Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Maí 2014

Jehóva starfar á skipulegan hátt

Jehóva starfar á skipulegan hátt

„Guð er Guð friðar, ekki truflunar.“ – 1. KOR. 14:33.

1, 2. (a) Hvern skapaði Jehóva fyrst og hvaða verkefni fékk hann? (b) Hvernig sjáum við að englasveitirnar eru vel skipulagðar?

JEHÓVA, skapari alheims, starfar með skipulegum hætti. Fyrsta sköpunarverk hans var einkasonurinn sem er kallaður „Orðið“ vegna þess að hann er helsti talsmaður Guðs. Orðið hefur þjónað Jehóva um óralangan tíma því að í Biblíunni segir: „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði.“ Þar segir einnig: „Allt varð til fyrir hann [Orðið], án hans varð ekki neitt sem til er.“ Fyrir rétt rúmlega 2.000 árum sendi Guð Orðið til jarðar sem fullkominn mann, Jesú Krist. Jesús var trúfastur föður sínum og gerði vilja hans í einu og öllu. – Jóh. 1:1-3, 14.

2 Sonur Guðs starfaði dyggilega „við hlið honum“ áður en hann kom til jarðar. (Orðskv. 8:30) Fyrir atbeina hans skapaði Jehóva milljónir annarra andavera á himnum. (Kól. 1:16) Um þessa engla segir á einum stað í Biblíunni: „Þúsundir þúsunda þjónuðu [Jehóva], tugþúsundir tugþúsunda stóðu frammi fyrir honum.“ (Dan. 7:10) Í Biblíunni kemur fram að allir þessir englar séu eins og vel skipulagðar „hersveitir“ Guðs. – Sálm. 103:21.

3. Hve margar eru stjörnur og reikistjörnur alheims og hvernig er þeim raðað saman?

 3 Hvað má segja um efnisheiminn sem Guð skapaði? Stjörnur og reikistjörnur alheimsins virðast óteljandi. Í dagblaðinu Chronicle, sem er gefið út í Houston í Texas, er sagt frá nýlegri rannsókn sem bendir til þess að þær séu „300 kvintilljónir“ eða þrefalt fleiri en vísindamenn hafa áður talið. Í frétt blaðsins er bætt við að talan sé „3 með 23 núllum á eftir. Eða 3 billjónir sinnum 100 milljarðar.“ Stjörnunum er raðað saman í vetrarbrautir, og í hverri þeirra eru milljarðar eða billjónir stjarna, auk reikistjarna. Og flestum vetrarbrautunum er raðað í þyrpingar og í enn stærri reginþyrpingar.

4. Hvers vegna er rökrétt að þjónar Guðs á jörð séu vel skipulagðir?

4 Alheimurinn er frábærlega vel skipulagður, ekki síður en hinar réttlátu andaverur á himnum. (Jes. 40:26) Það er því rökrétt að Jehóva hafi gott skipulag meðal þjóna sinna á jörð. Hann vill að þeir starfi með skipulegum hætti og það skiptir miklu máli vegna þess að þeir hafa mörg mikilvæg verkefni að vinna. Tilbiðjendur Jehóva, bæði í fortíð og nútíð, hafa þjónað honum vel og dyggilega og saga þeirra ber því vitni að hann hafi verið með þeim og sé „Guð friðar, ekki truflunar“ eða óreiðu. – Lestu 1. Korintubréf 14:33, 40.

GOTT SKIPULAG HJÁ ÞJÓNUM GUÐS TIL FORNA

5. Hvernig raskaðist sú fyrirætlun Guðs að mennirnir fylltu jörðina með skipulegum hætti?

5 Eftir að Guð skapaði fyrstu hjónin sagði hann þeim: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna og ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mós. 1:28) Mannkyninu átti að fjölga með skipulegum hætti til að byggja alla jörðina og stækka paradísina uns hún næði um allan hnöttinn. Adam og Eva óhlýðnuðust Guði og það raskaði þessari fyrirætlun um sinn. (1. Mós. 3:1-6) Þegar fram liðu stundir sá Jehóva að „illska mannanna var mikil orðin á jörðinni og að allar hneigðir þeirra og langanir snerust ætíð til ills“. Jörðin varð „spillt í augum Guðs og full ranglætis“. Hann ákvað þess vegna að láta alla óguðlega menn farast í miklu flóði sem næði um alla jörðina. – 1. Mós. 6:5, 11-13, 17.

6, 7. (a) Hvers vegna fann Nói náð fyrir augum Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað varð um alla þá sem hlustuðu ekki á Nóa?

6 „En Nói fann náð fyrir augum Drottins“ vegna þess að hann var „réttlátur og vandaður maður á sinni tíð.“ Hann „gekk með Guði“ þannig að Guð fól honum að smíða gríðarstóra örk. (1. Mós. 6:8, 9, 14-16) Hún var hönnuð til að bjarga bæði mönnum og dýrum. Nói var hlýðinn og „gerði allt eins og Drottinn bauð honum“. Hann vann verkið á skipulegan hátt með hjálp fjölskyldu sinnar. Jehóva Guð „lokaði á eftir honum“ eftir að dýrin voru komin inn í örkina. – 1. Mós. 7:5, 16.

7 Flóðið skall á árið 2370 f.Kr. og „allt líf á jörðinni var afmáð“. En Jehóva verndaði hinn trúa Nóa og fjölskyldu hans í örkinni. (1. Mós. 7:23) Allir núlifandi menn eru komnir af Nóa, sonum hans og konum þeirra. Þeir sem trúðu ekki og hlustuðu ekki á viðvaranir Nóa, „boðbera réttlætisins“, fórust hins vegar í flóðinu. – 2. Pét. 2:5.

Góð skipulagning varð til þess að átta manns lifðu flóðið af. (Sjá 6. og 7. grein.)

8. Hvernig má sjá að gott skipulag ríkti hjá Ísraelsmönnum þegar Guð sagði þeim að setjast að í fyrirheitna landinu?

 8 Jehóva safnaði Ísraelsmönnum saman og gerði þá að þjóð meira en átta öldum eftir flóðið. Þjóðlífið var vel skipulagt, ekki síst tilbeiðslan. Jehóva skipaði fjölda presta og Levíta til starfa, auk kvenna sem „gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins“. (2. Mós. 38:8) Þessi störf voru vel skipulögð. Þegar Jehóva Guð sagði Ísraelsmönnum að setjast að í Kanaanlandi hlýddi þjóðin hins vegar ekki og hann sagði þeim: „Enginn ykkar skal koma inn í landið, sem ég sór með upplyftri hendi að þið skylduð búa í, enginn nema Kaleb Jefúnneson og Jósúa Núnsson“ en þeir höfðu gefið góða umsögn um fyrirheitna landið eftir að hafa kannað það. (4. Mós. 14:30, 37, 38) Móse skipaði síðar Jósúa eftirmann sinn í samræmi við fyrirmæli Jehóva. (4. Mós. 27:18-23) Þegar Jósúa var í þann mund að leiða Ísraelsmenn inn í Kanaanland sagði Jehóva honum að vera „djarfur og hughraustur“ og bætti við: „Óttastu ekki og láttu ekki hugfallast því að Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð.“ – Jós. 1:9.

9. Hvernig leit Rahab á Jehóva og þjóð hans?

9 Jehóva Guð var með Jósúa hvert sem hann fór. Lítum á dæmi. Árið 1473 f.Kr. höfðu Ísraelsmenn sett upp búðir sínar í grennd við borgina Jeríkó í Kanaanlandi. Jósúa sendi tvo menn til að kanna borgina og þar hittu þeir vændiskonuna Rahab. Hún faldi þá á húsþaki sínu fyrir mönnum sem konungurinn í Jeríkó sendi til að handtaka þá. Rahab sagði ísraelsku njósnurunum: „Ég veit að Drottinn hefur gefið ykkur landið ... Við höfum frétt hvernig Drottinn þurrkaði upp vatnið í Sefhafinu fyrir framan ykkur ... og hvernig þið fóruð með báða konunga Amoríta.“ Hún bætti svo við: „Drottinn,  Guð ykkar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri.“ (Jós. 2:9-11) Rahab tók afstöðu með útvalinni þjóð Jehóva og hann sá til þess að hún og fjölskylda hennar kæmust lífs af þegar Ísraelsmenn unnu Jeríkó. (Jós. 6:25) Rahab trúði á Jehóva og virti hann og þjóð hans.

KRAFTMIKILL SÖFNUÐUR Á FYRSTU ÖLD

10. Hvað sagði Jesús við trúarleiðtoga Gyðinga og hvers vegna?

10 Undir forystu Jósúa unnu Ísraelsmenn hverja borgina á fætur annarri og lögðu undir sig Kanaanland. En hvað gerðist þegar fram liðu stundir? Í aldanna rás brutu Ísraelsmenn lög Guðs hvað eftir annað. Þegar Jehóva sendi son sinn til jarðar var þjóðin orðin svo óhlýðin honum og talsmönnum hans að Jesús sagði að Jerúsalem ,lífléti spámennina‘. (Lestu Matteus 23:37, 38.) Guð hafnaði trúarleiðtogum Gyðinga af því að þeir voru honum ótrúir. Jesús sagði við þá: „Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess.“ – Matt. 21:43.

11, 12. (a) Hvað sannar að Jehóva hætti að styðja Ísraelsþjóðina á fyrstu öld og lagði blessun sína yfir nýjan söfnuð? (b) Hverjir mynduðu nýja söfnuðinn sem Guð hafði velþóknun á?

11 Jehóva hafnaði hinni ótrúu Ísraelsþjóð á fyrstu öld. En það þýddi ekki að hann ætti ekki lengur sameinaðan hóp dyggra þjóna á jörð. Jehóva lagði nú blessun sína yfir nýjan kraftmikinn söfnuð sem fylgdi Jesú Kristi og kenningum hans. Hann varð til á hvítasunnu árið 33. Þann dag voru um 120 lærisveinar Jesú saman komnir í húsi í Jerúsalem. „Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru.“ Síðan birtust þeim „tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ (Post. 2:1-4) Þessi merkilegi atburður var óyggjandi tákn um að Jehóva stæði með þessum nýja söfnuði lærisveina Krists.

12 Á þessum viðburðaríka degi gengu um þrjú þúsund manns til liðs við hópinn sem fylgdi Jesú. Og Jehóva „bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu“. (Post. 2:41, 47) Slíkur var árangurinn af starfi þessara boðbera á fyrstu öld að „orð Guðs breiddist út og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi“. Meira að segja „snerist mikill fjöldi presta til hlýðni við trúna“. (Post. 6:7) Margt einlægt fólk tók við sannleikanum sem þessi nýi söfnuður boðaði. Síðar, þegar Jehóva opnaði kristna söfnuðinn fyrir öðrum þjóðum en Gyðingum, gaf hann aftur greinilegt merki um stuðning sinn. – Lestu Postulasöguna 10:44, 45.

13. Hvaða verkefni fól Guð hinum nýja söfnuði?

13 Það lék enginn vafi á hvaða verkefni Guð hafði falið fylgjendum Jesú. Jesús gaf þeim sjálfur fyrirmyndina því að skömmu eftir að hann skírðist tók hann að boða að ,himnaríki væri í nánd‘. (Matt. 4:17) Jesús kenndi lærisveinum sínum að líkja eftir sér. Hann sagði þeim: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Lærisveinar Jesú á fyrstu öld skildu fullkomlega til hvers var ætlast af þeim. Páll og Barnabas sögðu djarfmannlega við Gyðinga í Antíokkíu í Pisidíu sem snerust gegn þeim:  „Svo hlaut að vera að orð Guðs væri fyrst flutt ykkur. Þar sem þið nú vísið því á bug og metið sjálfa ykkur ekki verða eilífs lífs, þá snúum við okkur nú til heiðingjanna. Því að svo hefur Drottinn boðið okkur: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða svo að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.“ (Post. 13:14, 45-47) Síðan á fyrstu öld hefur söfnuður Guðs boðað fólki það sem Guð hefur gert til að bjarga mannkyninu.

MARGIR TÝNA LÍFI EN ÞJÓNAR GUÐS BJARGAST

14. Hvernig fór fyrir Jerúsalem á fyrstu öld en hverjir komust lífs af?

14 Gyðingar sem heild tóku ekki við fagnaðarerindinu og þar með stefndu þeir sjálfum sér í ógæfu. Jesús hafði sagt lærisveinunum: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þau sem í Júdeu eru til fjalla, þau sem í borginni eru flytjist burt og þau sem eru á ekrum úti fari ekki inn í hana.“ (Lúk. 21:20, 21) Það fór eins og Jesús hafði sagt. Gyðingar gerðu uppreisn og rómverskur her undir stjórn Cestíusar Gallusar settist um Jerúsalem árið 66. En skyndilega hvarf herinn á brott og fylgjendur Jesú höfðu þá tækifæri til að flýja Jerúsalem og Júdeu. Evsebíus sagnaritari segir að margir þeirra hafi flúið til Pellu í Pereu handan Jórdanar. Árið 70 kom rómverskur her að nýju undir stjórn Títusar hershöfðingja og jafnaði Jerúsalem við jörðu. En trúfastir kristnir menn komust lífs af vegna þess að þeir hlýddu viðvörun Jesú.

15. Þrátt fyrir hvað blómstraði kristnin?

15 Kristnin blómstraði á fyrstu öld þrátt fyrir erfiðleika, ofsóknir og aðrar prófraunir sem fylgjendur Krists gengu í gegnum. (Post. 11:19-21; 19:1, 19, 20) Kristni söfnuðurinn dafnaði vegna þess að hann naut blessunar Guðs. – Orðskv. 10:22.

16. Hvað þurftu allir kristnir menn að gera til að varðveita sterka trú?

16 Kristnir menn þurftu hver og einn að leggja sig vel fram til að varðveita sterka trú. Þeir þurftu að vera duglegir biblíunemendur, sækja safnaðarsamkomur að staðaldri og boða fagnaðarerindið af kappi. Fyrir vikið voru söfnuðirnir sterkir og sameinaðir rétt eins og þeir eru nú á tímum. Starfsemi þjóna Jehóva var vel skipulögð. Öldungar og safnaðarþjónar lögðu sig fúslega fram í þágu safnaðanna og það var þeim til eflingar. (Fil. 1:1; 1. Pét. 5:1-4) Og það hlýtur að hafa verið mjög ánægjulegt að fá farandumsjónarmenn eins og Pál í heimsókn. (Post. 15:36, 40, 41) Guðsdýrkun okkar er harla lík því sem var hjá kristnum mönnum á fyrstu öld. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að skipuleggja starfsemi þjóna sinna nú á tímum ekki síður en þá. *

17. Um hvað er rætt í næstu grein?

17 Við lifum á síðustu dögum, heimur Satans á skammt eftir og jarðneskur hluti alheimssafnaðar Jehóva sækir fram hraðar en nokkru sinni fyrr. Ert þú samstíga söfnuðinum? Tekur þú framförum í þjónustu þinni við Jehóva? Í næstu grein kemur fram hvernig þú getur gert það.

^ gr. 16 Sjá greinarnar „Kristnir menn tilbiðja í anda og sannleika“ og „Þeir halda áfram að lifa í sannleikanum“ í Varðturninum 1. september 2002. Fjallað er ítarlega um jarðneskan hluta alheimssafnaðar Guðs nú á tímum í bókinni Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom.