Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva sér fyrir okkur og verndar

Jehóva sér fyrir okkur og verndar

„Þar sem hann er mér trúr bjarga ég honum, ég vernda hann því að hann þekkir nafn mitt.“ – SÁLM. 91:14.

1, 2. Við hvaða ólíku aðstæður elst fólk upp og kynnist sannleikanum?

JEHÓVA er höfundur fjölskyldunnar. (Ef. 3:14, 15) En jafnvel þó að við tilheyrum sömu fjölskyldu erum við ólík á marga vegu og aðstæður okkar misjafnar. Margir hafa búið hjá foreldrum sínum frá barnæsku til fullorðinsára. Sumir hafa misst foreldra sína af völdum sjúkdóma, slysa eða annarra orsaka. Og þeir eru til sem vita ekki hverjir foreldrar þeirra eru.

2 Þeir sem tilheyra fjölskyldu tilbiðjenda Jehóva hafa kynnst sannleikanum á ýmsa vegu. Sumir hafa ,alist upp í sannleikanum‘ eins og það er orðað og lært meginreglur Guðs af foreldrum sínum. (5. Mós. 6:6, 7) En kannski ertu einn þeirra ótal þjóna Jehóva sem hafa kynnst sannleikanum vegna þess að fagnaðarerindið er boðað meðal almennings. – Rómv. 10:13-15; 1. Tím. 2:3, 4.

3. Hvað eigum við öll sameiginlegt?

3 En þó að uppruni okkar sé ólíkur að mörgu leyti eigum við margt sameiginlegt. Við höfum öll erft ófullkomleika, synd og dauða frá Adam, forföður okkar, sem óhlýðnaðist Guði. (Rómv. 5:12) Samt sem áður getum við með réttu ávarpað Jehóva föður okkar vegna þess að við tilbiðjum  hann. Útvalin þjóð Jehóva til forna gat ávarpað hann eins og segir í Jesaja 64:7: „Þú, Drottinn, ert faðir vor.“ Og þegar Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja sagði hann: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn.“ – Matt. 6:9.

4, 5. Hvað er gott að íhuga til að glæða kærleikann til Jehóva, föður okkar á himnum?

4 Faðir okkar á himnum verndar og annast þá sem ákalla nafn hans í trú. Að sögn sálmaskáldsins segir Jehóva eftirfarandi um sannan tilbiðjanda sinn: „Þar sem hann er mér trúr bjarga ég honum, ég vernda hann því að hann þekkir nafn mitt.“ (Sálm. 91:14) Í kærleika sínum bjargar Jehóva Guð þjónum sínum í heild frá óvinum og verndar þá þannig að þeim verði ekki útrýmt.

5 Til að glæða kærleikann til Jehóva, föður okkar á himnum, skulum við líta á þrennt: (1) Jehóva sér fyrir okkur, (2) hann verndar okkur og (3) hann er besti vinur okkar. Um leið og við ræðum þetta þrennt er gott að hugleiða hvernig samband við eigum við Jehóva og hvernig við getum heiðrað hann sem föður. Og það er líka til góðs að íhuga þá blessun sem Jehóva lofar þeim sem eiga náið samband við hann. – Jak. 4:8.

JEHÓVA SÉR FYRIR OKKUR

6. Nefndu dæmi um góða gjöf frá Jehóva.

6 „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. (Jak. 1:17) Lífið sjálft er einstök gjöf frá Jehóva. (Sálm. 36:10) Ef við notum líf okkar til að gera vilja hans hljótum við ríkulega blessun núna og eigum í vændum eilíft líf í nýja heiminum. (Orðskv. 10:22; 2. Pét. 3:13) En hvernig er það hægt í ljósi hinna skelfilegu afleiðinga sem óhlýðni Adams hafði?

7. Hvernig hefur Guð gert okkur kleift að eiga náið samband við sig?

7 Jehóva hefur séð okkur fyrir ótalmörgu. Óverðskulduð gæska hans varð til þess að hann kom okkur til bjargar. Við erum öll syndug og höfum erft ófullkomleikann frá föður mannkyns. (Rómv. 3:23) En Jehóva er kærleiksríkur og gerði okkur kleift að eiga náið samband við sig. Jóhannes postuli skrifaði: „Í því birtist kærleikur Guðs til okkar að Guð hefur sent einkason sinn í heiminn til þess að hann skyldi veita okkur nýtt líf. Þetta er kærleikurinn: Ekki að við elskuðum Guð heldur að hann elskaði okkur og sendi son sinn til að vera friðþæging fyrir syndir okkar.“ – 1. Jóh. 4:9, 10.

8, 9. Hvernig sýndi Jehóva á dögum Abrahams og Ísaks að hann sér fyrir þjónum sínum? (Sjá mynd í byrjun greinar.)

8 Næstum 2.000 árum fyrir fæðingu Krists átti sér stað atburður sem hafði spádómlega þýðingu. Hann ber með sér hvað Jehóva ætlaði að gera til að veita hlýðnum mönnum eilíft líf. Í Hebreabréfinu 11:17-19 segir: „Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum. Við Abraham hafði Guð mælt: ,Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir.‘ Hann hugði að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum og hann heimti líka son sinn úr helju ef svo má að orði komast.“ Það er ekki erfitt að átta sig á hliðstæðunni. Jehóva fórnaði syni sínum, Jesú Kristi, í þágu mannkyns. – Lestu Jóhannes 3:16, 36.

9 Þú getur rétt ímyndað þér hve Ísak hlýtur að hafa létt þegar hann uppgötvaði að hann þyrfti ekki að deyja. Hann var eflaust þakklátur fyrir að  Jehóva skyldi sjá fyrir annarri fórn, það er að segja hrút sem hafði fest sig í nálægu greinaþykkni. (1. Mós. 22:10-13) Það er engin furða að Abraham skyldi kalla staðinn „Jehóva-jire“ en það merkir „Jehóva sér fyrir“. – 1. Mós. 22:14, NW.

LEIÐ TIL AÐ EIGNAST FRIÐ VIÐ GUÐ

10, 11. Hverjir hafa forystu um „þjónustu sáttargerðarinnar“ og hvernig gera þeir það?

10 Þegar við leiðum hugann að því hvernig Jehóva hefur séð fyrir okkur skiljum við að án Jesú Krists gætum við ekki átt vináttu hans. Páli var það vel ljóst og hann skrifaði: „Ég hef ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla þá eru allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla til þess að þeir sem lifa lifi ekki framar sjálfum sér heldur honum sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ – 2. Kor. 5:14, 15.

11 Frumkristnir menn elskuðu Guð og voru þakklátir fyrir þann ómetanlega heiður að mega þjóna honum. Þeir fögnuðu því að mega starfa að „þjónustu sáttargerðarinnar“. Þeir boðuðu fagnaðarerindið og gerðu fólk að lærisveinum þannig að hjartahreint fólk gat eignast vináttu Guðs og frið við hann og síðan orðið andleg börn hans. Andasmurðir þjónar Jehóva inna sömu þjónustu af hendi nú á dögum. Þeir eru erindrekar Guðs og Krists, og fyrir atbeina þeirra laðar Jehóva til sín einlægt og auðmjúkt fólk þannig að það tekur trú. – Lestu 2. Korintubréf 5:18-20; Jóh. 6:44; Post. 13:48.

12, 13. Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir allt sem Jehóva hefur gefið okkur?

12 Aðrir sauðir eru líka þakklátir Jehóva fyrir allt sem hann lætur í té, og þeir boða fagnaðarerindið ásamt hinum andasmurðu. Við notum Biblíuna ríkulega í starfi okkar en hún er ein af frábærum gjöfum Guðs. (2. Tím. 3:16, 17) Með því að nota innblásið orð Guðs fagmannlega í boðunarstarfinu gefum við fólki tækifæri til að hljóta eilíft líf. Jehóva gefur okkur einnig heilagan anda sinn. Við reiðum okkur öll á hjálp hans þegar við boðum fagnaðarerindið. (Sak. 4:6; Lúk. 11:13) Árangurinn talar sínu máli eins og árbækur okkar bera með sér ár hvert. Það er mikill heiður að mega lofa föður okkar og gjafara með því að taka þátt í þessu starfi.

13 Þegar við hugsum um allar gjafir Guðs ættum við að spyrja okkur: Geri ég allt sem ég get til að boða fagnaðarerindið vel og sýna Jehóva hve þakklátur ég er fyrir allar gjafir hans? Hvernig get ég bætt mig og orðið öflugri boðberi? Við getum sýnt Jehóva þakklæti okkar með því að starfa af heilum hug fyrir ríki hans. Jehóva lofar að sjá fyrir þörfum okkar ef við gerum það. (Matt. 6:25-33) Þar sem Jehóva annast okkur svona vel viljum við gera allt sem við getum til að þóknast honum og gleðja hjarta hans. – Orðskv. 27:11.

14. Hvernig hefur Jehóva verið bjargvættur þjóna sinna?

14 Sálmaskáldið Davíð söng: „Ég er hrjáður og snauður en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari.“ (Sálm. 40:18) Jehóva hefur margsinnis komið þjónum sínum í heild til bjargar, ekki síst þegar þeir hafa sætt grimmilegum ofsóknum. Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að veita okkur það sem við þurfum til að vera honum trú þegar óvinir þrengja að okkur.

 JEHÓVA VERNDAR

15. Lýstu með dæmi hvernig ástríkur faðir verndar barn sitt.

15 Ástríkur faðir sér bæði fyrir börnum sínum og verndar þau. Hann reynir að sjálfsögðu að bjarga þeim ef þau lenda í hættu. Bróður nokkrum er minnisstætt atvik sem átti sér stað meðan hann var drengur. Hann var á heimleið með pabba sínum eftir boðunarstarfið og leið þeirra lá yfir á. Það hafði hellirignt um morguninn og vaxið í ánni. Eina leiðin til að komast yfir hana var að stikla á stórum steinum. Drengurinn fór á undan pabba sínum en missti fótanna á einum steininum og féll í ána. Hann fór tvisvar á bólakaf. Hann var pabba sínum innilega þakklátur fyrir að vera snöggur að grípa í öxl hans og bjarga honum frá drukknun. Faðirinn á himnum verndar okkar þannig að við drukknum ekki í „beljandi ám“ þessa illa heims og hann ver okkur fyrir árásum Satans. Jehóva er sannarlega besti verndari sem hægt er að hugsa sér. – Matt. 6:13; 1. Jóh. 5:19.

16, 17. Hvernig hjálpaði Jehóva Ísraelsmönnum og verndaði þá þegar þeir börðust við Amalekíta?

16 Jehóva verndaði þjóð sína árið 1513 f.Kr. Hann var nýbúinn að leysa hana úr þrælkuninni í Egyptalandi og hafði verndað hana með undraverðum hætti þegar hún fór yfir Rauðahafið. Eftir að hafa gengið um eyðimörkina í átt að Sínaífjalli komu Ísraelsmenn til Refídím.

17 Ef við hugsum til spádómsins í 1. Mósebók 3:15 getum við gert okkur í hugarlund hve Satan var mikið í mun að ráðast á Ísraelsmenn sem voru ósköp varnarlitlir. Hann beitti fyrir sig Amalekítum sem voru fjandsamlegir í  garð þjóðar Guðs. (4. Mós. 24:20) Taktu eftir hverju Jehóva áorkaði fyrir atbeina fjögurra dyggra þjóna sinna, þeirra Jósúa, Móse, Arons og Húrs. Meðan Jósúa barðist við Amalektía stóðu hinir þrír á nærliggjandi hæð. Ísraelsmenn höfðu yfirhöndina meðan Móse hélt höndum sínum uppi. Þegar Móse þreyttist studdu Aron og Húr hendur hans. „Þannig sigraði Jósúa Amalekíta og her þeirra“ með hjálp og vernd Jehóva. (2. Mós. 17:8-13) Móse reisti altari þar og nefndi staðinn „Drottinn er hermerki mitt.“ – Lestu 2. Mósebók 17:14, 15.

ÓHULT FYRIR ÁRÁSUM SATANS

18, 19. Hvað hefur Jehóva gert til að vernda þjóna sína á síðustu árum?

18 Jehóva verndar þá sem elska hann og hlýða honum. Við leitum skjóls hjá honum fyrir óvinum okkar rétt eins og Ísraelsmenn við Refídím. Jehóva hefur oft verndað okkur sem heild og séð til þess að Satan nái ekki að klófesta okkur. Hugsaðu þér hve oft Guð hefur verndað trúsystkini okkar þegar þau hafa verið ofsótt vegna hlutleysis síns. Það gerðist til dæmis á valdatíma nasista í Þýskalandi og öðrum löndum á fjórða áratug síðustu aldar og í byrjun þess fimmta. Hægt er að lesa ævisögur og frásögur í árbókum okkar sem bera með sér hvernig Jehóva hefur verndað þjóna sína í ofsóknum. Þær minna á að Jehóva er hæli okkar og skjól og styrkja traust okkar til hans. – Sálm. 91:2.

Jehóva getur látið trúsystkini okkar hjálpa okkur að vera honum trú á erfiðum stundum. (Sjá 18.-20. grein.)

19 Jehóva verndar okkur með því að gefa okkur kærleiksríkar leiðbeiningar í ritunum og fyrir milligöngu safnaðarins. Við höfum sannarlega notið góðs af því á síðustu árum. Heimurinn sekkur sífellt dýpra í kviksyndi kláms og ólifnaðar en Jehóva hefur minnt á hætturnar og bent á hvað hægt sé að gera til að forðast þær. Við fáum til dæmis föðurleg ráð um að forðast vondan félagsskap á samskiptasíðum. * – 1. Kor. 15:33.

20. Hvaða vernd og leiðsögn fáum við í söfnuðinum?

20 Við getum sýnt að við séum í alvöru „lærisveinar Drottins“ Jehóva með því að fylgja boðum hans í hvívetna. (Jes. 54:13) Í söfnuðunum finnum við öruggt skjól og njótum verndar. Öldungar safnaðarins leiðbeina okkur og gefa okkur góð ráð með hjálp Biblíunnar. (Gal. 6:1) Þeir eru eins og „gjafir“ til safnaðarins og Jehóva notar þá til að annast okkur. (Ef. 4:7, 8) Hvernig eigum við að taka leiðbeiningum þeirra? Jehóva blessar okkur ef við erum hlýðin og eftirlát. – Hebr. 13:17.

21. (a) Hvað ættum við að gera? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

21 Við skulum vera ákveðin í að fylgja leiðsögn heilags anda og þiggja handleiðslu föður okkar á himnum. Við þurfum líka að íhuga hvernig sonur hans, Jesús Kristur, lifði og reyna að líkja eftir einstöku fordæmi hans. Hann var hlýðinn allt til dauða en var ríkulega launað fyrir. (Fil. 2:5-11) Við hljótum líka blessun Jehóva ef við treystum honum af öllu hjarta. (Orðskv. 3:5, 6) Við skulum alltaf reiða okkur á Jehóva því að hann verndar okkur og sér fyrir okkur á allan hátt. Hvílík gleði og hvílíkur heiður að mega þjóna honum. En Jehóva er líka besti vinur okkar. Við glæðum kærleika okkar til hans með því að íhuga vináttu hans. Það er efni næstu greinar.

^ gr. 19 Sem dæmi um slíkar áminningar má nefna greinarnar „Netið – alþjóðlegt hjálpargagn sem nota þarf með skynsemi“ í Varðturninum 15. ágúst 2011, bls. 3-5. Sjá einnig „Gættu þín á snörum djöfulsins“ og „Verum staðföst og forðumst gildrur Satans“ í Varðturninum 15. ágúst 2012, bls. 20-29.

Jehóva getur látið trúsystkini okkar hjálpa okkur að vera honum trú á erfiðum stundum. (Sjá 18.-20. grein.)