Sjáðu fyrir þér þessar aðstæður: Öldungur í spítalasamskiptanefnd hefur mælt sér mót við ungan bróður til að fara með honum í boðunarstarfið á sunnudagsmorgni. En umræddan morgun fær öldungurinn áríðandi símtal frá bróður sem segir að konan sín hafi lent í bílslysi og verið flutt í skyndi á sjúkrahús. Hann biður öldunginn að hjálpa sér að finna lækni sem er tilbúinn að veita læknismeðferð án blóðgjafar. Öldungurinn afboðar samstarfið við unga bróðurinn til að geta veitt fjölskyldu kærleiksríkan stuðning á neyðarstund.

Ímyndaðu þér aðrar aðstæður: Hjón bjóða einstæðri tveggja barna móður í söfnuðinum sínum í kvöldheimsókn til sín. Þegar hún segir börnunum sínum frá því ljóma þau af gleði. Þau hlakka mjög mikið til. En deginum áður segja hjónin móðurinni að svolítið óvænt hafi komið upp á svo þau verði að aflýsa boðinu. Hún fréttir síðan seinna hvers vegna hjónin aflýstu boðinu. Eftir að þau buðu henni þáðu þau boð til annarra vina sama kvöldið.

Við sem erum kristin ættum að sjálfsögðu að standa við orð okkar. Við ættum aldrei að standa sjálf okkur að því að segja „bæði já og nei“ ef svo mætti að orði komast. (2. Kor. 1:18) En eins og þessi tvö dæmi sýna eru aðstæður breytilegar. Það geta komið upp aðstæður þegar við virðumst ekki ekki eiga annarra kosta völ en að aflýsa einhverju sem við höfum lofað. Páll postuli stóð eitt sinn í þeim sporum.

PÁLL VAR SAKAÐUR UM AÐ VERA ÓÁREIÐANLEGUR

Þegar Páll var í Efesus árið 55, á þriðju trúboðsferð sinni, ætlaði hann að fara yfir Eyjahaf til Korintu og halda þaðan áfram til Makedóníu. Hann ráðgerði að heimsækja söfnuðinn í Korintu aftur á ferð sinni til baka til Jerúsalem, augljóslega til að sækja gjöfina fyrir trúsystkini sín þar. (1. Kor. 16:3) Þetta kemur greinilega fram í 2. Korintubréfi 1:15, 16 en þar segir: „Í því trausti var það ásetningur minn að koma fyrst til ykkar til þess að þið skylduð verða tvöfaldrar gleði aðnjótandi. Ég hugðist bæði koma við hjá ykkur á leiðinni til Makedóníu og aftur á leiðinni þaðan og láta ykkur búa ferð mína til Júdeu.“

Svo virðist sem Páll hafi sagt bræðrunum í Korintu frá áætlun sinni í bréfi sem hann hafði sent þeim áður. (1. Kor. 5:9) Skömmu eftir að Páll skrifaði það bréf frétti hann hjá heimilismönnum Klóe að alvarlegar  þrætur ættu sér stað í söfnuðinum. (1. Kor. 1:10, 11) Páll ákvað að breyta upphaflegri áætlun og skrifaði bréfið sem við þekkjum sem 1. Korintubréf. Í þessu bréfi leiðrétti hann söfnuðinn og veitti kærleiksríkar leiðbeiningar. Hann nefndi líka að hann hefði breytt ferðaáætlun sinni og lét þá vita að hann færi fyrst til Makedóníu og síðan til Korintu. – 1. Kor. 16:5, 6. *

Þegar bræðurnir í Korintu fengu bréf hans virðist sem sumir ,hinna stórmiklu postula‘ í söfnuðinum hafi sakað hann um að vera óáreiðanlegur og standa ekki við loforð sín. Páll spurði sér til varnar: „Var það nú svo mikið hverflyndi af mér, er ég afréð þetta? Eða ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins, svo að hjá mér sé ,já, já‘ sama og ,nei, nei‘?“ – 2. Kor. 1:17; 11:5, Biblían 1981.

Við gætum spurt, miðað við þessar aðstæður, hvort Páll hafi verið ,hverflyndur‘. Hann var það að sjálfsögðu ekki. Orðið, sem er þýtt „hverflyndi“, lýsir óáreiðanleika, eins og viðkomandi sé ekki treystandi af því að hann heldur ekki loforð sín. Þegar Páll varpaði fram spurningunni „ræð ég ráðum mínum að hætti heimsins?“ hefði kristna söfnuðinum í Korintu átt að vera ljóst að Páll var ekki óáreiðanlegur þótt hann hefði breytt áætlun sinni.

Páll mótmælti harðlega þessari ásökun og skrifaði: „Svo sannarlega sem Guð er trúr: Það sem ég segi ykkur er ekki bæði já og nei.“ (2. Kor. 1:18) Páll hefur áreiðanlega borið hag trúsystkina sinna í Korintu fyrir brjósti þegar hann breytti ferðaáætlun sinni. Í 2. Korintubréfi 1:23 segir að ,það hafi verið af hlífð við‘ söfnuðinn að Páll breytti upphaflegri áætlun um að fara til Korintu. Hann gaf þeim tækifæri til að framfylgja leiðbeiningunum áður en hann kom sjálfur í heimsókn. Páll frétti frá Títusi, eins og hann hafði vonað meðan hann var í Makedóníu, að bréf hans hefði fengið söfnuðinn í Korintu til að hryggjast og iðrast og það gladdi hann mikið. – 2. Kor. 6:11; 7:5-7.

JESÚS STAÐFESTIR FYRIRHEITIN MEÐ „JÁI“

Ásökunin um óáreiðanleika virðist gefa í skyn að ef loforðum Páls væri ekki treystandi frá degi til dags væri heldur ekki hægt að treysta á boðskap hans. Páll minnti hins vegar Korintumenn á að hann hefði boðað þeim Jesú Krist. „Sonur Guðs, Jesús Kristur, sem við höfum prédikað á meðal ykkar, ég, Silvanus og Tímóteus, var ekki bæði ,já‘ og ,nei‘ heldur er allt í honum ,já‘.“ (2. Kor. 1:19) Var Jesús Kristur, sem var fyrirmynd Páls, á nokkurn hátt óáreiðanlegur? Nei. Jesús talaði alltaf sannleikann, allt sitt líf og í allri sinni þjónustu. (Jóh. 14:6; 18:37) Ef það sem Jesús kenndi var alltaf rétt og áreiðanlegt og Páll prédikaði það sama, þá hlýtur boðskapur hans líka að hafa verið áreiðanlegur.

Jehóva er að sjálfsögðu hinn „trúfasti Guð“. (Sálm. 31:6) Við sjáum þetta á því sem Páll skrifar í framhaldinu: „Því að svo mörg sem fyrirheit Guðs eru þá lætur hann Jesú Krist staðfesta þau með ,jái‘“, það er að segja fyrir milligöngu Krists. Jesús var fullkomlega trúr meðan hann var á jörð og það sýnir fram á að það er ekkert sem getur komið í veg fyrir að loforð Jehóva rætist. Páll heldur áfram: „Þess vegna segjum við með honum [Jesú] amen Guði til dýrðar.“ (2. Kor. 1:20) Jesús er „amen“, það er að segja hann er trygging þess að öll fyrirheit Jehóva rætist.

Jehóva og Jesús segja alltaf sannleikann og Páll meinti líka það sem hann sagði. (2. Kor. 1:19) Hann var ekki óáreiðanlegur,  hann lofaði ekki „að hætti manna“. (2. Kor. 1:17) Hann ,lifði í andanum‘. (Gal. 5:16) Hann bar alltaf hag annarra fyrir brjósti. Já hans þýddi Já.

LÆTUR ÞÚ JÁ ÞITT ÞÝÐA JÁ?

Núorðið er ekki óalgengt að fólk, sem lifir ekki eftir meginreglum Biblíunnar, lofi og svíki síðan loforð sín af minnsta tilefni eða ef eitthvað sem því líst betur á stendur til boða. Í viðskiptum þýðir „já“ ekki alltaf „já“, jafnvel þótt um skriflega samninga sé að ræða. Margir líta ekki lengur á hjónabandið sem bindandi samkomulag milli tveggja aðila sem á að endast ævilangt. Ört fjölgandi hjónaskilnaðir sýna að margir líta á hjónabandið sem samband sem megi auðveldlega slíta. – 2. Tím. 3:1, 2.

Hvað um þig? Lætur þú já þitt þýða já? Eins og fram kom í byrjun þessarar greinar geta komið upp þær aðstæður að maður getur alls ekki staðið við gefið loforð, ekki vegna þess að maður sé óáreiðanlegur heldur vegna óviðráðanlegra kringumstæðna. En ef þú ert þjónn Guðs og hefur gefið loforð eða skuldbundið þig ættirðu að gera allt sem í þínu valdi stendur til að efna loforðið. (Sálm. 15:4; Matt. 5:37) Þegar þú gerir það verður þú þekktur fyrir að vera áreiðanlegur, maður orða þinna, og fyrir að segja alltaf satt. (Ef. 4:15, 25; Jak. 5:12) Þegar fólk áttar sig á því að þér er treystandi í hversdagslegum málum verður það kannski fúsara til að hlusta á þig þegar þú segir því frá fagnaðarerindinu um ríkið. Þess vegna skulum við gæta þess að já okkar þýði örugglega já.

^ gr. 7 Stuttu eftir að Páll skrifaði 1. Korintubréf fór hann til Makedóníu gegnum Tróas þar sem hann skrifaði 2. Korintubréf. (2. Kor. 2:12; 7:5) Seinna átti hann eftir að koma til Korintu.