva í hvívetna.

7. Hvers vegna getum við verið viss um að Jehóva verði alltaf trúr og réttlátur?

7 Meginreglur Jehóva breytast ekki. „Ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns,“ segir í Sálmi 33:11. Talað er um að konungdómur Jehóva, miskunn og réttlæti sé eilíft. (2. Mós. 15:18; Sálm. 106:1; 112:9; 117:2) Í Malakí 3:6 segir: „Ég, Drottinn, er ekki breyttur.“ Í Jakobsbréfinu 1:17 er tekið í sama streng en þar segir að hjá Jehóva sé „engin umbreyting né flöktandi skuggar“.

 ,INNSIGLISORБ SEM STYRKJA TRÚ Á JEHÓVA

8, 9. Hvaða lærdóm má draga af ,innsiglisorðunum‘ sem Páll talar um?

8 Í 2. Tímóteusarbréfi 2:19 dregur Páll upp mynd af grundvelli eða undirstöðu með áletrun sem hann kallar innsiglisorð. Algengt var til forna að áletrun væri á undirstöðusteinum byggingar, og gaf hún oft til kynna hver hefði reist bygginguna eða hver ætti hana. Páll er fyrsti biblíuritarinn sem bregður upp þessari líkingu. * Á ,Guðs styrka grundvelli‘ eru tvær áletranir. Önnur er: „Drottinn þekkir sína“ og hin: „Hver sá sem nefnir nafn Drottins haldi sér frá ranglæti.“ Þetta minnir á það sem stendur í 4. Mósebók 16:5. – Lestu.

9 Hvaða lærdóm má draga af ,innsiglisorðunum‘ sem Páll talar um? Að gildi og meginreglur Jehóva byggjast á tveim grundvallarsannindum: (1) Jehóva elskar þá sem eru honum trúir og (2) Jehóva hatar ranglæti. Hvers vegna er þetta mikilvægur lærdómur í tengslum við fráhvarf innan safnaðarins?

10. Hvaða áhrif hafði framferði fráhvarfsmanna á trúfasta þjóna Guðs á dögum Páls?

10 Tímóteus og aðrir trúfastir þjónar Guðs hafa líklega haft þungar áhyggjur af framferði fráhvarfsmanna. Sumir hafa kannski velt fyrir sér hvers vegna þessum einstaklingum var leyft að vera áfram í söfnuðinum. Þeim sem voru staðfastir í trúnni var ef til vill spurn hvort Jehóva gerði nokkurn greinarmun á hollustu þeirra við hann og hræsni fráhvarfsmannanna. – Post. 20:29, 30.

Tímóteus hefur örugglega ekki snúist á sveif með fráhvarfshugmyndum. (Sjá 10.-12. grein.)

11, 12. Hvers vegna hefur bréf Páls án efa styrkt trú Tímóteusar?

11 Bréf Páls hefur án efa styrkt trú Tímóteusar. Páll minnti hann á hvernig Jehóva hafði afhjúpað hræsni Kóra og félaga hans. Hann hafði hafnað þeim og útrýmt en veitt Aroni blessun sína. Páll er í rauninni að segja að jafnvel þótt einhverjir í söfnuðinum sigldu undir fölsku flaggi þekkti Jehóva þá sem tilheyrðu honum, rétt eins og hann gerði á dögum Móse.

12 Jehóva breytist ekki. Hann er áreiðanlegur. Hann hatar ranglæti, og þeir sem syndga og iðrast ekki þurfa að taka afleiðingum gerða sinna þegar  fram líða stundir. Tímóteus var minntur á að honum bæri að standa gegn ranglátum áhrifum þeirra sem sigldu undir fölsku flaggi í söfnuðinum því að allir sem ,nefna nafn Jehóva‘ verða að hafna ranglæti. *

JEHÓVA UMBUNAR ÞEIM SEM TILBIÐJA HANN Í EINLÆGNI

13. Hverju getum við treyst?

13 Innblásin orð Páls eru líka hvetjandi fyrir okkur. Í fyrsta lagi er hughreystandi til þess að vita að Jehóva er fullkunnugt um hollustu okkar. Og hann veit ekki bara af hollustu okkar heldur hefur hann brennandi áhuga á þeim sem tilheyra honum. Í Biblíunni segir: „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kron. 16:9) Við getum því treyst fullkomlega að Jehóva umbuni okkur allt sem við gerum fyrir hann „af hreinu hjarta“. – 1. Tím. 1:5; 1. Kor. 15:58.

14. Hvers konar tilbeiðslu umber Jehóva ekki?

14 Það er líka umhugsunarvert að Jehóva umber ekki hræsni meðal þeirra sem tilbiðja hann. Þegar augu hans „skima um alla jörðina“ getur hann séð hverjir eru ekki „heils hugar við hann“. „Andstyggð er sá Drottni sem afvega fer,“ segir í Orðskviðunum 3:32, til dæmis sá sem villir á sér heimildir og þykist hlýða honum en syndgar í laumi. Þó að slíkum manni takist að blekkja aðra menn um tíma lætur Jehóva ekki blekkjast. „Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur.“ Almætti Jehóva og réttlæti er trygging fyrir því. – Orðskv. 28:13; lestu 1. Tímóteusarbréf 5:24; Hebreabréfið 4:13.

15. Hvað ættum við að forðast og hvers vegna?

15 Yfirgnæfandi meirihluti þjóna Jehóva er einlægur í tilbeiðslu sinni. Það er afar sjaldgæft að einhver í söfnuðinum reyni vísvitandi að blekkja Jehóva með því að vera óheiðarlegur í tilbeiðslu sinni. Það gerðist þó á dögum Móse og í frumkristna söfnuðinum þannig að það getur líka gerst á okkar tímum. (2. Tím. 3:1, 5) Eigum við þá að vera tortryggin í garð trúsystkina okkar og véfengja að þau þjóni Jehóva af einlægni og hollustu? Auðvitað ekki. Það væri rangt að gruna bræður okkar og systur um græsku að tilefnislausu. (Lestu Rómverjabréfið 14:10-12; 1. Korintubréf 13:7.) Það myndi líka koma niður á sambandi okkar við Jehóva ef við hefðum tilhneigingu til að vantreysta öðrum í söfnuðinum.

16. (a) Hvernig getum við komið í veg fyrir að hræsni nái að festa rætur í hjörtum okkar? (b) Hvað má læra af aukagreininni „ Rannsakið ... prófið ykkur“?

16 Hver og einn í söfnuðinum ætti að ,rannsaka breytni sjálfs sín‘. (Gal. 6:4) Þar sem við erum ófullkomin er alltaf viss hætta á að við förum að þjóna Jehóva af röngu tilefni án þess að ætla okkur það. (Hebr. 3:12, 13) Það væri því ágætt að kanna af og til af hvaða hvötum við þjónum Jehóva. Við gætum spurt okkur: Tilbið ég Jehóva af því að ég elska hann og viðurkenni að hann er Drottinn alheims? Eða hugsa ég meira um hve unaðslegt lífið verði í paradís? (Opinb. 4:11) Það er hollt fyrir okkur öll að rannsaka breytni okkar og uppræta hvern einasta snefil af hræsni sem kann að leynast í hjörtum okkar.

HOLLUSTA SEM LEIÐIR TIL HAMINGJU

17, 18. Hvers vegna eigum við að vera heil og einlæg í tilbeiðslu okkar á Jehóva?

17 Það er okkur til góðs á margan hátt  ef við leggjum okkur fram um að vera heil og einlæg í tilbeiðslu okkar. „Sæll er sá maður sem Drottinn tilreiknar ekki misgjörð og ekki geymir svik í anda,“ segir sálmaskáldið. (Sálm. 32:2) Okkur líður mun betur ef við upprætum alla hræsni úr hjörtum okkar og þá eigum við í vændum fullkomna hamingju í framtíðinni.

18 Þegar þar að kemur afhjúpar Jehóva alla óguðlega sem iðrast ekki eða lifa tvöföldu lífi. Þá verður skýr munur á „réttlátum og ranglátum, á þeim sem þjóna Guði og þeim sem þjóna honum ekki“. (Mal. 3:18) Þangað til er hughreystandi að vita að „augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans hneigjast að bænum þeirra“. – 1. Pét. 3:12.

^ gr. 8 Í Opinberunarbókinni 21:14 er minnst á 12 „undirstöðusteina“ sem á eru rituð nöfn postulanna 12. Opinberunarbókin var skrifuð áratugum eftir að Páll skrifaði Tímóteusi.

^ gr. 12 Í greininni á eftir er rætt hvernig við getum líkt eftir Jehóva og hafnað ranglæti.