Lífið er stundum ófyrirsjáanlegt, óöruggt og jafnvel erfitt. En Jehóva blessar þá sem reiða sig á hann en ekki á eigið hyggjuvit. Það hefur verið reynsla okkar hjónanna á langri og góðri ævi. Mig langar til að segja ykkur brot af sögu okkar.

FORELDRAR mínir hittust árið 1919 á móti Alþjóðasamtaka biblíunemenda í Cedar Point í Ohio í Bandaríkjunum. Þau gengu í hjónaband síðar sama ár. Ég fæddist árið 1922 og Paul, bróðir minn, tveim árum síðar. Grace, eiginkona mín, fæddist árið 1930. Foreldrar hennar, þau Roy og Ruth Howell, ólust upp sem biblíunemendur, rétt eins og móðurforeldrar hennar en þau voru vinir bróður Charles Taze Russells.

Við Grace kynntumst árið 1947 og giftum okkur 16. júlí 1949. Áður en við gengum í hjónaband ræddum við hreinskilnislega um framtíð okkar. Við tókum þá ákvörðun að eignast ekki börn heldur þjóna Jehóva í fullu starfi. Við gerðumst brautryðjendur 1. október árið 1950. Árið 1952 var okkur svo boðið að taka að okkur farandstarf.

FARANDSTARF OG NÁM VIÐ GÍLEAÐSKÓLANN

Við fundum bæði fyrir því að við þurftum á leiðsögn að halda til að gera þessu nýja verkefni skil. Ég lærði af mér reyndari bræðrum en leitaði einnig eftir aðstoð handa Grace. Ég kom að máli við Marvin Holien, gamlan fjölskylduvin og reyndan farandhirði, og sagði við hann: „Grace er ung og óreynd. Geturðu mælt með einhverjum sem hún gæti starfað með til að fá svolitla tilsögn?“ „Já,“ svaraði hann. „Edna Winkle er reyndur brautryðjandi sem getur hjálpað henni heilmikið.“ Grace sagði síðar um Ednu: „Mér leið vel þegar ég starfaði með henni. Hún kunni að svara mótbárum og kenndi mér að hlusta á húsráðendur til að átta mig á hvað væri viðeigandi að segja. Þetta var einmitt það sem ég þurfti á að halda.“

Frá vinstri: Nathan Knorr, Malcolm Allen, Fred Rusk, Lyle Reusch og Andrew Wagner.

Við Grace þjónuðum tveim farandsvæðum í Iowaríki og einnig hluta af Minnesota og Suður-Dakota. Síðan vorum við færð til farandsvæðis númer 1 í New York en það náði yfir borgarhlutana Brooklyn og Queens. Við gleymum aldrei hvað okkur fannst við reynslulítil þegar við komum þangað. Brooklyn Heights-söfnuðurinn  tilheyrði farandsvæðinu. Hann hélt samkomur í ríkissalnum á Betel og í honum voru margir reyndir betelítar. Eftir að ég hafði flutt fyrstu þjónusturæðuna í þessum söfnuði kom bróðir Nathan Knorr til mín og sagði efnislega: „Malcolm, þú gafst okkur ýmsar leiðbeiningar og það var vel við hæfi. Gleymdu ekki að þú ert söfnuðinum til lítils gagns ef þú hjálpar okkur ekki með því að gefa okkur vinsamlegar leiðbeiningar. Haltu áfram á þessari braut.“ Ég sagði Grace frá þessu eftir samkomuna. Síðar fórum við upp á herbergið okkar á Betel og brustum í grát, uppgefin af geðshræringu.

„Þú ert söfnuðinum til lítils gagns ef þú hjálpar okkur ekki með því að gefa okkur vinsamlegar leiðbeiningar. Haltu áfram á þessari braut.“

Fáeinum mánuðum síðar fengum við bréf þar sem okkur var boðið að sækja Gíleaðskólann. Þetta var 24. nemendahópurinn og hann átti að útskrifast í febrúar 1955. Okkur var sagt áður en við fórum í skólann að markmiðið væri ekki endilega að búa okkur undir að vera trúboðar heldur frekar að gera okkur hæfari í farandstarfinu. Það var frábært að sækja skólann en við fundum líka til þess hve margt við áttum ólært.

Fern og George Couch með okkur Grace í Gíleaðskólanum árið 1954.

Að loknu námskeiðinu var mér falið að starfa sem umdæmishirðir. Umdæmi okkar náði yfir ríkin Indiana, Michigan og Ohio. Okkur til mikillar undrunar fengum við síðan bréf frá bróður Knorr í desember 1955 þar sem sagði: „Segið mér alveg eins og ykkur býr í brjósti og verið fullkomlega hreinskilin við mig. Látið mig vita hvort þið eruð fús til að koma á Betel og vera hér ... og hvort þið eruð fús til að starfa erlendis eftir að þið hafið verið á Betel um tíma. Ef þið kjósið frekar að vera í umdæmis- og farandstarfi þætti mér vænt um að fá að vita það.“ Við svöruðum því til að við værum meira en fús til að gera hvaðeina sem okkur væri falið. Við vorum þegar í stað beðin að koma á Betel.

SPENNANDI ÁR Á BETEL

Meðal verkefna minna á þeim árum, sem ég starfaði á Betel, var að flytja ræður á mótum og í söfnuðum út um öll Bandaríkin. Ég átti þátt í að kenna og leiðbeina mörgum ungum mönnum sem tóku síðar að sér ýmis ábyrgðarstörf í söfnuði Jehóva. Síðar starfaði ég sem ritari bróður Knorrs á skrifstofunni þar sem boðunarstarfið um heim allan var skipulagt.

Við störf á þjónustudeildinni árið 1956.

Ég starfaði í þjónustudeildinni um árabil og hafði sérstaka ánægju af því. Þar fékk ég tækifæri til að vinna með T. J. (Bud) Sullivan. Hann hafði verið umsjónarmaður deildarinnar í mörg ár. En ég lærði líka margt af öðrum. Einn þeirra  var Fred Rusk sem hafði það verkefni að leiðbeina mér. Ég minnist þess með hlýju hvernig hann svaraði þegar ég spurði hann: „Fred, hvers vegna gerirðu svona margar leiðréttingar á bréfum sem ég skrifa?“ Hann hló við og sagði síðan nokkuð sem mér þótti umhugsunarvert: „Malcolm, þegar þú talar geturðu skýrt mál þitt nánar en þegar þú skrifar eitthvað, ekki síst þegar það kemur héðan, þarf það að vera eins traust og nákvæmt og hægt er.“ Síðan sagði hann vingjarnlega: „Misstu ekki kjarkinn, þú stendur þig vel og með tímanum verður þú ágætur.“

Grace hafði ýmis verkefni með höndum meðan við vorum á Betel, meðal annars að ræsta íbúðarherbergi. Hún hafði ánægju af því verkefni. Enn í dag hittum við stundum bræður sem voru ungir menn á Betel á þessum árum og þeir segja við Grace með breiðu brosi: „Þú kenndir mér sannarlega að búa um rúm, og ég get sagt þér að mamma kunni vel að meta það.“ Grace vann líka í blaðadeildinni, samskiptadeildinni og við að fjölfalda hljóðsnældur. Þessi fjölbreyttu verkefni minntu hana á að það er heiður og blessun að þjóna Jehóva, hver sem verkefnin eru og hvar sem þau eru innt af hendi. Og hún hugsar þannig enn þann dag í dag.

BREYTINGAR SEM VIÐ HÖFUM GERT

Um miðjan áttunda áratuginn varð okkur ljóst að aldraðir foreldrar okkar þurftu á meiri aðstoð að halda. Það kom að því að við þurftum að taka erfiða ákvörðun. Við vildum helst ekki yfirgefa Betel og samþjóna okkar þar sem okkur þótti ákaflega vænt um. Mér fannst það þó vera skylda mín að annast foreldra okkar. Þess vegna fluttum við frá Betel en vonuðumst til að geta snúið þangað aftur þegar aðstæður okkar breyttust.

Til að sjá okkur farborða fór ég að selja tryggingar. Ég gleymi aldrei hvað einn af yfirmönnunum sagði við mig meðan ég var í þjálfun: „Þessi starfsemi byggist á því að heimsækja fólk á kvöldin. Það er þá sem maður hittir fólk heima. Það er ekkert mikilvægara en að fara út á hverju kvöldi til að banka upp á hjá fólki.“ Ég svaraði: „Ég er viss um að þú talar af reynslunni og ég virði það. En ég hef líka vissar trúarlegar skyldur sem ég hef aldrei vanrækt og ég ætla mér ekki að byrja á því núna. Ég skal fara út á kvöldin en á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum þarf ég að sækja mjög mikilvægar samkomur.“ Ég hlaut blessun Jehóva fyrir að láta vinnuna ekki koma niður á samkomunum.

Við vorum við sjúkrabeð móður minnar þegar hún dó á hjúkrunarheimili í júlí árið 1987. Yfirhjúkrunarkonan kom til Grace og sagði: „Frú Allen, farðu nú heim og hvíldu þig. Allir vita að þú hefur varla vikið frá tengdamóður þinni. Þú getur haft hugarró og borið höfuðið hátt.“

 Í desember 1987 sóttum við um að fá að starfa aftur á Betel, staðnum sem okkur þótti svo vænt um. En fáeinum dögum síðar greindist Grace með ristilkrabbamein. Hún gekkst undir uppskurð, náði sér vel og var í framhaldinu talin laus við krabbameinið. En þá höfðum við fengið bréf frá Betel þar sem mælt var með að við störfuðum áfram með söfnuðinum þar sem við vorum. Við vorum ákveðin í að halda áfram þjóna Jehóva af öllum kröftum.

Nokkru síðar bauðst mér starf í Texas. Við hugsuðum sem svo að við hefðum gott af því að flytja í hlýrra loftslag og það reyndist rétt. Við höfum búið í Texas í 25 ár og notið félagsskapar umhyggjusamra bræðra og systra sem eru orðin nánir vinir okkar.

ÞAÐ SEM VIÐ HÖFUM LÆRT AF LÍFINU

Grace hefur glímt við krabbamein í ristli og skjaldkirtli, og fyrir nokkru greindist hún með brjóstakrabbamein. Hún hefur aldrei kvartað undan hlutskipti sínu í lífinu. Við höfum alltaf unnið vel saman og hún hefur alltaf virt meginregluna um forystu. Hún hefur oft verið spurð hver sé leyndardómurinn að baki farsælu hjónabandi okkar og hamingjunni sem geisli frá okkur báðum. Hún nefnir fjórar ástæður: „Við erum bestu vinir. Við ræðum saman daglega. Við njótum þess að vera saman á hverjum einasta degi. Og við leyfum okkur aldrei að fara reið í rúmið á kvöldin.“ Auðvitað kemur fyrir að við förum í taugarnar hvort á öðru en við fyrirgefum og gleymum – og það er aðferð sem virkar.

„Reiddu þig alltaf á Jehóva og sættu þig við það sem hann leyfir að gerist.“

Við höfum lært margt gagnlegt af öllum þeim prófraunum sem hafa orðið á vegi okkar í lífinu:

  1. Reiddu þig alltaf á Jehóva og sættu þig við það sem hann leyfir að gerist. Reiddu þig aldrei á eigið hyggjuvit. – Orðskv. 3:5, 6; Jer. 17:7.

  2. Treystu á leiðsögn Biblíunnar, hvert sem málið er. Það er ákaflega mikilvægt að hlýða lögum Jehóva. Þar er enginn meðalvegur – annaðhvort hlýðir maður eða ekki. – Rómv. 6:16; Hebr. 4:12.

  3. Það mikilvægasta í lífinu er að eiga gott mannorð gagnvart Jehóva. Láttu hag Jehóva sitja í fyrirrúmi en kepptu ekki eftir veraldlegum auði. – Orðskv. 28:20; Préd. 7:1; Matt. 6:33, 34.

  4. Biddu þess í bænum þínum að þú verðir eins virkur og frekast er kostur í þjónustu Jehóva. Einbeittu þér að því sem þú getur gert en ekki því sem þú ræður ekki við. – Matt. 22:37; 2. Tím. 4:2.

  5. Mundu að enginn annar söfnuður hefur blessun og velþóknun Jehóva. – Jóh. 6:68.

Við Grace höfum bæði þjónað Jehóva í meira en 75 ár og sem hjón höfum við þjónað honum í næstum 65 ár. Við eigum að baki yndislegar stundir í þjónustu Jehóva á langri ævi. Það er von okkar og bæn að allir bræður okkar og systur kynnist líka af eigin raun hvernig Jehóva umbunar þeim sem reiða sig á hann.