„Við gleymum okkur gjarnan langt fram á kvöld í umræðum á tilbeiðslukvöldi fjölskyldunnar, ef ég segi ekki stopp,“ segir faðir í Brasilíu. Fjölskyldufaðir í Japan segir að tíu ára sonur sinn virðist ekki taka eftir hvað tímanum líður og vill ekki hætta. Hvers vegna? „Áhugi hans hefur verið vakinn, þess vegna er hann svona ánægður,“ segir faðirinn.

Auðvitað eru ekki öll börn jafn áhugasöm og sannleikurinn er sá að sum hafa ekki ánægju af tilbeiðslustundinni. Af hverju ekki? Faðir í Tógó bendir á að „tilbeiðslan á Jehóva eigi ekki að vera leiðinleg.“ En ef sú er raunin endurspeglar það þá ekki framsetningu efnisins? Jesaja kallaði hvíldardaginn gleðidag. (Jes. 58:13, 14) Mörgum fjölskyldum finnst á sama hátt að tilbeiðslustundin veiti þeim mikla gleði.

Kristnir feður gera sér grein fyrir því að ef fjölskyldan á að hafa ánægju af tilbeiðslustundinni þarf andrúmsloftið að vera afslappað. Ralf á þrjár dætur og einn son. Hann segir að tilbeiðslustund þeirra líkist meira frjálslegum samræðum en formlegri námsstund og að allir séu þátttakendur. Stundum getur vissulega verið hægara sagt en gert að fá alla til að sökkva sér niður í efnið og halda áhuganum vakandi. Móðir nokkur viðurkennir: „Stundum hef ég bara ekki orku til að gera tilbeiðslustundina eins ánægjulega og ég vildi.“ Hvernig gengur þetta hjá þér?

SVEIGJANLEIKI OG TILBREYTING

„Við þurfum að vera sveigjanleg,“ segir tveggja barna faðir í Þýskalandi. „Það sem skiptir mestu máli fyrir okkar fjölskyldu er tilbreyting, tilbreyting og aftur tilbreyting,“ segir Natalia sem er tveggja barna móðir. Margar fjölskyldur skipta tilbeiðslustundinni í nokkra hluta. „Það gerir námsstundina  líflegri og virkjar alla í fjölskyldunni,“ segir Cleiton en hann býr í Brasilíu og er faðir tveggja unglinga. Með því að skipta námsstundinni geta foreldrarnir tekið tillit til þarfa hvers barns ef aldursmunurinn er mikill. Þannig geta foreldrarnir sinnt þörfum allra barnanna og verið sveigjanlegir í vali á efni og framsetningu.

Hvað gera sumar fjölskyldur til að auka fjölbreytnina? Nokkrar fjölskyldur hefja tilbeiðslustundina á því að syngja söngva úr söngbókinni okkar. „Það skapar rétta andrúmsloftið og býr hugann undir efnið sem við tökum fyrir,“ segir Juan frá Mexíkó. Fjölskyldan velur söng sem tengist námsefni kvöldsins.

Srí Lanka

Margar fjölskyldur lesa saman nokkra kafla í Biblíunni. Til að skapa tilbreytingu er hægt að skipta lestrinum á milli allra í fjölskyldunni eftir sögupersónunum í frásögunni. Faðir í Japan játar að sér hafi til að byrja með fundist „svolítið skrítið að lesa þannig“. En sonunum tveimur fannst skemmtilegt að foreldrar þeirra gerðu þetta með þeim. Sumar fjölskyldur leika jafnvel biblíufrásögur. Börn „sjá oft atriði í frásögum Biblíunnar sem okkur foreldrunum yfirsést“, segir Roger sem er tveggja barna faðir í Suður-Afríku.

Suður-Afríka

Önnur leið til að hafa meiri tilbreytingu er að vinna að sameiginlegu verkefni, eins og að smíða líkan af örkinni hans Nóa eða musteri Salómons. Til að vinna að svona verkefnum þarf að kynna sér efnið vel og afla sér upplýsinga sem er oft spennandi. Tökum dæmi frá Asíu. Fimm ára stelpa, foreldrar hennar og amma voru saman komin í stofunni til að búa til borðspil sem gengur út á trúboðsferðir Páls postula. Aðrar fjölskyldur hafa búið til borðspil sem eru byggð á frásögunum í 2. Mósebók. Fjölbreytni „blés nýju lífi í tilbeiðslustundina og fjölskyldan varð líflegri“, segir Donald en hann er 19 ára og býr í Tógó. Dettur þér í hug eitthvert verkefni sem gæti gert tilbeiðslustund fjölskyldu þinnar enn þá ánægjulegri?

Bandaríkin

UNDIRBÚNINGUR ER NAUÐSYNLEGUR

Enda þótt fjölbreytni og sveigjanleiki geri tilbeiðslustund fjölskyldunnar áhugaverða þurfa allir að undirbúa sig til að hún verði verulega fræðandi. Krakkar þreytast svo feður þurfa að sýna útsjónarsemi þegar þeir velja námsefni og taka sér tíma til að undirbúa sig vel. Fjölskyldufaðir segir: „Þegar ég er vel undirbúinn verður námsstundin innihaldsríkari fyrir alla.“ Faðir í Þýskalandi lætur fjölskylduna vita fyrir fram hvaða efni verður tekið fyrir næstu vikurnar. Þegar sex barna faðir í Benín ætlar að hafa biblíutengt myndband á dagskrá tilbeiðslukvöldsins lætur hann krakkana, sem eru á aldrinum 2 – 12 ára, fá spurningar úr efninu fyrir fram. Undirbúningur gerir gæfumuninn til að tilbeiðslustundin verði ánægjuleg og árangursrík.

Þegar allir í fjölskyldunni vita fyrir fram hvaða efni verður tekið fyrir geta þeir rætt um það í vikunni. Þannig verður efnið áhugaverðara. Og ef allir fá ákveðið verkefni finnst hverjum og einum að þeir eigi hlutdeild í tilbeiðslustund fjölskyldunnar.

TEMDU ÞÉR REGLUFESTU

Það reynist mörgum þrautin þyngri að hafa tilbeiðslustund fjölskyldunnar á reglulegum grundvelli.

Margir feður þurfa að vinna langan vinnudag til að ná endum saman. Heimilisfaðir nokkur í Mexíkó fer til dæmis til vinnu klukkan sex að morgni og kemur ekki heim fyrr en um átta að kvöldi. Af og til getur þurft að færa tilbeiðslustund fjölskyldunnar þegar dagskrá safnaðarins breytist.

Samt sem áður þurfum við að vera ákveðin í að halda reglunni. Loïs, sem er 11 ára og býr í Tógó, segir um staðfestu fjölskyldu sinnar: „Við sleppum aldrei tilbeiðslustundinni jafnvel þótt við þurfum stundum að seinka henni þegar eitthvað kemur upp á yfir daginn.“ Því er skiljanlegt að margar fjölskyldur vilji hafa tilbeiðslustundina fyrri hluta vikunnar. Ef eitthvað óvænt kemur upp á er hægt að hafa hana seinna í vikunni.

Eins og orðin tilbeiðslustund fjölskyldunnar bera með sér er þetta hluti af tilbeiðslu þinni á Jehóva. Fáðu alla í fjölskyldu þinni til að færa Jehóva ,varir sínar í stað nauta‘ í hverri viku. (Hós.14:3) Megi það verða ánægjuleg stund fyrir alla í fjölskyldunni „því að gleði Drottins er styrkur ykkar.“ – Neh. 8:9, 10.