Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við sinnt þörfum annarra?

Hvernig getum við sinnt þörfum annarra?

„OFBELDI braust út eftir umdeild kosningaúrslit. Þúsundir votta Jehóva urðu að flýja heimili sín. Skortur varð á matvælum og lyfjum og verðið rauk upp úr öllu valdi. Bönkum var lokað og hraðbankar tæmdust eða urðu óvirkir.“ Þetta segir François en hann er safnaðaröldungur í einu af þróunarlöndunum.

Bræður frá deildarskrifstofunni tóku þegar í stað að dreifa hjálpargögnum í mynd peninga og vista. Þeim var komið í hendur votta sem höfðu flúið heimili sín og safnast saman í ríkissölum víða um landið. Stríðandi fylkingar settu upp vegatálma en þar sem báðir aðilar vissu að vottarnir voru algerlega hlutlausir var bílum frá deildarskrifstofunni yfirleitt hleypt í gegn.

„Við vorum á leið til eins af ríkissölunum þegar leyniskyttur hófu skothríð á sendibílinn,“ segir François. „En kúlurnar smugu á milli okkar. Þá sáum við hermann koma hlaupandi með byssu í hendi. Við rákum bílinn í bakkgír, snerum honum og brunuðum aftur til deildarskrifstofunnar. Við vorum Jehóva þakklátir fyrir að vera á lífi. Daginn eftir komust bræðurnir og systurnar í þessum ríkissal í öruggt skjól en þau voru 130 talsins. Sumir komu til deildarskrifstofunnar og við sinntum andlegum og líkamlegum þörfum þeirra þar uns hættuástandið var liðið hjá.“

„Deildarskrifstofunni bárust síðar mörg innileg þakkarbréf frá bræðrum og systrum út um allt land,“ segir François. „Það styrkti traust þeirra til Jehóva að sjá hvernig bræður komu annars staðar frá til að hjálpa þeim.“

Þegar náttúruhamfarir verða eða hörmungar af mannavöldum segjum við ekki bara nauðstöddum bræðrum og systrum að ,verma sig og metta‘. (Jak. 2:15, 16) Við reynum öllu heldur að fullnægja líkamlegum þörfum þeirra. Hið sama var uppi á teningnum á fyrstu öld. Þegar kristnir menn fengu að vita að hungursneyð væri yfirvofandi samþykktu þeir að „hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar lærisveinunum sem bjuggu í Júdeu“. – Post. 11:28-30.

Við sem þjónum Jehóva erum meira en fús til að hjálpa þeim sem skortir efnislegar nauðsynjar. En fólk hefur líka andlegar þarfir. (Matt. 4:4) Jesús vildi að það áttaði sig á þessari þörf og reyndi að fullnægja henni. Þess vegna fól hann fylgjendum sínum það verkefni að kenna fólki. (Matt. 28:19, 20) Við verjum töluverðum tíma, kröftum og fjármunum til að gera þessu verkefni skil. Hluti af því fé, sem söfnuðinum er gefið, er notað til að veita neyðaraðstoð en að mestu leyti er því varið til að útbreiða fagnaðarerindið og styðja þá starfsemi sem tengist því. Þannig sýnum við að við elskum Guð og náungann. – Matt. 22:37-39.

Þeir sem styðja alþjóðastarf Votta Jehóva geta treyst að framlög þeirra séu notuð á sem bestan hátt. Hefurðu tök á að veita nauðstöddum trúsystkinum aðstoð? Langar þig til að styðja boðun fagnaðarerindisins? ,Synjaðu þá ekki góðs þeim sem þarfnast ef það er á þínu valdi að veita það.‘ – Orðskv. 3:27.