Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Minn matur er að gera vilja Guðs‘

,Minn matur er að gera vilja Guðs‘

Hvað veitir þér mesta ánægju? Eru það kannski einhvers konar mannleg samskipti eins og hjónaband, barnauppeldi eða vinátta? Þér finnst að öllum líkindum ánægjulegt að borða máltíð með ástvinum þínum. Finnst þér ekki gefandi að vera þjónn Jehóva, gera vilja hans, lesa og rannsaka orð hans og boða fagnaðarerindið?

Davíð, konungur Ísraels til forna, söng í lofsöng til skaparans: „Að gera vilja þinn, Guð minn, er mér yndi og lögmál þitt er innra með mér.“ (Sálm. 40:9) Hann varð fyrir erfiðleikum og álagi í lífinu en hafði samt yndi af að gera vilja Guðs. Davíð var að sjálfsögðu ekki eini tilbiðjandi Jehóva sem hafði ánægju af að þjóna honum.

Páll postuli heimfærði orðin í Sálmi 40:9 á Messías ,það er að segja Krist. Páll skrifaði: „Því er það að Kristur segir þegar hann kemur í heiminn: Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað en líkama hefur þú búið mér. Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. Þá sagði ég: ,Sjá, ég er kominn til að gera vilja þinn, Guð minn, eins og ritað er í bókinni um mig.‘“ – Hebr. 10:5-7.

Meðan Jesús var á jörðinni naut hann þess að horfa á sköpunarverkið, vera með vinum sínum og borða með fólki. (Matt. 6:26-29; Jóh. 2:1, 2; 12:1, 2) Það sem honum fannst samt mikilvægast og það sem hann hafði mesta ánægju af var að gera vilja föður síns á himnum. Enda sagði Jesús: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans.“ (Jóh. 4:34; 6:38) Lærisveinar Jesú lærðu af meistara sínum að átta sig á hvað veitir raunverulega hamingju. Þeir sögðu öðrum fúslega frá fagnaðarerindinu um ríkið, og gerðu það glaðir og ákafir. – Lúk. 10:1, 8, 9, 17.

FARIÐ OG GERIÐ FÓLK AÐ LÆRISVEINUM

Jesús sagði fylgjendum sínum: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matt. 28:19, 20) Til að framfylgja þessu boði er nauðsynlegt að taka fólk tali hvar sem það er að finna, fara aftur til þeirra sem sýna áhuga og aðstoða þá  síðan við biblíunám. Þetta starf getur veitt mikla ánægju.

Okkur þykir vænt um fólk og þess vegna höldum við áfram að prédika þótt við mætum áhugaleysi.

Það er komið undir viðhorfi okkar en ekki áhuga fólks hvort við höfum ánægju af boðunarstarfinu. Hvers vegna höldum við áfram að boða fagnaðarerindið þótt fólk sýni lítinn sem engan áhuga? Vegna þess að við gerum okkur grein fyrir því að þegar við förum í boðunarstarfið og gerum fólk að lærisveinum sýnum við Guði og náunganum kærleika. Já, mannslíf eru í húfi – bæði okkar eigin og náunga okkar. (Esek. 3:17-21; 1. Tím. 4:16) Hugleiðum fáeina punkta, sem hafa hjálpað mörgum samstarfsfélögum okkar að viðhalda áhuganum í boðunarstarfinu við krefjandi aðstæður eða glæða hann að nýju.

NOTUM HVERT TÆKIFÆRI

Það gefur oft góða raun að nota viðeigandi spurningar í boðunarstarfinu. Morgun einn sá Amalia mann sem var að lesa dagblað í almenningsgarði. Hún vék sér að honum og spurði hvort það væru einhverjar góðar fréttir í blaðinu. Þegar hann svarað því neitandi sagði Amalia: „Ég get sagt þér góðar fréttir um Guðsríki.“ Þetta vakti áhuga mannsins og hann þáði biblíunámskeið. Amalia gat hafið þrjú ný biblíunámskeið í almenningsgarðinum.

Janice hefur gert vinnustaðinn að starfssvæði sínu. Þegar öryggisvörður og annar vinnufélagi sýndu áhuga á grein í Varðturninum bauðst Janice til að færa þeim blöðin áfram. Hún bauð öðrum vinnufélaga sínum það sama, en hann var mjög hrifinn af því hve fjölbreytt efnið er í Varðturninum og Vaknið! Það varð til þess að enn annar starfmaður bað um blöðin. „Þetta er blessun frá Jehóva!“ segir Janice. Með tímanum fengu 11 manns blöðin hjá henni reglubundið.

VERUM JÁKVÆÐ

Farandhirðir mælti með því að boðberar, sem starfa hús úr húsi, ættu ekki bara að enda samtal á því að segjast koma aftur. Þeir ættu frekar að spyrja húsráðandann: „Mætti ég sýna þér hvernig biblíunámskeið fer fram?“ eða „Hvenær myndi henta þér að ég kæmi aftur?“ Farandhirðirinn skýrði frá því að með þessari aðferð hefðu bræður og systur í ákveðnum söfnuði hafið 44 ný biblíunámskeið á einni viku.

Það getur verið mjög árangursríkt að fara fljótlega í endurheimsókn, jafnvel innan örfárra daga. Hvers vegna? Það sýnir að við höfum einlægan áhuga á að hjálpa hjartahreinum einstaklingum að skilja Biblíuna. Þegar kona nokkur var spurð hvers vegna hún hefði þegið biblíunámskeið hjá vottum Jehóva, svaraði hún: „Ég ákvað að þiggja það vegna þess að þeir sýndu mér einlægan áhuga og kærleika.“

Þú gætir spurt húsráðandann: „Mætti ég sýna þér hvernig biblíunámskeið fer fram?“

 Stuttu eftir að Madaí sótti brautryðjendaskólann var hún komin með 15 biblíunemendur og þurfti að fá aðra boðbera til að kenna fimm til viðbótar. Nokkrir af biblíunemendum hennar fóru að mæta á samkomur reglulega. Hvað hjálpaði henni að hefja svona mörg biblíunámskeið? Í brautryðjendaskólanum var lögð rík áhersla á að gefast ekki upp á að reyna að hitta þá sem hafa sýnt áhuga. Önnur systir, sem hefur hjálpað mörgum að kynnast sannleika Biblíunnar, segir: „Mín reynsla er sú að til að hjálpa fólki að kynnast Jehóva er nauðsynlegt að vera duglegur að fara í endurheimsóknir.“

Við sýnum að við látum okkur annt um fólk með því að heimsækja fljótlega aftur þá sem langar til að skilja Biblíuna.

Að fara í endurheimsóknir og halda biblíunámskeið útheimtir að við leggjum okkur fram. En það er erfiðisins virði. Þegar við leggjum okkur fram við að boða fagnaðarerindið getum við hjálpað öðrum að komast „til þekkingar á sannleikanum“ svo þeir geti orðið hólpnir. (1. Tím. 2:3, 4) Það veitir okkur ánægju og gleði sem ekkert jafnast á við.