Hoppa beint í efnið

Hoppa í undirvalmynd

Hoppa í efnisyfirlit

Vottar Jehóva

íslenska

Varðturninn – námsútgáfa  |  Mars 2014

Heiðrum aldraða á meðal okkar

Heiðrum aldraða á meðal okkar

„Þú skalt ... virða öldunga.“ – 3. MÓS. 19:32.

1. Í hvaða sorglegu ásigkomulagi er mannkynið?

ÞAÐ var aldrei ætlun Jehóva að mennirnir þyrftu að þola þjáningar ellinnar. Karlar og konur áttu þvert á móti að búa í paradís og vera alheilbrigð. Veruleikinn er hins vegar sá að „öll sköpunin stynur“ af kvöl og þraut. (Rómv. 8:22) Hvernig heldurðu að Guði líði að horfa upp á skelfilegar afleiðingar syndarinnar meðal manna? Margir aldraðir eru auk þess vanræktir einmitt þegar þeir þurfa á meiri aðstoð að halda. – Sálm. 39:6; 2. Tím. 3:3.

2. Af hverju hafa kristnir menn mætur á öldruðum trúsystkinum?

2 Þjónar Jehóva eru þakklátir fyrir að það skuli vera aldraðir vottar í söfnuðunum. Við njótum góðs af visku þeirra, og trú þeirra er hvetjandi. Mörg okkar eru skyld einum eða fleirum þessara kæru trúsystkina. En hvort sem við erum tengd eldri bræðrum og systrum eða ekki er okkur umhugað um velferð þeirra. (Gal. 6:10; 1. Pét. 1:22) Það er gagnlegt fyrir okkur öll að kynna okkur hvernig Jehóva lítur á aldraða. Við ræðum einnig um skyldur ættingja og safnaðarins almennt til þessara ástkæru trúsystkina sem komin eru á efri ár.

„ÚTSKÚFA MÉR EKKI“

3, 4. (a) Hvaða einlægu bæn bar sálmaskáldið fram í Sálmi 71? (b) Um hvað geta aldraðir þjónar Guðs beðið hann?

3 „Útskúfa mér ekki í elli minni, yfirgef mig eigi er þróttur  minn þverr.“ Þannig hljóðar áköf bæn sem er að finna í Sálmi 71:9. Þessi sálmur virðist vera framhald af Sálmi 70 en hann er nefndur „Davíðssálmur“. Það var því sennilega Davíð sem bar fram hina innblásnu bæn í Sálmi 71:9. Hann þjónaði Jehóva frá unga aldri til efri æviára og Jehóva nýtti sér krafta hans harla vel. (1. Sam. 17:33-37, 50; 1. Kon. 2:1-3, 10) Davíð fannst hann engu að síður þurfa að biðja Jehóva um áframhaldandi stuðning. – Lestu Sálm 71:17, 18.

4 Margir standa í sömu sporum og Davíð. Þrátt fyrir að aldurinn færist yfir og „vondu dagarnir“ séu gengnir í garð halda þeir áfram að lofa Guð eftir bestu getu. (Préd. 12:1-7) Margir þeirra geta ekki lengur gert eins mikið og áður á ýmsum sviðum lífsins, þar á meðal í boðunarstarfinu. En þeir geta líka sárbænt Jehóva um að halda áfram að blessa viðleitni þeirra og annast þá. Þeir mega treysta að hann bænheyri þá. Þegar allt kemur til alls endurspegla þessar bænir sömu eðlilegu áhyggjurnar og Davíð tjáði í innblásinni bæn sinni.

5. Hvernig lítur Jehóva á trúa þjóna sína sem komnir eru á efri æviár?

5 Í Biblíunni kemur fram að Jehóva hefur miklar mætur á trúföstum þjónum sínum sem komnir eru á efri æviár, og hann ætlast til þess að aðrir þjónar sínir hafi þá í heiðri. (Sálm. 22:25-27; Orðskv. 16:31; 20:29) „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og virða öldunga. Þú skalt sýna Guði þínum lotningu. Ég er Drottinn,“ segir í 3. Mósebók 19:32. Það var mikilvæg skylda þegar þetta var skrifað að heiðra aldraða í söfnuðinum og það er það enn. En hvað með persónulegar þarfir þeirra? Hver ber ábyrgð á að þeim sé sinnt?

SKYLDUR FJÖLSKYLDUNNAR

6. Hvernig er Jesús góð fyrirmynd um að annast aldrað foreldri?

6 „Heiðra föður þinn og móður,“ segir í Biblíunni. (2. Mós. 20:12; Ef. 6:2) Jesús undirstrikaði gildi þessa boðorðs þegar hann fordæmdi fræðimenn og farísea sem vildu ekki sjá fyrir foreldrum sínum. (Mark. 7:5, 10-13) Sjálfur var hann góð fyrirmynd á þessu sviði. Skömmu áður en hann dó á aftökustaurnum bað hann Jóhannes, ástkæran lærisvein sinn, um að annast Maríu, móður sína, en hún var þá líklega orðin ekkja. – Jóh. 19:26, 27.

7. (a) Hvaða skyldur hafa börn gagnvart foreldrum sínum, að sögn Páls? (b) Í hvaða samhengi segir Páll þetta?

7 Páli postula var innblásið að skrifa að þjónar Guðs ættu að sjá fyrir heimili sínu. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8, 16.) * Skoðum í hvaða samhengi Páll skrifaði Tímóteusi þetta. Hann ræðir hverjir eigi tilkall til þess að fá fjárhagslega aðstoð frá söfnuðinum og hverjir ekki. Hann segir að það sé fyrst og fremst skylda trúaðra barna, barnabarna og annarra ættingja að annast þarfir aldraðra ekkna. Þá séu ekki lagðar óþarfa fjárhagsbyrðar á söfnuðinn. Hið sama er uppi á teningnum núna. Að sjá þurfandi ættingjum farborða er þáttur í því að „sýna rækt eigin heimili“.

8. Hvers vegna útlistar Biblían ekki nákvæmlega hvernig eigi að annast aldraða foreldra?

8 Í stuttu máli er uppkomnum börnum í söfnuðinum skylt að sjá til þess að efnislegum þörfum foreldra þeirra sé fullnægt. Páll ræðir í bréfinu um ættingja í söfnuðinum en auðvitað ættu börn ekki að vanrækja foreldra sína þó  að þeir séu ekki í söfnuðinum. Það er breytilegt hvernig börn sjá fyrir þörfum foreldra sinna. Aðstæður fólks eru mismunandi. Þarfir þeirra sem hlut eiga að máli eru breytilegar, svo og skapgerð og heilsa. Sumir aldraðir eiga mörg börn en aðrir aðeins eitt. Sumir geta reitt sig á fjárstuðning hins opinbera en aðrir ekki. Óskir og áherslur þeirra sem þarfnast aðstoðar eru einnig breytilegar. Það væri því hvorki skynsamlegt né kærleiksríkt að gagnrýna það hvernig aðrir reyna að annast aldraða ættingja. Þegar allt kemur til alls getur Jehóva blessað sérhverja ákvörðun byggða á Biblíunni og séð til þess að hún nái fram að ganga. Og sú hefur verið raunin allt frá dögum Móse. – 4. Mós. 11:23.

9-11. (a) Hvaða erfiðu ákvörðun þurfa sumir að taka? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna ættu uppkomin börn ekki að ákveða í flýti að hætta að þjóna Jehóva í fullu starfi? Lýstu með dæmi.

9 Það getur verið þrautin þyngri að veita öldruðum foreldrum sínum nauðsynlega aðstoð ef þeir búa fjarri. Heilsu þeirra getur hrakað skyndilega, þau dottið og beinbrotnað eða eitthvað komið upp á sem kallar á heimsókn. Í framhaldinu þurfa þau ef til vill á aðstoð að halda, annaðhvort tímabundið eða til langframa. *

10 Margir sem þjóna Jehóva í fullu starfi þurfa að dvelja fjarri fjölskyldunni. Þeir geta þurft að taka erfiðar ákvarðanir. Betelítar, trúboðar og farandumsjónarmenn líta allir svo á að þeir gegni verðmætri þjónustu. Þeim finnst hún vera blessun frá Jehóva. En ef foreldrar þeirra veikjast er fyrsta hugsunin kannski sú að nú þurfi þeir að hætta að gegna þjónustuverkefni sínu og fara heim til að hugsa um foreldra sína. Það er samt skynsamlegt að íhuga hvort það sé það sem foreldrarnir þurfi eða óski og ræða málið við Jehóva í bæn. Enginn ætti að gefa þjónustu sína upp á bátinn í fljótræði og í mörgum tilfellum er það ekki heldur nauðsynlegt. Kannski eru veikindin tímabundin. Ef til vill eru einhverjir í söfnuði foreldranna meira en fúsir til að hlaupa undir bagga. – Orðskv. 21:5.

11 Roskin hjón í Austur-Asíu áttu tvo syni sem þjónuðu Jehóva langt að heiman. Annar var trúboði í Suður-Ameríku en hinn starfaði við aðalstöðvarnar í Brooklyn í New York. Foreldrarnir voru hjálparþurfi. Synirnir heimsóttu foreldrana ásamt eiginkonum sínum til að kanna hvaða hjálp þau vantaði og hvernig hægt væri að veita hana. Hjónin í Suður-Ameríku voru komin á fremsta hlunn með að hætta trúboðsstarfinu og flytja heim. Þá fengu þau símtal frá umsjónarmanni öldungaráðsins í söfnuði foreldranna. Öldungarnir höfðu rætt málið og vildu fyrir hvern mun að trúboðarnir héldu áfram starfi sínu eins lengi og hægt væri. Öldungarnir kunnu vel að meta starf þessara hjóna og voru ákveðnir í að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa þeim að annast foreldrana. Allir í fjölskyldunni voru þakklátir fyrir umhyggju og kærleika öldunganna.

12. Hvað ættu kristnar fjölskyldur alltaf að hugsa um varðandi umönnun aldraðra foreldra?

12 Hvernig sem kristnar fjölskyldur ákveða að annast aldraða foreldra vilja allir hlutaðeigandi sjá til þess að það sé nafni Guðs til sóma. Ekki viljum við vera eins og trúarleiðtogarnir á dögum Jesú. (Matt. 15:3-6) Við viljum heiðra Guð og söfnuðinn með ákvörðunum okkar. – 2. Kor. 6:3.

 SKYLDUR SAFNAÐARINS

13, 14. Hvernig sýnir Biblían að söfnuðirnir eiga að hjálpa til við að annast öldruð trúsystkini?

13 Það er ekki á færi allra að veita þeim sem þjóna í fullu starfi aðstoð af því tagi sem lýst er í dæminu á undan. Hins vegar er ljóst af aðstæðum sem komu upp á fyrstu öld að söfnuðirnir láta sér annt um að sinna þörfum aldraðra trúsystkina sem eru til fyrirmyndar. Í Biblíunni segir um söfnuðinn í Jerúsalem að þar hafi ,enginn verið þurfandi‘. Ekki svo að skilja að allir hafi verið í góðum efnum. Sumir höfðu greinilega úr litlu að spila en „sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til“. (Post. 4:34, 35) Síðar kom upp ákveðið vandamál í söfnuðinum þar. Í ljós kom að sumar ekkjurnar voru settar hjá við daglega úthlutun matar. Postularnir létu þá útnefna hæfa menn til að sjá um að þurfandi ekkjur fengju sanngjarna og viðeigandi aðstoð. (Post. 6:1-5) Margir aðkomumenn tóku kristna trú á hvítasunnu árið 33 og framlengdu dvöl sína í Jerúsalem til að byggja upp trú sína. Þó að matarúthlutun hafi verið tímabundin ráðstöfun sýnir ákvörðun postulanna að söfnuðirnir geta hjálpað til við að annast öldruð trúsystkini sem þarfnast aðstoðar.

14 Eins og fram hefur komið lýsti Páll fyrir Tímóteusi við hvaða aðstæður söfnuðurinn gæti aðstoðað við að fullnægja efnislegum þörfum ekkna. (1. Tím. 5:3-16) Biblíuritaranum Jakobi var einnig innblásið að benda á að kristnum mönnum bæri skylda til að annast munaðarlausa, ekkjur og aðra sem væru þurfandi. (Jak. 1:27; 2:15-17) Jóhannes postuli skrifaði: „Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?“ (1. Jóh. 3:17) Fyrst einstaklingar í söfnuðinum hafa þessum skyldum að gegna við þá sem eru þurfandi hlýtur söfnuðurinn að hafa það líka.

Hvernig getur söfnuðurinn hlaupið undir bagga ef slys ber að höndum? (Sjá 15. og 16. grein.)

15. Hvað getur þurft að skoða varðandi aðstoð við aldraða bræður og systur?

15 Í sumum löndum greiða yfirvöld öldruðum borgurum eftirlaun og veita félagslega aðstoð og heimaþjónustu. (Rómv. 13:6) En víða er ekkert slíkt í boði. Það er því breytilegt eftir aðstæðum hve mikla hjálp ættingjar og söfnuðurinn þurfa að veita öldruðum bræðrum og systrum. Ef börn, sem eru í trúnni, búa víðs fjarri foreldrunum er hætt við  að það takmarki möguleika þeirra á að veita aðstoð. Börnin ættu að eiga góð samskipti við öldungana í söfnuði foreldranna til að fullvissa sig um að allir hafi skilning á aðstæðum þeirra. Öldungarnir geta hugsanlega hjálpað foreldrunum að kanna hvaða aðstoð þeir gætu átt rétt á frá hinu opinbera. Þeir koma ef til vill auga á eitthvað sem börnin þurfa að vita, svo sem að reikningar séu ekki greiddir eða það sé misbrestur á að foreldrarnir taki lyfin sín. Með góðum samskiptum milli barnanna og öldunganna er oft hægt að finna góðar lausnir. Ef einhver nærstaddur getur aðstoðað eða gefið fjarstöddum ættingjum góð ráð getur það komið í veg fyrir að ástandið versni og létt á áhyggjum fjölskyldunnar.

16. Hvað gera sumir til að hjálpa öldruðum í söfnuðinum?

16 Vegna kærleika til þessara öldruðu trúsystkina hafa sumir í söfnuðinum boðið fram tíma sinn og krafta til að sinna þörfum þeirra eftir bestu getu. Þeir leggja sig fram við að sýna hinum öldruðu í söfnuðinum sérstakan áhuga. Sumir bjóða sig fram til að skiptast á við aðra í söfnuðinum að annast hina öldruðu. Þeir vita að aðstæðna vegna geta þeir ekki sjálfir þjónað Jehóva í fullu starfi en þeim þykir mikils virði að gera öðrum kleift að halda því áfram eins lengi og hægt er. Þetta er hrósvert hugarfar. Það breytir þó ekki því að börnunum ber að leggja sitt af mörkum til að fullnægja þörfum foreldra sinna.

HEIÐRUM ALDRAÐA MEÐ STYRKJANDI ORÐUM

17, 18. Hvers konar viðhorf geta gert umönnun aldraðra ánægjulega?

17 Allir sem taka þátt í að annast aldraða geta lagt sitt af mörkum til að gera það sem ánægjulegast. Ef þú átt hlut að máli skaltu gera þitt ýtrasta til að vera jákvæður. Ellinni fylgir stundum depurð og jafnvel þunglyndi. Þú gætir þurft að leggja þig sérstaklega fram við að vera uppörvandi og sýna hinum öldruðu virðingu. Reyndu að ræða við þau á uppbyggilegum nótum. Þeir sem hafa þjónað Jehóva dyggilega eiga hrós okkar skilið. Jehóva gleymir ekki því sem þeir hafa gert í þjónustu hans og hið sama er að segja um trúsystkini þeirra. – Lestu Malakí 3:16; Hebreabréfið 6:10.

18 Daglegu verkin verða auðveldari ef hinir öldruðu og þeir sem annast þá reyna að sjá spaugilegu hliðarnar á tilverunni þegar það á við. (Préd. 3:1, 4) Margir hinna öldruðu leggja sig fram um að vera ekki of kröfuharðir. Þeir gera sér ljóst að athyglin sem þeir fá og heimsóknir ráðast að einhverju leyti af þeirra eigin viðhorfum. Það er algengt að þeir sem heimsækja aldraða segi: „Ég ætlaði mér að uppörva gamlan vin en fékk sjálfur uppörvun.“ – Orðskv. 15:13; 17:22.

19. Hvernig geta bæði ungir og aldnir litið á framtíðina?

19 Við þráum heitt þann dag þegar þjáningar hverfa og afleiðingar ófullkomleikans verða liðin tíð. Þangað til verða þjónar Guðs að horfa á hið eilífa sem er fram undan. Við vitum að trúin á fyrirheit Guðs er eins og akkeri í þrengingum og erfiðleikum. Eins og Páll postuli benti á er það trúnni að þakka að við látum ekki hugfallast. Hann bætti við: „Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður.“ (2. Kor. 4:16-18; Hebr. 6:18, 19) Hvað getur hjálpað þér að axla þá ábyrgð að annast aldraða og varðveita jafnframt sterka trú á loforð Guðs? Í næstu grein fáum við ýmis góð ráð.

^ gr. 7 1. Tímóteusarbréf 5:8 (Biblían 1981): „Ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.“

^ gr. 9 Í greininni á eftir er rætt um úrræði sem geta hugsanlega staðið öldruðum og börnum þeirra til boða.