Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Apríl 2014

Vissir þú?

Vissir þú?

Hvaða merkingu hafði það þegar fólk á biblíutímanum reif klæði sín viljandi?

Í BIBLÍUNNI er sagt frá nokkrum tilvikum þar sem einstaklingar rifu klæði sín. Slík hegðun gæti komið lesendum nú á dögum einkennilega fyrir sjónir. En meðal Gyðinga tíðkaðist þetta til að tjá sterkar tilfinningar eins og örvæntingu, sorg, harm, niðurlægingu eða reiði.

Sem dæmi má nefna að Rúben reif klæði sín þegar hann komst að því að Jósef, bróðir hans, hafði verið seldur í þrælkun, og áform hans um að bjarga honum voru farin út um þúfur. Jakob, faðir þeirra, „reif klæði sín“ þegar hann dró þá ályktun að Jósef hefði verið étinn af villidýri. (1. Mós. 37:18-35) Job „reif klæði sín“ þegar hann frétti að öll börnin sín hefðu dáið. (Job. 1:18-20) Sendiboði „í rifnum klæðum“ flutti Elí æðstapresti þau boð að Ísraelsmenn hefðu beðið ósigur í bardaga, að synir hans tveir hefðu fallið og að sáttmálsörkin hefði verið tekin herfangi. (1. Sam. 4:12-17) Þegar Jósía heyrði lesið upp úr lögmálsbókinni og gerði sér grein fyrir að þjóðin hefði brotið lög Guðs ,reif konungur klæði sín‘. – 2. Kon. 22:8-13.

Við réttarhöldin yfir Jesú reif Kaífas æðstiprestur klæði sín þegar hann túlkaði orð Jesú ranglega sem guðlast. (Matt. 26:59-66) Samkvæmt rabbínskri hefð átti hver sem heyrði nafn Guðs lastað að rífa klæði sín. Eftir eyðingu Jerúsalem kom aftur á móti fram eftirfarandi hugmynd meðal rabbína: „Sá sem heyrir nafn Guðs lastað nú á dögum þarf ekki að rífa klæði sín því að þá yrðu klæði hans tötrar einir.“

Það hafði að sjálfsögðu ekkert gildi í augum Guðs að rífa klæði sín nema harmurinn væri raunverulegur. Jehóva sagði því þjóð sinni að ,rífa hjörtu sín fremur en klæði sín og snúa aftur til sín‘. – Jóel 2:13.